#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

mánudagur, maí 31, 2004

Óánægja Mér finnst frekar lélegt að ekki séu komnar einkunnir úr heimspekilegum forspjallsvísindum og stjórnskipunarrétti. Ég vil fara að fá þessar einkunnir. Sifja- og erfðarétturinn kom fyrir löngu síðan. Það er bara stressandi að vita ekki hvað maður fékk, því eftir því sem lengra líður frá finnst mér sífellt að mér hafi gengið verr. Það er áhugavert miðað við að mér leið ekkert illa þegar ég kom út úr þessum prófum. Una útskrifuð Hún útskrifaðist á föstudaginn, og gerði það vel. Stúdentsveislan var heima hjá henni og hittust foreldrar okkar þá formlega í fyrsta skipti. Það var dálítið stressandi til að byrja með verð ég að viðurkenna, en það urðu engin slagsmál. Þetta var allt í lagi. Stúlkan fékk fartölvu í stúdentsgjöf, sem verður að teljast ansi góð gjöf og gagnleg fyrir næsta vetur. Sjálfur gaf ég henni ekki alveg svo stóra gjöf, en það var Karen Millen kjóll, litríkur og svona dálítið í japönskum stíl. Mér fannst hann flottur og svo skilst mér að maður geti eiginlega ekki klikkað ef maður fer í þá búð. Allt kvenfólk virðist vera hrifið af þeirri búð og því sem þar fæst. Ef þú ert 25 ára stúdent ...lesandi góður, og varst á júbilantaballi á Hótel Sögu um helgina og reyndir við kærustuna mína þá lýsi ég hér með yfir mikilli óánægju með þig. Einnig lýsi ég yfir óánægju með... ...bjánann sem var á Pizza Pronto klukkan 6 að morgni laugardags. Hann fór einmitt að reyna við Unu (hvers á hún að gjalda, hún fær ekki að vera í friði!) fyrir framan mig. Þegar við fórum út sá hann ástæðu til að æpa yfir staðinn: ,,Djöfull var hún sæt og hann ljótur! HEHEHEHEHE!" Einhvern veginn fannst mér nú samt að hann væri enginn sigurvegari í þessum samskiptum okkar. Aðfaranótt sunnudags... reyndi ég svo að komast inn á skemmtistaðinn Kaffi Cultura en var synjað um inngöngu vegna kynþáttar míns. Ég var mjög ósáttur við þetta, enda var þremur aröbum, einum S-Evrópumanni og einum rauðhærðum hleypt inn þrátt fyrir að ég fengi ekki að fara inn. Það er greinilegt að hinn venjulegi hvíti, hávaxni, brúnhærði, brúneygði Íslendingur á ekki upp á pallborðið hjá Cultura. Fjölmenningarlegt? Svei! Ég hefði getað orðið góður fulltrúi kynþáttar míns inni á staðnum, en nei. Ég fékk að standa fyrir utan og fylgjast með Írum, Ítölum, Pólverjum, Írönum og öllum hinum skemmta sér konunglega. Austur fyrir fjall Nú er stefnan sett á sunnlenskar sveitir. Folald verður skoðað, pönnukökur mögulega snæddar en fyrst og fremst þefað út í loftið.

miðvikudagur, maí 26, 2004

Tilviljun? Í fyrradag fór ég í bíó. Fyrir valinu varð myndin Touching the Void, sem er sannsöguleg viðtalsmynd/leikin mynd um háskalega för tveggja Breta á fjallið Siula Grande í Andesfjöllunum í Perú. Í ferðinni varð slys svo að annar þeirra slasaðist. Hinn hélt hann látinn og skildi hann eftir í sprungu á fjallinu. Sá slasaði náði að draga sig niður eftir á ca. vikutíma og var á endanum orðinn mjög ruglaður. Hann hafði ekkert borðað allan tímann og lítið drukkið. Þar sem hann skreið fótbrotinn og vannærður um urð og grjót byrjaði að hljóma tónlist fyrir eyrum hans. Hann var semsagt með óráði. Lagið sem hann heyrði var með hljómsveitinni Boney M. Ég hef ekki heyrt þetta lag áður en það er frekar fyndið. Textinn er eitthvað á þessa leið: Young girl in the ring, trala lala la, young girl in the ring, traaala lala lala, show me a motion, trala lala la, show me a motion, traaala lala lala... Nú jæja. Svo í gær er ég að þrífa bókahillu í lesherberginu mínu. Á bakvið bækurnar finn ég ævaforna kasettu. Hún er ómerkt og greinilega keypt til þess að taka upp á. Ég set hana í kasettutæki heimilisins, sem er staðsett í bílskúrnum og ýti á play. Hvað gerist? Jú: SHOW ME A MOTION, TRALA LALA LA, SHOW ME A MOTION, TRALA LALA LALA, YOUNG GIRL IN THE RING, TRALA LALA LA, YOUNG GIRL IN THE RING, TRAAALA LALA LALA, SHOW ME A MOTION, TRALA LALA LA...

sunnudagur, maí 23, 2004

Bíllinn bónaður Hvílík smurning! Heyri ég halelúja? Amen, halelúja! Hvííííííílík smurning!

fimmtudagur, maí 20, 2004

Trója Nenni ekki að blogga langt. Fór á myndina. Hún var alveg sæmileg sem bíómynd fyrir utan kannski helst tónlistina. Ég er bara guðslifandi feginn að þar voru nokkrir fróðir MR-ingar á staðnum sem gátu gefið salnum til kynna hvenær var verið að víkja frá söguþræðinum með því að hlæja upphátt þannig að allir heyrðu örugglega að þeir vissu betur.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Rússland og Rússar Árni Bergmann var að gefa þessa bók út fyrir stuttu. Ég mæli með henni. Í fyrsta lagi er hún ódýr, á kiljuformi, auðlesin og fljótlesin. Í annan stað er hún skemmtileg. Þetta er í raun svona pakkafróðleikur um Rússa, en helst er nálgunin að þjóðarsál Rússa. Rakin er í stuttu máli og aðalatriðum saga Rússa allt frá 9.öld. Það er enginn óþarfa kjaftavaðall, enda er markmið bókarinnar ekki að telja upp sem allra flestar sagnfræðilegar staðreyndir og ártöl. Bókin er skemmtileg, þið ættuð að fá ykkur hana eða taka hana á bókasafni. Frí er ekki það sama og aðgerðaleysi Ég hef lent í því að eftir prófatarnir lyppist ég niður og sé einskis megnugur í nokkra daga. Að þeim liðnum er ég svo frekar seint á ferðinni og fremur hægvirkur. En í ár er það ekki svo. Neinei, það var slappað af á sunnudaginn en fyrir utan það hef ég reynt að koma einhverju í verk og halda mér uppteknum. Bílinn þarf náttúrulega að taka í gegn, herbergin þarf að þrífa, og svo þarf maður að lesa slatta af bókum sem augun höfðu tilhneigingu til að beinast að þegar þau áttu að horfa á sifja- og erfðaréttarbækur (sjá síðustu færslu). Bloggað vegna eftirspurnar Þessi færsla var öll skrifuð í snatri vegna þess að ég sá á síðu Gísla Björns að hann var farinn að iða í skinninu eftir nýrri snilld frá mér. En talandi um aumingjabloggara, þá mætti Kötturinn nú aðeins fara að lemja lyklaborðið á ný. Það er engin afsökun að maður sé í doktorsnámi og það sé mikið að gera...

Jæja Fyrstu einkunnir komnar í hús. Það var úr því prófi sem mér fannst mér ganga hvað verst í, sifja- og erfðarétturinn. En viti menn, drengurinn rúllaði í gegn og er þetta dauðans námskeið því frá. Þá er bara að sjá hvernig hin prófin gengu, en ég er allavega nokkuð bjartur í dag yfir því að vera laus við þetta námskeið. Þetta var ekki að heilla mig.

laugardagur, maí 15, 2004

Próflok Jæja, prófum er lokið. Þessi langþráða stund hefur yfir sér ákveðinn blæ tómleika. Og þó. Ég hélt að prófið yrði klukkan 9 í morgun. Vaknaði því klukkan 5 til að læra. Uppgötvaði niðri í skóla að prófið yrði klukkan 13.30 Bömmer. Fór þá og gekk bara ágætlega held ég. Reyndar var ég ekkert að standa mig neitt frábærlega í spurningu um skandinavísku raunhyggjuna. En annað minnir mig að hafi gengið sæmilega. Næst á dagskrá Get hammered.

föstudagur, maí 14, 2004

Nokkur afar mikilvæg atriði Úr minni tilveru: Ég var að læra til hálffjögur í nótt. Komst í þetta líka rosalega stuð undir háttatíma og ákvað að láta bara slag standa. Svaf svo út í morgun. Ég hef ekki lært svona fram á nótt síðan einhvern tímann í stúdentsprófunum, enda hef ég aldrei getað það. En nú hrökk heilinn á mér í gang aftur og er orðinn fúnksjónal allan sólarhringinn aftur. Framabrautin blasir því við. Úr dönsku þjóðlífi: Horfði á detta kóngeliga brúðhlaup. Ég veit að Úlfur Sveinbjarnarson hefur ekkert getað lært í dag fyrir spenningi yfir þessari athöfn. Hann er sérlegur aðdáandi kóngafólks, og David Beckhams. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við þessa útsendingu. Í fyrsta lagi vil ég kommentera á Elísabeti Brekkan, sem lýsi ásamt Boga Ágústssyni. Hún var alltaf að reyna að klára setningarnar fyrir hann og grípa fram í þegar hann var að koma með einhverja góða sögulega punkta. Hún tók andköf yfir kjólunum og demöntunum og rakti ætterni allra sem gengu inn rauða dregilinn. Hún lýsti því yfir að þessi og hinn væri "voða fínn". Viðbjóðslegt. Þarna voru úrkynjaðir og senílir aðalsmenn leiddir inn á færibandi, hlæjandi með falsetturöddum sínum og emjandi yfir ónýtum hnjám. Þeir vissu sennilega ekkert hvað var að fara að gerast, og voru svo hlaðnir eðalmálmum við hjartastað að þeir voru að sligast í vinstri mjöðm. Svo var eitthvað eldfornt stertimenni látið standa fyrir framan altarið í hátíðarskrúða á meðan gestirnir gengu inn. Hann var mjög þreyttur á þessu og var orðinn kengboginn eftir svona klukkutíma. Á endanum hélt ég að hann væri dauður. Stirnaður. En svo hreyfðist hann á endanum, þegar honum var sagt að snauta frá. Nú svo finnst mér mjög undarlegt að Danirnir hafi fengið samgönguráðherra Íslands, Sturlu Böðvarsson til þess að gefa brúðhjónin saman. Hann flutti svo sem ágæta ræðu þarna og talaði ljómandi fína og skýra dönsku, en af hverju hann var fenginn. Það skil ég ekki. Svo var þarna leikið tónverk, man ekki eftir hvern. Í því var einleikur á lúður, og spilaði Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins alveg hreint glimrandi vel á lúðurinn. Það sást reyndar frekar illa framan í hann, en ég er nokkuð viss um að þetta hafi verið Einar Oddur. Einar Oddur er frændi minn. Svo fóru þau þarna rúntinn og voru svo heppin að vera ekki líflátin á leiðinni í höllina. Þegar þangað var komið ákvað krónprissessan nýbakaða að viðra gólfteppið sitt úti á svölum. Strax tekin til við þrifin hugsaði ég. Myndarleg. Hún vildi viðra það vel og því var teppið eitt úti á svölunum í u.þ.b. 20 mínútur áður en þau komu út til að veifa. Svo legg ég til að það verði hannaður flottur hattur fyrir forseta Íslands. Það var alveg greinilegt að þessir séntílmenn þarna geta aldrei borið virðingu fyrir forseta Íslands nema hann fái sér stóran og góðan hatt, með páfuglafiðri á toppnum og einhvers konar gylltum borða með merki. Forsetinn ætti líka alltaf að bera sverð við opinberar athafnir. Gústaf Svíakonungur var með stolna húfu. Hann hafði náð sér í skipstjórahúfu einhvers staðar og er sennilega að reyna að skapa eitthvað trend með þessu. Það er ekki að virka hjá honum. Að lokum lýsi ég yfir ánægju minni með það að brúðhjónin skuli vera svo opinská sem raun ber vitni og hyggist sjónvarpa brúðkaupsnóttinni sjálfri á netinu. Það er auðvitað góð leið til að opna konungdæmið fyrir almenningi og leyfa öllum að njóta þess í sameiningu.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Getraun Ég hef verið óánægður með hvað fólk hefur kommentað lítið hjá mér undanfarið. Það er kannski eðlilegt þar sem þetta blogg hefur verið leiðinlegt undanfarið. Það er svo aftur líka eðlilegt þar sem ég hef verið leiðinlegur undanfarið. Það er svo enn aftur eðlilegt vegna þess að það sem ég hef verið að gera undanfarið hefur verið leiðinlegt. Það er svo aftur eitthvað sem ég þarf að díla við í mínu einkalífi, kemur ykkur ekki rassgat við og ég ætti ekki að vera að ræða hér. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem kemur fyrstur með rétt svar við þessari gátu. Má þar á meðal nefna ferð með mér og Unu á Deep Purple tónleikana 23. maí. Verðlaun verða aðeins afhent fólki sem ég þekki, skrifar undir nafni og er ekki drepleiðinlegt hyski. Frá hvaða landi er eftirfarandi frasi: Bóndinn baki brotnu, herrann hásu öskri.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Það er alltaf ánægjulegt... ...að heyra lagið What a wonderful world. Þetta er auðvitað orðið það klisjulegasta í heimi til að hlusta á þegar mann langar til að líða vel. En það breytir ekki því að í hvert skipti sem lagið heyrist fer um mann vellíðunar- og slökunartilfinning. Þetta lag getur jafnvel virkað eins og höfuðverkjalyf. Gerir bara allt betra, í smá stund.

Fyrir þá sem fíla Radiohead Stúdíóupptaka af hinu ágæta lagi Big Ideas með eðalsveitinni er að finna hér: http://www.hi.is/~bjornbjo/bigideasfirstmix.mp3

Próf Fjórar ritgerðarspurningar upp á 25% hver. Ég held að þetta hafi nú gengið svona sæmilega, en fyrst þegar ég leit á prófið fannst mér ég ekki kunna neitt. Svo kom þetta nú allt í meginatriðum. Hins vegar var á óánægður með sjálfan mig í spurningunni um þjóðréttarvenjurnar, ég mundi ekki nógu mikið. Svona er þetta víst. Aðrar spurningar voru um ráðstöfun þingsæta og efni tengt því, neikvætt félagafrelsi í 2.mgr. 74.gr. STS og svo raunhæft verkefni um eitthvað rammgallað valdníðslufrumvarp og stoðskerta reglugerð. Held ég hafi bara verið að rokka ágætlega í þessu raunhæfa. Kemur í ljós... Verst var þó að þegar hálftími var eftir var ég gersamlega að míga í buxurnar, en fannst það ekki taka því að fara á klósettið, enda var tíminn naumur. Það var því mikil gleðistund rétt eftir prófið við þar til gerða aðstöðu. Þá er eitt próf eftir, á laugardaginn. Svo er það sumar og sól, grillmatur og gleði, nektarstrendur og áfengisdrykkja, já og blessuð sjómennskan já sjómennskan já sjómennskan er ekkert grín. Hm.

mánudagur, maí 10, 2004

Dagur er að kveldi kominn Í dag hef ég setið á bókhlöðunni og göslast í gegnum heil ósköp af efni. En hvað það er dæmigert að ganga illa að læra fyrstu dagana fyrir prófið, en ná sprettinum svo almennilega þegar stuttur tími er eftir. En hvað um það. Hinn illi tvíburabróðir Bergþórs Pálssonar óperusöngvara sat við hliðina á mér í dag. Bergþór er eins og alþjóð veit gríðarlega glaðbeittur og opinn persónuleiki. Hann brosir mikið og hlær góðlátlega. Þessi maður er skuggalega líkur Bergþóri, nema hvað hann er mjög mjög mjög alvarlegur og þungbúinn á svip. Hann er með alveg hrafntinnusvart hár og gengur í kolsvörtum leðurjakka. Svo er hann líka að lesa eitthvað rosalegt. Hann er sennilega í doktorsnámi í vampýru- og frímúrarafræðum. Ég er dálítið smeykur við þennan mann, en eflaust er þetta besta grey í rauninni.

Af www.georgebush.com "In a free society, we will find out the truth and everybody will see the truth," Bush said. "In a society that is a free society, there will be transparency in the process. People will testify. There will be fair trials, if there are trials, and the truth will be known. In societies run by tyrants, you never see the truth. You never find out the truth." Ummæli hans um myndirnar af pyndingunum í Írak. Góður fyrirvari þarna: There will be fair trials, if there are trials. Þessi fyrirvari er mjög viðeigandi hjá honum Bush vini okkar. Svo er þetta líka skemmtileg tilraun til að láta málið snúast um eitthvað annað en það gerir í raun, að það mistókst að halda pyndingunum leyndum.

Rumsfeld III Já, jæja eftir því sem meiri fréttir berast af þessu pyndingamáli verður alltaf ljósara að Rumsfeld ætti að segja af sér. Það er engin spurning um að hann ætti að gera það. En þar sem hann mun ekki gera það getur maður bara vonað að þetta verði nógur herslumunur til þess að Bush tapi fyrir Kerry í kosningunum.

föstudagur, maí 07, 2004

Rumsfeld II - hvað finnst ykkur? Hann kom fyrir þingnefnd í dag. Sagði hvorki Pentagon né herinn hafa reynt að leyna þessu, benti á fréttatilkynningu um rannsókn á misnotkun fanga frá því í janúar. Hann sagðist ekki hafa séð umræddar myndir fyrr en í sjónvarpinu, og að hann hefði ekki áttað sig á því hversu alvarlegt málið væri fyrr en þá. Spurning hvort það er rétt, eða hvort hann vildi ekki að þetta færi svona hátt vegna pólitískra óþæginda sem fylgja slíkri umræðu. Mér finnst sá möguleiki endurspeglast í því hvernig hann tók málinu til að byrja með, hann sneri út úr og vildi varla tala um þetta sem pyndingar. Það var eins og tilraun til að sjá hvort málið myndi ekki bara líða hjá. Hann vanrækti að vekja athygli þingsins og forsetans á málinu. Nefndin sagði ýmislegt benda til að þeir sem frömdu verknaðinn hafa verið hvattir áfram af yfirmönnum til að losa um málbein Írakanna. Hún spurði úr hversu háum stöðum slík hvatning kæmi. Rumsfeld sagði að koma ætti höndum yfir þá sem hvettu til pyndinganna. Rumsfeld baðst svo afsökunar af öllu hjarta og sagði athæfi hermannanna vera í ósamræmi við þau gildi sem Bandaríkin stæðu fyrir. Aðspurður um afsögn sagðist hann segja af sér á stundinni ef hann teldi sig óstarfhæfan vegna málsins (hvenær hefur pólitíkus sjálfviljugur komist að þeirri niðurstöðu?), og vildi ekki útiloka að segja af sér táknrænt og vegna hlutlægrar ábyrgðar. Það verður að skilja sem svo að slík afsögn komi ekki til greina. Bush hefur líka sagt að Rumsfeld verði áfram ráðherra í sinni stjórn. Hvað segir fólk, á karlinn að segja af sér? Eins og ég skil það axla menn ekki ábyrgð með því að biðjast afsökunar. Glæpamenn axla ábyrgð á gjörðum sínum með því að sitja í fangelsi og greiða sektir. Þeir sem valda tjóni axla ábyrgð með því að bæta fyrir tjónið. Afsökunarbeiðni er ekki nóg, jafnvel þó hún sé frá dýpstu hjartarótum. Ég segi burt með karlinn, en kannski er það bara vegna þess að mér var illa við hann fyrir.

Símadömur ...heilsugæslustöðvarinnar í Garðabæ eru alveg sérstaklega fúlar. Þetta er óheppilegt þar sem þær vinna við að taka á móti fólki og taka niður pantanir og slíkt. Ef spurningum er beint til þeirra koma svör með einhverjum fúllyndistón, eins og maður sé að gera daginn hjá þeim eitthvað erfiðan. Legg til að þær verði reknar og Donald Rumsfeld verði boðið starfið eftir að hann segir upp. Hann er nú svo skemmtilegur og getur ábyggilega sagt manni einhverja góða sögu af sér á meðan maður bíður eftir afgreiðslu.

Rumsfeld Pyntingar já, stríð er stríð. Í stríði gerast miður fallegir hlutir. Hélt nú að þið vissuð það. Til að fá frelsi þarf fólkið fyrst að ganga í gegnum erfitt tímabil. Oft leynist líka misjafn sauður í mörgu fé. Svo eru þetta nú varla pyntingar, ég meina það er eitthvað verið að fíflast í þeim þarna. Það er bara verið að fara með þá í leiki og eitthvað, eða ég get ekki séð betur af þessum myndum. Ósmekklegt grín í mesta lagi. Kannski einum of að maður fari að segja af sér, ha? Nei, eruð þið ekki bara eitthvað að grínast í mér strákar? Er þetta falin myndavél eða eitthvað svoleiðis? Hahaha, náðuð mér þarna.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Haha Gunnar Páll bendir á síðu sinni á umræðuvef blaðamanna. Ég fór að tilmælum hans og renndi yfir umræðuna, mæli með henni. Jakob Bjarnar og Hafþór Baldvinsson eiga þar í óskaplega skemmtilegri deilu, og svo í lokin fer Ingimundur Kjarval að rífast um einhver stolin Kjarvalsmálverk. Þá er umræðan löngu farin út um þúfur. Góð pikköpp lína The direction of my erection shows but a fraction of my affection for your mid-section. Do you have protection?

þriðjudagur, maí 04, 2004

Kæri Guð Hvað finnst fólki almennt um þessa grein?

sunnudagur, maí 02, 2004

Danasleikjan - enskuslettan - eitthvað nýtt Vegna móðursýkislegrar málverndarstefnu undanfarin 170 ár eða svo hefur íslensk tunga í tvígang staðið af sér brotsjó. Annars vegar danska tímann, þegar ekki þótti mannsæmandi að tala íslensku á meðal fyrirmenna og menn tóku upp ættarnöfn eftir girðingarstaurum og hæðadrögum frekar en að bera nöfn feðra sinna. Ef menn einhverra hluta vegna bjuggu ekki nálægt girðingarstaur eða hæðardragi gátu þeir bjargað sér fyrir horn með því að segja föðurnafn sitt með löngutöng, vísifingur og baugfingur ofan í koki. Hins vegar er það svo enski (þ.e. tími áhrifa enskumælandi þjóða) tíminn. Hann hófst með hersetu Breta hér og hélt áfram með Bandaríkjamönnum. Hann stendur auðvitað enn og sér ekki fyrir endann á honum. Hann fór kannski frekar sakleysislega af stað með Roj Roggers myndum og slíku en hefur stöðugt sótt á. Nú er hann að mínu mati búinn að ná hámarki sínu og er orðinn þreyttur. Endurspeglast þreyta enska tímans í því að áhrif hans eru djúpstæðust á 14 ára unglinga, sem lifa og hrærast í poppmenningunni og tala einhvers konar ísl-ensku. En þau vaxa upp úr því og hætta að nenna að tala eins og fábjánar um 16-17 ára aldurinn. Það þykir ekki jafn dragfínt núna að fara til Bandaríkjanna eins og þótti fyrir 20 árum, svo ég tali nú ekki um fyrir 40 árum. Þetta er því orðið þreytt og kominn tími á eitthvað nýtt. Einhverjir þjóðernissinnaðir lesendur hugsa þá kannski með sér að best færi á því ef Íslendingar hættu öllum sleikjuskap og allri eftiröpun. Einhverjir vilja kannski að Íslendingar verði bara íslenskir, en ekki hálfdanskir eða hálfamerískir. Það held ég að væri stórhættulegt. Íslendingar hafa aldrei verið bara Íslendingar. Þetta voru norðurlandamenn fyrstu árhundruðin og um leið og mætti segja að Íslendingar hafi verið orðnir sérstök þjóð með eigin sérkenni, þá tóku þeir upp á því að selja sig undir vald Noregskonungs. Alla tíð síðan 1262-4 hafa Íslendingar því verið undir einhvers konar áhrifum, en þar á undan voru þeir varla annað en Norðmenn á eyju úti í hafsauga. Því tel ég að ef Íslendingar hætti nú að apa allt eftir öðrum þjóðum gæti samfélagið hreinlega lent í uppnámi, upplausn og allt gæti farið til fjandans. Það er auðvitað ekki víst, en það hefur bara aldrei verið prófað, og áhættan er of mikil. Það er tilgangur færslunnar að mæla með því að næsta fórnarlamb sleikjuskapar Íslendinga verði Rússland. Við þurfum nýtt áhugamál. Danski tíminn skildi eftir sig ummerki, bæði í orðtökum og orðfæri ákveðinna kynslóða. Hann hafði áhrif á byggingarlist og margt fleira. Enski tíminn hefur svo sannarlega gert þetta einnig. Það er allt gott og blessað. Það eykur fjölbreytni samfélagsins og víðsýni þjóðarsálarinnar. En áður en við sogumst inn í Bandaríkin þurfum við að halda förinni áfram, kanna ný lönd og upplifa nýja strauma. Væri ekki gott að losna við ókurteisa krakka æpandi: ,, hæ fokkjú bidds men sjarab sjitt kommon ókei kúl bæ", sleppa við feita hormónarassa frá McDonalds og allan þann pakka. Þess í stað væri hægt að blóta á rússnesku, fá rússneska veitingastaði með rússneskri matseld, rússnesk fatatíska gæti rutt sér til rúms og kvikmyndahúsin gætu sýnt bráðskemmtilegar og djúplistrænar rússneskar kvikmyndir. Kroshka-Kartoshka skyndibitakeðjan gæti opnað hér staði og selt Íslendingum dýrindis bakaðar kartöflur, rétt eins og hún gerir í Moskvu. Eru ekki allir orðnir þreyttir á Burger King hvort eð er? Ókurteisir götudrengir segðu: ,,Pojditje k adu!" í staðinn fyrir fokkjú, og þegar unglingahópar myndu ræna gamalt fólk af lífsviðurværi sínu fyrir utan matvöruverslanir segðu þeir: ,,Hey, djedusjka! Gefðu mér djengi!" Reyndar hefur rússnesk byggingarlist aðeins sést hér á landi, en alls ekki nógu mikið. Æsufellið er vissulega glæsilegt minnismerki um nána vináttu við Sovétríkin sálugu. Það má þó alltaf gera betur. Eins og venjulega yrði hafður sá öryggisventill á íslensku sjálfsvitundinni að haldið yrði uppi öflugri byggðastefnu. Þannig yrði komið í veg fyrir að of hátt hlutfall íslendinga flyttist í þéttbýlið. Íslenska tungan varðveitist að sjálfsögðu best í einöngruðum sveitum landsins, og eftir rússneska tímabilið væri þá hægt að sækja íslenskuna aftur í sveitirnar og lappa upp á hana. Eftir sætu frábær ný litbrigði í höfuðborginni og hinum stærri bæjarfélögum. Auðgað menningarlíf, heilsteyptari heimsmynd og ný viðskiptatækifæri. Eftir rússland væri svo hægt að sigla inn í Indónesíutímabil í nokkra áratugi.

laugardagur, maí 01, 2004

Dýrin í skóginum gríðarlega góðir vinir Ég skrapp út í Heiðmörk í morgun. Þar fór ég að hlaupa (lesist: ganga og skokka örlítið inn á milli, lafmóður og hrækjandi með blóðbragð í munninum). Skógurinn var yndislegur og fuglar sungu þar sín fegurstu lög. Þarna er líka búið að vera að grisja. Trjástofnar liggja eins og hráviði út um allan skóg. Ekki er vanþörf á að grisja dálítið þarna, enda er skógarbotninn heldur lífvana vegna sólarleysis og barr er ekki á trjánum fyrr en í 4 metra hæð sums staðar. Þar sem ég gekk um skóginn og naut náttúruhljóða og fersks lofts rakst ég á tré með skreytingu. Á því hékk hvítur brjóstahaldari. Þetta var svona lítið og kósý rjóður, og haldarinn hékk á grein rétt um 3 metra frá göngustígnum. Þarna hefur því einhver ákveðið að skipta um föt (eða....eitthvað) og barasta gleymt að taka með sér þessa flík! Seisei, gleymskan í þessu unga fólki nú til dags. En mér sýndist þetta vera svona ca...C-skálar þannig að ef einhverjir lesendur kannst við þetta þá er hann ennþá þarna og þið getið náð í hann.