Jæja Hvað segir fólkið? Aftur komin helgi? Þetta var nú slappasta vikan það sem af er önninni hjá mér. Sjaldan hefur gengið jafnhægt að læra og jafnilla. Það er ekkert hægt að gera í því núna. Best að fara bara í vísindaferð.
.
föstudagur, október 29, 2004
sunnudagur, október 24, 2004
Ofbeldið í hávegum haft Jájá, sumt fólk er mjög upptekið og hrifið af ofbeldi og beitingu þess. Ég var að spjalla við mann á föstudaginn, en það samtal okkar endaði að sjálfsögðu á því að hann tók mig hálstaki og sneri upp á höndina á mér. Mér er ennþá illt í hálsinum. Þessum ofbeldismanni vil ég þakka kærlega fyrir. Það kom svo á daginn seinna að þetta var einhver lögga og gott ef ekki víkingasveitarmaður (hann var ekki í úníforminu þegar ég hitti hann). Ég tek það skýrt fram að ég gerði mig á engan hátt líklegan til að gera eitthvað svipað við hann eða veitast neitt að honum. Spurning hvort svona menn séu nokkuð aðeins og viljugir til að beita kröftunum. Ég set alltaf spurningarmerki við gáfnafar fólks sem er óeðlilega viljugt til að beita líkamlegu ofbeldi. ...en frá ofbeldinu og til Japan... Foreldrarnir komu frá Japan í morgun. Það má teljast nokkuð merkilegt að einmitt þegar þau gera sér ferð á hina hlið hnattarins þá gengur þar yfir fellibylur einn sá versti í árafjöld og daginn sem þau fara frá landinu ríður yfir jarðskjálfti upp á 6,8 á Richter.
miðvikudagur, október 20, 2004
Múrinn.is Pistill dagsins í dag er lélegur. ,,Ef Hulda færi nú einhvertímann á kaffihús með félögum sínum, sem ég efast nú ekki um að hún geri, þá áttaði hún sig á því að í hverjum vinahóp er oftast einn eða fleiri sem reykja. Til að skapa ekki ósætti er fallist á það að fara á það svæði eða kaffihús sem leyfa reykingar. Auk þess er það óþolandi að þurfa velja sér kaffihús eftir því hvort það sé reyklaust eður ei."
Hollywood kúrinn Hlustaði á snilling á Rás 2 í gær. Hann er að selja kúrinn, og átti að rökstyðja það að kúrinn væri góður og hollur. Hann sló um sig með ýmislegri sófaspeki um líffræði og næringarfræði. Þegar hann var beðinn um að vitna í heimildir eða styðja þessa vitneskju sína einhverjum uppsprettum fróðleiks þá svaraði hann alltaf um hæl: Þetta er í bókum, ýmsum bókum. Bókum sem gefnar hafa verið út, austurlenskum, og af fræðimönnum. Fjölmörgum bókum. Ég er að hugsa um að gera þetta næst þegar ég skrifa heimildaritgerð. Heimildaskráin verður þá svona: 1. Bækur. Rithöfundar. Ýmis menningarsvæði, borgir og lönd. Upphaf ritlistarinnar - 2004. Allmargar blaðsíður.
þriðjudagur, október 19, 2004
Ég minni á reykingaumræðuna hérna neðar, commentin streyma inn. Það er eitthvað við Mirjam. Já, þetta er þátturinn sem gengur út á að karlkona (shemale, chick with a dick usw.) er látin heilla karlmenn upp úr skónum, og þeir látnir keppa um hylli hennar. Að launum fær sigurvegarinn rómantíska siglingu með henni á snekkju og 10.000 pund. Þegar sigurvegarinn er tilkynntur afhjúpar karlkvendið bjúga sitt (með orðum) og sigurvegarinn þarf að velja um það hvort hann fer í siglinguna og fær peninginn, eða sleppir því. Þarna er því með öðrum orðum fyrst verið að blekkja karl til að vera með, kyssa og kela við annan karlmann, og svo verið að múta honum til þess að halda sambandinu áfram eftir að hið sanna hefur komið í ljós. Hlutlægur mælikvarði á gæði þáttarins: Hélt óskiptri athygli minni allan tímann og vakti upp hjá mér kröftugar tilfinningar svo sem spennu, skömm, fyrirlitningu, gleði o.fl. Huglægur mælikvarði: Allsjúkt viðfangsefni, bæði gagnvart karlinum sem keppir um hylli hennar, en einnig gagnvart kynblendingnum (ný notkun á því orði, e. genderblender?) sem þarf að afhjúpa eðli sitt fyrir framan alla keppendur sem þá bregðast við með hlátri og/eða reiði o.s.frv. Það kom fram í þættinum að "hún" byrjaði að taka hormóna 13 ára gömul og hefur því ekki tekið út karlkynseiginleika svo sem breikkun á herðum, stækkun vöðva og beina og allt það. Þetta lítur í raun út eins og tiltölulega myndarlegur kvenmaður, er með brjóst og mjaðmir og allt það, en karlkynskynfærin eru ennþá á sínum stað. Þetta er manneskja sem lifir sem kona og er alveg eins og kona (nema að þessu leyti) og vill eflaust vera kona. Býst ekki við því að henni líði mjög vel með þetta allt saman. Auðvitað er svo ekkert hægt að búast við því að grey karlinn hugsi sér sem svo að fyrst hann gat laðast að henni þegar hann hélt hana kvenkyns, þá geti hann það alveg líka þó svo hún sé með typpi og pung. Auðvitað getur hann brugðist við á þann hátt að hætta við allt saman og taka allar tilfinningarnar til baka. Það myndi ég gera. Rosalegur þáttur.
Furðulegheit að morgni dags Bróðir minn og mágkona komu heim frá BNA í morgun. Þess vegna þurfti ég að vakna klukkan 6 og andskotast til keflavíkur að sækja þau. Þegar ég kom út á bílaplan í morgun, þegar klukkan var eitthvað aðeins að ganga sjö, lenti ég í furðulegheitunum. Fólkið í húsinu á móti stóð þar allt úti á sínu bílaplani í snjógöllum og gerði ekki neitt. Þau bara stóðu þarna. Ég gekk að bílnum og opnaði hann. Þau horfðu á mig. Það var, eins og allir á suðvesturhorninu vita, virkilega ógeðslegt veður og skítakuldi í morgun. En þau stóðu og horfðu á mig. ,,Góðan daginn" sagði einn. ,,Góðan dag" sagði ég. ,,Greta og Palli bara farin til út?" sagði hann. ,,Já" sagði ég. Ég settist inn í bílinn. Það eru stórir steinar fyrir framan húsið þeirra og snjógallaklæddar verurnar hvíldu krosslagðar hendur sínar ofan á þeim og horfðu á mig. Vindurinn blés sem aldrei fyrr. Klukkan var 6:15. Ég endurtek lesandi góður: Klukkan var 6.15 og þau stóðu úti í hífandi roki og frosti í snjógöllum og gengu í hringi á bílaplaninu sínu. Voru þetta kannski ekki nágrannar mínir? Er búið að hreinsa allt út úr húsinu og selja það fyrir slikk á svörtu? Á ég að hafa áhyggjur af kettinum? Geggjun Í gær sá ég köttinn slefa. Hann slefaði meðal annars á mig og koddann minn. Það var, eins og Arnljótur skólabróðir minn orðaði það: Geggjað.
föstudagur, október 15, 2004
Reykingar Jæja, þá er best að ráðast á helminginn af fólkinu sem maður þekkir með leiðindum. Ég veit að það er kúl að reykja. Ég veit líka að það er ekki kúl að hafa í frammi áróður gegn reykingum. Verst af öllu er þó að fara á fyrirlestur sem skipulagður er af Þorgrími Þráinssyni, og fjallar um reykingar. Það gerði ég þó í dag og vil vekja athygli á einu einföldu atriði. Margt áhugavert kom fram í fyrirlestrinum sem ég nenni þó ekki að skrifa um hér. Fyrirlesarinn var bandaríski læknirinn Jeffrey Wigand. Um hann var gerð myndin The Insider, með Russell Crowe og Al Pacino og fleiri þekktum í aðalhlutverkum. Hann sagði þarna frá reynslu sinni af því að vinna innan tóbaksiðnaðarins, en hann var á sínum tíma ráðinn til British American Tobacco að ég held, til að þróa hættuminni sígarettur, Nú, hann vitnaði þar í yfirmann sinn sem sagði eitthvað á þá leið að þeir hjá fyrirtækinu væru aðallega að framleiða sígarettur fyrir börn, svertingja og heimskingja. Það má þá segja að þegar Íslendingar, sem hvorki eru svertingjar né börn, kaupa sér sígarettupakka séu þeir að gera menn í annarri heimsálfu ríka, og að þeir sömu menn álíti kaupandann vera fábjána og hlæji að fávisku hans. Auk þess er varan óheyrilega dýr, heilsuspillandi og algerlega gagnslaus. Það besta er náttúrulega að kaupandinn veit alveg að varan er óholl en kaupir hana samt. En menn verða auðvitað kúl... Þess vegna finnst mér svo skemmtilega furðulegt þegar menn eru að byrja að reykja um tvítugt. Ég skil það ekki alveg sko... Ég get vel skilið að fólk á gelgjuskeiðinu byrji að reykja því það er svo óöruggt með sig eitthvað og verði svo háð, eða að gamla fólkið reyki ennþá þar sem það byrjaði án þess að vita af hættunni.
fimmtudagur, október 14, 2004
Ísland - Svíþjóð Já ég fór á leikinn í gær, verandi eigi meiri fótboltaáhugamaður en raun ber vitni. Þar sem ég reiknaði með því að stuðningur áhorfenda við íslenska liðið yrði í minna lagi ákvað ég að taka Þorvarð Atla Þórsson með mér. Þorvarður er mikill áhugamaður um knattspyrnu, en á það til að vera helst til krítískur á leikmenn, dómara og þjálfara. Það má segja að hann leggi áhersluna á að gagnrýna það sem miður fer, frekar en að hrósa fyrir það sem vel tekst. Kannski kemur það bara þannig út vegna þess hvaða landslið það er sem spilar fyrir hans hönd. Hver veit. En Þorvarður náði að rífa með sér heila stúku í bauli á sænska markvörðinn í gær þegar hann kveinkaði sér eitthvað og skellti sér í flókna aðgerð við hliðarlínuna, á meðan aðrir leikmenn tóku eitt scrabble við íslenska markið. Aðgerðir Þorvarðar voru í stuttu máli: 1. Að rísa úr sæti sínu og baða út höndunum með vanþóknunarsvip. 2. Að baula hátt og í sífellu í 20 mínútur, ekki bara að vellinum heldur einnig að öðrum áhorfendum til að espa þá upp. 3. Að segja (ekki ósvipað og að svara í símann í hávaðasamri verksmiðju, og uppgötva að það er versti óvinur þinn sem er að hringja): HALLÓÓÓ! HALLÓÓÓ!!! ERTU EITTHVAÐ VANGEFINN EÐA?! DJÖFULSINS BJÁNI! Það er ekki fyrir viðkvæma að fara með Þorvarði á fótboltaleik þar sem áhorfendur sitja stjarfir og láta ekki heyra í sér, enda fer þá athyglin að beinast ískyggilega að Þorvarði. Hann stendur þá einn og öskrar úr sér lungun, án þess að blikna. Sem er auðvitað bara gott mál. Ef allir væru eins og Þorvarður hefðu brotist út óeirðir í gær, smá krydd í íslenska tilveru. Um íslenska liðið hef ég það að segja að Eiður var eini maðurinn sem var að gera eitthvað þarna í gær, og Hermann Hreiðarsson er holdgervingur liðsins í heild sinni. Svefnleysi Það er virkilega leiðinlegt að liggja í rúminu til fjögur eða hálffimm og festa ekki svefn. En það gerist af og til. Ég hefði átt að kveikja á því að horfa á kappræður forsetaframbjóðendanna í BNA, en það gerði ég ekki. Útlönd Bróðir minn og mágkona eru á Flórída. Faðir minn og móðir halda innan skamms til Japan. Föðursystir mín og maður hennar fara til Arizona á mánudaginn. Ég og Una flytjum þá í þeirra hús í Kópavogi til að passa það, og köttinn þeirra. Hann er hefðarköttur af persnesku kyni og er oft einfaldlega titlaður "prinsinn". Það verður áhugavert að sjá hvernig sú sambúð á eftir að ganga. Þar munum við búa í fimm vikur, og væntanlega hafa það gott.
mánudagur, október 11, 2004
Fjölbreytni Það er leiðinlegt hvað íslenskan býður upp á fáar staðlaðar gerðir af kveðjum og ávörpunum. Empírískar rannsóknir mínar á hegðun þeirra sem eru mótandi afl í samfélaginu, hvað menningu og stjórnmál varðar hafa leitt í ljós að svona er æskilegt að heilsa fólki, óháð því hversu vel þú þekkir það: 1. Blessaður kall. (Pota í magann á viðmælanda). Hvað segirðu kall? Ekki bara allt gott, kall? 2. Hæ krútti, flottar buxur. (Ef buxurnar eru gamlar) 3. Blessaður, hvað segirðu? Eru engar almennilegar tössör hérna? (Óháð fjölda kvenfólks á svæðinu)
fimmtudagur, október 07, 2004
Footballers wives Djöfulsins rusl. Horfði á þetta í gær, þar sem ég horfði á stöð 2 í fyrsta sinn í marga mánuði. Þetta var verra en nokkur sápuópera sem ég hef séð. Allir karakterarnir í þættinum voru í stórfenglegum vandræðu, hneykslismálum eða einhverju öðru rugli. Þetta var ömurlega leikið og ömurlega skrifað. Fólkið var ljótt og leiðinlegt og asnalegt. Mun aldrei horfa á þetta aftur. Forðist þetta eins og heitan eldinn! Annars er maður bara í góðu skapi sko...
þriðjudagur, október 05, 2004
Furðulegheit á netinu Ég var að skoða síðuna www.bushcheney.com rétt í þessu. Þegar inn á þá síðu var komið blasti við texti þar sem stóð: "As we get ready for the second debate, tell us how we are doing!" Fyrir neðan þennan texta var svo mynd, sem var um leið tengill. Þessi mynd var sett upp eins og skoðanakönnun með mynd og nafni George Bush annars vegar og John Kerry hins vegar. Svona eins og maður væri að taka þátt í skoðanakönnun með því að smella annað hvort á Kerry eða Bush. En þetta var allt ein mynd, og einn linkur. Þ.e. það skipti engu máli á hvað maður ýtti. Svo þegar ég ýtti að sjálfsögðu á myndina færðist ég yfir á aðra síðu þar sem mér var þakkað fyrir "my vote of confidence". Svo stóð: "We'll release the results of our nation wide poll at the end of the week." Svo var mér þakkað fyrir þátttökuna og bent á að mér stæði til boða ókeypis Bandaríkjafáni á annarri síðu. Ég fór auðvitað á þá síðu þar sem stóð að fáninn væri á besta mögulega verðinu, nefnilega ókeypis! Aðeins 5.99$. Nú er þessi síða ekkert þeirra opinbera síða eða neitt þannig, www.georgebush.com sér um það býst ég við. En það er bara svo sniðugt að sjá hvernig menn hugsa áróðurinn sinn, og setja hann upp...
mánudagur, október 04, 2004
Fáum okkur löggildingu Ég var að lesa áhugaverða frétt í sunnlenska fréttablaðinu. Þar stóð að Einkaleyfastofa hefði hafnað umsókn Mýrdalshrepps um löggildingu á skjaldarmerki fyrir hreppinn. Skjaldarmerkið var verk grafísks hönnuðar sem vann upphaflega haus á bréfsefni hreppsins en byggði skjaldarmerkið svo á þeim bréfsefnishaus. Einkaleyfastofa hafnaði þessu með þeim rökstuðningi að það væru bókstafir (M og H) í merkinu, en það gengi gegn ákvæðum gildandi reglugerðar. M-ið myndaði grænar útlínur fjalls, en undir því var H-ið og myndaði það kross. Nú sást það á myndinni í blaðinu að það hefði ekki verið nauðsynlegt að skýra skjaldarmerkið svo að þarna væru á ferðinni bókstafir, heldur hefði þetta getað verið Reynisfjall og svo krossinn til að tákna kirkjuna í Vík, sem er svo sannarlega andlit bæjarins þegar keyrt er niður vestan megin frá. Þá hefðu þetta ekki verið bókstafir og löggildingin hefði fengist. Annar möguleiki hefði verið sá að fólk í stjórnsýslunni liti svo á að það væri allt í lagi að bókstafir sæjust í skjaldarmerkjum hreppa og að ekki væri ástæða til að setja ákvæði í reglugerð til að banna slíkt! Af hverju? Ó, af hverju? Í fréttinni var vitnað í Svein Pálsson (hjá hreppnum) sem sagði að ekkert yrði gert frekar í málinu og eftir sem áður yrði notast við þetta skjaldarmerki án þess að það hefði fengið löggildingu. Ætli maður komist ekki að því einhvern tíma hvaða þýðingu löggilding á skjaldarmerki sem þessu hefur, ekki nenni ég að leita það uppi núna.... Frábært samt að menn geti haft eitthvað til að tala um og setja reglur um.
föstudagur, október 01, 2004
Ég gleymdi einu Halldór Ásgrímsson tók auðvitað við völdum um daginn í stjórnarráðinu eins og allir vita. Það er svo sem ekkert áfall, enda höfum við öll haft tíma til að undirbúa okkur og sætta okkur við þetta. En þar sem ég leit inn á vefritið Hriflu.is í dag rann upp fyrir mér sannleikur einn er setti mig út af laginu. Þegar Halldór Ásgrímsson ferðast út fyrir landssteinana á sama tíma og Davíð Oddsson er starfandi forsætisráðherra enginn annar en varaformaður framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson. ÉG BÝ Í LANDI ÞAR SEM GUÐNI ÁGÚSTSSON ER STARFANDI FORSÆTISRÁÐHERRA Í FJARVISTUM HALLDÓRS OG DAVÍÐS. Ætli Guðni hossi sér í stólnum og skoði myndir af paprikum á netinu?
Manni dettur nú ýmislegt... ...í hug þegar það er föstudagur og við blasir hnausþykk fræðibók. Ég er ekki alveg hættur að blogga, en við sjáum til. Hvað ætli sé langt... ...þangað til að Árni Johnsen fer aftur syngjandi og trallandi inn á þing? Ég spái því að það gerist í næstu kosningum. Lýðræði hér og lýðræði þar ...hverjum er ekki sama þó Kristinn H. Gunnarsson fái ekki að sitja í nefndum? Þetta er einn leiðinlegasti stjórnmálamaður landsins. Ef framsóknarflokkurinn ætlar að halda svikamyllunni (ath. ekki svikavef eða einhverju slíku, heldur myllu eins og í spilinu, þar sem maður hreyfir fram og til baka og lokar myllu í hvert sinn) sinni gangandi þá þýðir ekkert að hafa einhvern Kristin H. Gunnarsson að trufla friðinn. Pínulítill flokkur á miðjunni (hvað sem það nú er, samvinnufélög kannski?) sem getur hlaupið í þá átt sem hentar betur hverju sinni hefur ekkert efni á einhverjum óþekktaröngum. Fyrirheit um að formaður þessa dvergflokks verði forsætisráðherra er ekkert smáræði. Óánægðir framsóknarmenn vilja kannski frekar að flokkurinn þeirra sé í stjórnarandstöðu, en að sá hryllingur verði að raunveruleika að Kristinn Halldór Gunnarsson sitji ekki í nefndum. Framsóknarmenn eiga bara að vera hæstánægðir, þeir hafa miklu meiri völd en fylgið þeirra gefur til kynna. Það felur ekki í sér neina þversögn að stjórnmálaflokkur sem er starfræktur í lýðræðisríki sé ekki lýðræðislegur. Þetta gæti verið flokkur sem hyllir aðeins einn mann, formanninn og tekur heilshugar undir allt sem hann segir og vill. Þannig gæti formaðurinn verið einráður í flokki sem byði fram til Alþingis í lýðræðislegum kosningum. Ef flokksmenn vildu ekki fella sig við einhverjar skoðanir formannsins gætu þeir bara hætt í flokknum og stofnað sinn eigin eða farið í annan flokk. Almenningur þyrfti ekki að kjósa þann flokk. Það er ekkert skrýtið þó að dvergflokksforystan í Framsókn leyfi engin læti og rifrildi og hagi sér á "andlýðræðislegan" hátt (innan flokksins, þ.e. séu ekki allir í samræðunni og að klappa hvor öðrum á bakið fyrir alla gagnrýnina, heldur refsa bara ólátabelgnum). Það er jafnvel bara viðbúið og eðlilegt. Þeir vilja halda völdum. Kristinn H. ætti bara að drífa sig í Vinstri-græna (var hann ekki í Alþýðubandalaginu á sínum tíma hvort eð er?) þar sem hann fær að hafa allar þær skoðanir sem hann vill, enda eru þeir svo lýðræðislegir þar. Ameríkanar vita ekkert í sinn haus, eru allir eins, fara aldrei út úr BNA og vilja þröngva lífsháttum sínum og menningu upp á aðrar þjóðir. Þetta er svona í meginatriðum afstaðan sem fólk hefur til Bandaríkjamanna. Það þykir jafnvel bara nokkuð kúl að hafa þessa skoðun á þeim. Allt bjánar. En ég hitti um daginn einn slíkan mann og samræmdist hann alls ekki þessari alhæfingu. Það virðist styðja þá kenningu að ekki verði allir Bandaríkjamenn settir undir einn hatt (Hvað þá, og þeir sem eru ekki nema 280 milljónir???). Hann er íslenskunemi hér við Háskóla Íslands og bað mig um að hjálpa sér við að lesa nokkur erindi í Númarímum eftir Sigurð Breiðfjörð. Fyrir tveimur árum talaði hann svo gott sem enga íslensku en nú hefur hann náð góðu valdi á henni. Orðaforðinn var furðulega mikill og beygingar voru allar réttar. Þar sem við sátum og lásum rímurnar komu upp nokkur orð sem hann var ekki viss á, en ég þurfti stundum að hugsa mig dálítið um og pæla í setningunum til að fá eitthvað vit út úr þeim. Við virtumst hika við sömu orðin, ég og Bandaríkjamaðurinn. Þetta þótti mér ekki sæmandi, enda hef ég talað íslensku reiprennandi í næstum tvo áratugi. Upprunaleg máltaka mín fór meira að segja fram á íslensku. Det vil sige, íslenska er mitt móðurmál. Ég ákvað því að slá um mig með léttum menntaskólafróðleik og sagði við BNA-manninn þegar okkur virtist báðum að ljóðlína ein væri furðulega orðuð: ,,Vissir þú að Jónas Hallgrímsson gagnrýndi Sigurð Breiðfjörð og sagði að hann væri lélegt skáld?" Þarna ætlaði ég að slá hann út af laginu. Hann svaraði þá um hæl: ,,Já, þegar hann samdi ritdóminn í Fjölni, það er alkunna!" Alkunna já... Ég hætti ekki á að fara lengra út í þessi mál, enda furðu og skelfingu lostinn. Þó hefði ég mögulega getað farið að blaðra í örvæntingarfullri tilraun til að sýna fram á þekkingu um viðskipti Jónasar við maddömu Schäfer sem rak "veitingaskála" úti í skógi fyrir utan Kaupmannahöfn, og ráða má af bréfaskriftum að Jónas hafi skuldað peninga eftir heimsóknir þangað. Hann reyndi víst að láta Brynjólf fara fyrir sig að borga. Maddaman átti níu dætur en engan mann. Spurning hvers konar "mamma" hún var. Páll Valsson ýjar að þessu í ævisögu Jónasar sem ég las bróðurhlutann af einhvern tíma en kláraði aldrei. Það var samt skemmtilegt bók. En hefði ég gert þetta hefði ég auðvitað verið að rífa niður ímynd af dáðu skáldi og náttúrufræðingi sem lést á sorglegan hátt fyrir aldur fram, og það fyrir framan AMERÍKANA. Ég varð því að láta þar við sitja. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera bloggþorstinn.