#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

mánudagur, júlí 31, 2006

Bloggerdrusla

Þetta helvítis drasl drepur niður alla löngun til þess að skrifa, enda eyðir þetta bara færslunum frá manni og er með endalaust vesen alltaf. Algjört rusl.

föstudagur, júlí 28, 2006

Til sölu

Ég vil selja ykkur sófaborð. Borðplatan er 130x70 cm að flatarmáli. Þetta er eikarborð, sterkbyggt og vandað, með stífum á milli fótanna (á skammhliðina) og einni stífu á langveginn. Borðplatan er flísalögð. Það er vel farið og ekkert blettað. Verð 12.000 krónur, umsemjanlegt þó.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

6000

Skv. Blaðinu voru 100 óbreyttir borgarar í Írak að jafnaði drepnir á dag síðustu tvo mánuði. Það er hressandi.

föstudagur, júlí 21, 2006

Fjölmiðlavaktin heldur áfram

Nú liggur seglskip í Reykjavíkurhöfn. Þetta er víst eitt hið stærsta í heiminum. Ég fór að skoða það í gær. Mjög flott. Las líka fréttablaðið í gær. Þar kom fram að flatarmál seglanna á skipinu væri 4,2 ferkílómetrar. Ekki núllaruglingur heldur skrifað með bókstöfum. Skemmtilegt það. Ætli þeir dragi seglin á eftir sér bara eins og troll? Blaðið í dag er með frétt af sértrúarsöfnuði í Kenýa sem telur að heimsendir verði í september þegar kjarnorkustyrjöld muni brjótast út. Fréttin endar á því að yfirvöld í Kenýa hafi áhyggjur af afleiðingum þess ef spádómurinn rætist ekki. Ha? Ef hann rætist ekki? Hvað með fokking afleiðingarnar af því ef hann rætist?! Er það ekki frekar áhyggjuefni? Nú dámar mér!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Af listum

Las grein eftir Hjálmar nokkurn í mogganum um helgina. Hún var um listir en þrátt fyrir það skemmtileg. Kannski maður fari að lesa "af listum" í auknum mæli, ef hann ritar.

Konseptlist

Það er kannski ákveðið listform að ganga inn í verslun, velja sér vörur og tala við sölumann...en ætla sér á engan hátt að borga fyrir vöruna. Vera svo ósáttur þegar manni er tilkynnt að borga þurfi fyrir hana. Þarna er hefðunum ögrað. Fast form samskipta brotið upp. Framúrstefnulegt.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Ástfanginn

Ég elska manninn sem talar inn á vídjóleiguauglýsingarnar. Hann hefur aldrei nokkurn tíma borið öll nöfn leikara og bíómynda rétt fram. Reyndar ber hann sjaldnast helminginn rétt fram. Hann hefur ótrúlega lélegt skynbragð á það hvernig bera á fram ensku. Ég verð alltaf spenntur þegar ég heyri að það er komin ný vídjóleiguauglýsing. Frábæri maður.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Góður!

Á sumum sjónvarpsstöðvum virðist það vera skylda að vera grannur til þess að fá starf. Á íþróttastöðinni Sýn er það ekki gert að skilyrði en þeim mun mikilvægara er að vera vitgrannur. Einn góður þaðan kom með innslag í fréttum NFS um daginn. Fékk að sitja við borðið hjá Eddu og Sigmundi. Hann var að spá og spekúlera í boltann eins og gengur og gerist. Svo í restina kemur hann með einhverja tilvitnun í Nostradamus sem ég man ekki nákvæmlega en var eitthvað á þessa leið: "Englendingar munu ekki hafa sigur í sjötta mánuði árið 2006 en Spánverjar munu fara yfir Pýreneafjöllin og sigra heri kölska í Evrópu." Ok, gaman að því. Nema svo fór hann að spekúlera í þessu. Hvaða her er her kölska? Ætli það séu ekki Þjóðverjarnir? Svo nefnir maðurinn eitthvað svona fótboltadæmi því til stuðnings og bætir svo við "...og svo náttúrulega seinni heimsstyrjöldin." Já frábært. Neuville, Ballack og Kahn er náttúrulega í her kölska, þið vitið út af nasistunum og helförinni og svona. Ha. Þjóðverji = nasisti. Hehe. Sneddí. Þessi bloggfærsla er kannski fulllöng af svo ómerkilegu tilefni en þetta var svo stórfenglega ósmekklegt, heimskulegt og síðast en ekki síst ófyndið að það var neyðarlegt.

laugardagur, júlí 01, 2006

Vinna

Ég fékk fyrstu vinnuna sem ég sótti um þarna um daginn. Nú er ég sölumaður og sel parket, flísar og fleira í virðulegri og rótgróinni verslun uppi á Krókhálsi 4. Kíkið á mig ef yður vantar flísar og parket. Ég er mjög sáttur við þennan vinnustað. Þetta er fjölskyldufyrirtæki og þarna sýnist mér að eigendur og sölumenn hafi heilbrigð viðhorf til þess hvernig þeir standa að viðskiptum. Ekki er reynt að okra á neinum og ekki er heldur verið að höfða til hégóma eða snobbs hjá fólki. Verð eru ekki sprengd upp til þess eins að gefa svo stóran afslátt af þeim. En fólk er almennt ekkert hégómlegt og ekkert snobbað. Þannig að það virkar ágætlega. Mér líkar betur og betur við starfið eftir því sem ég verð betri í því. Það var mjög stressandi fyrstu dagana að vita ekki neitt og fá spurningar á sig allan daginn. En þetta lærist eins og annað og nú veit ég orðið töluvert um vörurnar og þeirra eiginleika. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sinni þjónustustarfi og þetta er gerólíkt því sem ég hef áður gert. Þarna er búist við því að starfsmenn hafi þekkingu á vörunni og geti ráðlagt, leiðbeint og spekúlerað dálítið. Þetta er nýtt í reynslubankann og verður eflaust mjög verðmæt reynsla í mannlegum samskiptum. Vinn til sex alla virka daga og svo 10-4 annan hvern laugardag og var einmitt að vinna í dag. Gaman að því. Næstu helgi ætla ég að reyna að gera eitthvað merkilegt, eins og að skella mér t.d. í gönguferð upp á einhvern hól. Botnssúlur kannski. Það væri nú ekki leiðinlegt. Hafið samband í síma 861-5656 ef þið viljið koma með mér. Skilyrði að ég þekki ykkur eitthvað.