Sus.is -----> Auðvitað Þetta er bara spurningin um það hvort D-ið ætlar að vera einhver kristilegur íhaldsflokkur að Bandarískri (og forneskjulegri) fyrirmynd, eða ekki. Svo er þetta náttúrulega bara af þeirri ástæðu að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Annars fór ég út að hlaupa í morgun, og hljóp minn mílulanga hring. Njarðargata - Sóleyjargata - Fríkirkjuvegur - Skálholtsstígur - Freyjugata. Hljóp það á 8.46 í þetta skiptið, en takmarkið er að ná því niður í 7.00 Ég hef alltaf verið frekar latur við að hlaupa og lélegur í því. Svo þegar ég kom inn og fékk mér morgunmat kveikti ég á sjónvarpinu, aldrei þessu vant, og sá Gunnar í Krossinum í Íslandi í bítið að tala um hið væntanlega frumvarp um aukin réttindi samkynhneigðra. Hann vísaði þar í guðs orð eins og hann gerir yfirleitt og talaði um að eiginlega hvergi væru "siðmenntaðar þjóðir að láta börn upp í hendurnar á samkynhneigðum". Orðalag sem klárlega gefur til kynna að samkynhneigðir séu barnaníðingar. Þetta er svipað orðalag og að "láta vopn upp í hendurnar á hryðjuverkamönnum". Svo talaði hann eitthvað um að börn sem ælust upp hjá samkynhneigðum yrðu sjálf samkynhneigð og ónýt af því. Aðspurður um rökstuðning varð hann heldur hikandi og vandræðalegur, svaraði því ekki til að byrja með en sagði svo að fólk gæti bara farið á netið og kynnt sér málið þar, og vísaði hann þar sérstaklega í síðuna exodus.is Það var aldeilis traust vísindaleg heimild. Ekki nóg með að netið sé fullt af rugli og drasli, heldur vísaði hann sérstaklega á slíkt.
.
fimmtudagur, ágúst 18, 2005
miðvikudagur, ágúst 17, 2005
Blaðamenn eru skemmtilegir Eins og sjá má þegar þessi frétt er skoðuð nánar, þá er ekkert sem segir að það sé hönnun eða gerð iPod spilarans að kenna að fólk fær suð í eyrun. Og það eru ekki bara notendur þessara spilara sem fá suð í eyrun, ekki einu sinni bara notendur spilara almennt, heldur líka notendur háværra vinnutækja eins og borvéla o.fl. Fyrir utan það að þetta hefur verið vitað svo lengi sem elstu menn muna, of mikill hávaði er slæmur fyrir eyrun, og þar er miðað við ákveðin mörk mæld í desibelum. http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1153981 Samt er fréttin á þá leið að notendur iPod spilara eigi á hættu að fá suð í eyrun. Þetta er eitthvað svo mikill fíflagangur. Það er hellingur af svona rugli í fréttum á mbl.is Ef í ljós kæmi á morgun að neysla sjávarafurða væri áhættuaukandi fyrir myndun krabbameins gæti mbl.is birt frétt þess efnis að neysla sjávarafurða frá HB-Granda hf. væri krabbameinsvaldandi. Það væri svona svipað dæmi. Ástæðan fyrir því að ég nota samt alltaf mbl.is en ekki vísi er sú að vísir er svo ógeðslega þung síða og auglýsingarnar á henni eru ekki gerðar fyrir Firefox, þær blikka út um allt eins og ég veit ekki hvað. Svo er hún stundum bara frosin í dágóðan tíma áður en nokkuð gerist.
mánudagur, ágúst 15, 2005
Á leikskóla er gaman, þar leika allir saman Á menntastofnunum fyrir ungbörn sem reknar eru af sveitarfélögum er gott að vera, þar vinna allir í sameiningu að því að hafa ofan af fyrir sjálfum sér, jafnt undir beru lofti sem og í haganlega smíðuðum híbýlum engum er meinuð þátttaka í því að stunda leirkerasmíði og málarlist. Æskilegt væri að það ljós rynni upp fyrir lesendum þessa texta, að á þeirri menntastofnun sem hér um ræðir er dugnaður hinn einkennandi þáttur í fari vistmanna.
Áhugavert orðtak "Þau stálu sviðsljósinu." Ef einhver stæli sviðsljósi í minni eigu myndi ég hiklaust krefja viðkomandi um afhendingu þess.
fimmtudagur, ágúst 11, 2005
Blaðið Í blaðinu í dag er grein eftir mig á leiðarasíðunni. Í gær hringdi blaðamaður í mig og spurði hvort hún mætti birta greinina sem ég skrifaði á Djöflaeyjuna í blaðinu. Ókei sagði ég og allt það en bað hana um að taka fram að þetta hefði verið skrifað fyrir þessa tilteknu netsíðu. Það gerði hún hins vegar ekki og þetta kemur út eins og einhver innsend grein eftir mig. Ég hef hins vegar aldrei sent grein inn í neitt blað að eigin frumkvæði og hefði frekar viljað að þetta væri með tilvísun í síðuna. Skil ekki af hverju er ekki hægt að taka það fram. Vinur minn Magnús Hann á fartölvu, eins og svo margir. En sína tölvu keypti hann í hinum fjarlægu deildum heimsins, ellegar Asíu. Með tölvunni var honum selt lítið hvítt fyrirbæri sem asískur sölumaður sagði honum að væri straumbreytir. Þetta litla tæki var honum ráðlagt að nota ætíð með tölvunni, enda rétti það af allan óæskilegan straum sem berist úr veggjum húsa. Framandlegri kló tölvunnar er því stundið í samsvarandi framandlega rauf straumbreytisins. En kló straumbreytisins er einnig framandleg. Ekki er hægt að stinga henni í veggi hér á Íslandi. Því hefur Magnús tekið það til bragðs að stinga straumbreytinum í nokkurs konar millistykki. Þetta millistykki er vafið límbandi á alla kanta, en mér skilst að Magnús hafi framkvæmt aðgerð á því, eða eitthvað slíkt, ég er samt ekki alveg viss á því af hverju hann er með það teipað. Nú svo er þessu millistykki semsagt stungið í annað millistykki (athugið að engar eru snúrurnar, þetta er allt einn samhangandi pakki) og því millistykki er svo stungið í vegginn. Magnús neitar að fjarlægja þennan framandlega straumbreyti sem lítur þó afar ótraustvekjandi út, enda sagði maðurinn í austurálfu honum að nota hann ætíð. Enda aldrei að vita hvers konar andskotastraumur kemur úr veggjum. Það eina sem vantar er brunalykt, reykur og fljúgandi neistar.
mánudagur, ágúst 08, 2005
Ég mun nú raðblogga. Fréttablaðið Dálkurinn stuð milli stríða hefur verið afar einsleitur undanfarið. Allir virðast hafa farið í útilegu um verslunarmannahelgina. Í dag er það Oddur Ástráðsson blaðamaður sem segir frá því hvernig það er ekki hægt að tjalda tjaldinu sínu almennilega og tjaldstæðaklósettin eru ógeðsleg. Hvað ætli verði skrifað um verslunarmannahelgina í marga daga í viðbót í þessum dálki? Svo er þarna dálkur sem heitir Reykjavíkurnætur. Hann finnst mér skrýtinn. Er þetta svona Carrie Bradshaw pæling? Hún er ung og falleg, af myndinni að dæma, og fer á djammið. Svo innihalda pistlarnir orð eins og "gæjinn" og "hössla". Ég hef aldrei lesið hann í gegn. Fréttablaðið er annars bara alveg ok fyrir mér. Hreingerning ...fór fram í gær á Freyjugötunni. Hún var smávægileg en effektíf. Það er svo merkilegt hvað maður er fljótur að gera mikið í svona litlu húsið. Það er hægt að ryksuga allt húsið á 10 mínútum til dæmis. Í gær var neðri hæðin ryksuguð, klósett og vaskur og baðherbergisskápar þrifin, þurrkað af úr öllum gluggum og gluggasillum, auk sjónvarps og sjónvarpsborðs og einhverra fleiri hluta. Svo var dúkurinn á matarborðinu þveginn og straujaður. Og auðvitað var vaskað upp, eins og alla daga. Nú fyrst er ég orðinn leiðinlegur bloggari. Nú fyrst. Ég væri mikið til í að sjá... Kristján Kastljóssmann taka viðtal við erlent stórmenni, eins og hann gerir stundum, og borða heilgrillaðan Nóatúnskjúkling með berum höndum á meðan á viðtalinu stæði. Sjá hann snúa lærinu til að losa það úr liðnum og rífa það svo af. Varpa fram einni spurningu um tilhneigingu viðmælandans til existensíalisma í skrifum sínum og sjúga um leið stífnaða fitu og safa af baki fuglsins. Sleikja svo á sér puttana einn í einu og halla sér aftur í gráa kastljósstólinn og dæsa, segjandi "mmmm", "mmmm", með fingurbrodd þumalsins nemandi við eyrnasnepilinn og löngutöng á gagnauganu en litla og baugfingur bogna, með ytra byrði annarrar kjúku nemandi við kinn og munnvik. Eins og hann gerir svo gjarnan. Hann gæti til dæmis haft brúnan hitapoka af riffluðum frönskum kartöflum í kjöltunni og maulað á þeim á meðan. Segjandi "mmmm".