#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Smali Ég skrapp í smá smalamennsku í fyrradag. Þar fékk ég að hlaupa um fjöll og firnindi allan daginn. Frændi minn var duglegur við að öskra á mann að maður væri á vitlausum stað, rollurnar væru allar að sleppa og að himinn og jörð væru að farast. Hins vegar komum við meira en nógu fé í hús fyrir fyrstu slátrunina. Ein kindin sá sér ekki annað fært en að stanga mig í hnéð. Kann ég henni bestu þakkir fyrir. Það var þónokkur hasar við að draga í sundur og lánaðist mér að segja setningar á borð við: "Þetta blóð er ekki úr mér." Veiðiferð Áætlað er að hefja lesturinn á mánudaginn og því er síðasti séns að fara í veiði í sumar þessa helgi. Ég ætla því að fara í Hítarvatn á Mýrum með góðvini mínum M. Kannski maður nái nokkrum bleikjum, það er aldrei að vita.

mánudagur, ágúst 25, 2003

Fullyrðing Fólk sem æfir bardagaíþróttir er líklegra til að lenda í slagsmálum en annað fólk. Þetta segir mín reynsla mér. Hvað segið þið lesendur? ...já, eða þú, lesandi.

Frasi vikunnar Maggi, Iceland, taupoki.

sunnudagur, ágúst 17, 2003

Skírn Litlum dreng var gefið nafn uppi í Borgarfirði í dag. Skírnin fór fram undir berum himni og Skarðsheiðin skartaði sínu fegursta sem altaristafla. Drengurinn var látinn heita Davíð og er hann Pétursson, alnafni afa síns. Mér sýndist nafngiftin vekja mikla lukku hjá Davíð eldri. Hmmm? Hví leigja hvalaskoðunarfyrirtækin báta sína út til erlendra fréttamanna? Þeir hafa kvartað yfir því að hvalveiðarnar skapi slæma umræðu og skaði skoðunariðnaðinn. Svo hjálpa þeir til eins og þeir geta við að koma fréttamyndum af skotnum hval í alla helstu fjölmiðla Vesturlanda. Sneðögt. Tilfinningar Eftirfarandi mælir gegn hvalveiðum: 1) Útrýmingarhætta Maðurinn á að ganga skynsamlega um umhverfið, viðhalda fjölbreytileika dýralífsins og svo framvegis. Nenni ekki að tala um þetta þar sem ekki er ráðgert að veiða sléttbak. 2) Skaði sem atvinnugreinin getur haft á aðrar greinar. Óæskilegt er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það væri t.d. lítið vit í því að stunda umfangsmiklar hvalveiðar á ríkisstyrkjum og geta ekki selt afurðirnar úr landi á meðan ferðamannaiðnaðurinn hlyti stórskaða af. Eitthvað í þá áttina, nenni ekki heldur að tala um það. 3) Ómannúðlegar drápsaðferðir Hvalir eru stór dýr sem einungis öflug vopn duga á. Eitt sinn þurfti að skutla hval margoft til að ná honum og hann drapst ekki fyrr en eftir dúk og disk, miklar pyntingar, blóðmissi og djöfulgang. Það er nú ekki fallegt að drepa dýrin á þann hátt. Í dag á þetta að taka fljótt af. Sprengiskutulinn drepur dýrið nær samstundis og jafnvel á ekki að þurfa að skjóta það með riffli eftir skutlunina eins og þurfti á níunda áratugnum. Gott mál. Þá er það búið. En þá eru það tilfinningarökin. Margir, þá aðallega erlendir, aðiljar vilja ekki drepa hval. Punktur. Af hverju þeir vilja þeir það ekki? Jú, hvalir eru stórfenglegar skepnur. Þeir eru gáfaðir, velviljaðir og óskaplega sætir. Til eru sögur af hvölum sem hafa hjálpað skipbrotsmönnum í land, verndað þá fyrir árásum hákarla og ég veit ekki hvað. Í vinnunni í sumar heyrði ég sögu af tveimur trillukörlum sem hittu hrefnu úti á flóanum. Hún var með netadræsu flækta um hausinn og vildi ná henni af. Þeir stöðvuðu bátinn og leyfðu henni að nudda sér í bátinn til að losa netið af sér. Það tókst á endanum og hló þá hrefnan og brosti til þeirra. Síðan hvarf hún í djúpið og sögðust mennirnir ekki styðja hvalveiðar eftir það. Hvalirnir eru semsagt góðir. Svo geta þeir víst þekkt þríhyrninga í sundur frá ferningum og sýnt ýmis merki um töluverða greind. Þeir þekkja sjálfa sig í spegli og geta lært margt. Gott mál. Einhverra hluta vegna telja menn þetta ástæðu til að friða dýrið algerlega. Til samanburðar má nefna annað dýr, kúna. Kýrin er góð. Hún gefur okkur mjólkina. Jamm. Kýrin er ekki síður tilfinningavera en hvalir. Í dag stóð ein slík niðri á túni á meðan á skírn Davíðs litla stóð. Hún baulaði hátt, gekk í hringi og var gersamlega eirðarlaus. Hún leitaði að götum á girðingunni þar sem hún gæti komist yfir og hafði dregið sig út úr hópnum. Hún bar víst í gær og kálfurinn var inni í fjósi. Vistin úti á túni var því óbærileg. Þó kýrin sé máski ekki ýkja greind er það svo greinilegt hvað hún hefur sterkar tilfinningar að það fer ekki framhjá neinum. Ég hef séð þunglynda kú. Kálfurinn var sendur í sláturhús og baulaði hún því stöðugt í þrjá sólarhringa. Hún braust yfir girðingar og leitaði að honum um víðan völl. Kýrin var skapstygg. Hún syrgði. Jamm. Persónulega finnst mér mjög eðlilegt að þetta dýr sé nýtt. Mjólkin tekin úr henni til drykkjar og henni svo slátrað til átu. Það er skítt fyrir hana, en svona er þetta bara. Dýr drepa önnur dýr og éta. Ég get ekki séð að tilfinningalíf hvalsins eigi að meta meira en kýrinnar af því að hann er dálítið meiri gáfum gæddur. Við erum að keppa við hvalinn um fæðu. 45 þúsund hrefnur éta afskaplega mörg tonn af svifi á hverju ári. Hvalir taka fæðu frá fiskistofnum sem annars gætu dafnað betur og eitthvað éta þeir víst af fiski sjálfir. Það er eins eðlilegt og hver önnur slátrun að veiða hval. Hvalavæmnin hlýst af því að fólk yfirfærir mannlega eiginleika á dýrin. Manni finnst sumir hvalir alltaf vera brosandi af því að kjafturinn á þeim er þannig í laginu. Hljóðin sem hvalirnir gefa frá sér hafa háa tíðni og minn á tíst, eða gaggandi hlátur. Fólk ímyndar sér að það hafi myndað einhver sérstök tengsl við hvalina sem það sér eða að þetta séu dýr sem búi yfir visku sem menn geti varla hugsað sér. Kannski liggur hysterían bara í því að fólk man ekki lengur að hamborgarinn var eitt sinni lifandi tilfinningavera sem elskaði afkvæmið sitt og þráði ekkert heitara en frelsi úti í guðsgrænni náttúrunni, fjarri öllum mannabyggðum. Brostnir draumar, steiktir hamborgarar. Nú vill svo til að hrefnukjöt er ágætis matur og bragðast vel grillað eða steikt á pönnu t.d. Væri ekki miklu mannúðlegra að þyrma 8 saklausum nautgripum (þeirra draumum, þrám og óskum) og drepa í staðinn eina hrefnu? Það þarf ekkert að segja mér það að McDonald's geti ekki fiffað bragðið til svo enginn finni mun. Geta þeir ekki allt? Ef allt mistekst verðum við bara að gera eins og Kaninn, mesti hvaladrápari heimsins. Við veiðum hvalina óvart í troll og verðum því ekki hvalveiðiþjóð.

laugardagur, ágúst 16, 2003

Morgunmatur Hvítt skyr, mjólk og rúgbrauð með kæfu. Það gerist ekki betra.

föstudagur, ágúst 08, 2003

Pírátar Káríbjásjávar Börge Per Thorstensen og Magne D. Norddahl drógu mig á þessa mynd í kvöld. Upphaflega var ætlunin að fara í sal fyrir mjög mikilvæga einstaklinga og borga aukalega fyrir það. Ég var ekki hrifinn af þeirri hugmynd enda ráðvandur maður og ekki sérlega mikilvægur. Til allrar hamingju var allt fullt af mikilvægu fólki í húsinu og uppselt í þann sal. Við fórum því á annað farrými. Myndin hafði nokkuð skemmtanagildi og Jón Depill var skemmtilegur. Hasarinn var ágætur og léttleiki einkenndi myndina. Það var svo sem ekki að sjá á henni að Jerry Bruckheimer er framleiðandi, en hann hefur sent frá sér mörg stórslys. Það var honum kannski til happs í þetta skiptið að myndin gerist fyrir stofnun Bandaríkjanna. Hann gat því hvergi troðið blaktandi, sundurskotnum og sviðnum fánanum á tjaldið með væminni hetjutónlist og hamborgaradýrkun. Mér hefði eflaust fundist þessi mynd frábær fyrir svona 8 árum. En hún var allt í lagi. Staðreynd um Orlando Bloom: Maðurinn er alveg eins og Justin Timberlake. Þegar gellan var að játa honum ást sína hélt ég hún myndi segja "It's just...that...that you look exactly like Justin Timberlake. And I like him so much." Staðreynd um Keiru Knightley: Hún er með mest pirrandi svip í heimi. Hún er alltaf með þennan sama svip. Ég veit ekki hvað þessi svipur segir, en hann er óþolandi. Hún lék í sjónvarpsmynd um Dr. Zhivago og var með þennan sama svip allan helvítis tímann.

Veiðaveiðaveiða Ó hve lífið er undursamlegt. Þegar fólk á daga í veiðihúsi en getur ekki notað þá alla og býður mér því að nýta þá fyrir sig er ég hamingjusamur. Silungsveiðin bíður mín á ný. Við skulum sjá hvað ég verð lengi, yfir helgina, fram í vikuna, alla vikuna. Mjög gott. Mjög gott. P.s. Það er pínulítil fluga á tölvuskjánum og hún er hrædd við músina. Ég er að elta hana um allan skjáinn í þessum skrifuðu orðum. Þetta er gaman. Næstum of gaman á þessum ókristilega tíma.

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Slæmar fréttir Ég hef nú rakað mig þannig að ég er með kleinuhringsskegg og barta niður fyrir eyru. Ég leit í spegil áðan og hélt að ég væri orðinn of seinn á LAN. Ég var það ekki.

Viðar Mökkurkálfi... ...svaraði svo athugasemd minni með einhverjum útúrsnúningi og pápistahætti. Hann vill meina að þegar ég álasaði honum fyrir að úthúða áhugamáli mínu, stangveiðum, hafi ég notast við einhverja óhæfilega siðferðismælistiku. Hann segist taka upp mína hætti er hann lækkar mig á heimslista sínum. Hann er hins vegar ekkert að taka upp þessa siðferðismælistiku núna, enda hefur alltaf notast við hana eins og flestir aðrir. Fólk miðar aðra ósjálfrátt við sjálft sig og metur það að stórum hluta eftir sjálfum sér. En kannski metur Mökkurkálfi fólk einungis hlutlaust eftir fortíð þess, stöðu, menningarbakgrunni og fleiri slíkum þáttum. Fuss og svei.

Njáll ungi Allir þekkja lagið Heart of Gold með Neil Young. Það er hins vegar ekki besta lagið með honum enda er Horse With No Name alveg frábært. Einnig mætti nefna lagið Old man sem þessa stundina er í mikilli hlustun.

þriðjudagur, ágúst 05, 2003

Morð Í nótt dreymdi mig að ég og ágætur félagi minn Árni Helgason myrtum ákveðinn starfsmann á PoppTíví með því að sturta honum niður um klósett og ofan í rotþró eftir að hafa barið hann. Á meðan á draumnum stóð var ég skelkaður og þjakaður af eftirsjá. Þegar ég vaknaði var mér létt þar sem ég er ekki morðingi eftir allt saman. Mig minnir að við höfum bara gert þetta okkur til gamans í draumnum. Úff.

Torftýnandinn 3 Þessa mynd sá ég áðan og þótti slök. Hinu eitursvala andrúmslofti í T2 er skipt út fyrir "cheap laughs", sbr. stjörnusólgleraugun sem Arnaldur setur upp eftir að hafa tekið leðurgalla af homma. Illa vélmennið er alveg eins og það sem þeir gerðu fyrir 12 árum og kemur ekki með neitt nýtt inn í dæmið. Sá sem leikur Edward Furlong í þessari mynd er ekki nógu góður og manni er slétt sama um hann. Myndin er ofhlaðin af tæknibrellum sem ekki er þörf fyrir. Sífellt er verið að ota því að manni að það sé allt í lagi þó þessi mynd sé ekkert spes, það komi nefninlega framhald. Sbr. "We'll meet again"-línuna hans Arnaldar rétt áður en hann sprakk í 1001 stykki. Einnig var það áhugavert að þegar Svartnaggur var að ná sér í bíl ákvað hann að kíkja undir sólskyggnið áður en hann tengdi framhjá, eins og Játvarður hárfagri hafði kennt honum í annarri myndinni. Hins vegar tók hann það skýrt fram nokkru seinna að hann væri annað eintak og hefði engar minningar um það sem hefði gerst í fyrri myndinni. Sá róbóti eyðilagðist einmitt í enda þeirrar myndar. Einnig hef ég megnan viðbjóð á persónu Claire Danes í myndinni en hún horfði girndaraugum á menn, hló og tísti sama dag og bæði unnusti hennar og faðir voru myrtir. Sæmileg afþreying en fær engin sérstök meðmæli.

mánudagur, ágúst 04, 2003

5. bekkjarferð Í morgun skutlaði ég Unu Sighvatsdóttur til Keflavíkur. Eygði hún von um að komast upp í flygil sem færði hana til heitari landa og veglegri veiga. Ekki hef ég áhyggjur af atferli Unu í ferð þessari, en býst þó við því að einhverjir geri árangurslausar tilraunir til að hafa áhrif á hana á einhvern hátt. Megi þeir sem það reyna gleyma að setja á sig sólarvörn og verða uppiskroppa með Aloe Vera gel.

Fluguhnýtingar vs. næturlífið Mér datt í hug að athuga þessa tómstundaiðju aftur, eftir að hafa ekki komið nálægt henni í mörg ár. Ég er að æfa mig í að hnýta einfaldar flugur eins og Collie Dog og Stoat's tail og gengur ágætlega. Að kvöldi laugardags verslunarmannahelgarinnar sat ég einni í herbergi, hlustaði á Rás 1 og hnýtti flugur. Þá hringdi stórmennið Garðar Snæbjörnsson í mig úr teiti og spurði hvort ég vildi ekki koma eitthvað út. Eitt andartak sótti að mér sú hugsun að kannski væri ég hálfandfélagslegur og jafnvel sorglegur, en eins og ég segi, aðeins eitt andartak. Ég lét til leiðast og Garðar sótti mig. Nótt þessi endaði heima hjá Birgi Pétri Þorsteinssyni, þar sem snædd var baka og horft á einhverja barnamynd. Í bland við þá notalegu stemningu voru svo tveir hönnunar- eða arkitektúrnemar í sófasettinu og lét hvor vel að öðrum. Vakti það umtalsverða lukku. Ég var kominn heim til mín klukkan 7 um morguninn, fátækari, þreyttari og verri maður á allan hátt en þegar ég fór út. Endurfundir Mér hefur borist bréf þess efnis að í tilefni af 5 ára útskriftarafmæli mínu úr Garðaskóla eigi ég að setja á mig hatt og fara á Players í Kópavogi nú í september. Í bænum hitti ég nokkra einstaklinga sem höfðu á orði að þeir ætluðu hattalausir á þessa bílífissamkundu. Ég sé til hvort ég nenni að fara. Helst hugsa ég út í það hvort þeir sem standa fyrir samkomunni hafi verið til þess skipaðir á sínum tíma, eða hvort þeir séu einfaldlega svo dæmalaust uppátækjasamir og hugmyndaríkir að þeir geri þetta allt fyrir jafnaldra sína af góðmennskunni einni saman. Þá er einnig mögulegt að gróðavonin drífi þetta áfram. Það mun ég aldrei fá að vita, en þetta gefur mér hins vegar hugmynd. Ég gæti unnið við þetta í hlutastarfi með skólanum. Ég þarf bara að rifja upp öll mengi sem ég hef verið stak í. Því næst þarf ég bara að hafa upp á hinum stökunum og senda þeim tilkynningar um hvar og hvenær stórfenglegar skemmtanir haldnar sérstaklega þeim til heiðurs fari fram. Mér dettur í hug stórball fyrir fyrrverandi vistmenn í hinum kristilegu sumarbúðum á Ástjörn í Kelduhverfi. Þá væri hægt að halda bjórkvöld fótboltanámskeiðs Stjörnunnar 1988 fyrir drengi eða útskriftarhóps Ökuskólans í Mjódd frá því í apríl 1999. Ég held þessar skemmtanir og hirði gróðann. Þetta er málið. Ég get jafnvel hætt í námi og unnið við að koma mér inn í hópa, til þess að halda svo endurfundi fyrir þá 5 árum seinna. Þetta er auðvitað fyrirtæki sem er með 5 ára biðtíma þar til tekjur fara að streyma inn. Ég þarf því gott framfærslulán til fimm ára á meðan ég er að koma þessu í gang. Einhvern veginn verið ég samt að hindra að Séð & heyrt komist á snoðir um þetta og taki myndir af mér á of mörgum endurfundum. Það gæti eyðilagt allt saman. Endurfundir hf. mun líta dagsins ljós fyrr en varir, einnig sé ég möguleika á víðtæku samstarfi við limúsínuþjónustur, Íshesta og marga fleiri.

föstudagur, ágúst 01, 2003

Veiðiferð Nú hef ég haldið mig uppi í Borgarfirði í eina viku og haft það gríðarlega rólegt. Aflinn var kannski ekki svo mikill, en ég fékk þó fjóra sjóbirtinga og einn fínan lax. Veðrið var ekki alltaf eins og best verður á kosið og nenntu menn ekki alltaf út í það. Ég og bróðir minn sem bloggar aldrei vorum þarna allan tímann en aðrir komu og fóru. Ég hef því spilað rommý, olsen olsen og kana, veitt, etið grillmat og sofið vært undanfarna viku. Mér líður vel. Ónefndur bloggari lækkaði mikið í áliti er hann lýsti yfir vanþóknun sinni á stangveiðum og sagði þær leiðinlegar. Þetta eru auðvitað fordómar. Þeir stafa sennilega af því að viðkomandi hafi reynt að veiða en ekki fengið neitt, eða af ótta við að fá ekki neitt skyldi hann reyna. Það er auðvitað skemmtilegra að fá fisk ef maður hefur skömmu áður farið út og ekki fengið neitt, svo ég tali nú ekki um ef maður hefur misst fisk. Ef menn verða ekki örlítið spenntir yfir því að vera með fisk á línunni hljóta þeir að vera þjónar við kínversku keisarahirðina, eða líkir þeim á einhvern hátt. Laxinn var 7 pund og tók hann Black Sheep um kl. 23.40 svo ég rétt náði að hætta án þess að gerast lögbrjótur. Þarna gætir sjávarfalla upp í ána og því þarf að gera hlé á meðan flóðir stendur yfir, að sama skapi er veiðitíminn þá lengdur sem samsvarar hléinu, en ekki lengur en til miðnættis. Sjóbirtingarnir tóku svo Green Butt, Collie dog og Elliða. Athygli vakti að síðasti silungurinn sem ég fékk var með önnur veiðarfæri í kjaftinum. Hann var með slitna línu af kasthjóli og mjög stóran maðkakrók fastan langt ofan í koki. Línan stóð 30 cm út úr kjaftinum. Þetta virðist ekki hafa truflað hann mikið þar sem hann var eldhress þegar hann tók hjá mér. Hann hljóp beint inn í gróðurfláka og vafði línunni utan um plöntur svo ég varð pikkfastur. Ég þurfti að færa bátinn alveg að honum og rífa plöntuna upp til að slíta ekki línuna. Greyið var alveg fast á og spriklaði sífellt á meðan ég var að losa línuna. Svo var hann orðinn örmagna þegar það tókst og löndunin var því auðveld með berum höndum. Þorgeir fékk þrjá sjóbirtinga og einn lax. Við getum því verið sáttir.