Önundr Carrie Bradshaw Gunnar Páll hefur tjáð mér að símtalsfærslan sé í Fólkinu í dag. Skemmtilegt, þar sem að ég tók blaðið upp við hurðina í morgun og setti það á hilluna, en gleymdi að kíkja í það. Á leiðinni í skólann sagði ég við Ununa að ég hefði gleymt að kíkja á vikulegan dálk minn í Morgunblaðinu. Hún hló að mér og sagði mig sjálfsánægðan. Núna er hún annars í stúdentsprófi í sögu. Hún lét mig hlýða sér yfir gríska goðafræði til miðnættis í gær, og laumaðist svo fram úr frá mér klukkan 5.30 í morgun til þess að lesa um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, um Valtý, Hannes og fleiri góða. Það er svona. Sumir eru dugnaðarforkar. Ég veit að henni gengur vel á þessu prófi.
.
föstudagur, apríl 30, 2004
fimmtudagur, apríl 29, 2004
Draumur Prinsinn af Bangladesh kom til Íslands í opinbera heimsókn. Hann var 12 ára og mjög skrautlega klæddur. Ég sótti hann á Reykjavíkurflugvöll, og var sérstaklega skipaður til að sýna honum land og þjóð. Prinsinn var kominn hingað til lands til þess að biðjast fyrir og "helga framtíðina á Íslandi" fyrir hönd þjóðar sinnar. Ég fór að undirbúa ferð út á land, og prinsinn var eitthvað að stytta sér stundir (við vorum í einhverju húsi). Una Sighvatsdóttir var þá nýkomin úr sturtu og var að klæða sig inni í herbergi. Prinsinn gekk þá inn á hana þar sem hún stóð nakin, og skammaðist hann sín gríðarlega fyrir það. Hann hljóp út. Ég man ekki meira. En þetta var fremur steikt.
þriðjudagur, apríl 27, 2004
Símtal Ólafur Harðason stjórnmálafræðingur er á þeirri skoðun að kjósendur séu ekki heimskir. Ég skal ekkert fullyrða um það, en ég fékk rétt í þessu símtal frá einum heimskum kjósanda. Ef maður hringir í vitlaust númer, þá þrætir maður ekki við þann sem svarar um hvort númerið sé vitlaust eða ekki. Maður treystir dómgreind þess sem svarar í símann. Önundr: Halló Kvinna: Já halló Önundr: Jájá, halló Kvinna: Ég er að hringja hérna frá blómalagernum vegna sendingarinnar Önundr: Þú ert þá að hringja í vitlaust númer. Ég kannast ekki við þetta. Kvinna: Nei, sjáðu til. Þetta er hjá blómalagernum (hvað á ég að segja? já alveg rétt, ég skildi orðið bara ekki þegar þú sagðir það í fyrra skiptið! nú man ég hvað lager er!) Önundr: Já eins og ég segi, þú ert að hringja í vitlaust númer. Kvinna: Ég fékk sko upplýsingar hjá honum Bjarna sem er ráðningarstjóri og hann sagði að ég ætti að hringja í þetta númer. (Núnúnú? Sagði sjálfur Bjarni þetta, og hann er sko ekki vitlaus maður, ráðningarstjóri og allt! Ég hlýt bara að vera að rugla. Bíddu nú við jú, ég á í viðskiptum við blómalagerinn! Alveg rétt!) Önundr: Þú fyrirgefur, en ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað þú ert að tala. Þetta er vitlaust númer. Kvinna: Jaájá. Þú segir það vinur. (Haaaa? Hver rækallinn, hún sagði þetta með vantrú í röddinni!) Önundr: Já. Bless Kvinna: Bless bless. Það vantar ekki farsíma með myndavélum og rugli. Það vantar farsíma með búnaði til að setja höndina inn í svo maður geti löðrungað þann sem er á hinum enda línunnar. Dónavísa Þykir mjer það heldur hart hrammi að strjúk'um stinginn. Eg myndi sjúga eigið skart ef sveigt mig gæti hringinn! Jæja, þetta var nú leirburður. Mér datt þetta bara svona í hug.
Bloggheimurinn Undanfarið hef ég verið að skoða yfirlitið á teljari.is til að rannsaka hvaða góðu sálir rata inn á þessa síðu. Yfirleitt er þetta fólk sem ég þekki, þ.e. ef ég geri ráð fyrir því að hver og einn noti sína bloggsíðu og sinn tenglalista sem miðpunkt bloggrúntins. Nokkrar síður hafa þó tengil á mig án þess að ég þekki viðkomandi náið. www.hrannarm.blogspot.com Þessi ágæti maður tengir á mig og kallar mig þar Önna. Einnig er hann með tengla á fjölmarga MR-inga, m.a. min ægtefælle/hustru, svo ég geri þá ráð fyrir því að hann sé MR-ingur bara. Þakka fyrir tengilinn, Hrannar Már. www.fjandinnerlaus.blogspot.com Arngrímur þessi er fyrrverandi MR-ingur, sem ég hef hitt (ef ég er að hugsa um réttan mann) og hefur gott ef ekki kommentað hér á síðuna. Hann heldur úti ágætu bloggi og er greinilega á máladeild, þar sem hann slær miskunnarlaust um sig á latínu. Hann sleppir síðara u-inu í nafninu mínu og fær sérstakan plús fyrir það. www.torleifur.blogspot.com Þessi náungi tengir á mig undir sérstökum flokki sem heitir Blogg og hitt sem ég hef rekist á. Í þeim flokki eru ég, Gunnar Páll Baldvinsson, Dr. Gunni, Katrín.is og Árni.Hamstur.is Þorleifur segir á síðunni sinni: ,,Öll blogg sem hafa tengil af blogginu mínu eru blogg sem ég les. Þegar ég sest niður og fer á síðuna mína, sem er skammarlega oft, þá geng ég á listann og tékka á þeim flestum. Sumum tékka ég oft á, önnur eru neðar á forgangslistanum." www.upsaid.com/annamargret Þarna var tengill á mig en síðan hefur nú verið tekin niður. Ég þekki ekki þessa stelpu, Önnu Margréti og á síðuna var sjaldan skrifað. Þó var á tímabili farið reglulega hingað inn í gegnum tengil þar. Var ég kannski í lífshættu? www.superman13.blogspot.com Hann setur mig í flokkinn Kallar sem eru skemmtilegir. Ég geri því ráð fyrir að hann sé mér ekki óvinveittur. Hver hann er veit ég samt ekki. Ég ber samt kennsl á einhverja einstaklinga á linkalistanum hans. Hann tengir svo aftur á www.oskarinn.blogspot.com www.oskarinn.blogspot.com Þó hann sé ekki með tengil á mig lengur verð ég að minnast á þessa síðu. Þarna var tengill á mig undir nafninu Andar. Hvernig viðkomandi Óskar fékk það út veit ég ekki. Hugsanleg aðferð við það gæti hafa verið Önundur --> Önndr --> Önd --> ef. til Andar. En ég mæli eindregið með því að lesendur kíki á síðuna, enda er útlit hennar með eindæmum hressilegt og gleðivekjandi. Óskar er sannkölluð prinsessa.
mánudagur, apríl 26, 2004
Vefþjóðviljinn ...er einstaklega flippaður í dag. Greinarhöfundi hefur ekki fundist pistillinn sinn um hárgreiðslu- og jafnréttismálefni ESB vera nógu langur, svo hann ákvað að vekja athygli á hroðvirknislega gerðum forvarnarlímmiða á sígarettupökkum. Einhver gúrkutíð?
Blablablabla Já frábært. Viljið þið ekki bara standa hérna og blaðra um einhverja hluti í allan dag? Ég er ekkert að læra hérna eða neitt. Neinei, þetta er allt í lagi. Haldið þið bara áfram að tala upphátt. En látið ykkur ekki bregða þó ég kasti einhverju í ykkur fljótlega. T.d. stól, borði eða encyclopædia britannica.
Skandinavíski maðurinn Ég sat við hliðina á honum um daginn. Og viti menn, hann er skandinavískur. Hann var að tala með norskum hreim á ensku við einhverja gellu og í stað þess að segja "but" sagði hann "men". Tel ég þetta óhrekjanlega sönnun þess að hann sé skandinavi eins og ég hafði ályktað af útliti hans einu saman. Með hrokkið hár og skíðahúfu, sólbrúnn með einhver sólgleraugu sem gætu átt vel við í Bomfunk MC's myndbandi.
sunnudagur, apríl 25, 2004
Rithönd Henrys Kissinger ...er gersamlega óskiljanleg. Hann skrifar nafnið sitt eins og tvö slög í hjartalínuriti.
laugardagur, apríl 24, 2004
föstudagur, apríl 23, 2004
Um minningargreinar Á andríki.is er í dag minningargrein um Harald Blöndal lögmann og sjálfstæðismann. Þann mann þekkti ég ekki, en ég las samt alla greinina í gegn. Það var bara nokkuð gaman að henni. Hún er skrifuð á þann hátt sem mér finnst að minningargreinar almennt eigi að vera skrifaðar. Hún rekur skemmtilegar sögur af hinum látna og segir frá því hvaða kostum hann var gæddur. Það mætti segja að hans sé í greininni minnst með gleði yfir því að greinarhöfundur hafi fengið að þekkja hann, fremur en sorg yfir því að hann sé nú látinn. Þ.e. minningin um góðu stundirnar er tekin fram yfir sorgina. Þetta er einmitt það sem gerir minningargreinar áhugaverðar til lesningar. Mitt álit er að sumar minningargreinar séu varla hæfar til birtingar í blöðum. Ekki vegna þess að ég þoli ekki væmni eða vegna þess að mér finnist þær leiðinlegar heldur vegna þess að mér finnst efni þeirra ekki eiga erindi við aðra en þá sem eru að syrgja og þá sem stóðu viðkomandi tiltölulega nærri. Það er ekki samasem merki á milli þess að fólk almennt virði og skilji tilfinningar þeirra sem missa ástvini og svo aftur þess að vilja lesa grein, skrifaða í annarri persónu sem fjallar um tilfinningar þess eftirlifandi. Ég meina þetta ekki á kaldlyndan hátt. Sjálfur myndi ég skrifa slíka minningargrein ef ég missti ástvin. En ég myndi setja hana ofan í skúffu, en ekki í blaðið. Hún væri skrifuð fyrir mig og þann látna.
Gleðilegt sumar Ég hef á tilfinningunni að þetta verði afar gott sumar. Í bígerð er mögnuð útilegu-, veiði- og gönguferð, mikið afslappelsi og lestur, góður félagsskapur, leynifélag og grillmatur. Verst að ég á eftir að fara í þessi þrjú próf þarna...
miðvikudagur, apríl 21, 2004
Fluguveiðar Kalli minntist einu orði á silungsveiðar á blogginu sínu. Það var illa gert, því nú fékk ég fiðringinn í mig. Fluguveiðar krefjast æfingar og hæfni. Ég tel mig bæta tæknina á hverju ári og er ég nú orðinn slarkfær. Síðasta sumar veiddi ég allnokkra sjóbirtinga í Hvítá, einn Þingvallaurriða, tvo litla sæta Hítarvatnsurriða og einn kröftugan 8 punda lax. Það er æðislegt að veiða á flugu þegar veðrið er gott. Fiskurinn stekkur allt í kringum mann, nartar af og til í litla þríkrækju og áin liðast rólega áfram. Hrossin við hinn bakkann liggja makindalega, fylgjast með og hrista höfuðið. Hrossagaukur lætur af og til heyra í stélfjöðrunum á sér. Best að kasta einu sinni enn...og þá kemur kippurinn. Þeir sem halda því fram að fluguveiðar séu leiðinlegar hafa annað hvort ekki prófað þær, eða eru að ljúga. Heilvita menn getur ekki greint á um þetta atriði.
Ég rétt kíkti á dimmisio ...þar sem hún Una mín var að dimmitera. Þetta var allt að klárast þegar ég mætti á staðinn, en það var samt gaman að þessu. Þau voru sovéskur verkalýður, klædd í "gamaldags"verkamannaföt, með áróðursspjöld á rússnesku og blaktandi sovétfána. Einn fáninn hafði meira að segja mynd af Lenín og nafn hans. Það var líkt þessum kommadjöflum að taka upp á þessu. Ekki tókst þeim að flagga Lenín af skólabyggingunni, ríkisstofnuninni, en það hefði verið afar áhugaverð sjón. Mér skilst að þau hafi haldið mótmæli fyrir utan stjórnarráðið í smá stund og forsætisráðherrann veifað þeim út um gluggann. Ekki var því betur tekið en svo að æpt var á hann "niður með auðvaldið". Það þýðir auðvitað ekkert að fara úr karakter, þó svo að forsætisráðherra sé eitthvað að veifa. Una kíkti svo á bókhlöðuna áðan, í fullum skrúða og með Lenínfánann. Fólk tók eftir henni.
þriðjudagur, apríl 20, 2004
Viðbót
Utanaðkomandi lesendum síðustu færslu bendí ég á að ég heyrði ekki þessa umræddu predikun og legg ekki sérstaklega út frá henni í færslunni, enda þekki ég efni hennar ekki sérstaklega. Færslan mín er bara almennt um þetta efni sem Þorgeir og Gísli eru að tísta um. Presturinn títtumræddi var semsagt Örn Bárður Arnarson. Það er grein í Fréttblaðinu frá manni sem er ósáttur við predikun síra Arnar Bárðar.
Og fyrst ég minnist á Fréttablaðið...
Hvaða tilraun var þessi forsíðufrétt á sunnudaginn, 18. apríl? ,,Vopnuð víkingasveit ruddist inn á heimili".
Prestar og pólitík Þorgeir bróðir og Gísli Björn rífast nú um það hvort prestar eigi að vera pólitískir eður eigi. Þetta er skemmtilegt hjá þeim, og hvor hefur nokkuð til síns máls. Gísli hefur nú tekið upp á þeirri nýbreytni að lesa einhverja handhæga tilvitnanabók, og notar hana óspart á bloggi sínu. Það gerir hann skv. mælingum 23% gáfulegri en ella. Þeir romsa nú út úr sér þvílíkum færslum að það mætti halda að þeir ættu að vera að læra undir próf. Kannast við þetta. Ber er hver að baki sér nema bróður eigi, og hér er mitt innlegg: Eiga prestar að vera pólitískir? Já, tvímælalaust. Trúarbrögðin snúast um að móta einhverja lífsstefnu. Ef trúin á að vera lifandi þá þykir mér eðlilegt að hún sé sett í samband við nútímann og atburðir hans túlkaðir í ljósi trúarbragðanna. Heimsmálin eru þar kjörinn vettvangur til að taka dæmi. Presturinn er lærður í trúarbrögðunum (ekki bara kristninni) og túlkun biblíunnar. Þess vegna ætti að vera áhugavert, frekar en eitthvað annað, að heyra hvernig hann setur trúna í samband við nútímann. Ef hann á (eins og Gísli vill sennilega) að taka endalaus huglæg og óraunveruleikatengd dæmi úr 1. Mósebók og fjalla um hugmyndir sínar út frá þeim þá hefur iðkun trúarbragðanna ekki sama gildi og ella. Þá fá sóknarbörnin ekki að heyra frá prestinum sínum hvernig hann telur að kristinn maður eigi að bregðast við því sem er að gerast í kringum hann, í dag, raunverulega. Presturinn er hins vegar skeikull eins og aðrir, og heldur sennilega engu öðru fram. Hér er ekkert klerkaveldi við lýði. Prestur í kirkju, eða Ingvi Hrafn á Útvarpi Sögu - er einhver munur? Gísli bendir á að prestur sá sem hann heyrði predika hefði beint orðum sínum að aðgerðum ráðamanna, helst erlendum, en þó einnig hérlendum. Hann telur að þar sem ráðamennirnir séu ekki sóknarbörn prestsins, og hafi þar af leiðandi sjálfkrafa (að mati Gísla) engan áhuga á því sem hann er að segja, þá sé presturinn að misnota aðstöðu sína til að koma skoðunum sínum á framfæri. Og í samhengi við þetta segir Gísli: ,,Staðreyndin er sú að prestar eru eins og þú [Þorgeir, innsk. höf.] segir siðapostular en boðskapur þeirra ætti að miðast við þarfir söfnuðar þeirra. Af nógu er að taka sem stendur huga safnaðarbarna prestsins ágæta miklu nær en athafnir ráðamanna erlendra ríkja. Mín skoðun er sú að prestar megi tala almennt um boðskap Guðs en að ráðast með beinum hætti á ákveðnar ákvarðanir eða athafnir stjórnvalda er bara ekki í þeirra verkahring, til þess höfum við stjórnarandstöðuna. Það vill bara svo til að hún er full af aumingjum sem geta ekki komið fyrir sig orði svo maður skilur svo sem að prestgreyið verði svolítið pirrað og missi stjórn á skapi sínu. " Hverjar eru þarfir söfnuðarins Gísli? Ætti presturinn kannski bara að tala um uppeldi barnanna, hver á að sjá um uppvaskið, að börnin eigi að vera góð við ömmu o.s.frv.? Er það það eina sem "börn" sóknarinnar þurfa að velta fyrir sér? Slík atriði standa huga þeirra nær, það er rétt. En þar með er ekki sagt að heimsmálin eða pólitíkin geti ekki verið miklu mikilvægari og áhugaverðari efni í predikun. Eitthvað sem stendur umfjöllunarefni trúarbragðanna miklu nær. Fyrir mér má presturinn tala um hvað sem honum sýnist, svo lengi sem hann gerir það út frá þeim trúarbrögðum sem hann er talsmaður fyrir og reynir að heimfæra þau og þeirra gildi upp á eitthvað. Gísli er svo örlátur að telja prestinn mega tala almennt um boðskap Guðs, en hann telur óviðeigandi að hann ráðist á tilteknar ákvarðanir ráðamanna. Af hverju? Fólk má ráðast á ákvarðanir ráðamanna í útvarpi, sjónvarpi, á netinu, á kaffihúsum, á Austurvelli, á skipum, í flugvélum og úti í geimnum ef því sýnist. En hvað, ekki í kirkjunni? Við búum í kristnu samfélagi (að langmestum hluta) og þetta samfélag, daglegt líf okkar og löggjöfin að stórum hluta eru byggð á kristnum gildum. Og þegar framkvæmdavaldið sem framfylgir lögunum gerir eitthvað sem stríðir gegn góðu og gegnu kristnu siðferði að mati presta, eiga þeir þá ekki að tjá sig um það?! Jú, ef þeir eiga einhvern tímann að rétta úr hryggnum á sér og segja eitthvað, þá er það í slíkum tilfellum! Biskupinn hefði alveg mátt sleppa því að væla út af einhverju draugasetri á Stokkseyri á sínum tíma, og þess í stað ráðast harkalega á Íraksstríðið. En kannski var hann bara fylgjandi aðgerðunum í Írak, hver veit? Ekki ég. En Gísli var sennilega ánægður með vælið út af draugasetrinu, enda eru slík umfjöllunarefni hæfandi fyrir smáar sálir sóknarbarna úti á landi. Hér er þjóðkirkja, og á meðan títtnefndir ráðamenn þjóðarinnar breyta því ekki, á meðan þeir halda áfram að láta ríkisrekna útvarpsstöð útvarpa orðum presta á ríkislaunum, þá eru þeir að leggja blessun sína yfir það sem kristnin hefur fram að færa. Þeir eru að leggja blessun sína yfir þann boðskap sem prestarnir hafa fram að færa. Þegar prestar fara að segja þeim til syndanna vegna gjörða þeirra þá ættu allir þessir "sannkristnu" ráðamenn bara að hugsa sinn gang. En svo ég fari að slútta þessu þá getur einstaka kristna menn auðvitað greint á um siðferði og þeir þurfa ekki að vera sammála um það hvað sé rétt og rangt. Þá verða þeir bara að rífast um það og reyna að komast að einhverri niðurstöðu. Ráðamenn þurfa ekkert að fara eftir því sem prestarnir segja, þeir þurfa ekki einu sinni að hlusta á það frekar en þeir vilja. Prestarnir ættu að segja þar sem þeir vilja segja, og ráðamennirnir ættu að taka mið af því eftir eigin bestu skynsemi og framkvæma eftir því sem þeir telja fyrir bestu. Ég sé hvergi í þessu samhengi, ólíkt Gísla, að einhvers staðar þurfi að takmarka það sem prestarnir megi tjá sig um. Það er svo allt annar handleggur hvort að aðskilja eigi ríki og kirkju, umræða sem ég nenni ekki að fara út í í þessari færslu. Sjálfur held ég að það væri gott mál, og þá fyrst myndu prestarnir sennilega fara að hamra á sínum boðskap.
Gunnar Páll bíður og bíður ...eftir tölvu. Hann þarf víst að prenta út blessaður karlinn. Svona er þetta nú, þegar menn geta ekki bara prentað út úr sínum eigin tölvum. Ég þurfti nú að bíða eftir tölvu frekar lengi hérna áðan karlinn minn. Hef enga samúð með þér.
mánudagur, apríl 19, 2004
Andleysi Hvernig getur nokkuð efni verið svona leiðinlegt? Hefur einhverri kódeinafleiðu verið úðað yfir allar kennslubækur í sifja- og erfðarétti? Það svífur í það minnsta ískyggilega á mann um leið og maður fer að fletta þessum blaðsíðum.
laugardagur, apríl 17, 2004
föstudagur, apríl 16, 2004
SKABOS Ef ég vildi fá útgefið leyfi til skilnaðar að borði og sæng, þá yrði ég að hafa til taks hvorki meira né minna en sáttavottorð (ef ég ætti ósjálfráða barn) útgefið af presti eða sýslumanni eða dómara ef ég væri utan trúfélaga og ákvörðun um fjárskipti þ.e. annað hvort samning eftir 95.gr. hjskl., úrskurð dómara um opinber skipti eða yfirlýsingu um eignaleysi. Þar að auki yrði ég að taka ákvarðanir um framfærslu milli mín og konunnar og ákvarðanir um börnin, þ.e. forsjá og meðlag. Gaman að þessu, eða ekki.
fimmtudagur, apríl 15, 2004
Rakstur ÉG ER MEÐ YFIRVARARSKEGG! Una er hrædd við mig og vill ekki kyssa mig. Hún segir að ég sé eins og pervert. Áðan var ég samt flottari, þá var ég með skegg eins og James Hetfield þegar Metallica gaf út plötuna Load, ef einhver man ennþá eftir því. Þetta er feit motta. En ég held að ég taki þessa önn öfugt á við haustönnina hvað andlitshár varðar. Þá var ég nakinn en safnaði í prófunum. Nú hef ég verið með alskegg alla þessa önn og ætla því að taka það allt af fyrir prófin. Svona vorhreingerning.
Star-Trek Já, Star Trek er skemmtilegt sama hvort þið viðurkennið það eða ekki. Trekheimurinn, fullur af enskumælandi geimverum sem líta allar í grunnatriðum út eins og menn, er mjög skemmtilegur á að líta og hefur á mörgum veikindadögum reynst mér stoð og stytta. Þó aðallega stoð. Mínir uppáhalds vondumenn eru að sjálfsögðu "The Borg", eða Borgverjar sem "assimileita" allt sem þeir komast í tæri við. Þeir gera óvini sína að viljalausum verkfærum samvitundar þeirrar sem Borgsystemið byggist upp á og reyna jafnframt að taka bestu eiginleika þeirra sem þeir sigra og nota þá til að bæta kerfið. Þetta er auðvitað stórfenglegt, svo ekki sé minnst á að þeir fljúga um himingeiminn í risavöxnum teningum. Af hinum mestu karakterum Star-Trek verður að nefna Jean Luc Picard (sem var einmitt á tímabili assimileitaður af Ðe Borg), leikinn af Jason Patrick. Kunnugir menn tjá mér að Patrick sé alveg fastur í hlutverki Picard og takist illa að skapa sér aðra ímynd. Picard er í raun mildur stjórnandi en hefur hæfileikann til að vera staðfastur og harður þegar á reynir. Ekki get ég séð kapteinanan Sisco og Janeway komast þar sem hann hefur hælana. Það fer líka í taugarnar á mér hvernig Sisco talar. Hann hefur munnhreyfingar á borð við sjálfan James Earl Jones. Af öðrum skemmtilegum þjóðflokkum mætti nefna Ferengi. Þeir eru þeim kosti gæddir að vera ekki einungis með samvaxnar augnabrúnir heldur er hún (sú samvaxna) einnig samvaxin við eyrum sem eru í þokkabót ógnarstór. Í einhverjum eldgömlum þætti sá ég Ferengimann segja: Eugh, humans are so disgusting! They force their women to wear clothes! Þótti mér þetta skemmtileg athugasemd, en jafnframt réttmæt. Svo eru klingonarnir auðvitað áhugaverðir. Commander Worf, Stjörnuflotaliðsforingi, er þar einna skemmtilegastur. Hann er mikill að vexti og rammur að afli, eins og klingona er von og vísa. En hann á líka í stríði við ákveðna innri togstreitu. Hlutverk það sem hann hefur valið sér í lífinu, að vera liðsmaður Stjörnuflotans samræmist ekki vel náttúrulegu eðli hans, en klingonar eru almennt skapstórir og ofbeldishneigðir. Hann er hins vegar yfirleitt stilltur og reynir að hemja sig. Hann reynir að betra sig. Jájá, ég hef horft á heilu þættina þar sem sálarstríð Worfs er í forgrunninum. Svo er þarna velt upp skemmtilegum pælingum eins og tilvistarrétti og tilfinningum tölvuforrita. Læknirinn á geimfarinu Voyager er besta dæmið um það, auk þess sem vélmennið Data er í sífellu að reyna af fremsta mætti að verða mennskur. Báðir hafa þeir komist í tæri við tilfinningar, með því að láta hlaða niður í sig tilfinningum, eða stinga í sig þar til gerðum tilfinningakubbi. Þeim hefur gengið erfiðlega að átta sig á tilfinningum eins og hræðslu, sorg og gleði og jafnvel misst alveg stjórn á þeim á ögurstundu. Jájájá, gaman gaman. Ég gæti skrifað hér mikið meira um þetta. En þið vitið þá af þessu, ég er Trekkari í mér. En ég er samt ekkert geðveikur! Ég syng ekki Klingonska þjóðsönginn við fánahyllingu á morgnana sko... Þessi samhengislausa færsla spratt af bloggþörf sem skyndilega gaus upp. Ég vona að hún sé ekki of samhengislaus.
miðvikudagur, apríl 14, 2004
Blíður andvari sem leikur létt um vanga mér? Ég get svo svarið það. Einhver var að freta hérna. Ég heyrði hann rifna einhvers staðar í fjarska en áttin var heldur óræð, svo ég gat ekki staðsett atburðinn. Svo fóru menn eitthvað að hlæja hérna í nágrenninu. Ég veit ekki hvort á að fordæma tillitsleysið eða lofsyngja hugrekkið. Segiði svo að ekkert gerist hér á bókhlöðu allra landsmanna.
mánudagur, apríl 12, 2004
Djöflapáskar annað árið í röð Ég minntist á þetta hér á síðunni í fyrra um svipað leyti. Páskarnir eru, eins og flestum er kunnugt, kristin hátíð. Nú á að minnast píslargöngu krists, mildi hans og fórnfýsi, krossfestingar og upprisu. Þess vegna er ósmekklegt að skreyta páskaegg með djöflum, árum og andskotum. Þetta gerir súkkufyrirtækið Nói Síríus nú annað árið í röð. Til að minna á hversu óskemmtilega mynd við höfum af púkum og skröttum má minna á gamlar sögur um Sæmund fróða, eins og t.d. Púkablístruna en af nýrra efni mætti nefna kvikmyndina The Exorcist þar sem einn slíkur skratti kom sér fyrir í líkama stúlkubarns. Um páska er ekki við hæfi að hafa eftir þau orð sem stúlkukindin lét út úr sér í myndinni þegar hún notaði róðukross sem eitthvað annað en róðukross. Þess vegna mótmæli ég því hér með að páskarnir séu gerðir að djöflahátíð spikfeitra barna sem úða í sig súkkulaði þegar þau ættu með réttu að sitja heima hjá sér í óþægilegum sparifötum, bundin niður í stól í "betri stofunni" að hlusta á passíusálmasöng í útvarpinu og vera í fýlu. Hvað ætli börnin fái í skóinn frá jólaskrattanum næstu jól? Kúk?
þriðjudagur, apríl 06, 2004
Þýðendur Næstum allar tölur sem nefndar eru í sjónvarpinu, frumtölur eða raðtölur, eru vitlaust þýddar. Dagsetningar, kílóafjöldi, vegalengdir, allt saman. Ég er að verða vitlaus á þessu. Þeir virðast geta stafsett allan andskotann rétt, en þegar verkefni felur í sér eitthvað á borð við 24. febrúar 1997 þá er verið að biðja um of mikið. Útkoman verður yfirleitt eitthvað allt annað. Ég hef séð þetta óteljandi sinnum á öllum íslensku sjónvarpsstöðvunum. Hvað er málið? Eru þetta verklagsreglur fyrir þýðendur gefnar út af menntamálaráðuneyti? Alþjóðlegt samsæri? Einkahúmor þýðenda? Vinsamlegast uppfræðið mig. Gluggaveður Sól, þurrt og skítkalt. Þannig var þetta í dag.
mánudagur, apríl 05, 2004
Una mín 19 ára Jújú, stúlkan átti afmæli í gær 4.apríl og varð þá 19 ára gömul. Hún hélt kökuboð sem fór mjög friðsamlega fram að mestu leyti. Fólk sat og spjallaði í makindum. En af og til gekk nakinn maður fram hjá glugganum í næsta húsi og stukku þá veislugestir allir út í glugga og öskruðu hver á annan. Nokkrar góðar setningar fengu að fljúga, eins og t.d. "Ég sá hann, ég sá hann, hann var kroppur!" og "Oooohhh, mig langar svo að sjá typpi!" Þeim sem vilja óska stelpunni til hamingju með afmælið bendi ég á heimasíðu hennar. Vorið er komið Já, ég held að nú sé vorið alveg komið. Það er auðvitað ekkert svakalega hlýtt úti, en ég sé ekki fram á meiri snjó á þessu ári fyrr en í nóvember í fyrsta lagi. Það er hugsun sem gæti á einhverjum tímapunkti gert mig óstjórnlega glaðan. Gettu betur madness Áhugavert að sjá bloggsíðu Borgómannsins þar sem ein færsla á síðunni hans hefur fengið 82. athugasemdir. 82!
laugardagur, apríl 03, 2004
Verslingarnir taka GB Verzló var sterkara liðið í þessari keppni og liðsmenn stóðu sig að sjálfsögðu eins og hetjur. Ætli þetta hafi ekki bara verið skemmtilegasta Gettu betur keppni hingað til? En fagnaðarlætin í lok keppninnar voru svona tiltölulega óhófleg miðað við að það var verið að vinna spurningakeppni. Það var samt bara hið besta mál, enda nýir sigurvegarar í fyrsta sinn í langan tíma. Fólk í gulum peysum sást þarna gráta af gleði og fallast í faðma við annað fólk. Gettu betur er reyndar svo skemmtilegt dæmi um það hversu furðulegur hópur Íslendingar eru. Á úrslitakeppninni MR-Borgó fyrir þremur árum var enskur drengur að nafni Paul McAllister. Hann hafði á orði við mig að þetta væri það furðulegasta sem hann hefði séð. Ungt fólk að sturlast úr geðhræringu yfir því hvort þessi eða hinn nái að svara spurningu um eitthvað sögulegt atriði. Fótboltabullur, þungarokkarar og nörd sameinuð í tryllingslegri dýrkun á þremur fjölfróðum og vel gyrtum drengjum. Englendingurinn hafði þetta skemmtilega sjónarhorn hins utanaðkomandi. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera, fróðleiksfýsnin unga fólksins! Morgunblaðið Mér líður eins og ég sé í nafnlausu sambandi við einhvern starfsmann á Morgunblaðinu sem ég veit ekki hver er. Viss interaksjón hefur átt sér stað og pottafærslan birtist í Fólkinu eins og ég var að vona. Tengslin eru til staðar. Ég segi bara eins og Laddi í laginu um Jón spæjó: Hittu mig úti á Grandakaffi klukkan sex, að staðartíma. Ég verð með 17.júní-fána í hendinni og bleika jólasveinahúfu á höfðinu.
föstudagur, apríl 02, 2004
1. apríl Í gær var ég lygari. Sumir segja að maður eigi að fá fólk til að hlaupa yfir þröskulda. Það er bara bónus. Mestu skiptir að ljúga það uppfullt af alls konar rugli. 1. Jens Þórðarson Við lofuðum hvor öðrum í haust að ef við skyldum vinna þann stóra á svokölluðum "launamiða", þá skyldi vinningshafinn gefa hinum 20% af fyrstu útborguninni. Ég komst aðeins á leið með að ljúga þessu að Jens, en hann kveikti þó á perunni áður en hann fór af stað frá VRII og út á hlöðu að ná í peninginn sinn. 2. Birgir Pétur Þorsteinsson Ég sagði honum, Flórensbúanum, að ég væri búinn að skrá mig sem skiptistúdent í háskóla í Róm næsta haust. Hann varð mjög glaður og í einlægri gleði sinni hljóð hann á milli hæða til að segja Steinþóri frá þessum gleðitíðindum. Missjon akomplisst. 3. Bragi Páll Sigurðarson og Konráð Jónsson Ég laug að þeim að ég væri búinn að kaupa mér Toyota Celica. Frekar tilgangslaus lygi, en mér datt bara ekkert betra í hug. Hún var gyllt, '98 módel, með DVD spilara, minidiskspilara, sjónvarpi, spoilerkitti og flækjum. Fékk hana á 780.000 kall. 4. Garðar Snæbjörnsson (Köben) og Alexandra Kjeld (Toulouse) Þeim sagði ég að ég hefði sent þeim sendibréf. Tilgangurinn var sá að reyna að fá þau til að fara niður að gá í póstkassann sinn. En það gekk illa þar sem Garðar var í skólanum og Alexandra var hjá vinkonu sinni, eftir að hafa gist þar vegna þess að málari hafði málað gólfið á stigaganginum heima hjá henni, svo hún komst ekki inn. Bömmer. 5. Sigurjón Örn Sigurjónsson Sagði honum að ég hefði týnt klassískum geisladiskum sem ég er með í láni en það væri allt í lagi því ég hefði keypt nýja (lélegri) í staðinn sem væru með mörgum sömu verkum á. Hann trúði þessu ekki, enda enginn djöfulsins fáviti. 6. Gísli Björn Bergmann (læknanemi) Þetta var eftir á að hyggja auðvitað mjög ófyndið. En þegar maður er í hláturskasti er allt fyndið. Ég þóttist nálgast hann mjög einlægur í leit að læknisráði: Önundr says: blessaður, ertu einn? Gisli Bjorn says: já Gisli bjorn says: ég er heima, einn Önundr says: já mig langaði til að spyrja þig að smá læknisráði eða svona health issue smá. Gisli Bjorn says: OK Önundr says: Það er varðandi hægðirnar sko Önundr says: Smá vandamál sko Gisli Bjorn says: OK lát heyra Önundr says: ég hef tekið eftir því að þegar ég set mat í rassinn á mér, þá kúka ég með munninum. Þetta þótti hinum fullorðna Gísla sko alls ekki fyndið og gaf mér leiðbeiningar um það hvernig ég gæti keypt mér kímnigáfu, en selt þá gömlu fyrir fimm aura í staðinn. Það var auðvitað ósmekklegt af mér að gera grín að einlægni hans og faglegum viðbrögðum við nálgun minni. Auk þess sem húmorinn var á lægsta mögulega plani. En það er allt í lagi. Sjonni átti hugmyndina. 7. Margrét Erla Maack Ég reyndi að ljúga að henni að ég væri að fara sem skiptistúdent til Argentínu í haust. Hún trúði því, en eftir langa þögn kallaði hún mig lygalaup, sagði bless og fór. Ég vona að hún sé ekki reið yfir þessu. 8. Tómas Karl Aðalsteinsson Þar sem Tómas er mikill körfuboltaáhugamaður laug ég því að honum að Scottie Pippen væri látinn. Hann hefði farist í flugslysi. Hann gleypti þetta í dálítinn tíma, og var sorgmæddur mjög. Svona smá framhald af ósmekklega húmornum. Svo nennti ég þessu ekki lengur, fór í bíó klukkan sex og svo í leikhús klukkan átta.
fimmtudagur, apríl 01, 2004
Hádegismatur með Varða Jæja, þá er að skella sér í hádegismat. Varði kallinn ætlar að mæta, og verður gaman að setjast niður með honum og spjalla. Ætli hann komi ekki fótgangandi, enda er bíllinn hans í klessu eftir áreksturinn sem hann lenti í í gærkvöldi. Strákurinn er þó alveg heill heilsu og ekki sér skrámu á honum. En ef þið kíkið á blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu í dag, sem ég hvet ykkur til að gera, sjáið þið myndina af silfurgráu Corollunni hans Varða, alveg í mauki upp við þennan ljósastaur. Eins gott að strákurinn tryggir ekki eftir á og spennir beltin!