#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Örstutt um ferðalag...og veiði Þá er ég búinn að fara vestur á firði líka. Ég fór með fjölskyldu Unu, en við Una gistum fyrst eina nótt í bústað í Borgarfirði. Fyrstu nóttina í hinu eiginlega ferðalagi var gist á Reykjanesi (í djúpinu, ekki hinum megin, það eru tvö Reykjanes þarna) Þar er ágætt hótel starfrækt og skartar það íþróttasal og 50 metra hveravatnslaug. Mjög skemmtilegt þar. Svo var keyrt áfram alla firðina út á Ísafjörð og þar dvalið um nóttina á gistiheimili einu ágætu. Á þriðja degi var farið í Önundarfjörð (að sjálfsögðu, hvað haldið þið?), Dýrafjörð og svo áfram niður að Dynjanda/Fjallfoss við Dynjandisvog inn af Arnarfirði. Þaðan var farið í laug í Reykjafirði (held ég það heiti, á leiðinni út á Bíldudal). Það var frábært, enda var veðrið frábært alla ferðina. Afi og amma Unu eru að vestan og varla er hægt að verða meiri Íslendingur en þau. Afi hennar er fæddur á Bæjum á Snæfjallaströnd (semsagt hinum megin við djúpið, í áttina að Jökulfjörðum) en amma hennar er frá Kletti í Kollafirði í Gufudalssveit á Barðaströnd. Þau þekkja þarna hvert fjall, hvern bæ, hverja vík og það liggur við hvert stein. Flateyri við Önundarfjörð er pláss sem má greinilega muna sinn fífil fegurri. Það var skrýtið að koma þarna og heita Önundur en þekkja sig samt ekkert og þekkja engan. Afi minn er frá Sólbakka og þar var pabbi í sveit sem drengur, en ég hef eiginlega enga tengingu við þennan stað annars. Í fjallinu eru snjóflóðavarnir sem mynda stórt A, og minna sennilega á snjóflóðið mannskæða sem féll um árið. Mér fannst þetta eiginlega ekki mjög upplífgandi stemmning, svo ég reyni að orða það hóflega. En Önundarfjörður er ótrúlega fallegur að sjá með gylltum ströndum og háum fjöllum, það vantar sko ekki. Við gengum upp að Dynjanda. Það er gríðarlega flottur foss og merkilegt hvað hann dreifir mikið úr sér miðað við hvað vatnsmagnið í honum er raunverulega lítið. Maður tók líka eftir því að það vantaði bassann í hann. T.d. er allt annað hljóð í Skógarfossi, það drynur í honum. Dynjandi skvettist í mörgum litlum bunum út um allt og það hljómar meira eins og rigning á bárujárnsþaki. Svo var gist á Kletti og daginn eftir týnd ber. Berjabreiðurnar í Kollafirðinum eru allsvakalegar. Maður er varla nema nokkrar mínútur að fylla 3 lítra box að aðalbláberjum. Ég týndi þarna í þau box sem ég hafði meðferðis og gaf mömmu. Þetta verður haft með eftirréttinum á aðfangadag, það er ekkert minna. Eftir ferðalagið, á mánudaginn 9. ágúst var mér hent af á Hvítárvöllum í Skugga eins og það heitir. Þar var ég þangað til á föstudaginn síðastliðinn. Þá gekk hitabylgjan yfir og fiskurinn var ekki beint í tökustuðinu. Ég nældi þó í þrjá ágæta sjóbirtinga svona þegar ég nennti að fara í gallann að veiða. Annars var svo heitt að ég fór og synti í Grímsá. Þá var 27 stiga lofthiti en áin mældist hvorki meira né minna en 21 gráða. Þarna er steinklöpp sem gengur út í ána og u.þ.b. tveggja metra dýpi hjá henni. Það var afar hressandi að stinga sér til sunds, þrjá daga í röð. Á föstudaginn vann ég mér svo inn smá pening með því að fara á traktor til Reykjavíkur fyrir frænda minn í Skorradal og sækja fyrir hann skítadreifara sem hann var að kaupa. Föstudagstraffíkin var mikil og þetta ekki heppilegasti tíminn til að gera þetta. Einhverjir fylltust heift og jafnvel hatri vegna þessa og flautuðu ákaft, en þeir um það. Ég gerði mitt besta til að víkja og hleypa framúr. Það var bara ekki nóg fyrir suma. Þeir urðu að láta vita af því hvað þeir voru reiðir með því að flauta þegar ég hleypti þeim fram úr. Það verður að komast á tjaldstæðið klukkan fimm, ekki fjórar mínútur yfir fimm! Jæja, hvert á maður að fara næst? Kárahnjúka?