#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

fimmtudagur, júlí 29, 2004

  Ný könnun Síðasta könnun hefur hangið nokkuð lengi upp. En það er gott, það þýðir einungis að hún er ennþá vísindalegri en ella og algerlega áreiðanleg. Jafnvel þó að Mörður Árnason þingmaður hafi ekki komið inn í hana sem valmöguleiki fyrr en nokkrum vikum á eftir Merði Valgarðssyni og Herra B hafði hann sigur að lokum með langflest atkvæði. Ég hvet ykkur til þess að greiða atkvæði í hinni nýju könnun... George Thorogood ...samdi lagið Bad to the bone. Þetta lag er frábært í alla staði. Það var m.a. notað í myndinni Terminator 2, í allra besta atriði kvikmyndasögunnar (að mati allra sem sjá myndina þegar þeir eru 12-15 ára). Jú, það er þegar Svartnaggur ríkisstjóri kemur út af rokkarabúllunni íklæddur leðurfatnaði. Það kannast flestir við þetta. Hann rífur haglabyssu af manni sem ógnar honum og tekur sólgleraugun hans líka.  En hvernig er textinn í laginu? Ég skrifaði hann niður rétt í þessu eftir heyrn (já, ég ætti að vera farinn að sofa). Þessi texti er ómögulegur. Í fyrsta lagi vil ég gera athugasemdir við fagmennsku þessarar yfirhjúkrunarkonu sem tók á móti honum. Hver er hún til að setja sig í dómarasæti um innræti barnsins. Hún þykist sjá það um leið að barnið sé illt, en það verður að teljast hæpið. Kannski var hún búin að stúdera einhver höfuðlagsfræði og þóttist geta séð þetta af slíku, en ef barnið var hvorki með horn né hala þá er ég ósáttur við þetta. Og hver veit nema sá sem syngur hefði orðið mjög eðlilegur á endanum ef hann hefði ekki fengið þennan dóm um leið og hann var kominn í heiminn. Þessi eitursvali maður sem syngur þráir ekkert heitar en að verða ,,hennar, og aðeins hennar". Þó segist hann þegar hafa kramið um þúsund hjörtu, og að hann hyggist tvöfalda þann fjölda áður en hann verði búinn að ,,ljúka sér af". Hann endurtekur óskir sínar um heiðarlegt og innilegt samband við konuna sem hann ávarpar, en segist svo vera kominn til þess að segja henni dálítið. Nefnilega það að hann sé illur inn að beini. Hvernig á þetta nú að heilla konuna? Á hún að taka honum opnum örmum vegna þess að hann segist vilja verða hennar, en jafnframt komast yfir þúsund aðrar konur í það minnsta. Eftir saxófónsólóið (Hver hefur saxófón í brjáluðu rokklagi?! Maðurinn hlýtur að hafa átt saxófónleikara lífið að launa af einhverjum ástæðum, þannig að hann hafi ekki getað sagt nei þegar saxarinn bað um að fá að spila í laginu) kemur svo erindi sem staðfestir endanlega að söngvarinn sé sá flottasti, aðrir víkja úr vegi fyrir honum og allar konur sem hann hittir verða skyndilega mjög ,,fullnægðar". Kannski eru þær búnar að fá fullnóg af honum um leið, ég veit ekki hvernig á að skilja þetta. Svo heldur hann áfram að hamra á því að hann sé mjög, mjög, mjög slæmur náungi, alveg inn að beini...en samt alveg tilbúinn í skuldbindingu, barneignir og kannski að læra að tantra, ná fullnægingu án sáðláts og finna sanna hamingju með einni konu og eitthvað svona... Það er best að hlusta bara á byrjunina með Svartnaggi í leðugallanum. Þetta kemur best út þannig. Now, on the day I was born the nurses all gathered round And they gazed at the white/wild/wide wonder at/and the joy they had found The headnurse spoke up she said leave this one alone She could tell right away that i was bad to bone. Bad to the bone Bababababa'aad x3 Bad to the none I broke a thousand hearts before I met you. I’ll brake a thousand more baby  before I am through. I wanna be yours pretty baby Yours and yours alone. and I'm here to tell you honey That I'm bad to the bone Bad to the bone Bababababa'aad...x3 Bad to the bone Sóló I'll make a rich woman beg and i'll make a good woman steal. I'll make an old woman blush and i'll make a young girl squeal. I wanna be your's pretty baby Your's and your's alone But im here to tell you honey That im bad to the bone Bababababa'aad...x3 Bad to the bone Saxófónsóló Now, when I walk the streets kings and queens step aside Every woman i meet they all stay satisfied I wanna tell you pretty baby Well I'll see I'll make my own (??? - innsk. ÖPR) And im here to tell you honey that I'm bad to the bone Bad to the bone Bababababa'aad...x3 Whooh! Bad to the bone.

laugardagur, júlí 24, 2004

  Ferðalag Þá erum við Una búin að covera Snæfellsnesið nokkuð vel í ár. Ég þarf þó að fara aftur á nokkra staði, og þá betur búinn en ég var núna. Ferðin var allt í allt 670 kílómetrar og hafði ég bíl móður minnar til að leysa það verkefni. Reyndar hafði ég ætlað mér þetta á eigin skrjóði en gamla settinu fannst skynsamlegra að ég tæki drossíuna. Ojæja, ekki kveinkaði ég mér yfir því. Við vorum þrjár nætur, þá fyrstu og þriðju í sumarbústað í landi Skeljabrekku. Skeljabrekka er nokkra kílómetra frá Borgarnesi, sunnan megin við Hvítá. Þ.e. eftir afleggjaranum að Hvanneyri áður en farið er yfir Borgarfjarðarbrúna. Þar var almennt afslöppuð stemning: Grill, heitur pottur og kvöldsól. Á öðrum degi var svo brunað áfram. Ég mæli sérstaklega með því að fólk skelli sér í sund á Lýsuhól, í Lýsuhólslaug. Hún er ekki venjuleg sundlaug heldur er í henni ölkelduvatn sem stöðugt rennur í gegn, 37 gráðu heitt. Hún er ekki hreinsuð með klór heldur er í henni slý og ýmsar lífverur sem hreinsa vatnið á lífrænan hátt. Vatnið í lauginni er semsagt grænt. Það er ótrúlega þægilegt að svamla þarna ofan í vatninu og þegar upp úr er komið er maður jafnhreinn og áður, ekkert útataður í neinu eins og einhver gæti haldið. Þegar við vorum þarna var steikjandi sól, algerlega heiðskýrt og 21 stigs hiti. Það var frábært. Sundlaugarsvæðið var svo rammað skemmtilega inn af tveimur fjöllum, Lýsuhyrnu og Þorgeirsfelli sem gægðust sitt hvoru megin upp yfir háa girðinguna. Eftir ábendingu frá Þórunni Árnadóttur kíktum við svo inn í Rauðfeldsgjá. Hún er í Botnsfjalli og er alger perla. Hins vegar vorum við varla nógu vel búin fyrir gjána og fórum því ekki langt inn í hana. Ég gekk upp að litlum fossi þar sem komið hafði verið fyrir reipi til að klifra upp. Þar nam ég staðar enda ekki nógu vel útbúinn. En gjáin er ótrúlega þröng og djúp. Þetta er virkilega magnaður staður. Þangað ætla ég aftur og þá rétt búinn. Svo fórum við að Búðum, í Búðahraun, á Arnarstapa, Hellna, Lóndranga, Djúpalónssand og Dritvík. Við afleggjarann í Dritvík sáum við ref hlaupa yfir veginn. Hann féll vel inn í mosagróið hraunið þar sem hann skokkaði sína leið. Ég hef séð tófu nokkrum sinnum áður en þetta var stærsta eintakið sem ég hef séð. Frekar háfættur fannst mér. Svo var haldið út fyrir jökulinn og keyrt fram hjá Gufuskálum, Hellissandi og Rifi. Á Ólafsvík var áætlað að snæða kvöldverð. Reyndar kitlaði það ótrúlega að sjá skiltið við afleggjarann upp á jökulinn. Skilaboðin voru skýr: DANGER - SNÆFELLSJÖKULL. Það er nefnilega það. Passiði ykkur bara, hann er brjálaður. Ég hefði þurft aðeins stærri bíl en Volvoinn til að leggja á þann tind, það bíður betri tíma. Á Ólafsvík mátti velja á milli Hótels Ólafsvíkur, annars hótels þar sem er restaurant og svo Prinsins - Pizza og grill, eða svo sagði í einum ferðapésanum. Restauranturinn reyndist lokaður og Prinsinn reyndist vera heimsendingarpizzustaður/vídjóleiga. Hótel Ólafsvík varð því fyrir valinu og þar fengum við svona skítsæmilega borgara á furðulegum diskum. Þar var leikin frábær tónlist í hátalarakerfi, Panpipesútsetningar á helstu dægurtónlistinni, Lady in Red og fleiri slögurum. Tjaldstæðið í Ólafsvík er ágætt, nema hvað þar er rukkað bæði fyrir tjald og mann. Tvær manneskjur og eitt tjald verður því 900 krónur. 3*300 krónur. Á þriðja degi var keyrt í Stykkishólm og farið í siglingu um Breiðafjörðinn. Við slepptum hvalaskoðuninni í Ólafsvík vegna móðgandi verðlags. Hvað haldið þið að það kosti á mann að skella sér? 3000 krónur? Nei, það væri nú of ódýrt. 5000 krónur? Jaaa, það gæti verði nærri lagi. 8000 krónur? Jæja, gott og vel. 10.000 krónur? Nei hættu nú alveg. 11.000 krónur? Já, það er verðið á mann. Ég læt mér því nægja að sjá hvali þegar ég er í vinnunni úti á sjó, en þar hef ég þrisvar sinnum séð hvali. Siglingin um Breiðafjörð var á 3.900 krónur og var alveg ágæt. Þar var siglt um eyjarnar og fuglar skoðaðir. Mér fannst það ágætt, þó svo að maður væri ekkert að taka andköf yfir múkkanum sem gargaði þarna stanslaust. Frakkarnir með risalinsurnar voru voðalega hrifnir af honum. En þarna mátti líka sjá Ritu, Lunda, Teistu, Skarf og sjálfan konung fuglanna Haförninn. Það er par í einni eyjunni þarna og sáum við þau sitja í makindum í konungdæmi sínu. Þau flugu ekki upp eins og ég vonaði, enda orðin vön bátnum sem fer þarna tvisvar á dag. Svo var kastað niður litlum plóg og upp hífð ýmis sjávakykvendi. Ég smakkaði þar hörpudisk og ígulker og líkaði ágætlega. Á leiðinni til baka sáust hnísur og tók kapteininni nokkra hringi á eftir þeim. Þær voru ekki í stuði og létu sig fljótt hverfa. Þetta var ágæt sigling. Norska húsið á Stykkishólmi er ágætis byggðasafn. Þar bjó Árni Ó. Thorlacius (minnir mig)  verslunarmaður og bjó vel. Húsið er tvær hæðir og ris. Herbergin eru stór, tvær stórar stofur, kabinett, skrifstofa, gestaherbergi hjónaherbergi, barnaherbergi, búr, sölubúð o.s.frv.  Gaman að þessu. Gamlar kaffiauglýsingar voru til sýnis á neðstu hæðinni og festi ég þær allar á minniskubb myndavélarinnar til að eiga. Þær eru ótrúlega fyndnar. Gamlar auglýsingar eru frábærar. Ljenzherrann af Kaffisterku ætti að hafa gaman af þessum auglýsingum, ef hann fær einhvern tíma að sjá þær hjá mér. Svo var bara farið í sund í Stykkishólmi og brunað í Borgarnes. Þar var snætt og aftur haldið í Skeljabrekku. Rigningin buldi svoleiðis á öllu að elstu menn muna ekki annað eins. (Hvað muna elstu menn svosem? Þeir eru allir elliærir) Það hindraði mig þó ekki í að setjast í heita pottinn og slaka á. Auðvitað kíkti maður aðeins í Skorradalinn á frændfólkið og svo var haldið í bæinn. Frábær ferð. Ég verð að gera meira svona í sumar.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

  Að sætta sig við örlög sín Nágranni minn og ágætur kunningi, Sjonni, er stoltur eigandi kattar. Kötturinn er læða að nafni Skotta. Skotta er gömul og hefur undanfarið hlaupið heldur í spik. Hún fer sér nú hægt og tekur lífinu með ró. Ég sé hana oft þegar ég hef eftirlit með götunni úr stofuglugganum heima. Hún röltir á milli garða og þefar af hinu og þessu. Þegar ég hóf vaktina í glugganum rétt áðan sá ég hvar Skotta var að ganga yfir götuna. Í 1,5 metra fjarlægð frá henni var Maríuerla að spóka sig. Skotta sýndi henni lítinn áhuga og hélt áfram för sinni. Hún þefaði af grasinu hinum megin við götuna og velti sér lítið eitt í því, þunglamalega. En skyndilega leit hún upp eins og hún hefði áttað sig á einhverju, sneri sér við og mændi á fuglinn. Hún setti sig í stellingar, gekk þrjú skref í átt að honum svo kviðurinn nam við jörðu og höfuðið teygðist fram. Þá nennti hún ekki meiru og lagðist til hvílu á malbikið. Velti sér þar dálítið og teygði úr sér. Maríuerlan gekk þrjú skref í áttina til hennar og kroppaði í jörðina. Skotta tók þá aftur við sér, hún kom sér á lappirnar og horfði hatursfullum augum á fuglinn. Hún færði sig nær, fuglinn trítlaði aðeins í burtu í sakleysi sínu, Skotta fylgdi á eftir. Eftir eins metra eltingaleik á hraðanum  1 kvartmíla/klst gafst Skotta þó upp aftur og lagðist á jörðina. Hún þefaði af kantsteininum og teygði sig í átt að hundasúru. Fuglinn horfði á hana með vanþóknun og flaug svo burt. Skotta er komin af léttasta skeiði, henni er alveg sama. Hún er búin að sætta sig við þetta.   Sumar og sól Stefnan er sett á Borgarfjörð, Snæfellsnes og einhverja slíka staði frá og með morgundeginum og fram á helgi. Þetta verður skemmtilegt, þetta verður gott. Bloggið bíður haustsins, þegar skrifin verða regluleg á ný. Sumarið og sólin eru vinir mínir og hjá þeim vil ég vera. Eftir þessa útilegu verð ég svo að skella mér í einhverja almennilega veiði. Ætli maður reyni ekki að kíkja eitthvað í Hítarvatn og ganga inneftir með því og í ágúst verður það svo Skugginn, í Hvítá og Grímsá. Úff, hvað líf mitt er gott...of gott. Ætli maður fari ekki bara og hreyfi sig eitthvað svo maður verði þægilega svangur í kvöld þegar ljúffengur grillmaturinn verður snæddur. Ekki það að ég sé að svelta eftir súkkulaðikökuna sem ég fékk mér í gærkvöld þegar ég fór út að borða. Mmmmm. Hér ríkir fegurðin ein...þ.e. ef maður man að slökkva á útvarpinu og lesa ekki blöðin.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Átök dagsins Á sunnudegi sem þessum gerist ekki margt. Ég er einn heima, timbraður og í fríi. Ég tók á því þegar ég fór út í búð að kaupa þrjá pakka af beikoni og einn bakka af eggjum. Það voru líkamleg átök. En átök dagsins voru af andlegum toga. Ég lá hér fyrir skömmu sofandi uppi í sófa þegar síminn hringdi. Algerlega nývaknaður og úldinn svara ég í símann og norsk rödd segir: Ragnar? Þarna er ég kominn í vandræðin. Hver er þetta? Smá þögn. Jú, þetta er norski vinur pabba að hringja í farsíma föður míns sem staddur er í útlöndum, slökkt er á farsímanum og því er símtölum beint hingað heim. Hej Jon, det er Önni, ikke Ragnar. Þetta kostaði margar kaloríur í hausnum mér tókst að skipta yfir í norskuna. Hana hef ég hins vegar ekkert talað undanfarin...nokkur ár...frá því að ég var sæmilegur í henni. Bölvuð vitleysa, nú verð ég að tala norsku það sem eftir er samtalsins því ég fer ekkert að skipta yfir í enskuna núna. Mér tókst að útskýra málið og taka létt spjall á norsku um mína hagi, hvað ég væri að gera og hvar ég hefði verið. Ég hef þó á tilfinningunni að þetta hafi að einhverju leyti verið skandinavískur hræringur upp úr mér, en símtalið endaði ég svo á ensku þar sem ég var að niðurlotum kominn. Ég er samt sáttur við sjálfan mig. Munið bara að ef það vantar orð í setninguna, þá takið þið bara enskt orð sem er nokkuð alþjóðlegt, athugið hvort það sé til íslenskun eða dönskun á því og segið hana svo með norskum hreim og bætið norrænum greini fyrir aftan. Þannig má redda sér nokkuð lengi. En eftir þetta er ég þurrausinn og verð sennilega að panta mér pizzu.

laugardagur, júlí 10, 2004

Þessi öðlingur gerði heiðarlega tilraun til þess að leggja mig í einelti þegar ég var í grunnskóla. Við skulum vona að hann hafi fundið innri frið þar sem hann er í dag.

föstudagur, júlí 09, 2004

Urgh! Jæja. Voðaleg þögn er hérna. Hvað er að ykkur?