Jájá Skil ég þetta semsagt rétt: Lögreglan handtekur tvo stráka sem eru undir lögaldri fyrir að vera með ólögleg vímuefni í bílnum hjá sér og setur á þá svona bönd. Þeir verða pínulítið rauðir á úlnliðunum eftir böndin, þau eru tekin af. Lögreglan viðurkennir að þau hafi verið sett heldur þröngt á. Þeim er sleppt. Sá sem skrifar greinina veit ekki hvort þeir rifu kjaft eða hvernig þeir létu við handtökuna, en það skiptir ekki máli, enda stundar annar þeirra sennilega vinnuna sína sæmilega. Niðurstaða: Lögreglumenn eru barnaníðingar. Auðvitað er gott að vera á varðbergi gagnvart því að lögreglan haldi sig á mottunni gagnvart almenningi, en þetta er nú frekar innantómt. Ég fæ verri áverka eftir gamnislag við bróður minn, en aaahh hann hefur reyndar verið í lögreglunni þannig að... Höfundurinn segist hafa kynnt sér undirheimana í Reykjavík, og hvað færir hann okkur? Jú, rauð för.
.
mánudagur, júlí 25, 2005
Laugarvatn Um helgina fór ég á Laugarvatn ásamt Unu Sighvatsdóttur, stúlku sem ég þekki. Á laugardeginum fórum við í sund. Hitinn var slíkur að maður fór í laugina til að kæla sig þegar ekki varð lengur þolað við á sólbekkjunum. Birtan var líka svo ægileg að það var ekki nóg að loka augunum. Handleggurinn varð að vera yfir þeim líka. Svo var haldið til í sumarbústað í Lækjarhvammi, þar sötrað rauðvín en seinna eitthvað sterkara í boði Daða og Huldu. Í gær var dálítill vindur en hitinn þó mjög mikill. Við fóru að Laugarvatni og lögðumst þar til sunds. Vatnið var þægilega svalt, maður þurfti bara smá stund til að venjast því og þá varð það þægilegt. Þar svömluðum við um lengi vel og flatmöguðum á brimbrettum, svo var farið í heitan pott og því næst tekið teningaspil í sólinni. Mér var nefnilega kennt svo ágætt teningaspil. Það kallast 10.000. Þegar reglurnar eru útskýrðar hljómar leikurinn eins og eitt hrúgald af leiðindum en það er hann ekki, sérstaklega ekki ef áfengi er haft um hönd. Reglurnar eru svona: Leikurinn gengur út á að safna 10.000 stigum, en 6 teningar eru notaðir. Hver leikmaður kastar teningunum þangað til hann fær engin stig, eða þar til hann ákveður að hætta. Fái leikmaður engin stig í einu kasti missir hann öll stigin sem hann hafði safnað í þeirri umferð. Áhættutaka er því hluti af leiknum. Eftir hvert kast verður að taka einhvern tening, einn eða fleiri, frá og safna þeim stigum sem hann gefur. Fáist stig á alla teningana getur kastarinn haldið áfram, og fær hann þá alla 6 teningana aftur. Dæmi: 1. kast: Einn ás er tekinn frá = 100 stig 2. kast: Þrír þristar eru teknir frá = 100 + 300 = 400 stig. 3. kast: Ás og fimma koma upp, gefa bæði stig = 400 + 100 + 50 = 550 stig. Leikmaðurinn hefur þá klárað teningana án þess að fá núll, og fær því alla teningana aftur og getur haldið áfram. Ás gefur 100 stig. Fimma gefur 50 stig. Þær tölur einar má hirða stakar, þ.e. einn ás eða eina fimmu. Aðrar tölur gefa ekki stig nema þær komi í pörum eða þrennum eða í röð. Þrír ásar gefa 1000 stig, en aðrar þrennur gefa tala*100. Þ.e. þrír tvistar gefa 200, þrír þristar gefa 300 o.s.frv. Þá má hirða þá teninga sem gáfu þrennuna. Hver teningur sem bætist við þrennu virkar þannig að hann tvöfaldar upphæðina sem þrennan gaf. T.d. gefa þá fjórir þristar 600 stig. Því þristaþrennan gefur 300 og það bætist einn við 300*2 =600. Fjórar fimmu gefa því 1000 stig. Sama regla gildir um tening sem bætist við fernu. Hann tvöfaldar fernuna. Fimm þristar gefa því 1200 stig, og fimm fimmur gefa 2000 stig. Hæsta kast sem er mögulegt eru því sex ásar, en þeir gefa 8000 stig. Röð gefur 1500 stig, en það verður að vera sex teninga röð 1-2-3-4-5-6. Þrjár tvennur gefa einnig 1500 stig og skiptir þá ekki máli hvaða tvennur það eru. Athugið að hagstætt getur verið að telja fjóra tvista sem tvær tvennur til að fá 1500 stig fyrir þrjár tvennur, enda gefa fjórir tvistar einungis 400 stig. Einn leikmaður er skrifari og leggur saman stigin, með blað og blýant að vopni. Þegar einhver kemst í 10.000 stig eða meira þýðir það að sú umferð sem er í gangi er sú síðasta. Hún er kláruð og sá sem kemst hæst yfir 10.000 stig vinnur leikinn. Hinn stórfenglegi teningaleikur 10.000 kemur að góðum notum þegar önnur spil eru ekki í boði, og hann er hægt að spila hvar sem er, á borði, handklæði eða bara í grasinu.
miðvikudagur, júlí 20, 2005
Úthverfapakk gerist miðbæjarrotta Já nú er ég fluttur á Freyjugötu og líkar það vel. En ég tek eftir því að ég þarf að venjast ýmsum nýjum eiginleikum sem þessari búsetu fylgja. Þar má nefna nálægðina við nágrannana, hvernig þeirra gluggar eru örlítið hærra uppi og í örfárra metra fjarlægð frá okkar gluggum, (reyndar vantar okkur ennþá gluggatjöld) og hvernig okkar lóð er bara smá renningur í kringum húsið og ekkert afmörkuð frá þeirra. Svo er það líka þannig að ef ég fer út að hlaupa þá er ekki mói fyrir ofan húsið með hestavegi sem liggur framhjá golfvelli og að stöðuvatni, heldur hús og götur og fólk. Alls staðar hús og götur og fólk...og kettir. Það er auðvitað fyrst og fremst kötturinn sem skítur alltaf í portið okkar og hefur nú safnað þar upp þvílíku magni af úrgangi að fnykurinn þykir eigi kræsilegur. Hann kom fyrst á staðinn, en engu að síður mun ég hrekja hann burt úr portinu við hvert tækifæri. En auðvitað vega kostirnir þyngra á metunum. Það er stutt í allt. Bensínkostnaður mun hrapa, leigubílakostnaður mun hrapa, umhverfishljóð eru lítil en yfirleitt bara þægileg, ég heyri í kirkjuklukkum þó að slökkt sé á útvarpinu og börn að leik láta heyra í sér af og til. Hér eru risastór og flott tré og í nágrenninu búa nokkrir vinir mínir. Nú og ef einhver vill hjálpa mér að flytja stóra og þunga mahóníbókahillu í kvöld þá má sá bara hringja í mig. Konráð Jónsson, bankastarfsmaður. Er það bara ég eða er Konráð búinn að ná sér í kvenmann sem heitir Margrét? Eða er hann að fara að gefa móður Margrétar Maack afmælisgjöf?
mánudagur, júlí 11, 2005
Kókaínmaðurinn ...er varhugaverður. Ég hitti hann á Ólíver um síðustu helgi. Ólíver er nýi staðurinn þar sem Kaffi list var áður til húsa. Þetta er greinilega heitasti staðurinn í dag. Allir voru þarna inni, en liðið þó heldur í eldri kantinum fyrir minn smekk. Mikið þrítugt lið held ég. Kókaínmaðurinn bauð félaga mínum pillu og vildi setja efni í glasið hjá mér. Ekki þótti mér það sniðugt og hélt ég því á aðra staði í miðborginni. Hann vildi bjóða mér upp á drykk, en ég hellti drykknum í öskubakka og þakkaði svo fyrir mig. Miðbærinn er syndabæli mikið og margt er þar sem glepur menn. Ekki þýðir að blanda geði við hvern sem er.