Ég hef legið undir ámæli... ...fyrir að blogga ekki nóg. Ég hef því brugðist við þessu og bloggað. Óvíst er um gæði færslunnar þar sem ég er að blogga undir þrýstingi og vonir sem bundnar eru við færsluna eru gríðarlegar. En hér er hún semsagt: Krossgötur Jæja. Einhvern tímann í árdaga gerðist einhver fyrsti vegavinnumaður í mannkynssögunni. Hann lagði veg frá stað A til staðar B því hann taldi það þjóna hagsmunum sínum best. Auðvelda flutninga til verslunar kannski, eða til fjarlægra herja. Ég veit það ekki. En hann gerði veginn og taldi sig hafa fundið upp nokkuð ansi merkilegt (Þó svo hann hafi sennilega stolið hugmyndinni frá sauðkindinni sem fylgir sömu leiðum ár eftir ár og myndar stíga. Ætli flestar góðar hugmyndir séu ekki upphaflega afsprengi kunnáttu og hyggjuvits sauðkindarinnar? Því vil ég trúa...) Sennilega hefur hann talið að þetta yrði ekki jafnað. En viti menn. Annar maður lagði veg frá C til D og ef við hugsum okkur A og B sem tvo punkta á x-ási getum við hugsa okkur C stað með hnitin (0,3) og D stað með hnitin (o,-3). Þegar hans vegavinnumenn komu að veginum AB hugsuðu þeir fyrst með sér að hætta yrði við verkið, þar eð ómögulegt væri að leggja veginn út fyrir annað hvort stað A eða stað B. Þá yrði leiðin allt of löng og hagkvæmninni, sem upphaflega var hvatinn að verkinu, yrði stefnt í voða. Þeir hafa að öllum líkindum klórað sér lengi vel í hvirflinum, á bak við eyrun og á mjóbakinu þar til þeir fengu furðulega hugmynd (einnig stolna frá sauðkindinni). Þeir skyldu halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. 100 metrum síðar litu þeir til baka og sáu dásamlegt sköpunarverk sitt. Krossgöturnar. Það afrek yrði sennilega aldrei jafnað. Ekkert kæmist í hálfkvisti við þetta. Allar götur (skemmtilegur orðaleikur þarna) síðan þá hafa krossgöturnar haldið þessari stöðu sinni, sem einhvers konar frummynd eða helgitákn skipulagsfræða og ekkert virðist mega raska stöðu þeirra. Ætli einhver hafi reynt að teikna skopmynd af krossgötum? Ætli öfgafullir skipulagsfræðingar í miðausturlöndum brenni þá ekki þjóðfána viðkomandi teiknara og hóti hryðjuverkaárásum á hann? Reyndar...þegar ég fer að hugsa út í það...getur vel verið að hakakrossinn sé skopmynd af krossgötum og óvinsældir nasisma megi að einhverju leyti rekja til þess. (Hér er við hæfi að horfa upp í loftið um stund, strjúkandi á sér hökuna) En hér er ekki ætlunin að mæla þeirri hugmyndafræði bót að nokkru leyti. Þetta er einfaldlega rannsóknarefni sem sagnfræðingar verða að taka til skoðunar. Hvaðan kemur sú óútskýranlega þörf fólks fyrir að geta, í hvert sinn sem komið er að krossgötum farið áfram, til hægri OG til vinstri. Það er kannski skiljanlegt að vilja það einhvers staðar í barrskógum Síberíu eða í Nevadaeyðimörkinni. En þegar næstu krossgötur eru í nokkurra tuga metra fjarlægð, er það þá ekki til fullmikils ætlast? Sem dæmi um krossgötur sem mega kannski alveg missa sín eru Langahlíð-Miklabraut. En auðvitað hlýtur að vera við ramman reip að draga hvað þetta varðar. Öll skipulagsmál virðast litast mjög af eiginhagsmunagæslu nábúa framkvæmda hvers tíma. Í hvert skipti sem ráðgert er að reisa hús á fleiri hæðum en 4 rísa æstir nágrannar upp og byrja að æpa. Skert útsýni, eða minna sólarljós eða verri sjónvarpsmóttökuskilyrði eða eitthvað slíkt. Eitthvað er hægt að týna til. Háhýsið geti risið annars staðar. T.d. uppi á miðhálendi, eins og nú er gert í Kópavoginum. Á sama hátt yrðu eflaust margir ósáttir við að tapa gömlu leiðinni sinni út á hraðbrautina. Tapa lífsgæðum á meðan einhver annar hagnast á því. Það yrði óþolandi að vita af Miklubrautinni þarna ótruflaðri með ljóshraðaumferð, ef þeir geta ekki notað hana sjálfir eins og þeir vildu. En á meðan þeir halda krossgötunum helst umferðarhraðinn alltaf á 40 km/klst að meðaltali (eða hvað það nú er). Ameríkani myndi kalla þetta að vilja bæði eiga kökuna sína og borða hana, held ég. Tökum dæmi. Gatnamótin Langahlíð-Miklabraut eru leiðindafyrirbæri og óþarfaþing. Er það virkilega nauðsynlegt fyrir hlíðabúa, Starfsmenn Kjarvalsstaða og íbúa Flókagötunnar að geta komist út úr hverfinu sínu einmitt þarna? Væri ekki betra að hafa Miklubrautina ofan í stokki þarna og Lönguhlíðina bara ofan á án allra ljósa eða aðreina og afreina. Óskert umferð í fjórar áttir einmitt þarna, en dálítið meira álag á öðrum útgönguleiðum úr þessu hverfi. Þær eru andskotans nógu margar í allar áttir sem hægt er að hugsa sér. Mögulega væri meira að segja hægt að hafa hægribeygju af Lönguhlíð niður í stokkinn til vesturs.
.
mánudagur, janúar 30, 2006
þriðjudagur, janúar 24, 2006
þriðjudagur, janúar 17, 2006
Eftirfarandi bækur hef ég lesið undanfarið: Sjón, Argóarflísin - góð (kláraði sterkt þrátt fyrir að hafa ekki alveg haldið mér við efnið um miðbikið). Bragi Ólafsson, Gæludýrin - góð (pirrandi samt - ég get ekki skilið þetta á annan hátt en að höfundurinn sé að segja við mann "hvað sem þú gerir, ekki fela þig undir rúmi". Það var rétt hjá Hávarði að Emil er píka) Gabriel Garcia Marquéz, Sagan af skipbrotsmanninum - allt í lagi. Saga um það hvernig maðurinn tekst á við náttúruöflin og er einhvern veginn alltaf alveg að fara að deyja en deyr samt ekki, og er svo í næsta kafla ennþá meira að fara að deyja en deyr samt ekki. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (jólagjöf frá Magga). Frjálshyggjan er mannúðarstefna - Safn greina frá því fyrir 1992. Frá minningargreinum út í tal um gengismál. Ágætt að lesa þetta. Arnaldur Indriðason, Grafarþögn. Mjög góð bók. Hef ekki verið mikill aðdáandi Arnaldar þó að hann sé ágætur. Var búinn að lesa Mýrina og Bettý. Mér fannst þær báðar bara svona lala og það vantaði miklu meiri spennu (eða bara eitthvað) í Mýrina. Grafarþögn er hins vegar saga sem vekur upp mikla samúð með sögupersónum og þess vegna getur maður oft ekki hætt að lesa. Andskoti góð bók bara.