Háskóli
Maður reynir að henda drasli ofan í ruslatunnu af löngu færi. Það tekst ekki og þá gengur hann að henni, tekur draslið upp og hendir því af 2. hæð niður á þá fyrstu. Tekur einnig skítuga servíettu upp úr ruslinu og hendir henni niður líka.
Sami maður var áðan að tala í símann og spyrja hvort "hún væri búin að drekka tvisvar í dag, og hvort "hún væri sofandi núna".
Sumir raða hlutunum í svo skrýtna röð. Sjálfur hef ég ákveðið að eignast ekki börn fyrr en ég er búinn að læra að henda ekki drasli út um allt í opinberum byggingum. Mér finnst einhvern veginn að það eigi að koma á undan. Hitt á eftir.
Jájá kallinn minn.
Ég er nú 99,3 kíló. Mér reiknast þá til að af séu farin um 12 kíló. Fiskur og skyr undanfarinna daga hafa skilað sér.
Skyr já! Ég sagði það HÞH! SKYR.
Þreyta
Ég og svefnleysi, við förum illa saman. Þessi helgi fór í ritgerðarskrif og nú hef ég sofið afar lítið síðustu þrjár næstur. Einni ritgerð skilað í gær og annarri í dag. Ég er örþreyttur. Þarf að reyna að vaka til svona níu í kvöld. Þá mun ég leggjast til langs svefns og ekki stilla vekjaraklukkuna. Ég er samt sáttur enda náði ég í ritgerð sem ég skilaði um daginn og var sáttur með einkunnina.
Og svo aðeins um Glitni í endann. Það er auðvitað öfugsnúið að kvarta yfir of góðri þjónustu, en mér finnst of auðvelt að fá nýtt lykilorð á heimabankann þar. Ég þurfti ekki að sýna persónuskilríki. En kannski er hún með mynd af mér inni í kerfinu? Ég veit það ekki. Var allavega bara spurður um kennitölu og nafn og notandanafn.
Skyr
Skyr er gott. Markaðssetning þess hefur verið svakaleg síðustu ár og hún hefur innifalið alls kyns bragðtegundir og sykurlaust skyr með sætuefnum. Einhverra hluta vegna byrjaði ég að borða skyr.is fyrir löngu síðan, sennilega hefur það bara stjórnast af því að móðir mín keypti það. Núna hef ég hins vegar verið að endurnýja kynni mín við hvítt venjulegt KEA skyr og það rifjast upp að það er langbesta skyrið. Hvítt skyr með mjólk og engum sykri er alveg ofboðslega gott. Og ef maður vill aðeins sætara skyr til tilbreytingar þá er bláberjaskyrið frá MS ótrúlega gott og umbúðirnar vekja hjá manni nostalgíu.
Það er ekkert sem segir að aspartam og asesúlfam séu óholl efni, eða ekkert hefur verið sannað á þau held ég. Hins vegar er það algjör óþarfi að vera að éta þessi efni í gríð og erg þegar skyr er annars vegar, því venjulegt skyr er gott og það er enginn sykur í því.
Ég flæktist inn á einhverja "róttæklingasíðu" um daginn og dl-aði þar heimildarmynd um sætuefni. Þar var lýst allskonar drastískum afleiðingum neyslu þeirra og talin upp margvísleg hræðileg einkenni sem hrjái þá sem neyti sætuefna. Ekkert af þessum einkennum kannast ég við. Svo var þarna verið að sætuefnasamsærið væri allt Donald Rumsfeld að kenna (alveg eins og allt annað, meira að segja fuglaflensan) enda hefði hann potað þessum efnum í gegnum matvælaeftirlitið eða eitthvað þannig, sem áður hefði alls ekki viljað leyfa þessi efni í neysluvöru.
Ekki haga ég breytni minni eftir slíkri mynd, en á meðan ég get alveg séð fyrir mér að éta hreint skyr - til hvers þá að vera að éta aspartam og asesúlfam?
Ýmislegt
Ray Davies í Háskólabíó á föstudaginn langa. Það voru skemmtilegir tónleikar og sá gamli fór á kostum, var heldur ekkert að spara gömlu slagarana. Hefði þó mátt taka Waterloo sunset. Söng hástöfum. Þó er ekki örgrannt um að einhverjir af eldri kynslóðinni hafi talið það helst til villt að fara á rokktónleika á föstudeginum langa. Á slíkum degi vilja margir vera heima og gráta. Þetta sama kvöld var ég boðinn í mat heim til Magnúsar Norðdahl í Kópavoginum og hitti þar Sri Lankann Denny. Hann var eldhress og hafði aldrei heyrt um Star Wars eða Rolling Stones.
Fór í messu á sunnudagsmorgun klukkan átta. Trúrækinn segja einhverjir, svangur segja aðrir. Messan var ágæt og predikunin ekki of löng. Altarisganga. Eftir messuna bauð mótettukórinn vinum og vandamönnum upp á veitingar af öllum gerðum og heitt kakó. Ég er vandamaður og fékk því að fylla á belginn. Var svo í jakkafötum allan páskadag og fór í páskalambið til mömmu um kvöldið. Hátíðlegustu páskar hjá mér hingað til held ég. Ekkert stórt páskaegg. Sérstaklega ekki djöflaegg frá Nóa. Af hverju setja þeir ára, skratta og andskota ofan á páskaeggin sín? Ég fékk svona smáegg. Málshátturinn var "Gæfa fylgir góðri nennu."
Þess vegna er ég að skrifa þessa ritgerð núna. Því ég tel að ef ég nenni því þá færi það mér gæfu. Skil á föstudaginn. Og svo önnur ritgerð sem á að skila á mánudaginn. Gaman, gaman.
Leiðari stúdentablaðsins síðast var sú allra argasta helvítis þvæla sem ég hef lesið lengi. Eins og fyrri daginn er þetta ekkert nema útblásinn stíllinn en innihaldið ótrúlega rýrt. Mér sýnist að stefnan hjá blaðinu sé svona back to basics með stjórnmálaumræðuna, greina kjarnann frá hisminu, skýrt og skorinort, hörð afstaða o.s.frv. Hins vegar var þessi leiðari algjör andstæða þess. Menntaskólastíllinn á hönnuninni "hrátt lúkk" sem er í rauninni alveg fáránlega dísænað. Og textinn ekkert nema umbúðir og orðagjálfur.
Nei
Ykkur verður ekki kápan úr þessu klæðinu, Rómverjasvín.
Guðrún Khamenei, Guðrún Ali al-Sistani.
Guðrún er algengt íslenskt nafn. Ég á meira að segja þrjár frænkur sem heita Guðrún. Amma mín úr Skorradalnum hét einnig Guðrún. Merking nafnsins sýnist mér vera nokkuð augljós. Guð er guð og rún er bókstafur, merki eða tákn.
Nafnið Guðrún getur því þýtt "tákn guðs"
Æðsti titill kennimanna í shía-íslam er ayatollah. Það er annar ritháttur yfir ayat allah sem þýðir "tákn guðs". Þessi titill þykir sanntrúuðum súnní múslimum vera á gráa svæðinu og jafnvel jaðra við guðlast. En okkur getur varla þótt það, notandi guð hér og guð þar í okkar nöfnum.
Ég sé þá ekkert því til fyrirstöðu að ríkissjónvarpið, sem leggur metnað sinn í að íslenska staðarnöfn út um allar trissur og nöfn á evrópsku hefðarfólki íslenski nú ayatollah sem Guðrún héðan í frá.
Árátta
Þegar ég hitti, les um eða sé í sjónvarpi menn sem heita Benedikt hugsa ég undir eins "Spenagigt, spenagigt, spenagigt" En ég segi ekkert. Því ég er svo fágaður.
Fjölmenning - samkennd - skilningur
Ég fór í háskólaræktina eftir hádegið. Þar voru fáir. Einungis ég, afrískur maður og Spánverji. Spánverjinn og Afríkumaðurinn töluðu saman. Spánverjinn hét Paolo. Afríkumaðurinn hét Paul. Sjálfur heiti ég Páll.
Þarna var einnig asísk kona að sinna ræstingum. Ég geri fastlega ráðfyrir að hún heiti Pálína.
Frændi minn
Ásgeir Pétur Þorvaldsson kann ekki að lesa skáletraðan texta.
Stjórnarandstaða
Þau kæmu miklu betur út ef þau sorteruðu aðeins út orðagjálfrið og orðalengingarnar á þinginu. Ræðurnar þeirra eru undantekningarlítið alveg gríðarlega leiðinlegar.
The Gilmore girls
"Mæðgurnar" er eitthvað svo dull nafn á sjónvarpsþátt. Ég vil að þessi þáttur verði nefndur Gilmerlarnir.
The Avion-virus
Ég legg til að Magnús Þorsteinsson kaupsýslumaður hætti að dreifa fuglaflensuveirunni út um allt.
Bak
Það má með sanni segja að ég hafi farið illa með bakið á mér á laugardaginn. Meiddi mig eitthvað í því í gymminu en var svo fáránlega heitur að ég fann ekki neitt. Ég er oft í þessu ástandi; fáránlega heitur. Hljóp svo heim eins og brjálaður maður. Það var ekki fyrr en ég kólnaði niður sem ég fór að stífna upp og seint um kvöldið gat ég eiginlega ekki staðið upp. Núna er ég eins og áttræður maður í bakinu og á í mestu vandræðum með að taka skólatöskuna mína upp af gólfinu.
Stuð
Það verður stuð stuð stuð þar til faðir minn gerir T-fuglinn upptækan.
Jæja þá, ok!
Nokkrir hafa nennt að lesa greinina sem ég benti á hérna í síðustu færslu. En þeir sem ekki hafa enn komið sér í það ættu að gera það, enda sækir hún fast á hæla greinarinnar sem birtist í Morgunblaðinu um árið og kallaðist Skammtafræði þyngdar - ný og endurbætt heimsfræði. Sú grein var reyndar svo slæm að höfundurinn var greinilega geðsjúklingur og ekkert vit var hægt að fá út úr henni. Sumar setningar voru meira að segja málfræðilega ótækar og merkingarlausar af þeim völdum. Þessi grein er nú ekki svo slæmt. En slæm samt.
Ég held að Þórður Gunnarsson vökuliði hafi hitt naglann á höfuðið í kommentakerfinu hér um daginn. Sú efnisgrein sem hann dregur út er sannarlega mögnuð.
Hvar er hið frjálshyggjulega frelsi, þegar fyrirtækin troða upp á okkur slagorðum og auglýsingum um hvernig við eigum að haga lífi okkar? Kjarninn er sá, að fyrirtækin boða meiri frelsisskerðingu en ríkið myndi nokkurn tímann gera.
Þetta er aðallega áhugaverð efnisgrein fyrir þær sakir að hún er sett upp eins og höfundi hennar sé ekki kunnugt um að ríkið (hér er eðlilega ekki hægt að einskorða skilninginn á því orði við íslenska ríkið) hafi nokkru sinni staðið fyrir meiriháttar frelsisskerðingu.
Það er hins vegar ekkert nema kurteisi að túlka og skilja textann höfundinum í hag. Þess vegna er aldrei hægt að skilja þessa grein sem neitt viðkomandi stjórnmálum eða hægri-vinstri rökræðunni. Einungis er hægt að skilja greinina sem einhvers konar hugvekju almenns eðlis. Hún fjallar þá um hugarfar og lífsviðhorf fólks. Einhvers konar sósíalískur Dr. Phil.
Snilld
Þá sjaldan að maður kíkir inn á múrinn, þá finnur maður yfirleitt einhvers konar hreina snilld þar. Ég minnist sérstaklega einnar innsendrar greinar þar sem höfundur ýjaði að því að hann væri fylgjandi blóðugri byltingu í landinu.
En hér er ein nýleg, mjög skemmtileg:
http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=1929&gerd=Frettir&arg=7
Pro-ana færsla
Það eru tvær leiðir til að grenna sig. Vitleiðin og stritleiðin. Báðar eru góðar til síns brúks en henta mismunandi fólki mismunandi vel. Vitleiðin er tímafrek og dýr. Þ.e. maturinn sem maður þarf að kaupa fæst ekki í lágvöruverðsbúðunum og það er vesen að finna hann í búðunum. Þar að auki er vesen að vera alltaf að elda hann. Nú er ég að tala um lowcarb matvæli hvers konar. Ég hef prófað þá aðferð og hún virkar fínt.
Sá er hins vegar galli á þeirri gjöf Njarðar að á slíku mataræði er alveg ómögulegt að stunda einhvers konar líkamsrækt af viti. Nema eitthvað eins og að synda eða labba. Sem er leiðinlegt.
Hin leiðin er svo stritleiðin. Auka hreyfinguna til muna og hafa eina einfalda reglu: Ekki éta eins og svín. Þessi leið virkar líka ljómandi vel. Ég er að beita þeirri síðarnefndu núna. Var ca. 112 kíló þegar Una fór út. Hins vegar vigtaði ég mig áðan og mældist þá 102,5. Ég býst við því að þetta verði fínt í svona 97 kílóum.
Víða leynast þó víða víti til varnaðar. Nú eru allir svo óskaplega anorexíumeðvitaðir, þar á meðal ég. Í ræktinni áðan var grindhoruð kona sem gekk á brettinu á mesta incline. Ég tók stutt skokk þarna á brettinu við hliðina á henni. Svona korters skokk sem tók kannski 130 kaloríur skv. þessum kaloríuteljara á brettinu (sem segir samt voðalega lítið). Sá hennar teljara og hann sýndi 790 kaloríur eyddar...