Jólin eru gleðileg Gleðileg jól allir. Ég er svo þreyttur að ég held ég fari í bælið núna. Einhvern tímann hefði ég rifið í mig eina jólabók á jólanótt, en nú er ég allt of þreyttur. Ég fékk nokkrar bækur í jólagjöf: Bettý - Arnaldur Indriðason, Stormur - Einar Kárason, Með leyfi forseta - Leifur Hauksson, Kantaraborgarsögur - Geoffrey Chaucer, Sæludagar með kokki án klæða og kokkur án klæða snýr aftur - Jamie Oliver. Amma mín gaf mér frábært veggteppi sem hún gerði sjálf og svo afi gaf mér tvær dúkristur eftir Scheving með myndum við/úr Eglu. Það var snilld. Tvær DVD myndir fékk ég, og einn góðan stuttermabol með tvíræðu merki framan á. Húfu, trefil og hosur fékk ég einnig. Þetta eru allt frábærar gjafir og ég sé fram á náðuga daga. Jólamaturinn í ár var önd. Við höfum venjulega rjúpu, en þökk sé okkar ástkæra umhverfisráðherra fyrir alfriðun hennar til þriggja ára. Öndin bragðaðist óskaplega vel og gaf rjúpunni ekkert eftir. Pabbi og mamma reiddu þetta fram í sameiningu og hafa hugsað sér að nota þessa tilteknu eldunaraðferð á rjúpurnar næst þegar þær verða á borðum. Þ.e. að hafa bæði blástursofn og örbylgjur á fuglinum í einu. Rauðkál, brúnaðar kartöflur, rifsberjasulta, sultaðir grænir tómatar, eplasalat með hnetum og jólasósan. Ég verð svangur aftur af því að hugsa um þetta. Afi fékk svo möndluna og hélt því staðfastlega fram að hann hafi aldrei fengið möndluna á sinni lífslöngu ævi. Við skulum sjá til hvort hann segir það á næsta ári líka. Möndlugjöfin voru þrír litlir "pålegsgafler". Þeir þóttu sérlega smekklegir en hönnuður þeirra þótti ófríður. Það var mynd af honum á umbúðunum. Annars var kvöldið bara mjög gott, pabbi fékk pakka sem var svo stór að allir hinir pakkarnir hefðu getað komist fyrir inni í honum. Ég hélt þetta væri hundahús, og mamma væri að gefa honum hund. En þá var þetta skrifborðsstóll. Það var nú góð gjöf því hann situr alltaf á einhverjum eldgömlum stólgarmi hérna við tölvuna heima. Þessi er eflaust heilsusamlegri. Presturinn í dómkirkjunni var ágætur, þó svo að hann væri kannski ekki að virða neinar byltingarkenndar hugmyndir í tölu sinni. Mér fannst samt setningin "hættu að drepa tímann, því tíminn er líf þitt" vera nokkuð góð. Jæja, góða jólanótt og megið þið öll vakna alls bakverkjalaus í fyrramálið og með bros á vör.
.
fimmtudagur, desember 25, 2003
fimmtudagur, desember 18, 2003
The Fly Hvað á þetta að þýða. Ég er hér á lokasprettinum í próflestri og skelli mér fram á salernið. Á leið minni þangað mætir mér feit og pattaraleg fiskifluga. Hún sveimar hér í kringum ruslatunnur og lætur mjög ófriðlega. Hún flaug á Þorvarð Atla Þórsson fyrr í kvöld. Hann kvartar nú yfir verkjum í mjöðm. Veit fluga þessi ekki að nú nálgast hátíð ljóss og friðar óðfluga (óð fluga! gaaahhhh)? Hún er í það minnsta ekki að heiðra kristin gildi með þessari árásargirnd.
Fréttablaðið ...er sem fyrr ótæmandi uppspretta skemmtunar og fróðleiks. Í dag er þar svona "á þessum degi ári sautján hundruð og súrkál"-dálkur og eru þar talin upp nokkrir eftirminnilegir atburðir. Fyrst er það að New Jersey samþykkti bandarísku stjórnarskrána, svo skrifaði Hitler undir leynilega skipun um innrás í Sovétríkin. Og hvað? Jú, á þessum degi árið 1965 stökk Kenneth LeBel yfir sautján tunnur á skautum. Hvað þá?! Sumir leggja greinilega allt of mikið á sig til að gera nafn sitt ódauðlegt í sögubókunum. Menn gerast keisarar og ráðast inn í lönd annarra keisara, standa fyrir helförum, trúarstríðum og öllum mögulegum hlutum, þegar þeir þurfa ekki að gera annað en að stökkva yfir drasl á skautum. Og er þá kannski ekki verra að vera í flottum búningi.
miðvikudagur, desember 17, 2003
Prófið er rétt handan við hornið Eftir prófið þarf ég að þrífa bílinn minn að innan og utan, taka til í herberginu mínu og þrífa það, fara í klippingu og kaupa jólagjafir. Ég hlakka óstjórnlega mikið til að gera þessa hluti.
þriðjudagur, desember 16, 2003
Í nótt... ...dreymdi mig að ég var í Hyrnunni í Borgarnesi. Ég var þar einn og sat bara í matsalnum og horfði út um gluggann og fylgdist með starfsfólkinu taka til á borðunum. Ég var ekki að panta mér mat, ég var ekki að gera neitt sérstakt. Veðrið var svona grámyglulegt rigningar-vorveður og ég hafði ekkert fyrir stafni. Ég man ekki eftir því að hafa verið að hugsa neitt sérstakt. Þessi draumur skilur eftir sig furðulega tilfinningu. Eins og ljósmynd af einhverjum aðstæðum sem hefðu geta varað í heila eilífð. Engin tilhlökkun en engar áhyggjur heldur. Maður hefur fengið svona tilfinningu áður. T.d. þegar maður klárar eitthvað tímabil. Eftir skólaslit síðasta árs bæði í grunnskóla og menntaskóla fékk maður svona tilfinningu. Maður er ánægður með að það sé búið en á sama tíma er einhver furðuleg tilfinning sem segir manni að kannski vildi maður gera þetta allt aftur. Ég veit ekki hvernig á að lýsa þessu. Óháð því hvort viðkomandi tímabil var skemmtilegt væri maður til í að upplifa það aftur, alveg eins, bara af því að það var. Ég ætla að hætta áður en ég verð hallærislega djúpur hérna. Jæja, maður á kannski ekki að taka drauma alvarlega. Allra síst ég þar sem að mínir draumar eru yfirleitt einhvers konar Hollywoodkjaftæði í sambland við sjálfsmyndarbresti. En þegar þeir skilja eftir svona sterka tilfinningu...
mánudagur, desember 15, 2003
Listin að muna hluti Leigubílstjóri okrar á botnvörpu sem vinnur skattlaust við eigin íbúð og ákærir hana í Keflavík fyrir silungsveiði í sjó með stundakennara frá Akranesi.
sunnudagur, desember 14, 2003
Gunnar Páll situr fast við sinn keip Það er verið að loka Gunnar. Allir eru að taka til í kringum þig. Ekki þykjast vera að lesa. Þú getur ekkert einbeitt þér í öllum þessum látum. Önundur has just signed out Ég er að reyna að koma mér upp svona sign-out hljóði hérna á þjóbó. Ég set alltaf möppuna mína ofan á klukkuna sem er í horninu á borði 225 (sem maður á að stilla þegar maður fer frá borðinu). Þegar ég dreg möppuna af henni þegar ég er að fara sprettur hún upp þegar þunginn fer af henni. Það heyrist svona BOOOIIIIINNNNNG. Þetta álít ég vera sign-out hljóðið mitt sem stendur, þó ekki sé það mjög hátíðlegt eða virðulegt.
Beeptest Hvernig ætli það væri mögulegt að fá Össur Skarphéðinsson til að ná upp á 15. þrep í bíptesti? Jú, maður byrjar á því að láta hann hlaupa fram og til baka. Hann ætti að geta klárað nokkur fyrstu þrepin sjálfur. Þegar hann fer að þreytast þarf ekki annað en að segja honum að almenningsálitið verði honum ekki hagstætt nema hann hlaupi aðeins lengur. Það ætti að fleyta honum langleiðina, eða að minnsta kosti þangað til það líður yfir hann. Saddam Bara búið að nappa kallinn. Hann var víst niðurgrafinn í einhverjum kjallara með hálfa milljón dollara í ferðatösku í heimabæ sínum Tikrit. Ansi er hann snjall að fara bara heim fyrst hann getur ekki verið í höllinni lengur. En það vaknar upp ákveðin spurning þegar svona fregnir berast. Hvað var Saddam að gera, einmitt þegar hermenn og kúrdískir vígamenn eins og það er orðað á mbl.is ruddust inn til hans. Þetta gæti hafa verið rosalegasta "caught masturbating" sena mannkynssögunnar.
laugardagur, desember 13, 2003
Bráðalungnabólgan HABL eða SARS enn skæð - Keikó látinn Þær fréttir hafa borist frá hinu fjarlæga konungsríki Noregi að þar hafi háhyrningurinn Keikó geispað golunni síðdegis í gær. Honum varð að aldurtila bráð lungnabólga, og er það sjúkdómsgreining hins valinkunna andans manns að þar hafi verið SARS-bráðalungnabólgan skæða. Það er því greinilegt að enginn er óhultur enn sem komið er, hvorki láðs- né lagardýr. Það er kjörið að halda upp á dauðdaga Keikós með því að draga hann heim til Íslands aftur (gætum reynt að kippa Guðrúnu Gísladóttur upp í leiðinni) og halda svo hvalveislu á Austurvelli þar sem að þjóðin gæti sameinast við át. Þingmenn, öryrkjar, aðalgjaldkerar Símans og Hallur Hallsson gætu öll mætt á svæðið og tengst tryggðaböndum. Bein útsending í Good Morning America væri svo auðvitað ekki af verri endanum ef því væri hægt að koma við. Þetta væri góð landkynning, og það sem meira er, algerlega samhljóma þeirri kynningu sem landið hefur fengið undanfarin misseri. Eftir að Björk varð fræg höfum við verið markaðssett sem litlir furðulegir eskimóar sem segja samhengislausa hluti (sometimes....when I am putting oranges in a circle...i think of my thoughts...and they make me laugh...hihihihi) og gera framúrstefnulega tónlist. Sigur Rós hafa svo auðvitað tyllt kirsuberinu ofan á rjómann sem Björk byrjaði á. Þeir hafa blandað inn í ímyndinni af Íslendingum sem litlum heimsskautaálfum með stórar rauðar húfur, sem spila líka framúrstefnulega tónlist og kunna ekki að tala. Hvað Keikó varðar tel ég dauðdaga hans mjög grunsamlegan. Hann var einungis 27 ára gamall en meðallíftími háhyrninga ku vera um 35 ár. Það er ekki útilokað að hann hafi verið myrtur, sennilega af Vítisenglum eða öðrum álíka mótorhjólaglæpasamtökum.
föstudagur, desember 12, 2003
fimmtudagur, desember 11, 2003
Draumur Draumar á prófatímabilum eru þeir merkilegustu. Í nótt dreymdi mig að ég var á borði 225 að læra. Þetta var daginn fyrir próf. Ég var með möppuna, blöð úti um allt, tölvuna og bækur á borðinu. Skyndilega keyrði þá menntunarandstæðingur og mótmælandi út úr kvennasögusafninu á 4.hæð á gaffallyftara. Hann gaf allt í botn og keyrði gegnum öll lesborðin og rústaði öllu. Ég rétt náði að grípa tölvuna og stökkva frá. Allt hitt fór í rusl. Það voru nokkrir vitorðsmenn með lyftarastjóranum í þessu hrottaverki og náði ég að króa einn þeirra af úti í horni (hélduð þið nokkuð að einhver annar yrði hetjan í þessum draumi?). Sá reyndist vera ónefndur æskuvinur minn. Hann byrjaði að hóta mér öllu illu, en ég beitti snilldarlegri negotiation-tækni og fékk hann til að láta húslyklana sína á gólfið og tæma vasana (???), hann otaði þó einum lykli að mér og hótaði að skera mig. Að lokum gafst hann upp og ég handsamaði hann. Ég fór með hann beint til bókasafnsvarðarins (en ekki hvað?) og lét hann handtaka manninn. Bókasafnsvörðurinn þakkaði mér kærlega fyrir og bað mig um að skrifa nafnið mitt á miða. Það var svo að næst þegar ég yrði tekinn fyrir of hraðan akstur eða eitthvað slíkt þá fengi ég að sleppa, vegna þess hve duglegur ég hefði verið að góma hrottann. Ég skrifaði nafnið mitt á blaðið: Önundur P. Norðdahl. Nú held ég að það sé bara best að Magnús Norðdahl fari til Nýja-Sjálands í ca. hálft ár. Þannig fæ ég að halda sjálfsmynd minni heillegri aðeins lengur.
miðvikudagur, desember 10, 2003
Hressileg tónlist Rás 2 er langbesta útvarpsstöð sem starfrækt er á Íslandi. Stjórnendur hennar gera samt þau mistök á morgnana að spila alltof hressilega tónlist. Maður er þreyttur og úrillur að vakna klukkan 6.50 og foreldrarnir eru búnir að kveikja á útvarpinu frammi. Við slíkar aðstæður er það ekki eftirsóknarvert að hlusta á All I Want For Christmas Is You með Mariah Carey, eða You Really Got Me með Kinks. Þeir ættu að einbeita sér að hægum lögum og ekki háværum. Jájá, ég er að verða gamall.
mánudagur, desember 08, 2003
Rauður Magic Það er nokkurn veginn tíðindalaust. Ég reyni þó að finna eitthvað til að segja. Helst dettur mér í hug að vara fólk við þeirri herfilegu vöru sem rauður Magic orkudrykkur er. Bragðið af honum er viðbjóðslegt gervibragð (en þó mjög 100% náttúrulegt), mér leið eins og ég væri að drekka þvottaefni eða eitthvað slíkt. Áhrifin voru heldur ekki teljandi en mikill slappleiki kom eftir orkuskotið. Meiri vitleysan þessir orkudrykkir.
fimmtudagur, desember 04, 2003
Gyllinæðarjól? Ég get ekki annað en velt því fyrir mér. Verða þetta gyllinæðarjól? Ef ég á eftir að sitja jafnmikið á rassinum alla daga fram að 20.desember eins og ég er búinn að sitja í dag, þá verða þetta slík jól. Annars fékk ég mér bland í poka og er búinn að vera allur upptjúnaður á því í dag, mjög duglegur. En ég er orðinn óvanur því að borða nammi held ég bara. Borða það eiginlega aldrei hvort eð er. Finn mikinn mun á mér, eins og ég sé buinn að drekka tvo espresso. Asnaðist líka til að kaupa mér rauðan Magic sem ég ætla að nota á morgun þegar við Skúlarinn yfirheyrum hvor annan um efni vikunnar, lögskýringarnar. Verð vonandi vel hypaður þegar ég mæti í 7tugs afmæli afa Unu. Eins og héri á kókaíni kannski. Maður verður að gera gott impression, það verður víst fullt af fólki þarna sem ég hef aldrei hitt.
Konur eru frekar Já, þessi alhæfing fékk þig til að lesa færsluna. Ég vil bara nefna að konur eru sýnu frekari hér á bókhlöðunni en karlar. Einhver þýzk kerla yfirgaf tölvu um daginn í svona hálftíma og sá að það var maður að nota hana þegar hún kom til baka. Hennar viðbrögð voru þau að spennast öll upp og tala við hann í mjög reiðilegum tón. "Who said you could use this computer? Please, leave now! Leave! I want my computer back! Leave!" Maðurinn hrökklaðist auðvitað úr tölvunni og er eflaust búinn að skrifa bók um þetta núna. Konan á móti mér í dag fór í klukkutíma frá borðinu sínu og sá þegar hún kom til baka að maður sem var að nota tölvu var búinn að skipta á stólum við hana, enda var hann með svona lágan stól sem er óþolandi að sitja í við tölvurnar. Hún pikkaði í hann og spurði hvort hann hefði tekið stólinn sinn. Hann játti því. "Viltu gjöra svo vel að láta mig fá stólinn aftur vinur!" Aumingja greyið situr nú eins og 5 ára krakki við tölvuna og teygir sig að lyklaborðinu, en hún virðist öll titra. Hún andar mjög hratt og er rauð í framan. Ætli dagurinn sé ónýtur hjá henni?
Jólaskapið og smákökurnar Ég sé það núna að dagurinn í gær var svona frekar sóðalegur bloggdagur hjá hinum valinkunna andans manni. Í dag mun ég því einungis blogga um fallega og góða hluti. Mamma er byrjuð að baka smákökur. Ég fékk að háma í mig afskorningana af randalínunni í gærkvöldi þegar ég kom heim. Spesíurnar eru komnar út úr ofninum, fleiri tegundir eru á leiðinni og annar sunnudagur í aðventu er rétt handan við hornið. Ég þoli þetta ekki, er að verða jólasjúkur.
miðvikudagur, desember 03, 2003
Idol - harðstjóraleit Þessir Idol þættir eru ömurlegir. Ég er með miklu betri hugmynd (er ég ekki alltaf með miklu betri hugmynd?). Þetta yrði svona blanda af Survivor og Idol-Stjörnuleit. 20 manns yrðu valdir úr tæplega 300.000 manna úrtaki. Hver og einn þeirra mótar sér stefnu sem einræðisherra og reynir að útlista fyrirætlanir sínar fyrir þjóðinni og 3 manna dómnefnd. Dómnefndin gæti t.d. verið skipuð Svavari Gestssyni sendiherra, Hjörleifi Guttormssyni fyrrverandi alþingismanni og ónafngreindum víkingasveitarmanni sem ætíð hefði lambhúshettu á höfði sér. Keppendur þurfa að leysa ýmsar þrautir svo sem að stjórna ímynduðum herjum í innrás í eitthvað ríki, semja og flytja áróður, heilaþvo manneskju og margt fleira. Þeim fækkar svo eftir því sem á líður og fleiri eru ráðnir af dögum. Einungis þrír komast í úrslit og eru þeir valdir þegar fimm eru enn lifandi, með símakosningu. Það er þá útséð að þeir þrír komast áfram sem ná bestum árangri í að stjórna kosningunni. Einn fær möguleika á að komast aftur inn í leikinn með því að fara í rússneska rúllettu við sjálfan sig. Það væri mögulegt að halda úrslitin í Smáralind þar sem keppendur þyrftu að svara tilmælum umheimsins um að leggja niður kjarnorkuáætlun sína á hnyttinn og skemmtilegan en jafnframt ógnandi og móðgandi hátt og að keppa í því að moka sandi yfir skriðdreka. Írafár gæti spilað í hléi. Þessir þættir myndu slá í gegn og ég tala nú ekki um auglýsingatekjurnar af beinni útsendingu frá embættisskipaninni þegar einræðisherrann yrði settur á í boði Norðurljósa og Bónus.
Heillaóskir með nýja íbúð Markús Már, Jóhann Alfreð og maður að nafni Agnar Darri eru nú fluttir í íbúð í Reykjavík hundraðogeinum. Þeim óska ég sérstaklega til hamingju með þennan áfanga og vona að þeir fái samvista sinna notið í giftusamlegu og ástríku sambandi. Íbúðin er sérlega vel staðsett fyrir þá starfsemi sem líklega verður stundum innan veggja hennar, og geta Markús og félagar nú dregið sitt poontang heim á leið án nokkurs leigubílakostnaðar. Nema auðvitað ef þetta á að verða eitthvað lastabæli og ónaneringscentrum. Ég hef ekki trú á því enda orsakast allt slíkt aktivitet (eða hugsanir um slíkt) af djöfullegum skorti á guðhræðslu og veldur rösklegri reðurminnkun og blindu. Ég hef fulla trú á því að Markús fái fljótlega nafnbótina Poonani. Það hljómar líka vel og er þjált. Ég ítreka svo bara hamingjuóskirnar.
Hamborgarar Hamborgarar eru ágætir. Sá besti í bænum var lengi vel Heavy Special á American Style. Hann er veglegur mjög. Ég og bróðir minn höfum lengi haft dálæti á honum. Um daginn fór ég svo á Old West og fékk mér risaborgara, 280 grömm af kjöti. Hann toppaði eiginlega heavyinn. Þetta þótti tíðindum sæta innan fjölskyldunnar. Bróðir minn hefur nú sagt frá því að hann hafi farið á Ruby Tuesday og fengið sér Colossal Burger. 350 grömm af kjöti þar. Það hlýtur að vera einn dé****i stór og mikill hamborgari. Ég hef aldrei komist í tæri við slíkt monster á minni stuttu ævi. Ég verð hins vegar að vinna þessa keppni sem virðist vera komin í gang og þigg því með þökkum allar ábendingar um hugsanlega staðsetningu stærsta hamborgara á Íslandi. Reyndar hef ég haft veður af finnskum hamborgarastað (frá manni sem fór þangað en vill ekki láta nafns síns getið). Á þessum stað á að vera hægt að fá borgara sem þekur allan diskinn. Det vil sige, heilan matardisk. Engar franskar kartöflur eða salat eða slík fásinna. Bara hamborgari yfir öllum disknum. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Slíkur borgari hlýtur að hafa gott nafn. Eitthvað stjörnufræðitengt eflaust. Kannski sólkerfisborgarinn, eða vetrarbrautarborgarinn. Maður veit ekki. Gogolplexborgari væri gott nafn. Eða 1000 milljarðar. Maður veit ekki. En maður veit að maður verður að éta slíkan borgara.
þriðjudagur, desember 02, 2003
Leiðinlegur bloggari Mér hefur verið gert ljóst af tveimur mönnum að ég sé leiðinlegur bloggari. Ég skrifi ekkert fyndið, þó ég haldi það, og það vanti allt fútt í þetta. Ég er ekki ferskur. Ég er ekki spennandi. Svona fær maður það óþvegið frá þeim sem maður treystir. Kannski maður ætti bara að hætta þessu? Skemmtilegt Ég verð þá að reyna að vera skemmtilegur. Mér dettur eitt í hug. Í morgun, klukkan 8.15, var Þjóðarbókhlaðan opnuð. Það voru ca. 50 manns fyrir utan sem biðu spenntir eftir því að geta tryggt sér lesborð. Þarna var líka karlinn í gráa frakkanum. Já, karlinn sem er alltaf á bókhlöðunni með vísindamannshárið sitt. Hann var í stuði og talaði mikið. Þegar hurðin byrjaði að renna rólega upp og fólk setti sig í stellingarnar hrópaði hann upp yfir sig: "Mmmm. Aaaa! Þarna opnast hún! Mmm. Bókhlaða allrar þjóðarinnar!" Menn vissu ekki alveg hvernig átti að bregðast við þessari athugasemd, enda nývaknaðir og súrir. Hann hélt áfram. "Jahérna, jájájá, mmmm, nú er að ná sér í borð mmmm, og fara að lesa! Lesa fyrir prófin! Allir í prófum. Já nú eru prófin og allir í prófum. Já. Eruð þið öll í guðfræði?" Nú gat ég ekki annað en hlegið og ég sá að flestir voru farnir að brosa. Það gat auðvitað ekki verið að fólk sem mætti svona snemma til að slást um lespláss á köldum vetrarmorgni væri í einhverju öðru en guðfræði. Svo skundaði ég upp á fjórðu, til að ná miða númer 226. Það er besti miðinn. Ég heyrði í honum muldra fyrir aftan mig. Ég held að hann hafi verið búinn að ná einhverjum saklausum stúdent í samtal við sig. "Mmmm. Jájájá! hvað mmmm segirðu jájáá!" Hann er skemmtilegur þessi karl.
Jólin Ég er að ganga í barndóm. Ég hlakka svo til jólanna að ég er að springa. Það fór um mig vellíðunarstraumur þegar kveikt var á fyrsta aðventukertinu og ég veit hvað mig langar í í jólagjöf. Og ég vil snjó! Meiri snjó!
mbl.is Þvílíkir snillingar. Maður hlær að villunum hjá þeim á hverjum einasta degi. Hér er ein furðuleg fyrirsögn. Já, maður skyldi óttast öryggið mest af öllu. Ekkert er óhuggulegra en öryggi.
mánudagur, desember 01, 2003
Hugmynd til eflingar íslenskri tungu Annað slagið tekur þjóðmálaumræðan ákveðin orð upp á arma sína og ofnotar þau freklega. Undanfarið hefur orðið "slagsíða" verið gríðarlega vinsælt eins og fólk ætti að kannast við, en það byrjaði með því að Spegillinn var gagnrýndur fyrir meinta vinstri-slagsíðu. Síðan þá hefur ekki verið talað um annað en slagsíðu á þessu og slagsíðu á hinu. Nú er búið að segja orðið slagsíða svo oft að það er farið að hljóma eins og rússneska. Fjölmiðlamennirnir vitna orðrétt í stjórnmálamennina og leggja því sí og æ áherslu á kjarnaorðin í málflutningi þeirra. Þetta er spilað 100 sinnum á sólarhring í nokkra daga, og er svo notað í næstu fréttum þar á eftir ef því verður við komið. Stjórnmálamenn ættu velflestir að vera unnendur málsins og þjóðlegra fræða enda hafa þeir sérstaklega gaman af því að tala (má þar nefna alla þingmenn VG á einu bretti), sumir dunda sér við skriftir (Davíð Oddsson) og ættu því að hafa áhuga á frumlegri notkun málsins auk þess sem sumir eru einhverjir allra skýrmæltustu menn landsins (Guðni Ágústsson). Ég legg því til að þegar pólitíkusar ætla að koma með sprengju velji þeir orðin gaumgæfilega og noti aðeins fáheyrð orð og gömul. Einhverjir gætu haldið að þetta myndi draga úr spennunni í pólitíkinni, þar sem aldrei skildist hvað menn væru að segja, einmitt þegar þeir ætluðu að segja það sem mestu skiptir. En þetta er rangt. Þegar þingmenn heyra nokkur óskiljanleg, öldruð orðskrípi koma frá ræðumanni í bland við þéringar og titlatog vita þeir strax að það er verið að gagnrýna einhvern harkalega og þjóðfélagið er sennilega að komast í uppnám. Þjóðfélagið stendur á öndinni á meðan málvísindamenn fletta í orðsifjabókum. Sá sem er fyrstur til að fletta upp í orðsifjabókinni er fyrstur til að svara gagnrýninni. Þetta kalla ég hvetjandi málverndarfyrirkomulag. Þetta gæti líka hjálpað fréttamönnunum að átta sig á því hvenær er verið að segja eitthvað sem er fréttnæmt og hvenær ekki.