#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Pirringur 1. Þegar eitthvað pakk kemur á hlöðuna sem hefur ekki verið þar alla önnina og tekur alla góðu stólana, þannig að ég þarf að sitja í svona óþolandi litlum draslstól. 2. Þegar fyrirtæki setja smátt letur og skilmála út um allt sem flækja allt rosalega mikið, í þeirri von að neytendur nýti sér ekki fríðindi sem fyrirtækin hafa lofað þeim. 3. Þegar ég get ekki vaknað á morgnana, alveg sama hvað. Get ekki vaknað.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Lon og don í London Um árið fór ég til Lundúna með Þorvarði Atla Þórssyni, Magnúsi Davíð Norðdahl og Hlín Finnsdóttur. Mér fannst það gaman. Því hef ég ákveðið að ég þurfi að fara aftur þangað. Í þetta skipti ætla ég þó ekki með þeim heldur með Unu Sighvatsdóttur. Ætli reisan eigi sér ekki stað í janúar eða febrúar. Það er óvíst enn sem komið er. Þetta má þakka ferðaávísunum mastercard sem gera mér nú kleift að fara fram og til baka mér að kostnaðarlausu. Svo er bara að finna ódýrt hótel og reyna að finna sér eitthvað að gera. Jújú, leikhús. Jújú, út að borða. Og svo eitthvað af því sem ég sá ekki síðast. Ég fór t.d. ekki á Maddömu Tússóts safnið þarna. Ég ætla ekki að þykjast vera meiri heimborgari en ég er. Ég þarf ekkert rosalega frumlegt eða öðruvísi en allir aðrir gera í London. Auðvitað fer maður á þessa helstu túristastaði ef maður getur. Þeir eru helstu túristastaðirnir vegna þess að þar er eitthvað merkilegt eða skemmtilegt að sjá. Síðast fór ég í lítið en flott leikhús nálægt Leicester Square, Windsor theatre. Sá þar leikritið "Frænka og ég". Það var ansi fyndið og skemmtilegt leikrit, en í því voru aðeins tveir leikendur. Ungur maður og gömul kona. Ungi maðurinn fékk bréf frá gamalli frænku sem sagðist vera að deyja, og vildi fá hann í heimsókn. Hann fer á staðinn og endar með því að búa hjá þeirri gömlu þar til hún deyr. Hann á þar í fremur stormasömu sambandi við hana. Rétt áður en hún deyr kemur þó í ljós að hún er ekki frænka hans, heldur bankaði hann upp á hjá rangri konu. Aðspurð um af hverju hún léti hann ekki vita af misskilningnum sagði hún: "I liked the company." Ágætt leikrit þó ég muni ekki allt úr því. Í þinghúsinu fannst mér mjög skemmtilegt að koma, sat þar inni á einhverjum nefndarfundi eða einhvers konar fyrirspurnartíma held ég, í The House of Commons. Kíkti svo líka inn í House of Lords og sá þar allmikið af gulli og allnokkra gamla karlskarfa sem dottuðu yfir umræðum um heimsmálin. Þetta verður skemmtilegt. Gaman að komast til útlanda.

laugardagur, nóvember 27, 2004

Brandarar Ég held ég hafi skrifað um þetta áður og reynt að semja brandara... er samt ekki viss. Þetta eru furðuleg fyrirbæri, brandarar. Einhvern veginn dúkka þeir af og til upp og ganga á milli manna. Svo gleymast þeir og hverfa. En aldrei nokkurn tíma hittir maður mann sem segir: Blessaður, viltu heyra nýja brandarann sem ég var að semja? Menn semja ekki brandara, þeir bara kunna þá. Heyra þá í vinnunni eða útundan sér í strætó. Svo eru líka fæstir þeirra eitthvað raunverulega fyndnir. Flestir eru þeir svona HE-HE brandarar sem hægt er að hlæja að ef maður er í afar góðu skapi. Jæja, nú mun ég semja brandara sem er svona týpískur lélegur brandari sem maður heyrir og er ekkert fyndinn. Hafiði heyrt um það hvernig Jósep Stalín dó í raunveruleikanum? Einu sinni á góðum degi var Stalín að fljúga í einkarellunni sinni fyrir utan Moskvu. Hann var að æfa sig í að fara í lykkjur og gera ýmsar kúnstir, enda að undirbúa sig fyrir flugmannspróf. Þar sem hann er að klifra upp í loftið þá drepur vélin á sér og byrjar að hrapa til jarðar. Hann hefur samband við flugturninn, til þess að fá leiðbeiningar frá kennaranum sínum um hvernig best væri að afstýra slysi. Hann hrópar í skelfingu [á ensku að sjálfsögðu, innsk. höf.] "Help me! Help me! I'm stallin' all the time! I don't want to be stallin' all the time. I just wanna get this airplane on the ground! Help me! I wish I wasn't stallin'!" Og flugturninn svaraði: "Yes sir, I know your Stalin. And I think that's great. I wish i was Stalin " Nei annars. Þessi brandari varð á endanum alveg ótrúlega lélegur. Næstum því svo lélegur að hann sé skemmtilegur, en samt ekki.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Skáldskapur Það er nú svo að ég hef bloggað í alllangan tíma, en þó hef ég aldrei skáldað neitt á þetta blogg. Jú, einhvern tíma birti ég einhverja vísu hérna sem ég tjaslaði saman. Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar ég rekst á blogg þar sem einhver hefur í snatri og af skynsamlegu viti hrist út úr erminni örstutta smásögu. Það er aldrei að vita nema maður taki upp á þessu einhvern daginn.

Hanah! Svei! Sveiðér skarn! ZzZzZzZzzzz.... Jæja, gott og vel. Gefum okkur að maður A eigi kunningja, mann B. Maður A er venjulegur einstaklingur sem fer til vinnu á hverjum morgni og er almennt til friðs í samskiptum við annað fólk. Maður B hins vegar er maður háður eðlishvötum sínum. Hann getur ekki hamið sig. Hann kann sér ekki magamál, hann er húðlatur, en jafnframt eigingjarn, heimtufrekur og ofbeldisfullur. Jafnvel morðóður. Þar að auki er hann kafloðinn og með óhreinan rass, án þess að það komi þessu nákvæmlega við. Þá er það spurningin. Er það ráðlegt af manni A að leyfa manni B að sofa uppí hjá sér og konunni sinni að nóttu til (ekkert ménage a troix, bara svefn sko)? Nei, sennilega er það ekki gáfulegt. Og því spyr ég ykkur, er einhver munur á þessu og því að leyfa ketti að sofa upp í hjá sér? Nei, sennilega ekki. Þannig er nú með mig að ég hef aldrei átt gæludýr. Þess vegna vil ég af og til vera góður við köttinn sem ég er að passa (hann er líka svo mikill ræfill, ofdekraður aumingi) og leyfi honum að príla upp í. Hann lætur sem honum líði voðalega vel, malar í sífellu og hjúfrar sig upp að mér. En þegar ég sofna, þá fer hann að sýna sitt innra fress. Í myrkrinu situr hann og horfir á mann. Hann hugleiðir hvernig það væri (ef það væri ekki búið að bæði gelda hann og klippa af honum klærnar, semsagt svipta hann öllu því sem raunverulega gerir hann að fressketti) að rífa þessa óþolandi mannveru upp, skera á kviðinn þveran og endilangan, dýfa nefinu ofan í góðgætið og taka vænan bita úr lifrinni. Hann veltir því fyrir sér hversu lengi mannveran geti lifað eftir að hann dreypir úr henni tveimur lítrum af blóði. Ætli hún reyni að sleppa, og hann geti leikið sér að henni eins og mús? Ég vakna svo iðulega upp við það á endanum að kattarskarnið er farið að klóra mig í hálsinn og axlirnar. Þegar ég er sofandi/hálfsofandi þá er ég ekki maður mikilla úrræða. Það eru engar lausnir til í mínum huga, bara vandamál. Ég hugsa: "Ah, köttur. Hann klórar mig. Bölvuð vandræði. Bölvuð vandræði, hann klórar mig, þessi köttur." En hugsunin nær ekkert lengra. Ég man að í nótt var ég að reyna að (í staðinn fyrir að standa bara upp og henda ófétinu út úr herberginu og loka svo) halda loppunum á honum kyrrum, setja þær undir kodda, ýta honum frá mér o.s.frv. Allt mjög svo aumkunarverðar tilraunir til þess að stöðva mannát(shugleiðingar) hans. Nokkrum sinnum hef ég ýtt of fast við honum, svo hann hefur flogið fram úr og niður á gólf. Þá kemur hann bara aftur upp í og heldur áfram að myrða mig. Á kvöldin er hann svo alltaf orðinn svo óskaplega einmana og leiður að sjá, þar sem hann kúrir sig hjá manni upp í sófa, svo undurblítt. Auðvitað gleymir maður sorgum og hörmungum undanfarinna nátta. Hann fær að sofa upp í. Auðvitað. Ég er haldinn sjálfseyðingarhvöt.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Er tanndráttur betri en enginn dráttur? Það gekk ágætlega að rífa þennan jaxl úr mér. Aðgerðin tók ekki nema svona 20 mínútur og það þurfti engar stórvirkar vinnuvélar til. Ég fékk að sjálfsögðu að eiga jaxlinn. Mér þykir þetta stórmerkilegt að þessi risaklumpur hafi komið upp úr tannholdinu, en það var bara rétt aðeins farið að grilla í hann. Hann gægðist aðeins upp úr. Ræturnar á honum eru beygðar inn á við, þannig að hann fer í rauninni bara niður í spíss. Tvær rætur eru stórar en tvær eru litlar, önnur bara dvergvaxin en hin eiginlega samvaxin annarri af þeim stóru. Saumarnir fara úr á mánudag. Samúðarfullir geta sent mér skeyti í Bakkahjalla 2, Kópavogi. Eða hringt í mig í síma 8615656 til að votta mér samúð sína.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Líkamsrækt II "uh-oh, tengist þessi færsla eitthvað því að ég sagði í fyrradag að mér fyndist gaurar asnalegir sem lyfta miklu meira en þeir eru augljóslega færir um, bara til að ná einhverri tölu? hef séð svona gaura í ræktinni, þeir lyfta einu sinni eða tvisvar einhverri ofurþyngd á svona tækjum bara til að geta sagt vinum sínum hvað þeir geta lyft. þá snýst líkamsrækt ekki um heilbrigði eða gott líkamsástand heldur um karlmennsku. en eins og þú segir í færslunni líta margir á líkamsrækt sem áhugamál, ekki betrunarleið í sjálfu sér." - Björn Flóki í umræðum við færsluna Líkamsræktarbjánar. Í fyrsta lagi vil ég minnast orða sem Björn sagði um daginn, þegar hann var að byrja að stunda líkamsrækt: "I wanna look good naked." Upphaflega lýsti hann því yfir að hann vildi stunda líkamsrækt fyrst og fremst til að líta betur út. Semsagt líkamsrækt sem snerist um útlit en ekki heilbrigði eða gott líkamsástand. Það má líkja því við að fara í sílikonaðgerð á maganum til að vera með flottari maga, hvað varðar tilganginn. Svo breytti Björn þessu og segist núna sækjast eftir almennri vellíðan og góðu formi. Gott og vel. Höfum svo í huga að í fyrri færslunni var ég að tala um það þegar fólk tjáir sig um líkamsrækt annarra á staðnum þegar hún er framkvæmd, án þess að hafa stöðu eða umboð til þess. Hér er það ekki uppi á teningnum. Björn fyrirlítur þá sem lyfta þungu og hafa áhuga á þeim fjölda kílóa sem þeir geta lyft. Hann ásakar þá um að vera hégómlegir og að þeir stundi ekki líkamsrækt til þess að komast í gott líkamsástand, heldur bara til að vera meiri karlmenni. Auðvitað á Björn að gera eins og honum finnst skemmtilegast og best þegar hann æfir sig. Það eiga hinir líka að gera. Það að fylgjast með því hversu mörgum kílóum maður getur lyft er einfaldlega eini almennilegi mælikvarðinn sem hægt er að hafa á það hvort maður er að ná aukningu í líkamlegri getu. Ef þú ferð í jafnmikla þyngd og þú getur þá er öruggt að þú hefur fullreynt sprengikraftinn í viðkomandi vöðvum. Bjössi er kannski ekki að leitast neitt eftir því að auka sprengikraftinn, og það er bara allt í lagi. Kannski er hann bara í fitubrennslu eða vill bara líða vel í kroppnum. En það er alveg klárt mál að ef maður sem reynir að lyfta 100 kg í bekkpressu og getur það ekki, en tekst það vikunni þar á eftir hefur náð árangri á þessari viku sem leið á milli. Ef Björn heldur enga skrá yfir það hvað hann gerir mörg sett, gerir margar endurtekningar eða notar miklar þyngdir þá hefur hann engan hlutlægan mælikvarða á það hvort hann er að ná árangri. Eins og mér hefur nú fundist það leiðinlegt til lengdar að fara í svona stöðvar (og hef ekki gert það lengi) þá var það samt alltaf skemmtilegast þegar manni gekk vel og maður náði að gera eitthvað sem maður ekki gat áður. Maður fær ekki þá ánægju ef maður hefur ekki hugmynd um hvort þetta gengur eitthvað eða ekki. Svo er það sennilega málið með þessa hégómlegu vöðvakalla sem Björn er að tala um að þeir hafa sett sér markmið fyrir æfinguna og reyna svo að ná einhverju sem þeir hafa ekki náð áður. Það tekst ekki alltaf og þá enda þeir á því að reyna eitthvað sem þeir geta ekki. Það er t.d. ekki asnalegra en þegar hlaupari fer út að hlaupa og setur sér það markmið að ná að hlaupa upp einhverja ákveðna brekku. Þegar til kastanna kemur getur hann það ekki og snýr við. Er hann þá bara asnalegur, og reyndi bara að hlaupa upp brekkuna til þess að geta sagt við vini sína að hann hefði hlaupið upp hana? Nei, hann var bara að reyna sjálfan sig til hins ýtrasta. Ég sé ekki tilganginn í því að mæta í ræktina 4 sinnum í viku og gera bara eitthvað, svona eins og maður nennir, og halda enga skrá yfir það hvað maður gerir, og auka aldrei við prógrammið þegar það er orðið of létt. Það er bara sóun á peningum og tíma. En það er bara mitt mat. Björn hefur kannski bara gaman af því að gera þetta þannig og þá er það allt í lagi. Ekki dytti mér í hug að fara að reyna að breyta því hjá honum. Hann gerir bara það sem honum finnst best.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Líkamsræktarbjánar Neinei, ekki fólkið sem fer í líkamsrækstarstöðvar almennt. Það eru ekki líkamsræktarbjánarnir, heldur gaurarnir sem eru alltaf að bjóða sjálfan sig fram (án þess að vera starfsmenn, og óumbeðið að sjálfsögðu) til þess að kenna öðrum hvernig þeir eiga að stunda líkamsrækt. Til þess að forðast svona fífl er gott að vera bara ekkert í þessum líkamsræktarstöðvum eða að æfa á fáförnum stað eða tíma. Stundum eru þeir að þessu bara til þess að geta gefið sig á tal við kvenfólk. Ætli það séu ekki glötuðustu týpurnar, en jafnframt minnst pirrandi. Þetta álit mitt stafar af því að ég er ekki stak í menginu kvenfólk og er þess vegna látinn í friði af þeim. Una mun þó væntanlega segja sögu af einum slíkum á blogginu sínu á næstunni. Ég get svo sem gefið ykkur forsmekkinn: Þetta er svona týpa sem vill fá að stýra höndunum á kvenfólki þegar það gerir æfingar, halda um mittið á þeim og segja "Úúúúúú, jááááá finndu spennunaaaa! Taktu á því elskan! Jáááá, úúúú!" Svo eru það þessir sem eru sjálfskipaðir sérfræðingar í líkamsrækt og telja að allir í kringum sig séu að nota rangt prógramm og gera allt rangt, vegna þess að það er ekki gert nákvæmlega eins og þeir sjálfir aðhafast. Svona lið er óþolandi og kemur yfirleitt með eitthvað bévítans kjaftæði um að þetta sé betra en hitt og að þetta og hitt sé slæmt og annað gott. Sumt af því sem þeir segja skiptir engu máli, annað er öfgakennt o.s.frv. Það er bara þannig með svona líkamsræktarstöðvaþjálfun (að sitja í einhverjum weider tækjum og gera æfingar fyrir einangraða vöðvahópa) að maður getur lesið sér til hvað sem maður vill, það fer bara eftir því hvar maður leitar. Það er hægt að fá mismunandi álit og skoðanir á öllum æfingunum. Á endanum er það bara manns sjálfs að ákveða hvað manni finnst best að gera, að uppfylltum einhverjum grunnskilyrðum eins og að maður setji ekki mikla þyngd á bogið bak eitthvað svona basic stöff. Líkamsrækt sem áhugamál er engin déskotans fræðigrein. Þannig að ég segi við ykkur, ef þið farið í ræktina og eitthvað fífl kemur upp að ykkur sem ekki vinnur á staðnum og fer að segja ykkur til...ekki taka mark á því sem viðkomandi segir og reynið að losa ykkur við hann hið fyrsta.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Besta bloggsíða á Íslandi? http://www.kalli.blogspot.com

mánudagur, nóvember 08, 2004

Endajaxlinn fýkur Ég droppaði inn hjá tannlækninum mínum áðan. Mig hefur verkjað í endajaxlinn hægra megin í neðri góm núna í nokkra daga. Hann tók röntgenmynd. Hann skakaði í aumt tannholdið með litla speglinum sínum. Svo kvað hann upp úrskurðinn: Það þarf að taka jaxlinn. Það var og. Hann verður tekinn á miðvikudaginn í næstu viku. Eftir það mun ég líta út eins og hamstur. Mér dettur í hug textabrot, enda hlakka ég ekki til þess að láta ryðja í mér tanngarðinn: Í æsku minni var ég meinhorn og fól hún sá margt ljótt til mín, móðirin sem mig ól. Hvolpana okkar ég í súpu sauð og gullfiskunum ég smurð'oná brauð og kattarskarnið ljúfa skar ég á háls. Þá tók hún mútter til máls. (Hvað sagð'ún þá?) Hún sagði góðan veðurdag. Þú velur fag, þú velur það sem þér verður í hag: Þú verður tannlæknir. ...Já mér er ekki vel við þessa stöðu sem komin er upp. Ég ber blendnar tilfinningar í garð tannlæknisins og þessi góði texti lýsir hugarástandi mínu áfram nokkuð vel: Sjáð'ann and'að sér gaaasi, oj bara. Þetta er tannlæknir og ekkert nema bölvað ódóm. Hver hleypir sadist'upp í kjaftinn á sér? Æ'der sárt. Ég finn til! En þetta fer vonandi allt vel á endanum. Ég segi A, ég segi A, ég segi AAAAAA og svo spýti ég.

Bush eftir kosningar Mér datt í hug að nefna eitt ómerkilegt varðandi Bush. Ein fréttin eftir kosningar sagði frá því að Bush ætlaði að ávinna sér traust allra kjósenda, ekki bara þeirra sem kusu hann. Hann ætlar að verða sá sameiningarleiðtogi sem hann ætlaði að verða áður en árásirnar á tvíburaturnana voru gerðar. Gott og vel. En á sama tíma og þessi frétt var á öllum helstu net- og pappírsmiðlum voru höfð eftir honum önnur ummæli. Þar sagðist hann ætla að eyða "pólitískri inneign" sinni á þessu kjörtímabili. Kannski fór þetta bara svona skringilega í einhverri þýðingu, ég nennti ekki að kynna mér það nánar, en þessar yfirlýsingar virðast illsamræmanlegar. Olíusamráð Nú er það svo að nýlega er búið að skipta um eigendur að olíufélögunum að miklu leyti. Það má því segja að hinir nýju eigendur lendi í svaðinu bæði vegna greiðslna sem ríkisvaldið mun væntanlega þvinga þá til að greiða af hendi, og vegna viðbragða almennings sem nú leitar í auknum mæli til Atlantsolíu (aðrir ætla bara að kaupa bensín, ekki aðrar vörur hjá stóru félögunum). Einhverjir gætu sagt að það sé óviðeigandi að bregðast við með þessum hætti, í fyrsta lagi vegna þess að ekki eru öll kurl komin til grafar í málinu og hins vegar vegna þessara eigendamála. Ekki hengja bakara fyrir smið. En það ber að verðlauna Atlantsolíu fyrir að koma inn á markaðinn sem einskonar bjargvættur, þó svo það hafi ekki verið fyrr en eftir að húsleitin var gerð hjá olíufélögunum. Atlantsolía byrjaði 2002 en húsleitin var gerð 2001. Neytendur hljóta að vilja hjálpa því fyrirtæki sem kom inn á spilltan markað til að stunda rekstur í samkeppni. Nýir eigendur að hinum félögunum verða að bíta í það súra epli býst ég við... En þessi fyrirtæki eru þrátt fyrir allt með þessa stöðu sem raun ber vitni, bensínstöðvar út um allt í alfaraleið, þau geta vel tekið við svona höggi fyrst um sinn eftir þetta mál og ég sé bara ekkert athugavert við að þau geri það. Annars eru neytendur eiginlega að senda út þau skilaboð að þeir viti ekkert hvað er að gerast í kringum þá og að það skipti þá engu sérstöku máli þó svo að svindlað sé á þeim. Ég fer að verða bensínlaus, ætli ég fari ekki og kaupi bensín hjá Atlantsolíu í Kópavogi á morgun, þó svo ég gæti rennt fyrirhafnarlaust inn á Shell í Öskjuhlíðinni.