Refsiréttur Magnafsláttur er kjörorðið.
.
þriðjudagur, september 27, 2005
Klukk, klukk Ég hef verið klukkaður, en tilgangur þess leiks er væntanlega að fá sem flesta til þess að opinbera veikleika sína, og tek ég að sjálfsögðu þátt í því: 1. Ég þoli ekki kaffi, mér finnst það ágætt á bragðið en ég get ekki drukkið það nema í afar takmörkuðu magni, ég fæ í magann af því. 2. Þegar kemur að fegurð kvenna er mér nokk sama um háralit eða brjóstastærð. Húðin er það mikilvægasta. Falleg húð skiptir mestu. 3. Mér finnst húsverkin ekkert mjög leiðinleg. 4. Mér þykir Helguvík vera kjörinn staður fyrir álver. Eiginlega besti hugsanlegi staður á landinu fyrir álver. 5. Matvendni fer óstjórnlega í taugarnar á mér.
mánudagur, september 19, 2005
Á maður að reyna að tjá sig um heimspeki? Slæm hugmynd... Kannski verða næstu færslur eitthvað tengdar heimspeki, þó að ég sé nú ekki sjóaður í þeim geira. Í heimspekilegum forspjallsvísindum vorum við látin lesa bókina Stefnur og straumar í siðfræði eftir James Rachels. Úlfur Sveinbjarnarson sessunautur minn, kaldlyndi gáfumaðurinn, hefur reyndar haft orð á því að bókin eftir Rachels sé léleg og ég get verið sammála því að hluta til, en þetta er handhægt yfirlitsrit engu að síður. Hér er smá athugasemd við 6. kafla bókarinnar um siðfræðilega sérhyggju.
Siðfræðileg sérhyggja er semsagt kenning sem fjallar um það hvernig menn ættu að haga sér, ekki um hvernig þeir haga sér í raun og veru. Leiðbeinandi kenning. Inntak hennar er í grófum dráttum að sérhver einstaklingur eigi aðeins að efla sinn eigin hag.
Síðustu rökin sem Rachels nefnir gegn þessari kenningu segir hann að séu þau rök sem næst komist því að hrekja hana. Rökin eru á þá leið að kenningin sé geðþóttakenning og órökstudd. Hún byggist á því viðhorfi að “ég” sé mikilvægari en “allir hinir”. Með þessu er verið að meina að hún sé röklega ekkert merkilegri en t.d. rasismi. Það er ekki hægt að rökstyðja að maður sjálfur sé eðlisólíkur eða mikilvægari en allir aðrir, og þess vegna er það alls kostar órökstutt að manns eigin hagsmunir ættu að ganga framar en hagsmunir annarra. M.ö.o. við ættum að bera umhyggju fyrir öðrum því við erum alveg eins og þeir.
- Þetta eru illa útfærð rök hjá Rachels að mínu mati. Að bera stefnuna saman við rasisma er ótækt dæmi, vegna þess að það eru ekki tvær stefnur af sama toga.
- Rasisminn gengur út á að flokka annað fólk í mismunandi hópa: Annars vegar þá sem þú samsamar þig með og hins vegar þá sem þú lítur niður á eða hatar (já og kannski þriðja flokkinn sem eru þeir sem maður lítur upp til – en það er eitthvað sjaldgæfara). Og sú flokkun byggist ekki á rökstuðningi. Siðfræðileg sérhyggja er næstum því andstæða þessa: Hún gengur út á að flokka allt fólk í sama hópinn (nema mann sjálfan). Og fyrir þeirri flokkun eru augljós rök. Ég er ég, og enginn annar en ég er ég. Aðrir eru þeir – en ekki ég. Ef þeir tapa fimmþúsund kalli þá kemur það ekki endilega niður á mér. Það skiptir mig engu máli. Hins vegar ef ég tapa fimmþúsundkalli, þá kemur það niður á mér. Lífsgæði mín minnka sem því nemur. Þess vegna er verra að ég missi fimmþúsundkallinn en að einhver annar geri það.
- Rasisminn byggist upp á því að ef svertingi tapar fimmþúsundkallinum þá gleðjist ég yfir því, eða það hlakki í mér, en ef hvítur maður tapi fimmþúsundkalli þá þyki mér það ansi leitt og bjóðist jafnvel til þess að hjálpa honum að leita. Með rasismanum gerir maður órökstuddan mannamun á milli tveggja einstaklinga, en með siðfræðilegu sérhyggjunni gerir maður rökstuddan mannamun á sjálfum sér annars vegar og öllum öðrum hins vegar.
- Til þess að gera þennan mun ljósari er hægt að taka dæmi um dauðann: Ef ég dey þá er lífið búið. Ef Jón Jónsson deyr þá heldur lífið einhverra hluta vegna áfram. Þannig er greinilegur munur á mér og Jóni Jónssyni, út frá mínum bæjardyrum séð auðvitað.
- Og varðandi það sem Rachels segir: “Að það sé ekki hægt að rökstyðja að maður sé eðlisólíkur öðrum eða mikilvægari en aðrir og þar af leiði að það sé órökstutt að manns eigin hagsmunir eigi að ganga framar öðrum” Þá getur maður sagt sem svo: Það er ekki nauðsynlegt að rökstyðja að maður sé eðlisólíkur öðrum (þ.e. ólíkur að líkamlegri gerð eða andlega æðri) til þess að vera mikilvægari en aðrir, út frá manns eigin bæjardyrum séð. Það er bara nóg að vera maður sjálfur, og að allir hagsmunir manns tengist manni sjálfum. En það er einmitt óumflýjanlega þannig í hverju einasta tilfelli.
- Þessi rök gegn siðfræðilegri sérhyggju eru þau rök sem Rachels segir í bókinni að gangi næst því, að hans mati, að hrekja kenninguna. En dæmið sem hann tekur er gallað.
þriðjudagur, september 13, 2005
Snilld Fór út að borða í gær með Magga, Bigga, Markúsi, Ólafi Sindra og Hafsteini - kvöldið var vægast sagt skemmtilegt. Hópurinn harmoneraði fullkomlega og kvöldið innihélt bæði tryllingslegar hláturrokur og djúpar samræður (að okkar mati). Birgir er nefnilega að fara til Parísar í nám í kvikmyndagerð og ég óska honum velgengni í því. Kallinn á eftir að standa sig vel. Eftir matinn á Ítalíu (þegar Markús hafði loksins klárað rauðvínið sitt) fórum við heim til Magnúsar og stunduðum yfirnáttúrulegar lyftingar í anda Sri Chimnoy, framkvæmdum spilagaldra og sögur voru sagðar. Þetta er alveg magnað með þessar lyftingar. Örlítil einbeiting, samhæfni og hugleiðsla gerir merkilega hluti. Það var bara verst hvað gardínurnar hjá Magga voru þunnar, og við bara á jarðhæð, svo fólk gat séð okkur inn um gluggann þar sem við vorum að hugleiða með hendurnar yfir höfðinu á einum manni sem sat í miðjunni. Og AutoSuck sjálfsfróunartækið hans Hafsteins (sem hann segist ekki hafa notað, pffff) var vel sýnilegt á borðinu - en tengdist þó ekkert því sem við vorum að gera... Af hverju gátu fjórir menn lyft mér án nokkurra erfiðismuna hátt upp í loftið, notandi aðeins tvo fingur hver? Ég er 104 kíló. Fyrir hugleiðsluna hafði það reynst ómögulegt.
mánudagur, september 12, 2005
Dagskráin á Skjá einum kl.13.00 - Þak yfir höfuðið kl. 14.00 - Ripley's believe it or not kl. 15.00 - Þak yfir höfuðið kl. 16.00 - Ripley's believe it or not kl. 17.00 - Þak yfir höfuðið kl. 18.00 - Ripley's believe it or not kl.19.00 - Þak yfir höfuðið. kl. 20.00 - Ripley's believe it or not kl. 21.00 - Americas next top model kl. 22.00 - Ripleys believe it or not kl. 23.00 - Þak yfir höfuðið Ég er farinn að taka Omega fram yfir Skjá einn.
miðvikudagur, september 07, 2005
Api Í kommentakerfinu við nýjustu færslu á blogginu hennar Unu er verið að ræða um kosti þess að fá sér apa. Ég get lagt það til málanna að kokkur sem ég var einu sinni með á sjó var eitt sinn á þýsku fragtskipi sem sigldi strandsiglingar við Afríku. Með honum á skipinu var maður sem fékk sér apa í einni höfninni, ég veit ekki nákvæmlega hvaða tegund en hann var frekar lítill. Kannski einhver svona millivigtarapi. Honum fannst sniðugt að hafa apann bara í klefanum sínum þegar hann var á vakt, og heilsa svo upp á hann á frívakt. Apanum líkaði vistin í klefanum illa, en skipstjórnarmenn vissu ekki af veru hans um borð. Smám saman varð apinn skapstyggari og fór að veita húsbónda sínum æ kaldari viðtökur. Að lokum varð þetta þannig að maðurinn var farinn að standa í blóðugum slagsmálum við þetta kvikindi á hverri frívakt og endaði dæmið held ég með því að apinn lét lífið í einni viðureigninni. Góð hugmynd sem reyndist ekki svo góð eftir allt saman. Þetta segir kannski ekki mikið um svona apavesen almennt, en ekki geym apann ykkar í litlum klefa. Leyfið honum að sjá sólarljós af og til.
mánudagur, september 05, 2005
Vinnuslys Skar sneið af fingrinum á mér um helgina þegar ég var að skera sveppi. Sneiðin hvarf í sveppina, fannst ekki. Enginn kvartaði þó svo þetta reyndist ekkert vandamál.
fimmtudagur, september 01, 2005
Orkuveita Reykjavíkur ...við á Freyjugötunni erum í svona tilraunaúrtaki hjá þeim, sem þýðir að þeir leggja heim til okkar ljósleiðaradrasl eitthvað án endurgjalds. Nú spyr ég hvort einhver lesandi sé einnig að fá þessa óumbeðnu þjónustu, og hvort hann viti þá hvað manni býðst í gegnum þetta, hvort þeir ætla bara að gefa manni leiðsluna sjálfa og ætla svo að selja manni þjónustu í gegnum hana, eða hvort þeir ætla að gefa manni þjónustu í gegnum þetta líka, svona af því að við erum í einhverju "tilrauna" eitthvað. Annars er ég ekki með neitt sérstakt ómerkilegt smáatriði til þess að hafa langt mál um í dag. Staffan Havsteen Jú ég gæti nefnt eitt. Stefán Jón var í kastljósinu um daginn, ásamt Giselu Martini. Hann var þar spurður eitthvað út í það af hverju hann væri ekki borgarstjóri nú þegar, þ.e. af hverju Hildur Vala...nei Ásdís Halla...nei...hvað heitir hún aftur?...hefði verið niðurstaðan úr borgarstjóravandræðum R-listans en ekki hann sjálfur. Mér fannst það sjást nokkuð glögglega á manninum að hann er gríðarlega súr yfir því að vera ekki borgarstjóri. Hann breyttist allur, hætti að brosa, fékk svona kæki eða kippi í sig og gretti sig ægilega. Mér fannst honum hreinlega líða illa þegar talað var um þetta. His soft spot. Venjulega er hann nefnilega skælbrosandi í þessum teinóttu jakkafötum með rauða bindið. Og talandi um Havsteen... þá finnst mér skemmtilegur kaflinn í ævisögu Hannesar Hafstein um fjárkláðamálið. Pétur Havsteen var amtmaður fyrir norður- og austurlandi. Hann lét loka sínu amti og fyrirskipaði niðurskurð á sýktu fé, en þeir fyrir sunnan, Nonni Sig. og Jón Hjaltalín landlæknir vildu baða rollurnar af miklum móð. Landlæknir færði þau rök fyrir máli sínu að það væri til einskis að fyrirskipa niðurskurð og að það gagnaðist ekkert hjá amtmanni að stöðva samgang fjár af þessum svæðum. Hann taldi nefnilega, í samræmi við 2000 ára gamla læknisfræðiþekkingu sína að kláðamaurinn væri sjálfkviknaður (sbr. kenningar Aristótelesar) og hann gæti semsagt hvenær sem er komið upp í fé ef að nógu mikil "óþrif" kæmust í féð. Maurinn var semsagt fylgifiskur "óþrifa" að mati landlæknis, en ekki öfugt. Skrýtið hvernig menn draga svona öfugsnúnar ályktanir, sérstaklega í ljósi þess að vel gekk að hefta kláðann eftir þessar ráðstafanir fyrir norðan, en illa fyrir sunnan. Auk þess sem þessar gömlu kenningar voru þegar orðnar úreltar á þessum tíma.