Síðasta skoðanakönnun ...var æsispennandi og hrundu atkvæðin inn á hana eins og...kleinur? Í henni glímdu lesendur við erfiða þraut, en hún gekk út á að finna þann sem ekki passaði inn í hópinn. Þá er ég auðvitað að meina þann sem ekki fellur inn í hópinn eins og mér þykir hann ekki falla inn í hópinn. Flestir völdu réttan valmöguleika, Jónas R. Jónsson tónlistarmann, umboðsmann/sendiherra hesta, og umferðaráróðursstjörnu. Hlaut hann alls 34 atkvæði. Það vakti hins vegar furðu mína að 22 völdu Hannes Hafstein. Ég vil því varpa þeirri spurningu fram hér, af hverju þið kusuð Hannes Hafstein? Var það út af ættarnafninu? Aðrir fengu mun færri atkvæði og töldust falla mjög vel inn í hópinn. Vigdís Finnbogadóttir var þar fremst í flokki með einungis 3 atkvæði. Svarið var það að hópurinn samanstendur af fólki sem hefur orðið landsfrægt og skapað sér vissa ímynd hetju eða afreksfólks sem Íslendingar vísa til þegar þeir vilja efla sjálfstraust sitt. Svipað og í Thuleauglýsingunum. En hér er komin upp ný gáta og er hún ekki af verri endanum. Ég hvet ykkur til að velja.
.
föstudagur, október 31, 2003
fimmtudagur, október 30, 2003
Rétt í þessu... ...gekk að mér maður. Hann rétti mér pappírssnifsi og á því stóð: Ég bið þig að vara þig héðan af á fullyrðingum stóriðnjöfra sem hafa áhrif á ófullkomna sýn þína á fullkomnun. Og nú spyr ég ykkur lesendur góðir, hver var þessi maður?
þriðjudagur, október 28, 2003
Hryðjuverk, dauði og eyðilegging - Hæglátir Íslendingar Nú sit ég á þjóðarbókhlöðunni og er að reifa dóma úr kaflanum um eðli máls. Gott og vel. Skyndilega slökkna öll ljós á hæðinni og myrkur skellur á. Hvað gerist? Ekki neitt, fólk lítur upp, athugar á klukkunni hvort nokkuð sé komin nótt og grúfir sig svo aftur niður í bækurnar án þess að sjá þó neitt hvað þar stendur. Þetta er nú nokkuð dæmigert fyrir landa vora. Íslendingar eru annað hvort gríðarlega hófstilltir og yfirvegaðir, eða í afneitun gagnvart hvers konar frávikum frá hversdagsleikanum. Þeir standa með veiðistöng úti í á og eldingum lýstur niður í nokkurra metra fjarlægð. Viðbrögð Íslendings við slíku er ekki að drífa sig inn (þar sem hann stendur með málmstöng í höndinni úti í rigningu og eldingaveðri) heldur að halda áfram að veiða þann tíma sem hann borgaði fyrir. Í vinnunni er okkur sagt að hlaupa út á stundinni ef við finnum lykt af ammóníaki. Eitt sinn lak ammóníak úr frystitækjunum. Menn fundu lyktina og hugsuðu "Hmm, ammóníak? Nei er þetta ekki bara gamalt fiskflak undir borði eða eitthvað? Nú er mig að dreyma!" Svo gengu menn hægum skrefum út þegar lyktin var orðin kæfandi. Einnig mætti nefna þegar kviknaði í (ég var ekki viðstaddur en heyrði af þessu). Sá sem uppgötvaði eldinn hljóp fram og sagði "Eldur, eldur!". Voru viðbrögð góðra Íslendinga að hlaupa upp til handa og fóta? Nei, svarið var "Hvað er þetta, ég á ekki eld, þú mátt ekki reykja hérna inni. Farðu að vinna." Það eitt er víst að ekki er til tæknilega auðveldara skotmark fyrir hryðjuverkahópa en Íslendingar. "Hmm, flugvél sem stefnir á gluggann hjá mér? Hvaða vitleysa, ég þarf að klára þe..." Hér sitja allir ennþá í myrkrinu og þykjast vera að lesa bækurnar sínar.
Draumur Í nótt stal ég bíl gamallar konu í miðbæ Reykjavíkur. Mig og bróður minn vantaði bíl til þess að komast upp í Mosfellsbæ. Við ákváðum því að stela bíl fyrir utan einhverja kirkju uppi á einhverri hæð. Okkur fannst líklegt að þessi tiltekni bíll sem við rændum væri í eigu gamallar konu. Ekki veit ég af hverju. Ætlunin var að skila bílnum aftur áður en kirkjuathöfnin væri búin svo að enginn myndi taka eftir að hann hefði horfið. Það mistókst hins vegar eitthvað að skila honum og í fréttunum um kvöldið sáum við að lögreglan hafði hafið umfangsmikla leit að bílnum og kom það fram í fréttunum að hún hefði fundið hjólför og væri komin með margar góðar vísbendingar. Svo þróaðist þetta út í einhverja massíva sektarkennd hjá mér og ekki hjálpaði að sjá gamla konu grátandi í sjónvarpinu yfir því að bíllinn hennar væri horfinn. Bíllinn hafði eitthvað rosalegt tilfinningalegt gildi fyrir gömlu konuna. Þetta var bara hræðilegt.
mánudagur, október 27, 2003
Helgin Bakaði súkkulaðiköku á laugardag. Hún heppnaðist með eindæmum vel og gerði mikla lukku hjá fjölskyldunni. Ég mæli með því að fólk baki súkkulaðiköku og beri hana fram með þeyttum rjóma og lemon curd. Bara smá curd ofan á rjómann. Snilldarbragð. Í gær las ég Gunnlaugs sögu Ormstungu. Hún var bráðskemmtileg en einnig hádramatísk. Það er enginn crowdpleaser endir á þessari sögu, og kannski er það eina ástæðan fyrir því að Hollywoodmaskínan er ekki búin að taka söguna og setja Joe Pantoliano í hlutverk Gunnlaugs og Jennifer Lopez í hlutverk Helgu hinnar fögru. Ég sé einnig fyrir mér að Clint Eastwood léki Þorstein Egilsson (og væri í gallabuxum og með stóra sylgju á beltinu). Martin Short léki Aðalráð konung. Þetta gæti orðið hin besta skemmtan. Svo keypti ég bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, Um fordæmi og valdmörk dómstóla á föstudaginn og er búinn að lesa meirihlutann af henni. Bókin er ekki beint á lesefnislistanum í almennunni en það er vísað til hennar. Hún er auðlesin og textinn er mikið þægilegri en hjá sumum merkum fræðimönnum. Það er eitthvað, ég er alveg ofboðslega þreyttur líkamlega.
föstudagur, október 24, 2003
Skemmtileg url http://imdb.com/name/nm0518790/ http://imdb.com/name/nm0711488/ http://imdb.com/name/nm0906288/ Já ég veit, ég ætti að fara að sofa núna.
fimmtudagur, október 23, 2003
Kill Bill Nú hamast allir við að lofa þessa mynd í bak og fyrir. Ekki skil ég af hverju. Kannski er það af því að Quentin Tarantino gerði hana. Kannski af því að fólk er ruglað. Raunar hafði ég engar væntingar til myndarinnar, svo það má segja að hún hafi staðið undir væntingum. Ef ég tek saman það sem mér finnst um myndina er það eitthvað á þessa leið: 1. Fáránlega mikið og sýnilegt tilgangslaust ofbeldi. 2. Allt saman mjög ótrúverðugt 3. Engin sérstök flétta eða dulúð fæst út úr því að rugla tímaröðinni. 4. Samúð með aðalpersónunni eða öðrum var erfitt að finna, og fáránlegt til þess. Nú segja sumir að allt þetta megi afskrifa með vísan til þess að Kill Bill sé í raun gamanmynd. Ef þetta er gamanmynd, þá er ég ekki gamanmaður. Jújú, vissulega er það fáránlegt að 20 lítrar af blóði sprautist út úr afhöggnum útlimum eins og garðslöngu. En annars er þetta svona frekar takmörkuð fyndni. Í þessu eru sviðsettar margar mismunandi útgáfur af ógeði. Barnshafandi brúður er barin til óbóta og svo skotin í höfuðið. Konu sem liggur í dauðadái er ítrekað nauðgað af starfsmönnum sjúkrahúss og félögum þeirra. Kona er drepin með búrhníf í eldhúsinu heima hjá sér fyrir framan dóttur sína o.s.frv. Þó þetta sé sett upp á einhvern "léttan" hátt er þetta bara ekkert fyndið. Mér misbauð ekki sérstaklega, ég íhugaði ekki að ganga út. Mér fannst þetta bara ekkert sniðugt eða frumlegt. Nú má fólk alveg hætta að tala um Tarantino sem einhvern snilling. Hætta að snobba fyrir honum. Lítið bara á kauða, hann hefur gert fjórar myndir og virðist eiga mjög erfitt með að fjalla um eitthvað annað er ofbeldi í ruglaðri tímaröð. Ég hef enga þörf fyrir að sjá framhaldið af þessu, og mér er alveg sama þó dóttir hennar sé ennþá lifandi. Bara alveg nákvæmlega sama. Ein og hálf stjarna, fyrir alls konar flotta myndatöku og tæknileg atriði.
þriðjudagur, október 21, 2003
Festa, fyrirsjáanleiki og öryggi - kettir Þegar fólk hefur samskipti virðist það skipta miklu máli að einhvers konar reglur gildi um samskiptin. Látum ósagt hvort það eru lagareglur, siðvenjur eða eitthvað annað. Það er mikils metið að maður geti að einhverju marki sagt fyrir um það hvernig hinn aðiljinn muni haga sér, og hvers hann telji sig geta krafist af manni. Sem dæmi má nefna að ef ég segi "Komdu sæll og blessaður" þá geri ég sjálfkrafa ráð fyrir því að viðmælandinn segir eitthvað á borð við "Sæll". Ef hann hins vegar segir "banani og súkkulaðisjeik í bolla frá Kína" og réttir fram höndina, þá er eitthvað að misfarast hjá okkur og líkur benda til að samskiptin muni ekki ganga eðlilega fyrir sig. Haldi hann slíku áfram er líklegt að ég frábiðji mér frekari samskipti við hann og forðist hann jafnvel. Bróðir minn á kött. Köttur þessi er ekki eins og þeir eru flestir og er hegðun hans oft á tíðum óviðunandi að mínu mati. Fyrr í kvöld var ég á heimili bróðurins og horfði þar á amrískan spaugþátt. Kötturinn nuddaði sér stöðugt utan í mig og var elskulegur sem aldrei fyrr. Ég byrjaði að strjúka honum hátt og lágt (þó aðallega hátt) og láta vel að. Skyndilega tók hann undir sig stökk, læsti hrömmum sínum utan um handlegg minn og gerði sig líklegan til að bíta mig í fingurinn. Verandi slíkum árásum eigi vanur kippti ég höndinni að mér leiftursnöggt. Gólaði skarnið þá ámátlega og læsti sig enn fastar við mig og beit í vísifingur. Nú var höndin komin í kvenlega stellingu og fullbeygð upp að síðu minni með olnboga við mjöðm en handarbak við öxl. Mér brá svo í brún við bitið að ég sveiflaði arminum hratt í einhverja óskilgreinda átt svo kötturinn smaug gegnum loftið og lenti á borðbrún fyrir framan sófann. Lyppaðist hann þá niður á gólfið og gekk svo hægum skrefum nokkuð frá mér og settist niður, undrandi. Mér hefur síðan liðið illa yfir þessu atviki. Ég er feginn að kötturinn slasaðist ekki svo sem á horfðist í fyrstu. En þetta kennir okkur að öryggi, fyrirsjáanleiki og festa í samskiptum dýra og manna er ekki síður mikilvæg en í öðrum samskiptum.
Klikkuðu feitt Hinn armi vefur frettir.com gerir mikið af því að hæðast að öðrum fréttamiðlum (ef hann má flokkast sem slíkur) og má þar finna þessa klausu: Fréttablaðið kemur líka með nýyrði í dag: "Ég sé engin jarðteikn í þessu, " sagði Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra vegna þeirra frétt að stjórn Landssambands norskra fiskibátaeigenda sé að undirbúa aðildarviðræður vegna hugsanlegrar inngöngu í ESB." Jarðteikn er hvað? Þarna eru menn nú alveg að skjóta sig í fótinn. Jarðteikn (eða jartegn) er auðvitað öllum þekkt sem gott og gilt íslenskt orð. Þetta þýðir bara sönnun eða sönnunargagn. Pfff, meira að segja ég vissi þetta. Greinilegt að menn hafa ekki lesið Gísla-sögu fyrir samræmdu prófin.
Óþolandi grimmd Ég fór í bíó í gær. Sleppti bara leiðindunum og táfýlunni á bókasafninu og rölti út í háskólabíó klukkan 6. Intolerable Cruelty varð fyrir valinu og þótti mér hún ágæt. Hún er markaðssett sem ósköp venjuleg rómantísk gamanmynd, en það er hún eiginlega ekki. Sennilega er þetta gert til þess að veiða áhorfendur inn á hana, svona Bridget Jones's Diary týpurnar. Myndin er hins vegar fyndin og með skemmtilegri (en kannski ofurlítið fyrirsjáanlegri) fléttu. Ýktir karakterar voru áberandi sbr. aldna lögmanninn Herb, yfirmann Miles Massey (Clooney) og barón Puffy Von Epsy sem bar vitni við réttarhöld. Mæli með þessari mynd og set á hana tvær og hálfa stjörnu. Hetja Um daginn fór ég á myndina Hero sem sýnd var á kvikmyndahátíð Regnbogans. Hún var glimrandi fín að flestu leyti og mjög skemmtileg. Flottur stíll yfir henni allri skemmtileg útfærsla á annars margnotuðum ramma (tveir menn hittast og annar segir hinum sögu). Einhverjir myndu segja að hún væri alveg eins og Crouching tiger, hidden dragon en því er ég ekki sammála nema að því er viðkemur útliti á bardagasenum. Það er sennilega það sem helst mætti gagnrýna við myndina. Það er alger óþarfi að vera alltaf að nota þessi bönd sem leikararnir hanga í svo þeir virðast óháðir þyngdaraflinu. Það er einmitt þannig í Hero að menn berjast bæði í huga sínum og í raunveruleikanum. Það hefði komið betur út að sleppa þyngdaraflinu bara í huga þeirra en láta þá berjast eðlilega annars. Leikararnir hefðu alveg ráðið við það. Einhverjir höfðu á orði að kínversk stjórnvöld væru eflaust ánægð með myndina þar sem gengur nokkuð út á það að sameinað Kína sé öllum til hagsbóta. Mér finnst það samt ekki skipta máli um gæði myndarinnar sem slíkrar. Þrjár stjörnur á kvikindið.
sunnudagur, október 19, 2003
Töffari Í dag fór töffari í verslunarmiðstöð. Hann á sportbíl. Þegar á staðinn var komið kaus hann að leggja bílnum sínum á þann hátt að hann tók algerlega tvö stæði og myndaði 45 gráðu horn við aðra bíla á svæðinu. Þetta varð til þess að einhver setti miða undir rúðuþurrkuna þar sem stóð "Lærðu að leggja". Þar sem undirritaður sat í bíl sínum skammt frá og át ís í brauðformi, dreif að miðaldra konu. Hún kom auga á miðann og staldraði við. Með augnblýanti skrifaði hún eitthvað á miðann og gekk svo skælbrosandi burt. Ég leit aðeins á miðann og þar hafði hún bætt við orðinu "asni".
fimmtudagur, október 16, 2003
Dikta ...skrapp á tónleika með Diktu í hinu húsinu áðan. Þeir sem ekki kannast við Diktu þekkja þá kannski undir nafninu La Duite, en þeir eru þekktir undir því nafni í Mið-Evrópu. Tónleikarnir voru prýðisgóðir og mátti ég þar heyra eitt lag sem ég hafði aldrei heyrt áður. Þeir drengir hafa yfirleitt verið nokkuð hóflegir í flutningi sínum en nú þótti áhorfendum keyra um þverbak í gjörningum. Nokkrir móðgaðir unglingar gengu út þegar Skúli Gestsson hóf að maka sig allan út í skyri og velta sér upp úr Nóa-kroppi. Sjálfum fannst mér verkið mjög heilsteypt og gefa laginu sem þeir fluttu á meðan, "Taminóra" meiri fyllingu en ég hef áður orðið vitni að. Nú er bara spennandi að sjá hvort Skúli endurtekur leikinn á Iceland Airwaves annað kvöld. Dikta mun spila á Grand Rokk og hvet ég alla lesendur til að mæta á svæðið og njóta afurða þeirra.
Árshátíð Konan fer á árshátíð í kvöld. Mér hefur verið úthlutað það verkefni að útvega henni flösku af hvítvíni. Svo fer hún bara í partý og út að borða og á ball. En ég? Nei ég verð bara heima að borða ýsu og lesa. Og talandi um ýsu... ...þá er hún prýðisgóður matur miðað hvað þessi hrææta er ólystilegt kvikindi þegar það kemur upp úr sjónum. Hún er alltaf hálflitlaus, losaraleg, slepjuleg og ógeðsleg auk þess sem hún er alltaf löngu steindauð. Það er eitthvað annað en þorskurinn sem spriklar hlæjandi á færiböndunum, fer með klámvísur og segir gamansögur alveg þangað til hann er afhausaður.
miðvikudagur, október 15, 2003
Múrinn Las grein eftir SJ á Múrnum, hún bar heitið "Að skapa atvinnutekjur". Fyrsta málsgrein hennar er á þessa leið: "Til eru bæði hægriklisjur og vinstriklisjur, sem hugsandi fólki ber að forðast. Ein hægriklisjan hljóðar einhvern veginn svona: "Vinstrimenn vilja bara eyða peningum, en hugsa ekki um að afla tekna". " Greinin endar hins vegar svona: "Sá sem ekki vill greiða skatta til samfélagsins vill heldur ekki reka atvinnustefnu sem kemur komandi kynslóðum til góða. Þeim sem einungis hugsa um sjálfa sig er sjaldan treystandi til að taka ákvarðanir sem varða aðra." Gott ef greinarhöfundur endaði greinina sína ekki bara á hressilegri vinstriklisju, sem hugsandi fólki ber að forðast.
þriðjudagur, október 14, 2003
Draumur Í nótt dreymdi mig að ég var að fara á árshátíð. Hún var haldin í Frakklandi og allir voru að fara. Nema hvað, ég asnaðist til að fara út að hlaupa með Kára Stefánssyni. Við hlupum upp einhverja fjallshlíð allt þar til hún var orðinn lóðrétt en ég komst varla til baka. Þurfti að fara varlega. Þessi fjallshlíð var stækkuð útgáfa af grasbrekkunni við hliðina á strætóskýlinu fyrir neðan hverfið mitt í Garðabænum. Áhugavert það. Nú, Tómast Karl Aðalsteinsson hefur samband við mig í síma og segir að allir séu að fara út á flugvöll. Síðasta vélin var að fara og nú var mál að drífa sig. Ég var fastur í fjallshlíðinni og gat mig vart hreyft. Ásta Sigríður Fjeldsted var komin í sparifötin og sagði mér að nú yrði ég sko of seinn. Svo missti ég af flugvélinni og komst ekki á árshátíðina. Var bara í skítugum hlaupaskónum á einhverjum ónefndum flugvelli og fann ekki leiðina út af flugvél. Hún var svo þar að auki farin í loftið. Þetta var ekkert mjög skemmtilegur draumur. Kári hefði nú alveg mátt hjálpa mér niður brekkuna eða eitthvað.
mánudagur, október 13, 2003
Murphy's law Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á týndist lykillinn að bílnum mínum í síðustu viku. Hann fannst hvergi þrátt fyrir ítrekaða leit, og þó sú ítrekaða leit væri ítrekuð ítrekað. Ég brá því á það ráð að biðja Heklu um aðstoð. Þeir sögðu mér að ég þyrfti að koma með læsinguna úr annarri hurðinni til þess að smíða nýjan lykil eftir. Ég þurfti því að brjótast inn í minn eigin bíl. Leiðbeiningar til innbrotsþjófa: 1. Kaupið mjóan og mjúkan vír í byggingavöruverslun. Réttið vírherðatré úr sverum vír. 2. Gerið fasta lykkju á enda herðatrésins, en hreyfanlega lykkju á enda þunna vírsins. 3. Vefjið mjúku límbandi utan um kúbein og spennið hurðina lítið eitt úr falsinum með því. 4. Stingið herðatrénu inn framan við kúbeinið en vírnum aftan við það. Stýrið mjúka vírnum á læsingarpinnann með vírherðatrénu. Þegar lykkjan leggst utan um pinnann skal haldið við ofan á með herðatrénu. Þá er vírinn dreginn niður falsinn í sömu hæð og pinninn er, og svo strekkt. Þá ætti vírinn að herðast utan um pinnann haganlega. 5. Togið pinnann upp. Troubleshooting Ef samlæsingin á bílnum er biluð getur hún orðið til vandræða. Í mínu tilfelli togaði hún pinnann jafnóðum niður aftur svo ekki var hægt að opna hurðina. Þetta stafar af því að skotthlerinn er eilítið skakkur og truflar læsinguna. Þá var brugðið á það ráð að nota handfang af gamalli fötu til þess að snúa sveifinni fyrir rúðuna hálfan hring. Rúðan opnaðist pínulítið og við gátum ýtt henni 2cm niður til viðbótar. Þá var hægt að krækja vírnum í hakið sem opnar vélarhlífina. Aftengja rafgeyminn og opna svo hurðina með því að toga í pinnann með vírnum. Niðurstaðan Læsingin var því rifin úr hið snarasta. Þá kom í ljós að Hekla er lokuð um helgar og opnar ekki fyrr en í dag. Læsingin þurfti því að bíða á bílskúrsvaskinum. Í gær kom símtalið. Lykillinn var fundinn. Anything that can go wrong, will go wrong.
fimmtudagur, október 09, 2003
Mannanöfn Fólk skírir börn sín frumlegum nöfnum nú til dags, og nöfn eins og Þengill, Þormóður, Sigurkarl og Narfi eiga ekki lengur upp á pallborðið. Eftirfarandi nöfn verða því líklega í stjórnmálaumræðunni eftir svona hálfa öld (hversu skemmtilegt verður það?): Tristan Smári, forsætisráðherra Aþena Dís, utanríkisráðherra Eilífur Friður, fjármálaráðherra Sól Dögg, dóms- og kirkjumálaráðherra Sumarnótt Lind, heilbrigðisráðherra Blær Maíblóm, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Snær Snær, menntamálaráðherra Apríl Sól, sjávarútvegsráðherra Vetur Máni, landbúnaðarráðherra Ísar Bogi, félagsmálaráðherra Tara Telma, umhverfisráðherra Álfur Bjarmi, samgönguráðherra
Helvíti skemmtilegt Hvað er svona skemmtilegt? Ja ég skal sko segja ykkur það. Það er helvíti skemmtilegt að finna ekki bíllykilinn sinn. Sérstaklega þegar maður er staddur uppi í Mosfellsbæ en þarf að komast í vesturbæinn. Það sem bætir enn á skemmtilegheitin er að það virðist ekki finnast neinn aukalykill að bílnum heldur, svo hann stendur bara kyrr þar til einhver búálfur í Mosfellsbæ sér sér fært að skila lyklinum.
miðvikudagur, október 08, 2003
Ekkert Þegar maður hefur ekkert að blogga um er best að semja lélega tækifærisvísu: Einn ég húk´á þjóðarhlöðu, hamra í mig fróðleik inn. Komast vil í sterka stöðu, og stend því ekki upp um sinn. Njaaaahhh, það var ekkert punchline í þessari. Bara svona leiðinleg vísa um mig á bókhlöðunni að læra. Auk þess sem ég er greinilega ekki að læra, heldur að blogga og semja ferskeytlur. Alveg ómögulegt bara frá A til Ö.
Það tókst varla ...ég veit ekki með þetta þráðlausa dót, hmmm. Stundum hættir netkortið bara að svara manni, ég þarf að slá þennan öryggislykil inn í hvert sinn, tölvan vill alltaf vera að gera eitthvað dial-up connection sem ég er búinn að taka af. Svo vill hún ekki einu sinni slökkva á sér! Tölvudrasl.
þriðjudagur, október 07, 2003
Það tókst Ég er nú kominn með þráðlaust net í lopputoppinn minn og blogga úr honum í þessum rituðu orðum. Leiðin til þess að setja þetta upp er sú að fara alls ekki eftir leiðbeiningum RHÍ og gera allt annað en stendur í leiðbeiningunum með hugbúnaðinum. Þannig hefst þetta. Eftir þessi átök við tölvuna mína er ég orðinn fylgjandi inngöngu í ESB, og vil sjálfur starfa við löggjöf innan ESB við að setja alls konar staðla fyrir tölvubúnað. T.d. vil ég að aðeins sé til ein tegund af tölvum, ein tegund netkorta, ein tegund hugbúnaðar til að setja vafra í samband nettengingu, eina tegund af vafra. Allt á þetta að verða framleitt af Evrópusambandinu og mun allur söluhagnaður fara í kostnað við gerð frekari staðla.
mánudagur, október 06, 2003
og einn, og tveir og namminamminamm Á leið minni í skólann þarf ég að nema staðar við nokkur umferðarljós. Þar á meðal eru Snorrabraut-Hringbraut-Miklabraut-Bústaðavegur krossgöturnar. Í bílnum fyrir aftan mig, grænum Hyundai, var kona. Hún boraði í nefið af áfergju. Nasavængirnir teygðust yfir vísifingurinn svo allt virtist ætla að bresta, sennilega upp fyrir fyrstu kjúku. Góð slumma leit dagsins ljós, en ekki lengi. Einn og tveir og nammmm. Svo byrjaði hún aftur. Þetta gerði hún allt í allt fimm sinnum á þessu eina rauða ljósi. Síðasta bitanum náði hún með herkjum. Hún lagði handarbakið eftst á stýrið og hélt vísifingri beint upp í loftið. Svo lyfti hún augnabrúnum og yppti öxlum. Einn og tveir og namminamminamm. Ég vil þakka þessari ágætu konu fyrir prýðisskemmtun á annars heldur mygluðum mánudagsmorgni.
föstudagur, október 03, 2003
Ég legg heiminn að fótum mér Nýjasta útspil mitt í sókn til heimsfrægðar er kvikmyndaleikur. Miðbiki dagsins eyddi ég í að ganga fram og aftur, upp og niður Laugaveginn á milli Spútnik og Kjörgarðs á sumarklæðum. Það var skítkalt. Þetta var myndin Dís, og lék ég glæpamann með afar svarta fortíð og mikil sálræn vandamál (þ.á.m. nagandi samvisku) á göngu, eða þannig túlka ég karakterinn. Ég spyr: Ef kvikmyndin gerist að sumri til, hví ekki að taka hana bara að sumri til?
Ægivald bréfaklemmunnar´ Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður og pistlahöfundur á kvikmyndir.com kennir settan rétt og venjurétt. Hann er skemmtilegur kennari og fer vel yfir efnið. Ég ætla ekki að halda hér lofgjörð um hann. En andskotinn (eða jafnvel óvætturin Sálnamígir sem ég hef ritað um áður á þessari síðu og ásækir mig reglulega) náði að teygja arma sína inn í tíma um daginn með útsendara sínum, bréfaklemmunni. Hún er einhvers konar fígúra sem á að "hjálpa manni" í vinnslu forrita eins og PowerPoint og Word. Hún kom þarna fram á tjaldið fyrir aftan háttvirtan Heiðar og hóf að flytja gamanmál. Hún breytti sér í atóm, upphrópunarmerki og fleira skemmtilegt, hún lagðist á sólbekk og lét þar öllum illum látum. Þegar Heiðar sneri sér við vildi svo til að hún braut sig saman í litla hrúgu og hreyfði hvorki legg né lið þar til hann var aftur farinn að horfa fram í salinn. Furðulegt. Þessi bréfaklemma er útsendari andskotans og dreifir athygli minni þegar ég þarf síst á því að halda!
fimmtudagur, október 02, 2003
Atkvæðin... ...hrynja inn á skoðanakönnunina. Nú eru þau orðin vel á fyrsta hundrað talsins og nálgast þúsund óðfluga. Kjósið!
miðvikudagur, október 01, 2003
HKL og HHG Aðstandendur nóbelskáldsins látna vilja ekki að Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifi bók. Kannski má telja það eðlilegt þar eð Hannes er harður hægrimaður en Halldór var ansi rauður. Þrátt fyrir það finnst mér að Hannes Hólmsteinn megi bara skrifa það sem honum sýnist. Það sem hann setur í einhverja ævisögu sem hann tekur upp hjá sjálfum sér að skrifa mun seint rífa niður þá mynd sem fólk hefur af Halldóri. Hans verk munu fylla upp heilu hillurnar á heimilum landsmanna um langa hríð og dæmist hann fyrst og fremst af þeim. Einnig er verið að skrifa aðra ævisögu um hann í þessum rituðu orðum, en sá höfundur fellur víst betur í kramið hjá fjölskyldunni. Halldór Laxness lá ekki á sínum skoðunum á meðan hann lifði, og flestir vita að væri hann lifandi tæki hann hressilega á móti þeirri gagnrýni sem að honum er beint.