#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

mánudagur, maí 15, 2006

US-ið af A

Ekki á morgun heldur hinn fer ég til Bandaríkjanna. Þangað hef ég ekki komið síðan 1989. Ég man eftir nokkrum atvikum úr þeirri ferð. Ég man eftir átökum við dreng í kjallara í Rochester sem tók í sífellu bíla af bílabraut sem krakkar voru að leika sér með. Það var Atli Bollason. Hann barðist um á hæl og hnakka þegar hann var fjarlægður úr kjallaranum. Svo man ég eftir því að standa fyrir utan WTC og horfa upp. Spurði pabba hvað væri í húsinu og hann útskýrði það með því að þetta væri stærsti banki í heimi. Það dugði. Man eftir sundlauginni á hótelinu á Sarasota og sardínunum í sjónum sem syntu fram hjá fótunum á mér og Héðni vini mínum. Ég man líka eftir rússíbananum í Disney-world sem fór á hvolf og hvað mér fannst McDonalds vera merkilegur veitingastaður. Nú er komið að því að endurnýja kynnin við heimsveldið. Nú verður farið til Minneapolis, Las Vegas, Los Angeles og San Francisco. Við skulum sjá hvort Kaninn hefur ekki eitthvað fram að færa. Við fólk í sambandi segi ég að það ætti að hugsa sig um tvisvar áður en það hleypir maka sínum frá sér í svona langan tíma. Það er ekkert gaman og ekkert auðvelt. Rútína fer öll úr skorðum og geðsveiflur aukast til muna. En þegar maður á fallegustu og gáfuðustu konu í heimi fyrir kærustu þá lætur maður sig hafa það. Það létti nú líka biðina svona í lokin að eignast fallegustu frænku í heimi. Sú er sko ekki slæm. Þetta blogg mun því væntanlega liggja í láginni næsta misserið, enda fer ég mögulega út á sjó fljótlega eftir að ég kem aftur heim. Svo er sumarið hvort eð er tími náttúrulegra samskipta frekar en rafrænna. Tími laxveiða, sumarbústaðaferða, útivistar, bjórdrykkju í heitum pottum og allt það. Við ykkur segi ég bara: Við hittumst einhvern tíma í sumar sólbrún og hress.

föstudagur, maí 12, 2006

Þakkir

Ég vil færa flugunni sem var fyrir utan húsið hérna áðan kærar þakkir um leið og ég vona að hún hvíli í friði. Eini tilgangurinn í lífi hennar var sá að fljúga ofan í kokið á mér um leið og ég steig út úr húsinu.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Bræðið við lágan hita...

Jæja ég fór og skoðaði litlu frænku mína almennilega í gær. Hún er alveg frábær, og þó hún átti sig ekki á því núna þá býr hún yfir þeim hæfileika að bræða hjarta manns á svipstundu svo maður getur ekki annað en starað á hana. Fékk að halda á henni í alveg hálftíma maður. Rosalegt. Og hún svaf bara vært hjá mér. Mjög gott. Hún svaf og svaf og svaf. Mætti kannski segja að hún sé "a lean mean sleepin' machine". En svo tilvitnunum í George Foreman sé haldið áfram þá er spurningin hvernig þetta verður með nafnið: "I'm so proud of her, I'll put my _________ on her." Og hvað verður það? My name? My mothers name? My brothers name (Önunda, hún gæti heitað Önunda).

þriðjudagur, maí 09, 2006

Draumur

Eftir prófið í gærmorgun fór ég heim og lagði mig. Ég vaknaði ekki fyrr en síminn hringdi og hrökk ég þá við, enda rifinn út úr mjög áhugaverðum draumi. Mig dreymdi að ég var staddur á stjórnsýsluráðstefnu. Hún var haldin í stórum sal þar sem gríðarlega hátt var til lofts. Í miðjum salnum stóð Arnar Jónsson leikari. Hann var u.þ.b. 10 metra hár, í gráum jakkafötum og stuttklipptur. Aðrir í salnum voru í venjulegri stærð. Og Arnar Jónsson var að leiklesa texta um Max Weber með miklum tilþrifum. Fólkið í salnum, sem sat allt í kringum Arnar og á syllum á veggjunum og meira að segja einn ráðstefnugestur sem sat á öxl Arnars, var að fíla leiklesturinn alveg í botn. Fólk klappaði og hrópaði fram í eins og fólk gerir þegar baptistar predika á Omega. Ég man ekki meira nema hvað kennarinn minn, Dr. Ómar H. Kristmundsson sat í salnum og klappaði stöðugt og sagði "djöfull er'ann góður!"

laugardagur, maí 06, 2006

Nýr fjölskyldumeðlimur

Barn kom í heiminn í morgun klukkan ca. hálfátta og þar með varð ég föðurbróðir. Þetta er stúlka. 17 merkur og 56 sentimetrar. Vel af sér vikið. Til hamingju Þorgeir og Hrefna. Til hamingju afi og amma. Til hamingju ég, föðurbróðirinn. Það fer þá að líða að stofnun Félags Ábyrgra Íslenskra Föðurbræðra sem ég og Konráð Jónsson höfum hugsað okkur að stofna.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Coolness

Unglingar eru skrýtið fólk. Ég hugsa stundum um það hvernig heimurinn væru ef allir væru með þroskastig unglingsins (13-15 ára). Var að rifja upp einhver atvik úr grunnskóla áðan, en ég var nú ekki beinlínis svalur náungi í grunnskóla. Er það reyndar ekki enn. Ég hef aldrei verið svalur náungi. Það sést best á því að ég fæ enga virðingu frá iðnaðarmönnum. Sem unglingsstauli gekk ég aldrei í tískufatnaði á borð við klofsíðar buxur. Ég tók heldur ekki upp á því að girða buxurnar niður fyrir rass og hafa þær þannig, með boxerana svona 10 cm upp úr. Það þótti mér ávallt vera hin mesta aumingjatíska. Menn voru einhvern veginn eins og þeir geymdu stóran kúk í brókunum. Og voru ekki svalir þegar þeir hysjuðu upp um sig larfana í sífellu. En svalir voru þeir nú samt. Ég minnist þess að í strætó var ég frekar antisósíal. Ég vildi ekki einu sinni sitja hjá einhverjum krökkum sem voru aftast þó þau segðu mér að setjast hjá sér. Þetta var ca. í 7. eða 8. bekk. Ég man að einn af þessu fólki var Jói Sig, síðar stórvinur minn. Þá lítill hress sveppur með nördagleraugu og áberandi (jóalegan) talanda - nú hávaxið glæsi- og afarmenni með nördagleraugu og jóalegan talanda. Í strætó var ég einhvern tímann spurður að því hvað ég ætti mikinn pening. Ég sagðist eiga eitthvað, nefndi einhverja upphæð, og þá spurði sami náungi "af hverju notarðu peningana ekki í að kaupa þér einhver cool föt, eins og t.d. þessi sem ég er í?" Þetta var auðvitað móðgun en ég held að ég hafi ekki kveikt á því þá. Ég man samt að ég sagði "mér finnst fötin sem þú ert í vera ljót". Það samtal endaði þar. Einhverjar veikburða tilraunir gerði maður þó til þess að skapa sér sérstöðu eða breyta útliti sínu. Það gerði ég þó ekki til þess að samræmast almennum viðmiðum um klofsídd og kúkþyngd í buxum. Ég er viss um að enginn hefur tekið eftir þessum tilfæringum mínum nema ég. En þær þóttu stórmál. Eitt sinn tók ég upp á því að skipta í miðju. Það mældist gríðarlega vel fyrir í höfðinu á mér. Ég á einhverja mynd af mér þar sem ég er þannig um jól. Ég hafði rangt fyrir mér á þeim tíma. Greiðslan var ekki góð. En kannski gerir það illt verra að á myndinni er ég í hvítum sokkum við jakkafötin og þessi heild verður alveg hrikaleg. Svo var það eitt sinn, í 7. bekk líka held ég, sem ég sá einhverja breska sjónvarpsmynd þar sem strákar voru klæddir í v-hálsmálspeysur og í skyrtum sem komu upp úr og í svörtum gallabuxum. Þetta þótti mér ágætt og varð mér því úti um slíkan klæðnað. Þetta taldi ég hæfilega hlutlaust en þó um leið betra en það sem ég hafði gengið í fyrir. En viljinn var ekki sterkur og einhvers staðar var v-hálsmálspeysan ekki fullkomlega eins og ég hafði séð fyrir mér að hún yrði. Ég hætti því við að ganga í henni og fór einn daginn bara í gallabuxum og hvítri skyrtu í skólann. Ég man eftir því að einhver, ég man ekki hver, sagði við mig fyrir utan enskustofuna á 2. hæð skólans: "Það er'ekki jól, Önundur." Tískusprengingunni hafði verið hafnað og skyrtan var lögð á hilluna. Þannig fór um sjóferð þá.

mánudagur, maí 01, 2006

Hugsjónir.is

Þessi pistill er gulls ígildi. Einhver ætti nú að taka sig til og prófarkarlesa áður en hann skrifar meira. Orðið "eftirvill" er ekki til en þó notar hann það þrisvar sinnum í greininni. Það þarf að láta hann vita af þessu. Svo er þarna einn hluti sem ég vil birta hér: Í trú mormóna sem lifa flestir í Utah fylki í Bandaríkjunum og ýmsir trúarhópar íslams, eru hjónband milli karls og tveggja eða fleiri kvenna viðurkennt. Hvað skeður ef fjölskylda frá Dubai eða Utah fylki ákveður að flytjast til Íslands? Eigum við að banna því að iðka trú sína og gildi, vegna þess að það samrýmist ekki okkar ,,menningar- og sögulega arfi.´´ Og svarið er einfalt: Já.