#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

þriðjudagur, september 30, 2003

Ný skoðanakönnun Nú hefur forsetakönnunin hangið uppi í marga mánuði og kominn tími til að endurnýja hana. Niðurstöðurnar úr þeirri rannsókn voru hreint út sagt sláandi. Meirihlutinn vildi afnema forsetaembættið. Förum ekki út í gríðarflókna tölfræðina. Hér er upp komin ný könnun sem í raun mætti heldur kallast gáta. Enda snýst hún um að finna þann sem ekki fellur inn í hópinn og kjósa hann. Skemmtilegt.

Skemmtiefni af MSN Listgallerí Listgallera Listgallerígallerallalla

mánudagur, september 29, 2003

Það hlýtur að mega... ...teljast nokkuð merkilegt þegar land með 58 milljónir íbúa verður rafmagnslaust í heild sinni. Sérstaklega þegar rafmagnsleysið stafar af því að tré ákvað að falla um sjálft sig og slíta vír í sundur. Ítalía er þá svolítið eins og heimilistæki, það er bara ein snúra sem maður stingur í samband. Át helgarinnar Siðlausir og spilltir vesturlandabúar eins og ég éta á sig gat við hvert tækifæri sem gefst. Um helgina nærðist ég vel enda einn slíkur. Á laugardaginn var það lambalæri með kartöflum, rauðkáli, brúnni sósu, grænum baunum salati með fetaosti og sólþurrkuðum tómötum og gos að drekka. Í gær var það hins vegar svínakjöt á grænmetisbeði og kartöflur og gulrætur með ásamt sýrðum rjóma með einhverju kryddi. Þetta breytir ekki þeirri staðreynd að í dag er ég svangur. Forgangsröðun Ég hef veitt því eftirtekt að ríkissjónvarpið lætur íþróttir yfirleitt ganga framar fréttum. Í gær var fréttunum seinkað um klukkustund til þess að landinn gæti fylgst með íþrótt sem ekki er stunduð á Íslandi og enginn Íslendingur stundar (að mínu viti). Einnig hefur maður oft séð þessu frestað út af fótbolta og handbolta. Frekar furðulegt. Ætli það séu áhorfendur sem gera svona sterkar kröfur eða Smúll Ö. Ellingsen sem öskrar á Boga Ágústsson þangað til hann færir fréttirnar?

miðvikudagur, september 24, 2003

Gamlar konur í sundi Af hverju geta gamlar konur ekki verið eðlilegar í sundi? Nú spyrja lesendur sig kannski að spurningum á borð við "Hvað er eðlilegt og hver er bloggari til að dæma um það?", "Vill bloggari ekki leyfa fólki að skapa sér sína eigin persónulegu ímynd?", "Vill bloggari steypa alla í sama mót og banna einkenni einstaklinga?" Nei, það vakir ekki fyrir mér. Ég er bara að leggja mitt persónulega mat á skondið atferli gamalla kerlinga. Þær farða sig áður en þær fara ofan í laugina. Þær setja á sig ilmvatn og skærbleikan varalit. Þær setja upp sundhettu eða einhvers konar hárpoka sem verndar nýju hárgreiðsluna og jafnvel risavaxin Yoko Ono sólgleraugu (ég byggi færsluna á reynslu minni úr Sundhöllinni, sem er innilaug). Eins og gefur að skilja fara þær væntanlega ekki í sturtu fyrir sundið þar eð slík firra myndi eyðileggja farðann og hárgreiðsluna. Jólatré í sundi. Heppilegra er fyrir þessa tímabundnu eldri borgara að fela svitastækjuna með góðri slettu af Chanel 5. Þegar þær loksins komast ofan í laugina má sjá þær baksa við að halda hökunni upp úr vatninu svo andlitið detti ekki af. Ilmvatnsstækjan er næstum sýnileg þar sem hún gefur greinilega til kynna hvar leiðir kvennanna hafa legið. Lyktin liggur ekki bara í loftinu, hún er í vatninu og sest á mann sjálfan. Hún yfirgnæfir klórlyktina af sundhallarvatninu. Það ætti í raun að leggja bann við notkun kvenna á ilmvatni ef þær fullnægja ekki þeim kröfum að vera undir 64 ára aldri (miðað við fæðingarár) eða yfir 15 ára aldri. Kvenfólk utan þessara marka misnotar vöruna gróflega. Það er staðreynd. Ef ég færi í sund án þess að fara í sturtu, væri með stór sólgleraugu, poka á höfðinu og lyktaði eins og efnaverksmiðja yrðu gerðar athugasemdir við slíkt. Gömlu konur, þið eruð fáránlegar!

mánudagur, september 22, 2003

Lagadeild HÍ Ég gæti skrifað hér ýmislegt um lagadeild HÍ.

Sniðugt Ef maður er búinn með prentkvótann sinn hér í háskólanum og ætlar að kaupa sér meiri prentkvóta, jah segjum 100 blaðsíður, gerir maður það á netinu. Maður gefur bara upp kreditkortanúmer og gildistíma kortsins og prentkvótanum verður bætt við innan fimm mínútna. Kerfið minnir mann svo á að prenta út kvittunina fyrir hinum nýkeypta prentkvóta. En þegar maður prentar út kvittunina kemur hún ekki, heldur blað sem á stendur "þú hefur prentað umfram prentkvótann og getur því ekki prentað út sem stendur". Þetta finnst mér sniðugt. Gestgjafinn Markúsi vil ég þakka fyrir gestrisnina síðasta laugardag þar sem hann gerði hvað sem er til að þóknast fólki. Hann var jafnvel til í að reyna að handþeyta matreiðslurjóma (sem er góður í alla matargerð, nema þeytingu) í tíu mínútur til að hafa með heitu eplakökunni.

laugardagur, september 20, 2003

Ef ég ætti óskastein... Þá er það staðfest að maður verður að grandskoða allt sem fer hingað inn og passa sig gríðarvel á því að skrifa ekkert heimskulegt (æ, of seinn). Morgunblaðið birti í gær eina færslu af þessari síðu í einhverjum ungdómsfylgiblaðsnepli og ég ekki spurður út í neitt. Stjörnuleit ...ég taldi það ólíklegt að Íslendingar grétu í Idol stjörnuleit. En viti menn, tárin flæddu.

föstudagur, september 19, 2003

Fylgdist... ...með busun niðri í Lækjargötu í gær. Það var mjög skemmtilegt, en ég hafði ætlað að kíkja á þetta í fyrra en komst ekki. Unan var öll túperuð og svartförðuð, allógnvænleg. Ég tók hópmyndir af öskrandi fyrirmyndarungmennum í lökum einum klæða, en drengirnir í 6.A urðu svo allt í einu ákafir stuðningsmenn þeirrar hugmyndar að ég skyldi tollerast. Tolleraðist ég þá skyndilega og er ekki samur eftir það. Ljótleiki Það finnst mér mjög sterkt orðalag að segja að einhver sé ljótur, ef það er sagt í fyllstu alvöru. Hvað þá að einhver sé ógeðslegur vegna útlitseiginleika sinna. Og því lengur sem viðmælandi manns talar í fyllstu alvöru um að einhver sé ljótur og ógeðslegur og ógeðslega ljótur, því ljótari verður hann sjálfur. Takk fyrir.

fimmtudagur, september 18, 2003

Heimspekideildarmaður Menn sem skipta yfir í heimspekideild úr öðrum deildum háskólans virðast oft taka dramatískum breytingum. Þeir hætta að nota gsm síma, fá sér gyllt vasaúr í keðju og skipta úr einlitum treflum yfir í tví- eða marglita. Skeggrótin dekkist, gleraugun færast neðar á nefið og þeir byrja að krossleggja fætur á þann hátt sem karlmönnum á að vera óþægilegt eða jafnvel ómögulegt. Áhugavert væri að sjá hvað gerðist ef maður úr heimspekideild færði sig yfir í raunvísindadeild.

miðvikudagur, september 17, 2003

Í gær... ...var spurningu laumað að okkur bræðrunum á hversdagslegan hátt. "Hvaaa segiði strákar, vitið þið nokkuð hvar maður getur náð sér í gras?" Ég kveikti ekki strax á því um hvað hann var að tala, hélt að hann vantaði hey fyrir hrossin sín. Svo kveikti ég. Uuuuu, neeei ég veit það nú barasta ekki... Nei, ég fékk svo svakalega gott gras um daginn maður, djöfull var það gott. Ha? Jaaaaá? Nei, þetta er náttúrulega ólöglegur andskoti, maður hefur ekki hátt um svona lagað. Uuuu, nei. Eftir þetta var það frekar vandræðalegt að vera í sama herbergi og hann, en það var í u.þ.b. klukkutíma eftir samtalið. Frábært krydd í tilveruna.

þriðjudagur, september 16, 2003

Heiti potturinn Í Kópavogslaug voru nokkrir náungar að spjalla saman. Einn þeirra talaði um að hann þyrfti að borga 100.000 krónur í sekt og væri að fara að missa bílprófið í 8 mánuði. Einnig nefndi hann að það væri fyrir utan þann 160.000 kall sem hann hefði þegar borgað í sektir síðan hann fékk bílprófið. Hann kveið því mest að þurfa að skipta um vinnu, þar sem hann hafði það að starfi að keyra bíl. Félagar hans sögðu honum að hafa engar áhyggjur af því, hann þyrfti ekkert að hætta að keyra bíl þó svo hann hefði misst prófið. Þetta voru virkilega svalir strákar og ég sé eftir því að hafa ekki kynnst þeim betur.

mánudagur, september 15, 2003

Glæpur Þjóðarbókhlaðan - Landsbókasafn - Háskólabókasafn er lokað í dag. Þetta er glæpur gegn íslensku þjóðinni. Hvað á ég nú að gera? Fara út og hlaupa í hringi?

Smölunin Það var gríðargóð mæting í smaleríið í Skorradal í gær. Þarna gat meira að segja að líta ekta Ameríkana. "Theeerrrss a-coupl'a sheep up theeeere head'n' backoooome!" Það var fínt. Það var hins vegar ekki fínt þegar nokkrar skjátur sluppu framhjá okkur í gegnum kjarr. Við vorum áttavillt og skapill að brjóta okkur leið í gegnum skóginn á meðan þær tipluðu létt eftir sínum vegum undir greinunum. Smalar voru á einu máli þegar heim var komið í kjötsúpuna. Nauðsynlegt er að finna nýjar leiðir til að smala. 1. Hefja þarf smölun á þyrlum eða vélknúnum svifdrekum búnum rifflum með deyfiskotum. Þetta er hins vegar nokkuð dýr lausn og krefst þjálfunar. 2. Einnig væri hægt að kaupa mjög stórar hekkklippur (vá, þrjú ká í röð) og renna þeim yfir allt landið til að lækka kjarrið niður í svona mittishæð. 3. Þá væri sniðugt að leyfa þeim bara að sleppa sem endilega vilja sleppa, og selja svo rolluveiðileyfi fyrir svæðið það sem eftir er hausts. Það væri hægt að hafa margvíslegan ferðamannaiðnað samhliða því og græða stórfé. Annars er það verð sem bændur fá fyrir kjöt fyrir neðan allar hellur þegar fyrir eina rollu fást 1000 krónur, en þá er eftir að borga flutningsgjald.

föstudagur, september 12, 2003

The horribly evil monsterstorm from outer space Nýlega gekk fellibylurinn Fabian yfir Bermúdaeyjar og gerði þar nokkurn usla. Ekki hef ég í hyggju að gera lítið úr vandræðum þeirra sem verða fyrir fellibyljum og missa eigur sínar eða ástvini. Hins vegar vil ég gera athugasemd við nafngiftina á þessum fellibyl. Sennilega eru það veðurfræðingar sem nefna þessa bylji, og gæti vel hugsast að bylurinn heiti alltaf í höfuðið á þeim fræðingi sem kom fyrstu auga á hann. Um það veit ég ekkert og skiptir það litlu. Kallið mig gamaldags og asnalegan en ég vil að fellibylur sem þessi fái almennilegt nafn. Fabian er bara alls ekki að gera sig. Ef ég heyri að fellibylurinn Fabian sé á leiðinni fæ ég mér gin og tónikk og gróðurset nokkur blóm úti í garði. Maður býst við aðstæðum svipuðum þessu: Fabian: "É e kooooomiiiiiinn!" Fórnarlömb: "Úúúúúúú. Við erum mjög hrædd." Fabian: "Jiiii, vitiði hva? Étla blásá húsin ykkar! Hihihi, ligga ligga lái." Fórnarlömb: "Ókei" Fabian: "Eruði ekki ógislea hrædd vimmig? Jiiiii." Miklu heppilegra væri að óveðrið fengi nafngift álíka titli þessarar færslu. Einnig mætti nefna möguleika eins og "The incredibly deadly thunderstorm from hell" eða "Megadestroyer 2003". Þetta eru nöfn sem gefa til kynna hvað er að fara að gerast. Um þetta aðkallandi málefni hef ég ekki fleira að segja í bili.

fimmtudagur, september 11, 2003

Verð að taka undir... ...með þessum manni, sem ég held reyndar að lesi þetta ekki, þegar hann talar um Valla sport og auglýsingarnar frá Herra Hafnarfirði. Hjörleifur er ekki sá eini sem slekkur á útvarpinu þegar þessi ófögnuður byrjar. Ég hélt reyndar lengi vel að þetta væri sjálfur Gulli Helga sem léti ómþýða rödd sína hljóma. Valli sport og Gulli Helga eru einmitt svona álíka áhugaverðir og skemmtilegir. Draumur Í nótt dreymdi mig að ég, Jens Þórðarson og frændi minn Ragnar Pálsson reyndum að stela víkingaskipinu Víkingi í skjóli nætur. Skipið var lestað geisladiskalager sem einhver dægurlagasöngvari á miðjum aldri hafði látið framleiða í útlöndum. Við reyndum semsagt að eyðileggja allt fyrir grey karlinum með því að stela öllu draslinu. Svo færðist draumurinn yfir í risavaxinn harmonikkustrætó sem var innréttaður eins og snyrtilegur sumarbústaður og þar var haldið eitthvað partý. Ég er alltaf að bíða eftir því að þessir draumar rætist...

miðvikudagur, september 10, 2003

Bloggþurrð Ég hef nákvæmlega ekkert að segja á þessum síðmorgni. Ég vísa því öllum lesendum á síðu Unu Sighvatsdóttur þar sem hún hefur ritað stórskemmtilega færslu um valdabaráttu, kúgun og heiðnar helgiathafnir.

þriðjudagur, september 09, 2003

Sund Áðan fór ég í sund en synti ekkert. Er það kannski lífið? Maður fer í sund...en syndir ekkert...

mánudagur, september 08, 2003

Landsleikur III Þetta var bara ansi skemmtilegt. Þorvarður hélt uppi stuðinu í stúkunni. Þorvarður er mjög fróður um knattspyrnu og var með það á hreinu hvenær dómarinn var hálfviti og hvenær hann var snillingur. Ég er að fara að sjá Litháen taka Skota, Skota taka Þjóðverja og Íslendinga og Þjóðverja gera jafntefli. Annars gekk ég líka á Esjuna um helgina og fór í sund. Þetta var svona sporthelgi. Umferðin ...á morgnana er gríðarleg. Ég lenti einmitt næstum því í árekstri í morgun. Það hefur sennilega munað svona 10 cm að ég klessti aftan á einhvern Subaru og öðrum 10 cm að það væri klesst aftan á mig. Það hefði nú verið gaman að byrja vikuna þannig.

föstudagur, september 05, 2003

Landsleikur II Þorvarður Atli Þórsson kemur á leikinn með mér og Unu. Þið hinir sem skrifuðuð skemmtileg komment verðið að sætta ykkur við þetta, en ykkur er þakkað fyrir þátttökuna. Konráð skrifaði sérstaklega skemmtilegar athugasemdir. Annars hefur Jens Þórðarson sett fram trúverðuga kenningu um úrslit þessa leiks. Hann segir að skori Þjóðverjar á undan fari leikurinn 6-0. Skori Íslendingar á undan eru hins vegar tveir möguleikar. 1-1 þar sem þýska markið kemur ekki fyrr en eftir langan tíma og hins vegar 3-1 fyrir Ísland. 3-1 möguleikinn byggist á því að allt gangi upp hjá Íslendingum, vindátt verði okkur alltaf hagstæð, sólin skíni alltaf í augun á Þjóðverjum þrátt fyrir gríðarlega rigningu og slagviðri og að allir þýsku leikmennirnir þjáist af einhverju fótameini á morgun. Ég segi 1-1! Matur Hvað ætti ég að elda í kvöld?

fimmtudagur, september 04, 2003

Landsleikur Nú rétt í þessu flugu upp í hendurnar á mér tveir miðar á Ísland - Þýskaland næstkomandi laugardag. Ég og bróðir minn förum því á leikinn og skemmtum okkur konunglega, en ef vera skyldi að hann kæmist ekki með mér mun sá fá miðann sem skrifar skemmtilegasta kommentið hér fyrir neðan. Hefjist handa. Annars er ég bara bjartsýnn og spái úrslitunum 1-1.

miðvikudagur, september 03, 2003

Áramótaheit - mótaheit - heit Jákvæðnin er nauðsynlegur þáttur í hversdagslífinu. Ég ætla að reyna að halda mig við hana næsta misserið. Perur... ...þær er við harðs eru kenndar hrjá mig lítillega í dag. Í gær fór ég með bróður mínum að gera líkamsæfingar. Slíkt hefur ekki verið iðkað af líkama mínum um nokkra hríð. Það þurfti því fortölur miklar til að fá hann til að taka þátt, en hugurinn var allur af vilja gerður. Þetta gekk ágætlega þó ég hafi ekki gert mikið. Spurning um að verða ekki aftur feitur eins og um síðustu jól. Ég var víst svo feitur að þegar ég kom inn í herbergi þar sem einhver var fyrir óttaðist viðkomandi að hann yrði undir, kembdi ekki hærurnar, dagar hans væru taldir. Þetta er vissulega ástand sem þarf að forðast. Þorvarður Atli Þórsson ...gengur núorðið í felubúningi. Hann er sennilega að reyna að forðast samskipti við þá sem hann þekkir. Hann hefur keypt sér gallabuxur. Drengurinn er því búinn að kasta útfararstjórabúningnum fyrir róða og hefur hafið nýtt líf. Til hamingju Þorvarður!

þriðjudagur, september 02, 2003

Veiðin Magnús Norðdahl verður héðan í frá kallaður Agnús þar sem hann er lunkinn við að egna fisk. Maðkurinn var að gera sig í Hítarvatni en fluguna vildu þeir varla sjá. Við gengum nokkra kílómetra inn eftir vatninu og veiddum meðfram strandlengjunni. Ég gekk upp að gullfallegum fossi í nágrenninu. Íslensk náttúra, fullkomnum. Við vorum einir við vatnið. Ekki sála á ferð. Hins vegar var greinilegt að einhver hafði verið á ferð. Rusl mátti víða finna. Bjórdósir, nammibréf, dömubindi og fleira skemmtilegt. Það er alveg fáránlegt hvernig fólk gengur um þetta. Jæja, níu silungar veiddust og nóttinni var varið í tjaldi. Ég á að hafa hrotið. Ég trúi því ekki, enda hef ég alltaf sofið í sama rúmi og ég og aldrei heyrt mig hrjóta. Kontróversjal skrif Unu Færsla á síðu Unu hefur vakið mikið umtal og fengið tugi svara. Þetta er svona jaðarfærsla sem ekki allir þola að lesa. T.d. hitti ég háðfuglinn Gunnar Pál Baldvinsson í anddyri þjóðabókhlöðunnar. Hann horfði skringilega á mig, faðmaði kvennablaðið Orðlaus að sér eins og bangsa, beit saman tönnum og sagði: "Una skrifar skrýtna hluti." Maðurinn virðist hafa orðið fyrir einhvers konar áfalli.