#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

föstudagur, mars 31, 2006

Síðasta færsla

Síðasta færsla var óneitanlega ansi fúl. Ítreka þó að ég er í góðu skapi. Svo skoðast þessi síða núna best í firefox.

Orð

"Hæl og sæl" fólkið er skemmtilegt. Pistlarnir þeirra í Fréttablaðinu innihalda alls konar skemmtilegheit, eins og að "hrámarinera" eitthvað. Er það ekki bara það sama og að marinera eitthvað? Ég veit ekki til þess að menn steiki kjötið sitt fyrst og marineri það svo, en hvað veit ég? Svo var þarna eitthvað verið að tala um rófur og einhverja meðhöndlun á þeim. Það var tekið fram að við þessa meðhöndlun yrðu rófurnar "meira að segja stökkar". Já, er það? Hvernig eru rófur yfirleitt? Frekar stökkar ef ég man rétt. Burtséð frá þessu þá er þátturinn settur upp eins og bara til þess að besserwissa. Hver í fjáranum nennir að standa með rifbretti öll kvöld og rífa gulrætur, mangó, sítrónubörk og alls konar slíkt dót? Láttu mig hafa þetta í neytendapakkningum og þá skal ég hugsa málið. Svo kosta þessi hráefni og krydd eflaust ekkert lítið. Varðandi sykurinn, þá er maður meðvitaður um sykurneyslu og það hvernig hægt er að verða háður kolvetnum upp að vissu marki. Hins vegar er þessi manneskja að kalla sykur eitur, og jafnvel þó hún meini "viðbættur sykur" þá tekur hún það ekki nógu skýrt fram. Áhorfandinn sér bara einhverja konu sem er að segja að sykur sé eitur og við þurfum hann ekki. En auðvitað er sykur eða kolvetni eitt af næringarefnunum og ef við fáum hann ekki þá drepumst við. Og hvað er málið með að kalla sig næringarkönnuð? Hahaha... P.s. hvað er málið með Kastljós-Simma í Gettu betur? KLAPPIÐI NÚNA. HÆTTIÐI AÐ KLAPPA. KLAPPIÐI MEIRA. KLAPPIÐI MINNA. Hann er alveg að missa sig í crowdcontrolinu.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Fjármálastofnanir

Hvað er málið með fjármálastofnanir þessa dagana? Maður fær hreinlega ekki að vera í friði fyrir þessu liði. Hringjandi í mann, grátbiðjandi um að fá að KOMA OG HITTA MANN til að tala við mann um fjármál. Viðbótarlífeyrissparnaður, tilboð í bankaviðskiptin, Gullvild, Vöxtur og blablabla. Þetta er auðvitað gott og blessað, samkeppni, frelsi, velsæld. En þetta er erfitt fyrir veikgeðja mann eins og mig. Ég get ekki sagt nei. Mér tókst með herkjum að segja nei við einhvern gaur sem vildi koma og tala við mig um viðbótarlífeyrissparnað. Ég var búinn að samþykkja að fá einhvern KB mann í heimsókn til að gera tilboð í bankaviðskiptin mín, degi eftir að ég leyfði Glitnismanni að skrá mig í Gullvild og gefa út Atlas kort á mig frá bankanum og stofna uppleiðarreikning. Málið er að mér finnst bara svo óendanlega leiðinlegt að pæla í þessum hlutum, og sölumenn finnst mér alveg rosalega leiðinlegir. Þeir eru auðvitað ágætisfólk, en þeir eru bara í vinnunni og eru svona eins og frambjóðandi í prófkjöri sem þykist þekkja mann þó hann þekki mann ekki neitt. Maður er ósjaldan kallaður képpi eða félagi eða kéllinn. Svo mætti þessi KB maður ekki einu sinni á tilsettum tíma. Mér finnst í góðu lagi að hann geri mér tilboð í bankaviðskiptin. Þá get ég farið með það tilboð í Glitni og sagt þeim að bæta kjör mín svo ég fari ekki frá þeim. Ég óttast það hins vegar mest af öllu að skipta um banka, því eins og Una lenti í þá fara þeir að slást um mann og hringja í mann annan hvern dag í tvo mánuði eftir þetta. Hún var komin með svona "EKKI SVARA!!!"-liði í símaskránni sinni og var mjög pirruð á þessum mönnum.

Leyniþjónusta

Bókin Píslarvottar nútímans - samspil trúar og stjórnmála í Írak og Íran eftir Magnús Þorkel Bernharðsson er skemmtileg lesning. Hún kom út hjá Máli og menningu árið 2005. Mæli með bls. 81-102 um endalok valdatíma Musaddiqs forsætisráðherra í Íran. Hann er stórskemmtilegur. Aðgerðin kostaði milljón dollara og enginn Breti eða Bandaríkjamaður lét lífið í henni en ca. 200 Íranir. Madeleine Allbright baðst svo afsökunar á þessu eftir að skýralan var birt árið 2000, en þangað til voru menn ekki vissir um hvort CIA hefði staðið á bak við þetta. Ég ætla svo sem ekkert að fara að rekja allt í kringum þetta, menn geta bara lesið bókina, hún er stutt. En það er samt gaman að birta hér eina efnisgrein úr þeim hluta: Í mars styrkti Dulles utanríkisráðherra verkefnið með um milljón dollurum. Þegar Roosevelt [Hér er átt við Kermit Roosevelt sem stjórnaði Operation Ajax hjá CIA, sem miðaði af því að koma Musaddiq frá, innsk. ÖPR] kom til Írans sumarið 1953 voru meginþættir aðgerðarinnar komnir á hreint en Bretar og Bandaríkjamenn hugðust beita öllum ráðum til að egna sem flesta gegn Musaddiq. Þeir ætluðu sér að sýna fram á að Musaddiq væri spilltur kommúnisti og óvinur íslams, meðal annars með því að múta fjölmiðlum landsins til að birta slíkar fréttir. Þeir hugðust enn fremur greiða fólki fyrir að koma af stað rógi og áróðri af ýmsu tagi. Loks ætluðu þeir að fá ,,góðvini" lögreglunnar til að gera árás á saklausa borgara og láta það líta út eins og þeir væru stuðningsmenn Musaddiqs. Þannig þóttust þeir vissir um að fólk færi að tengja óæskilega einstaklinga þjóðfélagsins við Musaddiq auk þess sem samfélagsástandið yrði ótryggt en það var talið geta komið sér vel. Um 100.000 dollarar voru notaðir til að múta áhrifamiklum aðilum innan hersins og álíka há upphæð fór til íranskra þingmanna. Skipuleggjendur aðgerðarinnar höfðu undirbúið hverjir tækju við stjórn helstu ríkisstofnana landsins (lögreglu, póstþjónustu, símstöðva, fjölmiðla) á sjálfan uppreisnardaginn. Þeir höfðu fundið stóran hóp fólks sem var tilbúinn að mæta þennan dag og taka þátt í fjöldamótmælum gegn greiðslu. Þessi hópur samanstóð aðallega af fátæku fólki en einnig af starfsmönnum sirkussins í Teheran, svo sem hinum fræga og eftirminnilega Shaban Jafari sem var kallaður ,,hinn heilalausi" og starfaði sem vöðvabúnt í sirkusnum.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Jæja... ...hvað segiði þá um þetta? Ég á eftir að fínpússa eitthvað. En er þetta ekki bara skemmtilegt?

mánudagur, mars 20, 2006

Uuuuu... ...hér er eitthvað mikið að gerast. Eitthvað sem hefur ekki gerst lengi. Sjáum hvort það sé ekki hægt að breyta þessu templeiti eitthvað svo það hætti að vera eins og það er og verði einhvern veginn öðruvísi.

föstudagur, mars 17, 2006

Hlynur Jónsson... ...er bróðir Konráðs Jónssonar og þar af leiðandi að öllum líkindum hinn vænsti maður. Það hefur verið smá netumræða í gangi um fóstureyðingar og rakst ég á þá umræðu á tíkinni nú rétt áðan, sem ég ligg heima með hálsbólgu og kverkaskít og almenn leiðindi og hef ekkert að gera mun ég blogga um það. Hlynur skrifar á uf.is og er frjálshyggjumaður og fylgjandi verndun lífs. Hann segir í seinni grein sinni: ,,Ég vil banna fóstureyðingar. Anna Pála Sverrisdóttir, sem skrifaði greinina á Múrnum, benti á þann punkt á NFS í fyrradag að óreyndir einstaklingar myndu annast fóstureyðingar ólöglega ef fóstureyðingar væru bannaðar. Þetta hefur gerst í löndum þar sem fóstureyðingar eru bannaðar og láta konurnar oft lífið vegna vanþekkingar þeirra sem annast eyðingarnar. Það eru samt engin rök gegn banni. Konan tekur sjálf ákvörðun um að eyða fóstrinu og ákveður að taka þá áhættu sem fylgir." Gott og vel. En ef við breytum efnisgreininni aðeins þá verður hún svona: ,,Ég vil banna eiturlyf. Anna Pála Sverrisdóttir, sem skrifaði greinina á Múrnum, benti á þann punkt á NFS í fyrradag að ótímdir glæpamenn myndu annast sölu og tilbúning á fíkniefnum ólöglega ef fíkniefni væru bönnuð. Þetta hefur gerst í löndum þar sem fíkniefni eru bönnuð og láta eiturlyfjanotendur oft lífið vegna vanþekkingar þeirra sem annast framleiðslu og sölu fíkniefnanna. Það eru samt engin rök gegn banni. Fíkillinn tekur sjálfur ákvörðun um að eyða lífi sínu í fíkniefnaneyslu og ákveður að taka þá áhættu sem fylgir." Ég býst þá við því að Hlynur noti ekki þau rök frjálshyggjunnar í fíkniefnaumræðunni að aflétting bannsins geri efnin öruggari (fólki t.d. ekki seld vitlaus lyf, eða gölluð lyf sem valda dauða) og geri fíklum kleyft að kaupa sér efnin sem þeir eru háðir af fagmönnum frekar en ofbeldisfullum glæpamönnum. Það eru engin rök gegn banni, segir Hlynur. Furðulega mikil forsjárhyggja í þessari frjálshyggju. En svo er það líka þetta með fóstrið. Hlynur tekur líkingu við fæðingarblett. Að þetta fari eftir því hvaða augum maður lítur fóstrið – sem manneskju eða frumuklasa. Ég veit ekki af hverju það þarf að vera svona mikið allt eða ekkert í þessari umræðu. Ég álít okfrumu ekki vera manneskju. Ég álít okfrumu ekki einu sinni vera fóstur! A.m.k. ekki fyrr en hún er byrjuð að skipta sér upp. Kannski ekki einu sinni fyrr en frumurnar eru byrjaðar að aðgreinast eftir því hvers konar vef þær munu mynda. Ég álít fóstur ekki manneskju frá getnaði. Okfruma er einmitt það: Fruma. Hún er ekki manneskja, hún lítur ekki einu sinni þannig út, hún hefur ekki tilfinningar, enga skynjun, engan vilja, engar langanir. "Manneskja" sem hefur enga heilastarfsemi (núll, enga – legally dead) og liggur meðvitundarlaus í rúminu sínu tengd við öndunarvél, gervihjarta, blóðskilunartæki og alls kyns tæki fyrir öll líffærin, því EKKERT líffæranna virkar, er manneskja sem mér finnst bara í góðu lagi að taka úr sambandi. Þannig er okfruman. Hún er ekki með heila og líf hennar er algerlega háð líffærum móðurinnar. Mér finnst einhvern veginn ekki rétt að fórna réttindum og sjálfsákvörðunarrétti fullveðja manneskju fyrir slíkan frumuklasa. Það er alveg ljóst að línuna þarf að draga einhvers staðar annars staðar en við getnað. Hvar á þá að draga línuna? Það er það sem er svo erfitt (og þess vegna finnst mörgum þægilegt að draga hana bara við getnaðinn) en það verður í það minnsta allt annað mál að eyða fóstrinu þegar það er komið með útlit manneskju, heila og heilastarfsemi, hreyfingar og er jafnvel farið að sýna tilfinningar. Þá er þetta orðið að manneskju. Hvenær það gerist nákvæmlega veit ég ekki. Eins og sést er ég ekki að leysa nein vandamál hér. En það er í það minnsta ekkert betra að leysa dæmið vitlaust en að leysa það bara alls ekki.

Í gærkvöldi eldaði ég dýrindis máltíð fyrir mig, Kára og Magga. Þetta var mjög auðvelt í rauninni. Kári reddaði reyndar forréttinum sem var hvítlaukskryddað nan-brauð frá austurlandahraðlestinni. Það var afar gott og þakka ég honum vel fyrir. Eftirfarandi eldamennska kom algerlega upp úr hausnum á mér as I went along:

Jæja. Svona gerðist þetta:

Takið tvo eins kílógramms kjúklinga og leggið í steikarpott. Hellið slatta af ólívuolíu í skál og kryddið vel með salti, svörtum pipar, kjúklingakryddblöndu og vænni hrúgu af tímían. Smyrjið kryddblöndunni á kjúklingana frá hvirfli til ilja (þó svo að tæknilega sé búið að fjarlægja bæði hvirfilinn og iljarnar af þeim). Hitið ofninn í 180-220 gráður, allt eftir því í hvernig stuði þið eruð. Sjálfur var ég í 180. Smellið þessu inn í ofninn og geymið þar á meðan frekari eldamennska og undirbúningur fer fram. Kannski hálftíma til 40 mínútur.

Leggið á borð.

Skerið kartöflur í skífur og leggið í eldfast mót, smyrjið einnig í olíu og kryddið vel með kartöflukryddi, salti eða einhverjum slíkum fjanda og loks vel með oregano.

Skerið niður vænan skammt af sveppum og lauk (kannski einn og hálfan stóran lauk) og nokkrar gulrætur. Sjálfur var ég með þetta allt í stórum bitum en laukinn skar ég þannig að úr urðu hringir. Hafið tvær stórar Tikka-masala sósukrukkur til taks, helst með sítrónu og korianderkryddi.

Setjið kartöflurnar inn í ofninn.

Takið kjúklinginn út og smellið öllu niðurskorna draslinu ofan í pottinn. Hellið allri tikka-masala sósu sem þið eigið ofan í pottinn og yfir kjúklingana. Reynið að hræra þessu eitthvað saman. Á þessum tímapunkti er potturinn nokkurn veginn barmafullur af mat.

Takið eina stóra sítrónu og kreistið úr henni allan safann, hellið honum yfir allt heila klabbið.

Hafið þetta nú inni í ofninum þar til kartöflurnar eru orðnar hæfilega crunchy og brúnar og þangað til kjúklingurinn er orðinn vel steiktur inn að beini, eins og hann á vitaskuld að vera. Ekki vill maður fá salmonellu, camphylobacter eða fuglaflensu.

Útbúið þá cæsars-salat með tómötum, ferskum og sólþurrkuðum, ásamt fetaosti og komið á borðið í fallegri skál. Setjið vatn í könnu með klaka og hafið drykkjarglösin stór. Helst 400 ml að minnsta kosti.

Þegar maturinn er tilbúinn fara kartöflurnar á borðið eins og þær koma út úr ofninum en kjúklingarnir eru færðir yfir á stóran disk eða fat á meðan öllu mallinu undan þeim (sem er þá léttsoðið grænmeti í sósu sem gerð er úr tikkamasala dótinu, sítrónusafa, olíu og kjúklingasafa) er hellt yfir í pott og í hann skellt ausu. Til yndisauka er kjörið að taka nú rjómapela og hræra rjóma út í sósuna að vild. Berið svo fram á borð og gæðið ykkur á þessu.

Þetta er svo fáránlega gott að maður trúir því varla daginn eftir. Sem betur fer er helmingurinn eftir svo auðvelt ætti að vera að endurnýja trúna í kvöld. Ef einhver vill koma í mat þá bara skiljið eftir komment. Dregið verður úr hópi umsækjenda með málefnalegri og vandaðri slembiaðferð.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Í dag er blablabla