#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Tillaga Ég legg til að Íslendingar gleymi ekki gömlum og góðum siðum. Við ættum öll að byrja aftur að guða á glugga þegar við förum í heimsóknir seint á kvöldin þegar orðið er dimmt.

Heimsmynd Móðir mín sagði mér sögu af manni. Hann var bóndi á jörð sem kallaðist England, og er hún staðsett í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Eitt sinn fór hann í Kaupfélagið í Borgarnesi til þess að kaupa sér einhverjar vörur. Ungur drengstauli afgreiddi hann og spurði um greiðslumáta þegar gera átti upp. Bóndinn vildi láta skrifa þetta í reikning, og spurði drengur þá hvaða reikning. Halldór af Englandi, svaraði bóndinn. Drengurinn fór eitthvað að glotta við þetta, enda þótti honum ef til vill undarlegt að maðurinn titlaði sig svo hátíðlega. Bóndinn hallaði sér þá íbygginn að drengnum og sagði: Það er nú England á fleiri stöðum en í Kaupmannahöfn, vinur minn.

Danska lagið Munið þér fyrir langa löngu? Vér sátum saman í skólastofu. Vér dáðum yður en þér tókuð eigi eftir oss, eigi frekar en vér værum krækiber. Þér vóruð ætíð hæfastar í danskri tungu. Það fyllti hinar stelpurnar vonsku þegar kennarinn kallaði á yður til sín og lét yður syngja á dönsku fyrir okkur hin. Ó, vér munum aldregi gleyma hve fallega þér sunguð, þér sunguð: Der bor en bager på Norregade. Han bager kringler og julekage. Han bager store, han bager små. Han bager nogle med sukker på. Og i hans vindu' er sukkersager og heste-, grise-, og peberkager. Og har du penge så kan du få, men har du ingen så kan du gå. Og svo mörgum árum seinna, þá lágu leiðir vorra beggja til útlanda, þar sem fórum vér í háskóla. Vér lærðum söng og héldum saman tónleika. Og eina stjörnubjarta kvöldstund, vér krupum á kné, ó, hve létt var yðar hönd. Þér sögðuð já, kysstuð oss og nú erum vér hjón og eigum litla Gunnu og lítinn Jón. En vér munum aldregi gleyma hve fallega þér sunguð, þér sunguð: Der bor en bager ... - Eyjólfur Kristjánsson Texti staðfærður af ÖPR.

föstudagur, nóvember 28, 2003

Stolinn dagskrárliður - beygingarmynd dagsins Ég hefi margsinnis reynt að koma að beygingarmyndum í þessum lið hjá henni Unu minni. Það hefur aldrei gengið, hún hefur hunsað mig eða sett aðrar hugmyndir fram yfir mínar. Þess vegna sé ég enga aðra leið. "baðaða"

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Minnisleysi Ég á sennilega eftir að fá Alzheimers seinna á ævinni. Ansi hræddur um það. Verð kolruglaður. Rök fyrir slíkri staðhæfingu? Heilinn á mér er greinilega byrjaður að bila. Um daginn gleymdi hvernig maður sem ég þekki lítur út. Sama hvernig ég reyndi að muna það þá gat ég ekki munað hvernig hann lítur út. Ég þekki hann ekkert rosalega vel, og hef ekki hitt hann kannski í eitt ár. En það skiptir ekki máli. Ég gat ekki munað hvernig hann lítur út í heilan sólarhring. Svo um daginn gleymdi ég líka hvað ég er gamall. Ég var þess fullviss að ég væri tvítugur. Ég er hins vegar 21. árs gamall. Skelfilegt. Ég þurfti í alvörunni að telja frá 1982 til að fullvissa sjálfan mig um að ég sé ekki 20 ára.

Önundur (21) - Súr á síðkvöldum! Eftir seinni heimsstyrjöldina lá Evrópa í sárum. Ríkin leituðust við að tryggja friðinn til frambúðar með því að auka samstarf sín á milli. Einn liður í því var stofnun bandalags sem gerði verslun með hráefni stríðs sameiginlega með nokkrum löndum Evrópu. Menn vissu að með því að gera þann markað sameiginlegan væri auðveldara að hafa stjórn á uppbyggingu vígvéla og drápstóla. Eins og allir vita er ómögulegt að standa í stríðsrekstri án þess að borða og hvíla sig inn á milli. Engin aðferð við hvíld hefur gefist betur en að sitja í þægilegum stól. Það er vísindalega sannað! Einnig er vísindalega sannað að enginn matur inniheldur meiri næringu en einmitt kál. Þess vegna var SKE stofnað. Stóla- og kálbandalag Evrópu! Uppfært: Þetta var helvíti langur aðdragandi að sorglegum slagfrasa.

Misskilningur Appelsína, epli frá Kína. Íslendingar virðast hafa fengið einhver orð inn í málið með misskilningi eins og þessum. Ég hef verið að pæla í orðinu "Parísarhjól". Á ensku myndi það útleggjast Paris-wheel. En á ensku kallast Parísarhjól einmitt Ferris-wheel og er kennt við skapara sinn, George Washington Gale Ferris. Ætli þetta hafi ekki komið til fyrir misskilning. Einhver kaupmannssonurinn hefur farið til Parísar og séð slíkt hjól, heyrt eitthvað wharwis-wheel og ályktað sem svo að þarna væri komið Parísarhjól. Héðan í frá neita ég að kalla þetta Parísarhjól nema einhver komi með betri útskýringu á þessu orði. Ég mun kalla þetta George Washington Gale Ferris hjól.

mánudagur, nóvember 24, 2003

1000 MILLJARÐAR

laugardagur, nóvember 22, 2003

Hress í umferðinni Ég skutlaðist heim til bróður míns í Álftamýrina fyrr í dag til þess að sækja blóm fyrir mömmu. Á Kringlumýrarbraut (rétt áður en komið er að Miklubraut) þurfti ég á einhverjum tímapunkti að hægja töluvert á mér. Bíllinn fyrir framan mig var að skipta um akrein og stöðvaði í biðröð án þess að komast alveg af þeirri akrein sem hann var á. Þetta var ekki neitt neitt. Þá var flautað fyrir aftan mig og stór Land Cruiser jeppi keyrði mjög nálægt mér. Hann var gylltur og númerið byrjaði á NG. Hann tók svo fram úr mér stuttu seinna og gaf þá allt í botn og gaf mér fokkmerki. Ég hafði greinilega gert eitthvað hrikalegt af mér. Í vil því nota þetta tækifæri til að biðja þennan náunga (sem var um 20 ára) afsökunar á því sem ég gerði (hvað sem það var) og vona að hann sé ekki ennþá mjög krumpaður á sálinni út af þessu. Old West Í gær fórum við spúsan og bróðir hennar að eta á Old West í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg. Þetta er staður svipaður American Style. Hann býður upp á meira úrval af mat held ég þó. Verðið er svipað en biðröðin engin. Ég fékk mér risaborgara (280 grömm af kjöti). Hann var afskaplega góður. Það var frí áfylling á gosið og frönsku kartöflurnar voru breiðar, eins og er best. Old West fær því bestu meðmæli sem svona hamborgarastaður í flottari kantinum. Þrjár stjörnur. Kaupaukar Allir tala um kaupauka Kaupþingsmanna. Ég ætla ekkert að segja um lagasetningu, boð og bönn. Bara það að mér finnst hjákátlegt þegar þeir bera fyrir sig að hagsmunir fyrirtækisins og stjórnendanna fari best saman með þessu móti. Það er aldeilis að þeir þurfa hressilega hvatningu til þess að vinna vinnuna sína. 300 milljónir á kjaft. Það hljómar reyndar frekar eins og hvati til að hætta að vinna, en það er önnur saga. Ef ein, tvær eða þrjár milljónir í laun á mánuði er ekki nóg hvatning segir það mest um þá sjálfa, og hvað þeir hugsa mest um.

föstudagur, nóvember 21, 2003

Fréttaflutningur Ég kveikti á einhverri erlendri fréttastöð í gær. Ég datt inn í fréttir af Michael Jackson og nýjustu ævintýrum hans. Mér brá heldur betur í brún. Neðst stóð "Breaking news: Jacko wanted, expected to surrender to police soon.". Á skjánum var mynd af mörgum lögreglubílum að keyra hratt á hraðbraut og jeppi fyrir framan þá. Inn á milli kom svo einhver óskýr mynd af einkaþotu sem stóð hálf út um eitthvað gat að því er virtist. Ég fór að draga ályktanir og reyna að setja mig inn í fréttirnar. Ég hélt að Jackson hefði klikkast og flúið frá lögreglunni, brotlent þotunni sinni á einhverju húsi og væri nú að flýja á jeppa eftir hraðbraut. Ekki ólíkt O.J. Simpsen hér um árið. Þetta reyndist allt saman mjög rangt. Hann hafði þá gefið sig sjálfviljugur fram við lögregluna og þeir voru að keyra hann eitthvert. Myndin af þotunni var eitthvað extreme closeup, og stóð hún eftir allt saman bara hálf inni í flugskýli. Þetta var alvöru æsifréttamennska, live úr þyrlum og bílum með æsta menn að segja manni hvað væri að gerast. Eftir 5 mínútur af þessu var fréttin farin að þynnast allverulega. Magnað hvað er hægt að gera sjónvarpsefni úr litlu.

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Materíalismi Það er alltaf skemmtilegt að hitta materíalista, eða efnishyggjendur. Öll erum við slíkar manneskjur upp að einhverju marki, en sumir komast nær fullkomnun í þessum efnum en aðrir. Þeir eru sérstök manngerð og hafa mjög ákveðið meginstef í sínu gildismati. Þeir haga sér líka öðruvísi en annað fólk við ýmis tækifæri, svo sem við innlit í heimahús og í veislum. Efnishyggjendur hafa dálæti á hlutum sem hægt er að snerta og sjá. Þó hafa þeir sérstakt yndi af annars vegar hlutum sem kosta mjög mikið, og hins vegar hlutum sem kosta venjulega eitthvað en í augnablikinu ekki neitt. Þið vitið um hvað ég er að tala. Þeir eru með risaskjá í sumarbústaðnum, eiga 6WD jeppa og þegar þeir fara í Fjarðarkaup keyra þeir kerruna sína 8 sinnum framhjá smökkunarbásnum til að fá eins mikið af ókeypis kartöflusalati og þeir geta. “Ha, nei ég var ekki búinn að fá.” Nýlega átti ég í samskiptum við mann sem gæti flokkast sem harður materíalisti. Hann er greinilega mikið fyrir holdsins nautnir og er vaxtarlagið eftir því. Andardráttur hans er þungur og hægur. Hann er í glæsilegum frakka. Það mæðir mikið á tölunni sem heldur honum saman um hann miðjan. Það hryglir í honum þegar hann talar. Það fyrsta sem slíkur maður gerir þegar inn á heimilið er komið er að setjast í þægilegasta stólinn. Hann hallar sér aftur og hálfpartinn liggur í húsgagninu og gónir upp í loftljósin. Hann stynur. "Heyrðu, kvaðertað segja? Þetta er ekki nema 25 tommu sjónvarp hjáðér. Ha?" Hann er búinn að verðmeta sjónvarpið. Ég sé það á honum þar sem hann virðir fyrir sér fjarstýringuna. 40 þúsund kall, ekki meira. Hann sjálfur á í raun ekkert erindi heim til mín. Félagi hans á erindið. Á meðan við tölum um verkið sem á að leysa fer materíalistinn (sem verður héðan í frá kallaður Matti til einföldunar) í skoðunaferð um húsið. Ég sé hann útundan mér. Hann er að prófa stólana í stofunni, með því að halla sér fram, styðja höndunum á stólarmana og hossa sér. Hann er fimmtugur. Í þriðju tilraun finnur hann stól sem hæfir og heldur sig þar um stund með Morgunblaðið. Forsíða og baksíða liggja saman og blaðið er svo brotið á röngunni til helminga . Ég held áfram að tala við félaga hans. Hann er ekki viss um hvernig eigi að vinna umrætt verk og hugsar lengi um það. Að lokum fer Matti að þrýsta á. Hann er tímabundinn, auk þess sem hann nennir ekki að píra augun á svona lítið sjónvarp. "Já, við förum að fara." Félaginn kemst að niðurstöðu um hvað hann þarf að útvega til að vinna verkið og undirbýr för sína. Matti er staðinn upp. Hann er að horfa niður á hægra hornið á málverkinu á stofuveggnum. Ég tek Morgunblaðið af borðinu hjá stólnum og lít á það. Hann er búinn að leysa krossgátuna. Ég ætlaði að leysa krossgátuna. “Hver málaði þetta hér ha?” Hann getur ekki lesið slæma undirritun listamannsins. Ég svara. “Jaaaá. Ég kannast nú ekkert við hann.” Það má greina vonbrigði í röddinni og hann hættir að horfa á myndina. Hann sá myndina sennilega aldrei alla. Matti heldur sína leið og kveður með því að segja frá öllum áætlunum sínum næstu tvær vikurnar. Hann er að fara til Kaupmannahafnar, Brussel og svo í sumarbústaðinn að horfa á sjónvarp.

Framkvæmdir og lærdómur í sömu sæng Í dag sit ég heima og reyni að læra. Það gengur hins vegar erfiðlega þar sem verið er að leggja parket á eldhúsgólfið. Smiðir hamra og bora hér stöðugt og sama hversu hátt ég stilli tónlistina heyri ég í þeim. Þá er hún líka orðin of hávær til og gott sé að einbeita sér! Þetta gengur hægt. Svo er hér pípari líka að leggja einhverja leiðslu fyrir nýja ísskápinn og á eftir kemur sjónvarpsvirki. Stuð. Kannski ég fari á bókhlöðuna um kaffileytið og verði þar til kl. 22.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Bloggleti og list Hvað er leiðinlegra en að blogga um að maður nenni ekki að blogga. Ég fyrirlít fólk sem nennir að lesa slíkt. Annars vorum við Skúli að kíta um stöðu tónlistarmanna í hinu markaðsvædda samfélagi. Skúli er tónlistarmaður og hefur því þetta mikilvæga insider sjónarhorn sem mig skortir. Hins vegar stend ég fyrir utan þann heim og er betur í stakk búinn til að horfa með augum þess utanaðkomandi. Kannski ég skrifi eitthvað um þetta við tækifæri. En það er bara svo fátt að gerast þessa dagana að ég nenni ekki að skrifa neitt. Ef ekkert gerist hefur maður ekkert að segja. Ekki einu sinni orðaleiki. Æfingapróf Hinir drykkjuþrútnu nemendur efri ára í lögfræðinni skiluðu af sér niðurstöðum úr æfingaprófinu í dag. Ekki sáu þeir sér fært að setja mig á þann lista svo ég veit enn ekki hvað ég fékk. Ég sá hins vegar að meðaleinkunnin í prófinu var 2,5 og hæsta einkunn á listanum var 6. Ég hyggst persónulega reikna mína einkunn út sjálfur með því að deila stigafjöldanum með 80 í stað 100 þar sem að 20 stiga réttarspurning fékk enga athygli, enda er ég ekki í því stórskemmtilega fagi. Prófsýning er á morgun og það er best maður kíki til að sjá hvernig fór. Ég held að þetta hafi gengið ágætlega hjá mér án þess að ég vilji fullyrða neitt sérstaklega um það. Ekki lærði ég fyrir það sérstaklega, enda vissi ég ekki af því fyrr en degi áður en það var haldið. Bévuðu Orator durgar. Skammdegisþunglyndi Mér reynist nú æ erfiðara að vakna á morgnana. Augnlokin vega á þriðja hundrað kílóa þegar ég er vakinn og þarf því allnokkra áreynslu til að lyfta þeim. Þegar það loksins tekst eru augnbotnarnir sérlega viðkvæmir og þola varla standby ljósið á tölvuskjánum, hvað þá loftljósin. Einnig hrjá mig beinverkir sem gera það að verkum að ég klifra upp í rjáfur um miðjar nætur og get hvergi kyrr verið. Svona er nú undanfari jólahátíðarinnar.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Jólin, jólin alls staðar Nú eru snillingarnir sem velja ofan í okkur hljóðbylgjurnar farnir að spila jólalög. Útvarp saga hefur einungis spilað jólalög fyrir börn síðasta klukkutímann. Það er alltaf verið að þynna stemmninguna yfir lengra og lengra tímabil. Þetta dregur úr skemmtilegheitum.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Fyndnasti karakter í skáldsögu Ég held að ég hafi aldrei rekist á fyndnari karakter í skáldsögu en einmitt lækninn á Óseyri við Axlarfjörð í Sölku Völku eftir Halldór Laxness. Því til stuðnings (og lesendum til yndisauka) vil ég nefna þær setningar sem læknirinn lætur út úr sér við manneskju sem horfir á nýlátinn ættingja sinn liggja illa farinn í fjörunni: ,,Gleður mig stórkostlega, sagði hann og rétti henni beinamikla hönd sína, sem þó var mjúk og hlý. Hann hneigði sig djúpt fyrir henni og tók ofan. - Ef mér skeikar ekki því meir - úngfrú, úngfrú -? Ja það er sama. Við segjum ekki meira. Við erum gamlir vinir. Hehehe. Fjórtán ára, ekki satt? Jú fjórtán. Unaðslegt. Dásamlegt. Mér liggur við að segja verulega. Sem sagt, sá sem gefst aldrei upp í lífinu það er hann sem sigrar í dauðanum, hehehe. Ég lifi. Þú lifir. Við lifum. Gleðilega páska í nafni - ekki satt?" (Halldór Laxness. Salka Valka. 9.útgáfa. Bls. 293-294. Vaka-Helgafell hf. Reykjavík 1999) Hér vonast ég til þess að lesendur segi mér frá þeim allra fyndnasta karakter sem þeir muna eftir í bók sem þeir hafa lesið. Koma svo!

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Holdgervingur alls ills Ég spjallaði við margumtalaðan Konráð Jónsson á MSN áðan. Þegar nokkuð var liðið á samtalið breytti ég um nafn, og hét þá Konráð eins og hann. Þá byrjaði ég að tala eins og ég væri hann. Eftir smá umræður um sauðfé og nokkra brandara tel ég að ég hafi náð að sannfæra Konráð að ég væri hann og að hann væri að tala við sjálfan sig. Þetta endaði með því að Konráð vildi ekki tala við mig lengur og sagðist ætla að leggja sig.

DV Mikael Torfason. Þarf að segja fleira?

laugardagur, nóvember 08, 2003

Streita Bókasafnsfræðingar eru ekki miklir ræðuhaldarar. Þeir sem starfa á þjóðarbókhlöðunni virðast þó oft ætla að reyna að segja eitthvað frumlegt í hátalarakerfið þegar líða fer að lokun. Í dag var það svona: "Dingding DING!!!!!!!!!! Ehemm, góðir gestir hratt... ... ... ... ... ...líður stund....e við lokum safninu eftir 15 mínútur." Það er eins og þau séu aldrei búin að hugsa dæmið til enda áður en þau byrja að tala. Stundum muna þau bara alls ekki hvað er langt þangað til það á að loka safninu. Stundum vita þau ekki einu sinni af hverju þau eru að rymja í hátalarakerfið, hætta við og koma einni mínútu síðar. Þetta fólk virðist þjást af alvarlegum sviðsskrekk. Kannski það væri gott að halda námskeið?

Svar til Konráðs Jónssonar Konráð heitir maður og er Jónsson. Hann fæddist árið 1984. Árið 2003 gerðist það svo að hann tapaði níu sinnum í röð fyrir Önundi Páli Ragnarssyni í leiknum tic tac toe. Áður en það gerðist hafði hann lýst því yfir að ekki væri mögulegt að tapa í tic tac toe því sá leikur væri of einfaldur.

föstudagur, nóvember 07, 2003

Kaldrifjuð Rétt áðan ávarpaði ég Alexöndru Kjeld á MSN með því að spyrja hvort hún væri í stuði. 5 sekúndum seinna aftengdi hún sig án þess að svara. Ég finn fyrir sterkri höfnunartilfinningu og hefði í raun ekki getað ímyndað mér að svo köldu gæti andað frá henni til nokkurrar manneskju. Það er greinilegt að Frakkarnir eru farnir að ná til hennar.

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Tómas Jónsson Metsölubók Ég byrjaði á þessari bók í fyrradag áður en ég fór að sofa. Ekki veit ég hvort hún verður lesin á enda. Raunar lá við að ég hætti að lesa strax í formálanum eftir höfundinn sjálfan, því þar lýsir hann því yfir að hann hafi verið andvígur endurútgáfu bókarinnar til að byrja með og í raun hafi hún bara átt erindi við lesendur þegar hún kom út, en ekki við einhverja patta eins og mig sem ákveða að lesa hana af því að hún er fræg. Svo byrjaði maður að lesa. Þetta var mjög óreiðukennt og sögumaðurinn virkaði algerlega málóður. Ætli hún eigi ekki að heita skrifuð í einhverjum absúrdismastíl... kannski maður láti hana bíða aðeins. Hvað segiði um það?

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

1984 - George Orwell Í síðustu viku fór ég á stúdentaleikhúsið að sjá 1984. Það þótti mér skemmtileg upplifun enda þá nýbúinn að lesa bókina og búinn að mynda mér skoðanir á henni og hvernig sýningin myndi verða. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Þannig vill svo til að í þessari sýningu voru bæði ofbeldi og nekt, og þjónaði það miklum tilgangi. Þ.e. að hafa áhrif á áhorfandann og fá hann til að hugsa. (Í þessu samhengi má benda á fyrri og umdeilda umfjöllun um soramyndina Kill Bill sem hafði engin áhrif á undirritaðan þrátt fyrir mikið ofbeldi). Leikmyndin var einföld og flott, grá og þunglyndisleg. Alger fangelsisstemning þar á ferðinni alla sýninguna. Ekki var það svo verra að hún væri umbreytanleg. Það sem til að byrja með var rammi utan um "telescreen" datt niður á sviðið og afmarkaði fangaklefa. Mjög skemmtilegt. Leikararnir voru bara fínir (best að vera ekki of harður hér fyrst ég hef enga reynslu af leikhúsvinnu og lítið vit á því sem ég er að tala um) en mér fannst kannski að meira ris hefði mátt vera í Winston Smith fyrir miðju leikritsins. Þegar ég las bókina fann ég hvað hann var lítill og máttlaus til að byrja með, en mér fannst honum vaxa fiskur um hrygg á tímabili og var farinn að vona að hann yrði leiðtogi byltingar. Mér fannst hann fá smá kraft í sig í bókinni eftir að hann kynntist Juliu, sem ég varð ekki var við í leikritinu. Hann var einhvern veginn alltaf að fara að deyja í leikritinu. Alltaf hallandi höfðinu og horfandi í kjöltuna á sér. Sú sem lék Juliu fannst mér fín. O'Brien hefði mátt vera aðeins fjölbreyttari, hann var frekar mónótónískur, en þó ansi ógnandi yfirleitt. Mér er sagt einhverjir hafi gengið út þegar ofbeldið náði hámarki. En ætli maður eigi ekki einmitt að sitja það af sér? Ætli maður nái boðskapnum ef maður gerir það ekki? Sagan er auðvitað frábær. Hún er frekar hæg til að byrja með. Lesandanum er hent inn í heim ólíkan þeim sem hann býr við og því þarf að eyða mikilli orku í að kynna hann fyrir aðstæðum. Það er svo ekki fyrr en að farið er að halla á seinni hlutann að vendipunktur verður í sögunni. Eftir þá einu setningu sem markar skilin er sagan samfelld þeysireið um mannlegt eðli, tilfinningar og allsvakaleg ádeila á stórveldi heimsins. Þá og nú. Maður er límdur við bókina og vill helst ekki líta upp úr henni fyrr en maður er búinn með hana, nema þá til að anda af og til. Höfundurinn nær að skapa einhverjar hræðilegustu aðstæður sem maður getur mögulega ímyndað sér, og viðheldur þeim svo yfir hundrað blaðsíður með bensínið í botni. Hann gerir engin mistök og gerir manni þann greiða að ljúka sögunni ekki á neinum Hollywood endi, heldur fær maður að sjá manneskju rifna niður að fullu og skilda eftir í fullkominni eymd. Slæmi endirinn sem maður býst ekki við. Þetta gerir það líka að verkum að sagan verður margfalt áhrifameiri og fær mann til að hugsa um hana löngu eftir að hún er komin upp í hillu. Þó að sagan hafi verið gefin út 1949 á hún mikið erindi við nútímann. Allir þeir tilburðir sem hafa verið einkennandi fyrir stórveldi eru einfaldlega ýktir stórlega í bókinni. Það verður til þess að maður tekur eftir þeim. Svo ég taki eitt dæmi um þetta má nefna Newspeak. Tilgangur þess var sá að einfalda tungumálið. Einföldun tungumálsins átti svo aftur á móti að hafa þrengjandi áhrif á hugsunina og þegar einföldunin yrði fullkomin yrði hugsunin orðin máttlaus. Þeir sem aldrei hefðu lært ensku myndu ekki geta hugsað “hættulega hugsanir”. Hugsanaglæpir yrði ómögulegir. Það væri búið að taka af þeim hættulegasta vopnið. Einungis þá yrði vald Flokksins yfir fólkinu hámarkað. Lesandinn hefur þann möguleika að taka þessu sem marklausu bulli sem aldrei geti átt sér stað, eða þá að líta á þetta sem viðvörun. Þessu má finna stað í raunveruleikanum. Ýmsir Bandaríkjaforsetar hafa til dæmis haldið á lofti hugtakinu “Un-American”. Með þessu samsuðuorði er allt sem yfirvöld telja stríða gegn hagsmunum sínum sett undir einn hatt. Sameiginlegur óvinur allra er það sem er Un-American. Þetta getur verið hugsanaháttur, aðgerðir í stjórnmálum, ákveðnir menn, ákveðnar þjóðir eða bara hvað sem er. Þekkt orð er tekið og því gefin andstæð merking með forskeyti. Það sama er gert í Newspeak. Hugsunin er einfölduð. Good, ungood, plusgood, plusungood. Þetta er bara frumleg framsetning á viðvöruninni. Ætli það sé ekki best að binda enda á þessa munnræpu í mér með nokkrum setningum úr samræðum Winston Smith og O’Brien, og gefa þær nokkra mynd af seinni hluta bókarinnar. Hann er æsileg lesning: ”...There will be no loyalty, except the loyalty towards the party. There will be no love, except the love of Big Brother. There will be no laughter, except the laugh of a triumph over a defeated enemy. There will be no art, no literature, no science. When we are omnipotent we shall have no more need of science. There will be no distinction between beauty and ugliness. There will be no curiosity, no enjoyment of the process of life. All competing pleasures will be destroyed. But always – do not forget this, Winston – always there will be the intoxication of power, constantly increasing and constantly growing subtler. Always, at every moment, there will be the thrill of victory, the sensation of trampling on an enemy who is helpless. If you want a picture of the future, imagine a boot stamping on a human face for ever.”

Hugsun sem vekur kátínu Frank Cassata að slappa af í heitu desilítramáli.