#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

föstudagur, janúar 30, 2004

L'auberge espagnole Nú er í gangi frönsk kvikmyndahátíð í Háskólabíó. Við skelltum okkur á myndina Evrópugraut núna áðan. Þetta var frábær mynd, sérstaklega skemmtileg og bara góð á allan hátt. Ég mæli hiklaust með henni og gef henni þrjár stjörnur af fjórum mögulegum, eða jafnvel 3,25 stjörnur. Farið bara á þessa mynd á meðan þið getið. Hún er mjög skemmtileg.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Óbrigðul spá mín um úrslit væntanlegra forsetakosninga í BNA Ef John Kerry verður kandídat demókrataflokksins fyrir kosningarnar tel ég að það sé mjög lítil von fyrir demókrata. Það er ekki af því að Kerry sé ómálefnalegur eða heimskur, ég veit lítið um hann. Það sér það bara hver maður í hendi sér að slagurinn er fyrirfram tapaður fyrir Kerry. Eins og fyrr kom fram hér á síðunni er Kerry meira eins og vel þroskaður banani sem búið er að stíga á í miðjunni, en manneskja í útliti. George W. Bush er svo aftur á móti mjög líkur apa. Fram á það hefur verið sýnt með ítarlegum samanburði á internetinu. Og hvað? Og hvað með það? - segið þið, fáfróðir lesendur. Jú, apar borða nefnilega banana.

Hann vann á eyrinni vikuna alla Aðgerð 11. febrúar? Hækjur í mánuð? Ég held það...

mánudagur, janúar 26, 2004

Er það bara ég eða? Lítur John Kerry forsetaframbjóðandakandídat og demókrati út eins og stór og vel þroskaður banani sem einhver hefur stigið á í miðjunni?

Tryggjum fagurt umhverfi Í gær var flokkur stáliðnaðarmanna að störfum inn í vinstra heilahveli mínu og olli það mér nokkru hugarangri. Ég brá á það ráð ásamt kvinnu minni að ganga inn í þann vesæla biðsal dauðans McDonalds í Smáranum. Þar sem við vorum að leggja Þrumunni í stæði fyrir utan varð okkur starsýnt á skilti og kaldhæðnislegt baksvið þess. Skiltið var fast á ljósastaur, það var grænt með gulum stöfum. "Tryggjum fagurt umhverfi". Fyrir aftan skiltið mátti svo líta nokkuð stóran fláka af sundurrifinni jörð og niðurtroðinni af stórvirkum vinnuvélum. Afgangsstórgrýti úr húsgrunnum lá þar og innan um það járnabendingar og steypuklumpar. Rusl fauk í hringi og trapisur innan um steypujárnin og hráslagalegt veðrið bætti gráu ofan á svart. Það eina sem vantaði var dautt tré með fúnum kræklóttum greinum og dauðann mann hangandi í því í snöru. Þá hefði boðskapur skiltisins komist fyllilega til skila.

laugardagur, janúar 24, 2004

Der letzte Samurai Fór á þessa mynd í gær. Klisjurnar voru ekki fleiri en maður hafði búist við, Tómas Krús var sæmilegur en Ken Watanabe var skemmtilegri. Hann var svipsterkur. Myndin var annars fín bara, ekki verri en svo að ég nenni ekki að setja út á hana hér. Meira um Watanabe-slektið Ég minnist þess að á Stöð 2 var starfræktur sjónvarpsmarkaður lengi vel, og þar voru seldir heilsukoddar. Kynning sú var spiluð u.þ.b. gúgúlplex sinnum og horfði ég á það í hvert einasta skipti. Þetta var besta auglýsing sögunnar. Það var enginn annar en Dr. Kazu Watanabe sem kynnti vöruna og talaði eins og svo margir Japanir, þannig að hann sagði L í stað R og andaði óhóflega með H-inu. Þið þekkið borunina. Hann sagði: "Hcccchhhhello, I am doctor Kazu Watanabe, and I have a detiCAted many years of my life improve people sleep." Svo fór hann að setja lóð ofan á hin ýmsustu koddainnvols sem komið hafði verið haganlega fyrir í glærum sívalningum. Hann notaði 5 punda lóð og alltaf kramdist fiðrið undir lóðinu. Hins vegar þegar hann tók lóðið (jafnþungt) til að setja ofan á hveitiklíðið (sem var í heilsukoddanum) sagði hann "Ooohhh, quite a heavy!". Svo henti hann lóðinu á klíðið sem gaf ekki undan. Þetta sýndi með óyggjandi hætti fram á að hveitiklíðiskoddinn var óstöðvandi söksess. Ég bíð alltaf eftir því að Dr. Watanabe snúi aftur á íslenska sjónvarpsskjái áður en hann geispar golunni.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Asnalegt orð - Hugsanlegar aðstæður á veitingahúsi Má bjóða herranum forrétt? - það er laukrétt! Ég held ég fái mér laukrétt. Laukrétt skal herrann fá, laukrétt val! - Laukrétt, er rétturinn tilbúinn? Kokkurinn lauk lokinu af laukréttinum rétt í þessu, hann er laukrétt soðinn! Nokkrar mínútur líða: Jæja, herran lauk réttinum sé ég! - Laukrétt, ég lauk laukréttinum rétt í þessu Laukréttirnir hér eru svo sannarlega laukrétt matreiddir, má bjóða yður aðalréttinn núna? - Laukrétt.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Eitthvað að lesa Nú, ég mæli með tveimur bókum í dag. Annars vegar Silmerlinum eftir J.R.R. Tolkien. Hún er frábærlega skemmtileg og hverjum þeim sem finnst goðafræði almennt skemmtileg, sama hvort það er norræn, grísk eða eitthvað annað, ætti að finnast Silmerillinn mjög skemmtileg bók. Og svo er auðvitað skilyrði að vera geðveikt nörd líka. Hún er semsagt baksvið Hringadróttinssögu. Hins vegar mæli ég með Útlendingnum eftir Albert Camus nóbelskáld. Hún er stutt, laggóð og þrusugóð.

mánudagur, janúar 19, 2004

Frost activity - Ólafur Elíasson Skemmtilegt með þennan náunga Ólaf Elíasson. Hann er nú rómaður hér á Íslandi (heimalandi sínu sem hann elskar eins og sjálfan sig og hefur alltaf haldið mikið upp á og er stoltur af að vera fulltrúi fyrir og og og það skal sko enginn segja að hann sé ekki íslenskur eða eitthvað svoleiðis og ef þið eruð að halda því fram þá skuluð þið bara hoppa upp í ra...) fyrir verk sín sem myndlistarmaður. Áður en hann setti upp margumtalaða sýningu í Tate galleríinu í London hafði maður aldrei heyrt minnst á hann. Ég hef heldur ekki hitt þann mann ennþá sem að hafði heyrt um hann fyrir þá sýningu. (Nú er ég ekki að reyna að gera lítið úr hans vinnu eða hæfileikum). Eftir að farið var að tala um hann í útlöndum voru Íslendingar ekki seinir að taka við sér og bæta honum neðan á listann yfir fræga Íslendinga (Bjarni Tryggvason geimfari og Ameríkani hlýtur að vera þar fremstur meðal jafningja ásamt sprengjusérfræðingum í Írak). Nú síðast heyrði ég því fleygt að Ólafur væri bara skærasta stjarna myndlistar í heiminum í dag. Ok, það er gott. Og einmitt þegar menn eru orðnir frægastir og bestir í heimi í sinni grein er listaheimurinn (hóst*snobbararnir?*ehemm) hér heima á klakanum tilbúinn til að samþykkja þá sem verðuga fulltrúa Íslands (heimalandsins sem þeir elska elska elska). Það er svo lítil hætta á því að listavitringarnir hérna séu eitthvað að misstíga sig með því að lýsa yfir hrifningu sinni á honum þegar það er búið að gúddera hann svona rækilega úti í þeim stóra. Ég legg til að honum verði veitt rífleg listamannalaun frá ríkinu (segjum kannski milljónkall á mánuði) af því að hann er svo góður listamaður....af því að aðrir góðir íslenskir listamenn eru á svoleiðis launum....af því að góðir listamenn þurfa styrki frá ríkinu...af því að þeir geta ekki selt verkin sín...eða nei bíddu...æ. Það ber að taka fram... ...að ofanrituð færsla var viljandi illa skrifuð, öll í ringulreið og bara almennt asnaleg. Íslenskir lesendur eru bara of vitlausir til að skilja hvernig við bloggarar vinnum okkar vinnu og mér finnst bara allt í góðu þó svo það hafi kostað tugi milljóna að skrifa þessa færslu. Það kostaði sko aðallega að láta prófarkarlesa hana af erlendum sérfræðingum í þessu stílbragði. Og hljóðvinnslan var líka dýr.

mánudagur, janúar 12, 2004

Samloka dagsins - The Heartstopper Ég fæ oft hugmyndir sem seint komast í framkvæmd. Hér hef ég hannað uppskrift að samloku sem ég tel að geti verið sérlega.... áhugaverð í það minnsta: Takið tvær fransbrauðsneiðar og leggið hlið við hlið á borð. Smyrjið majonesi á þær báðar. Skerið hálfan banana í sneiðar og veltið sneiðunum varlega upp úr púðursykri. Leggið bananasneiðarnar á brauðið. Takið sex beikonsneiðar, djúpsteikið og smyrjið þær með hnetusmjöri. Leggið þær varlega yfir bananasneiðarnar. Leggið brauðið nú saman svo úr verði samloka og hitið smjör á pönnu auk 50gr. af kokteilsósu. Þegar það er orðið vel heitt setjið þið samlokuna á pönnuna og steikið rólega á báðum hliðum. Gætið að því að velta samlokunni varlega svo ekkert fari til spillis. Þegar smjörkokteilsósan er orðin stökk með brauðinu skal setja samlokuna á disk og hella sýrópi yfir hana. Stillið einum belgískum súkkulaðimola ofan á samlokuna til skrauts (valkvætt). Verði ykkur að góðu!

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Hannes H. og Opinberun Hannesar....H Mér varð hugsað til allra Hannesa landsins í dag. Því er kjörið að blogga nú um Hannesa. Hannes Hólmsteinn Gissurarson mætti í Kastljósið áðan. Það þótti mér sérlega skemmtilegur þáttur og réð ég mér vart fyrir kæti svo ég varð að ganga um stofugólfið og hlusta á hann. HHG tókst þarna að ráða umræðunni algerlega svo að þáttar"stjórnendur" sigu niður í stólana og sögðu "já....já...einmitt.....aha....jamm....ámm..." Rétt áður en þau fóru út í það að segja "mí...mímí" með skrækum röddum tókst þeim þó að taka sig aðeins saman og spyrja að nokkrum spurningum. Hannes fór þarna á kostum og greip stöðugt fram í fyrir spyrjendunum en spurði þá í staðinn að urmull spurninga. Hann hóf mál sitt alltaf á því að ávarpa hina með nafni "Svanhildur mín, Kristján minn" og gerði þeim þannig erfitt fyrir að fjarlægja sig honum og setja sig í stellingar. Hann átti þarna marga góða frasa eins og t.d. þegar hann hafði talað lengi og varið sig samfellt í ca. mínútu. Tókst Kristjáni þá að skjóta inn einu "en" og sagði Hannes þá eitthvað á þessa leið: "Já! Og leyfðu mér þá að spyrja á móti..." Þetta fannst mér eitt það besta. Einnig stöðvaði hann allar gagnsóknir þeirra með því að spyrja að því í hneykslunartón hvort hann ætti ekkert að fá að verja sig. Það ráð dugði honum næstum gegnum allan þáttinn. Kannski hefði Hannes bara átt að fá lánað skrifborðið sem Davíð notar til að flytja áramótaávarpið og ávarpa þjóðina án þess að vera með þessa bölvuðu sjónvarpsmenn hangandi í sér eins og slytti. En það besta var tvímælalaust þegar Hannes fór að setja reglur í viðtalinu (svona eins og maður gerði í byssó í gamla daga þegar það var búið að skjóta mann). Svanhildur hafði spurt og Hannes var í óðaönn að svara henni þegar Kristján reyndi að skjóta einhverju inn. Hannes afgreiddi hann þá með því að segja að Svanhildur hefði spurt. Þetta mátti skilja sem svo að Hannes væri stikkfrí gagnvart Kristjáni af því að hann var að svara Svanhildi. Þetta er ný regla, og góð regla. Svo mikið er víst. En burtséð frá því hversu skemmtilegt mér fannst þetta viðtal þá náði Hannes að verja sig ansi vel og kom mjög öflugur út úr þessu viðtali. Hann virðist vera með urmull tilvitnana í bókinni og vildi hann meðal annars meina að þar sem að skorti tilvísanir væri það svo augljóst að hann væri að notast við endurminningabækur Halldórs Laxness að það þyrfti vart að nefna það. Ég sé ekki ástæðu til að efast um að hann hafi reynt að vísa í þær heimildir sem hann notaði. Um eitt var ég ósammála honum. Hann var spurður út í þá kafla sem hann virðist taka nokkuð óbreytta upp í bókina án þess að setja þá í gæsalappir og nota beina tilvitnun eða tilgreina að textinn væri þaðan. Hann svaraði því með því að segja að í þeim texta sem bent var á væru einmitt tvær tilvitnanir í bók Halldórs "Í túninu heima". Mér finnst það einmitt gefa manni þá hugmynd að textinn sé eftir hann sjálfan og að hann vitni í ritið sem hann vinnur textann upp úr með þeim tilvísunum. En nú hef ég ekki lesið bókina og tjái mig því ekki nánar um þetta efnislega. En viðtalið var stórskemmtilegt og Hannes stóð sig eins og hetja. Opinberun Hannesar. Hvað skal segja? Þetta var heldur lítilfjörleg mynd og ekki sérlega merkileg. Hún var öll mjög hrá og minnti, eins og Þorbergsson bendir á, á vídjóverkefni í menntaskóla eða jafnvel MR-ví mynd. Það er svo sem gott og blessað að menn skemmti sér við að gera svona vídjómyndir og drekka eplasafa úr koníaksglösum. En þarf það endilega að kosta tugi milljóna af peningum skattborgara? Bekkjarbróðir minn úr MR hefði getað gert þessa mynd fyrir 1.000.000 kall. Eða hvað, kannski fóru svona margar milljónir í að tölvuteikna "Eftirlitsstofnun ríkisins" á þakið á Kauphöllinni. Ég skil ekki hvert þessi peningur fór. Þetta var tekið á vídjómyndavél venjulega en ekki á filmu. Það voru engar sviðsmyndir að því er virtist. Myndin var öll tekin í Reykjavík...lítill ferðakostnaður. Lítil hljóðvinnsla eða myndvinnsla að því er virtist, ef slíkt var fyrirferðarmikið hefði alveg eins mátt sleppa því. Ég veit ekki, slæm nýting á peningum segi ég nú bara. Og hvað var málið með að frumsýna myndina í ríkissjónvarpinu áður en hún fór til sýninga í kvikmyndahúsum? Í útvarpinu heyrði ég að leikstjórinn, aðspurður vegna hörmulega lélegrar aðsóknar í bíó, hefði sagt að það væri bara formsatriði að setja myndina í kvikmyndahús vegna einhverra samninga (gott ef ekki vegna fjárveitinga). Hvernig hefði þá verið að sleppa því að sýna öllum landsmönnum myndina ókeypis, og fá smá pening til baka? Einhver bíósýningin fékk víst aðeins einn gest. Ætli miðinn hafi verið á svona óhagstæðu verði bara?

mánudagur, janúar 05, 2004

Blogg á nýju ári Á maður ekki að fara að henda einhverju hérna inn? Ég gerði mikið og margt í jólafríinu, og mér leið óskaplega vel. En þetta voru kannski ekki mjög minnisstæðar athafnir. Ég gekk hvorki á fjöll né sigldi yfir höf. Hins vegar las ég dálítið, fór í veislur, át og drakk, naut lífsins. Á gamlárskvöld fór ég til Kalla og Sunnu í samansöfnuð fólks. Það var mjög skemmtilegt og átti ég þar góðar samræður við skemmtilegt fólk. Heim var komið um 8 á nýársmorgunn. Þegar ég fór á fætur klukkan 7 skellti ég mér í sturtu og svo í nýársveislu frænda míns, Péturs Rúnars. Þar var tekið betur á því en kvöldið áður, enda sérlega rausnarlega boðið af hvers kyns áfengi, mat og tóbaki. Heim var komið um 7 að morgni 2. janúar. Eftir þessar tvær nætur þurfti ég svo bara að jafna mig fyrir skólann. Ég fór eitthvað í bíó í fríinu. LOTR ROTK rann í gegn á því sem virtist vera hálftími, en var meira. Love actually kom mér í voðalega gott skap. Finding Nemo var nokkuð fyndin. Kannski ég drepi á því sem ég var að lesa á síðustu dögum. Stormur - Einar Kárason Það er langt síðan ég las bók eftir Einar. Ég man að ég las Þar sem djöflaeyjan rís, Gulleyjuna, og Heimskra manna ráð fyrir nokkrum árum. Einar er fínn rithöfundur. Hins vegar hefði þessi bók alveg getað verið betri, eða bara styttri. Hún var reyndar skemmtileg, mér leiddist aldrei og mér datt ekki í hug að hætta að lesa hana. Aðalpersónan kallar sig Storminn, en hann er í raun alger andstæða þess. Alger logmolla og ládeyða. Hann nennir ekki að vinna, lifir á sósíalnum í danmörku, skyldmennum sínum, konunni sinni og fjölskyldu hennar. Þetta er þessi dæmigerði aumingi sem allir þekkja. En hann er með vissa standarda. Hann telur sig alltaf hafa efni á því að setja út á aðra. Hann er á atvinnuleysisbótum því hann finnur ekki "vinnu við sitt hæfi", öll vandamál í lífi hans eru öðru fólki að kenna og það er sífellt verið að hlunnfara hann að hans mati. Stormurinn er hins vegar með samskiptahæfileika og mikla persónutöfra (ekki því það sjáist svo vel af lýsingum á honum sjálfum, heldur af því að höfundur bókarinnar lætur aðrar persónur segja að Stormurinn sé þannig) Stormurinn er bara "free rider" og ekkert meira en það. Ég hélt að meira yrði gert úr fólkinu sem umgengst hann, þ.e. að segja að það fólk væri aðeins merkilegri karakterar. Bókinni er lýst sem svo að í kringum Storminn séu pólitíkusar og listamenn og alls konar lið, en það er nú minnst þannig. Það er í rauninni mjög fátt merkilegt sem gerist í bókinni. Hún hefði vel getað verið styttri. Það breytir því samt ekki að hún var skemmtileg. Bettý - Arnaldur Indriðason Þessi bók var fín. Ég hef bara lesið eina aðra bók eftir Arnald, en það er Mýrin. Arnaldur er vel skrifandi og hugsar sínar bækur sennilega til enda áður en hann skrifar þær. Bettý er skipulega upp byggð, annars vegar hugsanir sögu"hetjunnar" þar sem hann situr í gæsluvarðhaldi, yfirheyrslur yfir honum og slíkt, en hins vegar upprifjanir hans um atburðarásina sem kom honum í gæsluvarðhaldið. Til að byrja með fannst mér sagan fyrirsjáanleg, hún stefndi í að verða svipuð og Mýrin. Mýrin var nefnilega þannig að hún náði aldrei virkilegri spennu. Hún leiddi mann rólega í sannleikann um það hvernig málinu var háttað og maður komst að því svona frekar átakalaust, fyrir utan smá senu í kirkjugarði í restina. Núnú lík undir gólfinu, jæja týndi sonurinn bara kominn í leitirnar. Hins vegar reyndist Bettý ekki vera fyrirsjáanleg, og mér fannst hún innihalda skemmtilegri karaktera en Mýrin. Erlendur í Mýrinni fannst mér klisjukenndur og hliðarsagan með dóttur hans enn klisjulegri. Nöfnin á persónum í bókum Arnaldar eru reyndar dálítið fyndin stundum. Bettý, Tozzi, Sylvía, Sara, Mínerva. Er þetta vegna fyrirhugaðrar sölu á alþjóðlegum markaði, eða bara til að minna mann á að þetta er skáldverk? Þessi nöfn gera það nefnilega, minna mann stöðugt á að þetta er uppskálduð saga sem maður er að lesa. Ég er ekki viss um að það sé kostur. Á sama hátt fannst mér nöfnin í Mýrinni líka fyndin. Þau voru svo hversdagsleg eitthvað að þau urðu skrýtin. Svipað og á www.baggalutur.is þar sem að mannanöfn eru höfð svo hversdagsleg að þau verða fáránleg. "Hermóður Sigurvinsson (32) verkfræðingur, breyttist í fisk á mánudagsmorgun." Kannski leiðir þetta mig að þeirri niðurstöðu að ég á bara erfitt með að "trúa" glæpasögum sem gerast á Íslandi, því þær gerast á sama svæði og ég lifi, en eru úr öllum samhengi við þá reynslu sem ég hef af því. Nú er ég ekki að segja að svona hlutir geti ekki gerst, eða hafi ekki gerst. Mér finnst þetta bara skrýtið. Leynilegir ástafundir á Hótel Sögu og í stóru húsi í Þingholtunum. Ég kaus að sjá fyrir mér gamla borgarbókasafnið. Ég veit ekki hvort það sem ég er að skrifa er í nokkru samhengi, en ég vildi segja að Bettý er nokkuð góð bók. Hún er tiltölulega óútreiknanleg, vel skrifuð og nokkuð spennandi. Hún teygir ekki lopann og er nokkuð hraðlesin. Hin sæmilegasta glæpasaga og gott ef ekki betri en Mýrin.