#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

mánudagur, júlí 21, 2003

Reyndar... ...fann ég mér það til dundurs að lesa greinar á hinni stórskemmtilegu síðu Arísk upprisa. Ég sé ekki ástæðu til að linka á síðuna hér en hún er hins vegar mjög áhugaverð á vissan hátt. Mjög er það merkilegt hversu menn nenna að eyða tíma í að finna ástæður til að hata annað fólk. Þá er það líka skemmtileg tilviljun að síða þessi er öll vaðandi í stafsetningarvillum, en það er algengt í pistlum og á síðum sem taka á málefnum kynþáttanna á hatursfullan hátt. Þetta eru aðallega einhver vitleysa sem þýdd hefur verið úr bandarískum blöðum. Merki Arískrar upprisu er að sjálfsögðu hakakrossinn.

Zurückgekommen Jæja, þá er þetta búið og mikið andskoti leið þetta hratt. Þetta var hin fínasta veiðiferð, skemmtilegir karlar á vaktinni og bara nokkuð gaman. Ég er reyndar búinn að vera að hlusta á útvarpið allan daginn og hefur það því verið tuggið ofan í mig af starfsmönnum Rásar 2 að veðrið hafi verið alveg óttalega gott, en þegar ég kom heim var rigning. Frábært. Veðrið á víst að hafa verið alveg scrumptrelescent í fjarveru minni. Nú verður hins vegar bara rigning og rok það sem eftir er sumars, það er alveg víst. Á döfinni er svo að klára að fúaverja húsið og kíkja svo í veiði. Fiskar eru yfirleitt mínar ær og kýr á þessum tíma árs. Annars veit ég ekki hvað ég á að gera við sjálfan mig hérna. Það er mánudagur og allir eru að vinna, ég get ekki loggað mig inn á MSN, bróðir minn er í útlöndum o.s.frv. Slæm staða.

mánudagur, júlí 14, 2003

Góðan daginn Hér eru bara allir hressir og karfinn heldur áfram að streyma eftir færiböndum. Þúsund karfar á færibandinu þokast nær. Nú skilst mér að ég sé nokkrar mílur fyrir innan landhelgislínu. Við erum því að veiða "heimakarfa" en ekki "úthafskarfa" og annar kvóti gildir og fiskinn þarf að flokka og merkja á öðruvísi hátt. Samt er þetta nákvæmlega sami stofninn og sami fiskurinn. Gaman að því. Svo þarf að skipta um númer á öllum pakkningum þegar við siglum út fyrir, og þá þarf einnig að skipta um poka á trollinu til þess að hafa löglega möskvastærð. Ég hef annars haft nokkurn tíma til að velta því fyrir mér hvað karfi er asnalegur fiskur. Beinin standa út úr honum á alla vegu og hann lítur út eins og Smári Geirsson. Ég man ekkert hvað ég skrifaði hérna síðast þannig að það er best að vera ekki að segja of mikið, svo ég fari nú ekki að endurtaka mig. Nýlega hef ég horft á kvikmyndir á borð við Predator (snilld), Bad Company (mjeeeh) og nú var ég að skella Minority Report í tækið. Yfirleitt nær maður samt bara að horfa á svona helminginn, þá sofnar maður. Jæja, hafið þið það bara gott litlu grislingarnir mínir og ég bið Unu svo um að emila mér commentin sem koma hér, ef einhver verða. Jammjamm.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Blogg að handan - það lifir Já, nú blogga ég í fyrsta sinn af hafi frá, í gegnum emailsamband við Unu sem birtir fyrir mig. Nú eru komnir 12 dagar af þessum túr og gengur þetta allt sæmilega. Ég er einhvers staðar í úthafinu á Reykjaneshryggnum og er að fiska karfa. Það er góð stemning á vaktinni minni. Mikið er öskrað og blótað. Mataræðið hér er allveglegt. Grillað nautakjöt, hamborgarhryggur, hamborgarar, egg og beikon o.s.frv. Heilsan er því ekki slæm af skorti, en á tímabili var hún heldur slöpp vegna pestar. Pestin er enn að ganga á skipinu og er einn skipverji nýrisinn úr kör. Ég hélt á tímabili að iðrin ætluðu upp úr mér, en það fór ekki svo. Ég fylgist með umheiminum í gegnum langbylgjuna og veit því alveg hvað er í gangi. Siglufjarðargöngin og herstöðvarmálið og svona, hlusta á þetta allan daginn. Ég hef svo sem ekki margt að segja þar sem líf mitt er tiltölulega mikil endurtekning þessa dagana. Fiskur, og svo fiskur og svo aðeins meiri fiskur. Smá fiskur, og svo heill hellingur af fiski... Ég bið lesendur bara að lifa í friði, og óska mágkonu minni henni Hrefnu Sigurjónsdóttur til hamingju með afmælið þann 4. júlí síðastliðinn. Bless í bili.