#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

fimmtudagur, september 21, 2006

Síðasta færslan

Þetta er síðasta færslan sem ég skrifa á þetta blogg. Hún er númer 856 skv. bloggernum. Örvæntið þó eigi, heldur breytið tenglum ykkar yfir á þetta hér.

miðvikudagur, september 20, 2006

Ráðleggingar

Ég tel að ráðleggingar mínar til háttvirts utanríkisráðherra muni koma sér vel fyrir framboð okkar til Öryggisráðs sameinuðu þjóðanna. Hún spurði mig hvort að brandarinn "Gilligilli-offsenfeffer-katseneller-Kofi Annan" væri góður icebreaker á milli hennar og aðalritarans. Ég sagði henni að svo væri ekki, enda hefði þetta ekki nógu alþjóðlega skírskotun.

Á meðan ég man

Ég hef orðið þess áskynja að nýtt æði sé að renna yfir þjóðina nú þegar Magni hefur sungið sitt síðasta í Bandaríkjunum. Ég ríð því á vaðið og tek fullan þátt í þróuninni: Hér eftir mun ég verða kallaður Capacent Önundur.

Éttu...

Á Select við bókhlöðuna keypti ég mér samloku í gær. Þangað kom inn maður rétt á eftir mér, lagði hann fartölvutösku sína á afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslumanninn, ég held að það hafi verið eitthvað á borð við: "Takið þið við fartölvum?" Svar afgreiðslumannsins var hreint og beint "nei". "Jú" sagði aðkomumaðurinn þá. "Nei, það höfum við aldrei gert og munum aldrei gera" sagði afgreiðslumaðurinn til ítrekunar. Þá gaus upp mikil bræði í aðkomumanninum og hann sagði "ÉÉHHHTUUU....helvíti", en hann koðnaði hálfpartinn niður eftir fyrra orðið. Þar lét hann við sitja, tók töskuna sína og hvarf út í iðandi mannlíf höfuðborgarinnar.

laugardagur, september 16, 2006

Jónas

Í fréttunum núna áðan var Jónas Þorsteinsson, síðhærður stjórnandi gönguferða í Reykjavík þar sem leitað er að draugum - eða eitthvað álíka. Mér fannst ég nú eitthvað kannast við karlinn og mundi þá að þarna er auðvitað sami maður á ferðinni og átti góða spretti í málverkafölsunarmálinu. Þá var hann reyndar stutthærður og hét Jónas Freydal.