#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

þriðjudagur, maí 27, 2003

I Paris! Nu blogga eg fra netkaffihusi i latinuhverfinu i Paris. Vid Una gongum eins og brjalaedingar um allt og skodum hvern krok og kima. Paris er falleg borg, konurnar her eru med stor nef, og karlarnir med bumbu. Vid aetludum baedi i Louvre og Pompidou i dag, en tau voru baedi lokud tar sem tad er tridjudagur. Sveiattan. I gaer fundum vid hotelid okkar sem er i 16.hverfi, sem er mjog rolegt og fallegt, og forum svo beint upp i Eiffelturninn, alveg a toppinn. Tad var ansi gaman, hann hreyfdist. Gotusolumenn med litla Eiffelturna og vatnsfloskur eru otolandi, og madur tarf virkilega ad segja "nei" svona 300 sinnum adur en teir saetta sig vid ad madur vill ekki kaupa neitt. Best er audvitad ad hunsa ta, en ta finnst manni ad madur se okurteis...sem er kannski bara allt i lagi. Vid hittum Floru vinkonu Steinthors og co. a Charles de Gaulle flugvelli og svo aftur i Metro inni i Paris. Magnad. Hun gaf okkur leidbeiningar um bestu leidina a hotelid. Indael stulka. Tad var ekki fleira i bili. Ble.

sunnudagur, maí 25, 2003

Ég skil ekki... ...þegar fólk fer í teiti sem því hefur ekki verið boðið til, og er haldin af fólki sem það þekkir ekki. Boðflennur. Ég var hjá honum Birgi vini mínum áðan, og stormuðu þangað inn einhverjar manntuskur sem enginn þekkti né vildi hafa á staðnum. Þeir virtust rólegir og meinlausir, en það skiptir ekki máli. Þetta er dónalegt. Þeir áttu ekkert erindi þangað, höfðu ekkert að gera og voru asnalegir. Af hverju? Af hverju í ósköpunum? Sumt fólk er bara leiðinlegt.

laugardagur, maí 24, 2003

Mosatætari Móðir mín vakti mig í morgun og flutti mér þær fréttir að ég mætti vinna í garðinum í dag. Ekki voru það nú allar góðu fréttirnar, heldur má ég í ofanálag vinna með tæki. Ég má tæta mosa, með mosatætara. Það er stórfenglegt. Ég ætla að tæta þennan mosa svo hann viti ekki hvaðan á sig stendur veðrið, svo hann viti ekki sitt rjúkandi ráð. Ég ætla að tortíma þessum illa mosa sem hefur yfirtekið grasflatir lóðarinnar á fjandsamlegan hátt. Byrgytta Haujgdahl Ætli stelpan vinni þetta? Getur annað verið? Hún er nú svo lífsglöð. Ha. Annars er nú Eurovisionpartý hjá Birgi Flórensfara í kvöld, en hann ætlar að sýna keppnina með skjávarpa og skemmtilegheitum. Það verður eflaust gaman. Faðir minn hefur svo lýst yfir stuðningi við austurríska lagið, og heldur því fram að Íslendingar hefðu átt að senda Botnleðju til Riga. Ég ætla að fylgja hans fordæmi. Það er nefnilega svo skemmtilegt hvernig Íslendingar taka þessari (hallærislegu) keppni alltaf hæfilega alvarlega, og fussa yfir því hve hallærislegar þýskumælandi þjóðir séu. En Þjóðverjar og Austurríkismenn hafa verið hvað duglegastir við að gefa skít í þessa keppni og gera grín að henni (þar sem hún er hallærisleg). Áfram Austurríki!

fimmtudagur, maí 22, 2003

Undirbúningur Nú er þetta að komast á hreint. Við förum út að morgni næsta mánudags og komum heim laugardaginn eftir það. Hotel les Hauts de Passy verður svefnstaðurinn, staðsett á Rue de l'Annonciation í 16. hverfi Parísar. Þaðan er u.þ.b. einn kílómetri í Eiffelturninn og stutt á næstu Metrostöð, la Muette. Við höfum nú fest kaup á korti af borginni og merkt við helstu staðina. Þetta verður allsvakalega skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég á afmæli á þriðjudaginn og vænti þess að mér verði boðið út að borða. Una hefur einnig vakið athygli mína á sérstakri skoðunarferð sem boðið er upp á um holræsi borgarinnar. Við sjáum til hvort við nýtum okkur þann möguleika, höldum öllu opnu. Einnig hefur hún vakið athygli mína á hinu líflega vændi sem á sér stað í almenningsgörðum borgarinnar um næturnar. Ég held nú að við höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá því. Ég veit fátt um París og hef aldrei komið til Frakklands áður, ég veit þó að þetta verður mjög gaman. Jens Þórðarson... ...kom með bókina sem hann ætlaði að lána mér. Ég var ekki heima, heldur uppi á Lynghálsi að skúra atvinnuhúsnæði. Bókin er gríðarstór og mikil. Foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að ég breytist í kommúnista af því að lesa bókina. Það gæti verið áhugavert að mæla í mér heilabylgjurnar og sjá hvernig þær breytast, eftir því sem ég verð smám saman að kommúnista.

mánudagur, maí 19, 2003

Öðlingurinn Jens Þórðarson ...ætlar að lána mér ævisögu Che Guevara. Jens er góður maður. Reyndar er hann svo góður að hvar sem hann fer skilur hann eftir sig slóð hamingju og friðsældar. Af honum ljómar slík velvild og góðmennska, að mestu illmenni samfélagsins frelsast við það eitt að sjá hann og taka upp betri lífhætti. Jens Þórðarson er ljós heimsins.

Nýjustu fréttir Ég var að láta bóka ferð fyrir mig og Unu til Parísar 26.maí til 1.júní. Vika í heimsborginni ætti nú ekki að gera mann neitt illt! Hah! Lífið er yndislegt. Maður þarf bara að finna ódýra gistingu og staðsetningu helstu merkisfyrirbæra. Helsta áhyggjuefni ferðarinnar er auðvitað tregða Frakka til að tala ensku, en sjálfur tala ég ekki stakt orð í frönku, fyrir utan hið klassíska vúllevúgúsje avekk mva. Ekki ætla ég að segja það við hótelstjórannm, hann gæti tekið boðinu.

sunnudagur, maí 18, 2003

Dilemma - hvað skal gera? Nú togast á hugmyndir um að hvað gera skuli í sumar. Á ég að fara upp að Kárahnjúkum og hamast við vegagerð og jarðgangnasprengingar í allt sumar, eða á ég að bíða og reyna að komast á sjóinn? Uppfrá yrði ég í útivinnu, nýrri reynslu, fallegu umhverfi (skilst mér) og að vinna með almennilegum mönnum (skilst mér). Úti á sjó væri ég með hærri laun, í mikilli innivinnu (reyndar úti líka) að gera það sama og undanfarin sumur. Á sjónum væri ég í burtu í heilan mánuð lokaður inni í stálkassa, uppfrá væri ég í burtu í 11 daga í einu, og kæmi svo heim í 3 daga þar á milli. Sennilega færi ég bara einn túr á sjóinn, en uppfrá yrði ég í allt sumar. Hvað skal gera? Hvað skal gera?

laugardagur, maí 17, 2003

Fylkinu endurhlaðið Ég skellti mér í kvikmyndahús í gær og sá þessa ágætu afþreyingarmynd. Hún var mjög skemmtileg og stendur undir nafni sem hasarmynd. Hér væri rétt að nefna helstu galla og kosti myndarinnar. Stærsti kosturinn við hana er að hún er alveg ótrúlega skemmtileg. Hasarinn er ekki líkur neinu sem ég hef séð áður. Langskemmtilegasta atriði myndarinnar er bardagi Neo við Smith útsendara, sem hefur þá hafið afritun á sjálfum sér og er til í allnokkru upplagi. Það atriði stóð upp úr, undirritaður svitnaði við áhorfið. Myndin er einfaldlega afþreying út í gegn og á sennilega ekki að vera mikið annað, því sagan sjálf er nokkuð gölluð. Helstu gallar: 1. Af hverju í fjandanum eru vélarnar að nota líkama mannfólksins til þess að framleiða orku, og til hvers eru þær að viðhalda þessum gerfiheimi fyrir mannfólkið? Fram kom í fyrstu myndinni að mennirnir hefðu "scorched the sky" til þess að hindra vélarnar í orkuupptöku, en mannslíkaminn lifir einmitt á efnum sem framleidd eru með hjálpsólarljóssins. Hvaðan fá vélarnar efnin sem þær fæða mannfólkið á svo þær geti notað hitann úr vöðvum sem orkulind? Sveiattan. 2. Hvernig má það vera að fólk geti látið lífið í raunveruleikanum, vegna áverka sem það hlýtur í sýndarveruleika? Þetta atriði var réttlætt í fyrstu myndinni með einni setningu: "The body can not live without the mind". Vægast sagt furðulegt. 3. Hvers vegna kjósa vélarnar að berjast við Þrenningu, Morfeif og félaga með Kung fu brögðum og skammbyssum? Fyrst þeir ná í hvert einasta skipti að staðsetja þau í kerfinu, ætti að vera möguleiki að uppræta þau á annan hátt en með hringspörkum og gamla magi-pungur-nef högginu. 4. Hvers vegna getur Hinn eini lífgað fólk við með hjartahnoði, sem framkvæmt er á þann hátt að hann fer með höndina á sér inn í (sýndar)líkama þess og hnoðar hjartað þannig? Hvaða haaaa? 5. Hvernig getur Hinn eini stöðvað "mannaleitarvélarnar" eins og byssukúlur á flugi, þegar hann er í hinum raunverulega heimi, rétt eins og hann væri í sýndarveruleikanum? Ætla Wachowski bræður að klúðra þessari annars frábæru réttlætingu á ofurhetju með einhverju svona? Sýndarveruleikahugsunin er langsnjallasta útskýring á ofurhetju sem fram hefur komið í langan tíma. Yfirleitt er það gamma-geislun sem veldur stökkbreytingu, eða eitthvað álíka skemmtilegt. Fleira mætti telja upp, en til hvers? Þetta er bara afþreying...

föstudagur, maí 16, 2003

Fór enn og aftur til læknis... ...í dag. Hann segir mér að ég megi ekki fara út að hlaupa á morgun, eins og ég hafði ráðgert. Hann gerði víst gat á einhvern vöðva sem þarf að fá að gróa. En ef ég fæ aftur verki á næstu tveimur mánuðum þarf að skella mér aftur í aðgerð og þá verður sú almennileg. Þetta er allt saman ein skemmtireið. Hugsanlega til útlanda Mér hefur verið gert kostaboð um útlandaferð í næstu eða þarnæstu viku. Helst koma til greina París og Barcelona. Þá er að vega og meta kostina og ráðfæra sig við kvenmanninn, sem einnig hefur verið gert slíkt boð. Hún er hrifnari af Barcelona, en ég hallast í augnablikinu að París. Svona er nú lífið fullt af óvæntum uppákomum og skemmtilegheitum. Tvær stórborgarferðir á einu vori. Það er ekki slæmt.

fimmtudagur, maí 15, 2003

Niðurstöður - og ný könnun auðvitað Samkvæmt sauðtryggum lesendum síðunnar sem kjósa hér aftur og aftur verður næsta ríkisstjórn að öllum líkindum skipuð Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Svona er nú það. D og B - 37% D, B og F - 5% S, U og F - 22% S og D - 11% S og B - 5% Nýtt afl - 8% D og U - 5% S, B og F - 4% S, B og U - 3% Svo setti ég hérna upp nýja könnun til að pirra þá Vinstri-grænu djöfla sem lesa síðuna. Verði ykkur að góðu og kjósið eins oft og þið viljið.

þriðjudagur, maí 13, 2003

Aktu-taktu Mig minnir að ég hafi einhvern tímann skrifað hér færslu þar sem ég úthúðaði því fyrirtæki mjög illa, og vil ég því lýsa reynslu minni í dag. Ég borðaði þar kvöldmat. Baconborgari, franskar, appelsín og ís í eftirrétt. Þetta var prýðisgóður matur og ekkert út á hann að setja. Það gerðist ekkert fleira í dag, sem ég nenni að segja frá. Sofið þið bara öll vel í nótt, og megi ykkur ekki dreyma nein holdétandi hellaskrímsli sem rífa innyfli ykkar í sig og öskra yfir hálfmeltum líkömum ykkar.

mánudagur, maí 12, 2003

Matarboð Matarboðin eru farin að renna saman hér á bæ. Formið á þeim er mjög fast þau byrja eins, ná sama risi og enda eins. Nú er ég tala um að bróður mínum, mágkonu, afa, ömmu og Unu sé boðið auk mín og foreldra minna. Klukkan 19:00 stundvíslega koma afi og amma á svæðið. Bróðir minn og mágkona koma 5 mínútum seinna. Þá setjast allir inn í stofu og fá sér gin og tónik fyrir matinn og spjalla aðeins saman. Svo er farið að borða klukkan rúmlega hálfátta. Yfir matnum er spjallað um fólk sem ég þekki ekki og sagðar sögur af einstaklingunum við borðið þegar þeir voru börn. Þar má nefna helstar "Hver vill strák eins og mig?"-söguna, "Ég get ekki dottið"-söguna, "Ég vil vera roðaður eins og Bjarni"-söguna, "Ég hélt ég væri búinn að breytast í aula"-söguna og "Hver skýtur þá Ólaf afa?"-söguna. Þegar sögurnar eru búnar þarf að tala um eitthvað annað. Þá er það annað hvort kötturinn hans bróður míns, tré eða stjórnmál. Við tölum oft um tré. Eftir matinn sest fólkið aftur inn í stofu og talar um köttinn hans bróður míns alveg þangað til afi sofnar. Þegar afi vaknar er veislan búin og allir fara heim um klukkan 22:00. Formfesta er lykilorðið hér.

Gleði aldarinnar Sjáiði hvað ég fann! Þetta er ótrúlegt. Sennilega eitthvað það allra skemmtilegasta sem hefur komið fyrir mig. Athugið líka myndaalbúmið og gestabókina. Þegar þið skoðið þessa síðu verðið þið að hafa kveikt á hátölurunum svo þið heyrði þessa snilldartónlist. Þvílíkt og annað eins. Snilld, snilld, snilld og aftur snilld.

Menn sem kunna að titla sjálfa sig Hans æruverðuga hátign, forseti til lífstíðar og ofursti Al Hadjí, Doktor Ídí Amín, VC, DSO, MC, drottnari allra lifandi skepna og fiska sjávarins og sigurvegari breska heimsveldisins í Afríku og sérstaklega í Úganda. Ja, þetta er almennilegt.

sunnudagur, maí 11, 2003

Hið tvíræða orð dagsins Í dag verður tekið fyrir sérstakt orð sem hefur tvíræða merkingu. Orð dagsins er "uppalandi". Það kemur fyrir í hinni gríðarlöngu færslu sem US hefur skrifað á síðu sinni og hinn valinkunni andans maður mælir með. Orðið uppalandi hins vegar hefur eftirfarandi merkingar: 1. Aðilji sá sem elur upp annan einstakling af sömu tegund. Upp-alandi. 2. Áfengur drykkur upprunninn í Norður-Ameríku. Drykkurinn er sérstaklega vinsæll hjá ungum mönnum sem lifa glyslífsstíl og láta mikið á sér bera með lifnaðarháttum sínum. Orðið er bein þýðing úr ensku, þar sem það er svona: Yuppiemoonshine. Uppa-landi. Svona er nú tungumálið skemmtilegt, og ég leiðinlegur.

Umræðuþættir... ...með formönnum flokkanna í kvöld hafa verið einstaklega leiðinlegir. Það verður ekki annað sagt. Formennirnir og forsætisráðherraefnið eru eitthvað þreytt, og taka spurningum ekki svo létt. Þau segja það sama aftur og aftur. Addi talar um að fólki hafi þótt hann glannalegur fyrir baráttuna, og efnið talar um hið sögulega samhengi. Steingrímur J. var nú eitthvað fúll á Stöð 2 yfir því að það ætti að ræða um mögulega myndun stjórnar, og vildi tala um kosningarnar í almennu samhengi. Það var ágætt hjá honum, og tók hann stjórn þáttarins í sínar hendur. Afskaplega fátt var að koma fram í þessum þáttum sem kjósendur gátu ekki sagt sjálfum sér með því að skoða tölfræðina. Who wants to be a millionaire? Úff, hefði maðurinn ekki átt að skipuleggja svindlið aðeins betur? Kerfið virtist vera einfalt, tvö hóst fyrir að það sem hann segir sé rétt. Hann var aldrei viss og skipti allt of oft um skoðun. Hann þurfti alltaf að segja eitthvað og mynda afstöðu til möguleikanna svo konan gæti hóstað. Lélegur! En ekki getur maður svo sem dæmt hann sem hræðilegt illmenni þó hann sé óheiðarlegur og lítill. Ef þetta hefði tekist væru börnin hans öll með örugga framtíð fyrir höndum. Grey karlinn...

laugardagur, maí 10, 2003

Kjördagurinn ...var skemmtilegur. Ég kíkti á Sjálfstæðisflokkinn í Austurstræti og innbyrti þar eina pylsu með öllu nema hráum. Svo kíkti ég á Samfylkinguna og fékk mér þar kökur, kex og kaffi. Svo fór ég aftur til Sjálfstæðisflokksins og fékk mér eina með öllu nema hráum. Því næst kíkti ég á kosningaskrifstofu VG í Ingólfsstræti og fékk þar tvær piparkökur. Það var ágætt. Fyrsta afrek dagsins var að nýta réttindi sín og kjósa, en svo var hangið á Íþöku niðri í MR þangað til nú fram að kvöldmat. Svo er það bara að glápa á sjónvarpið og kíkja kannski eitthvað út, fer eftir því hvað félagarnir gera. Svo hitti ég vinstrimann sem spurði hvað ég hefði kosið. Þegar ég sagði honum það spurði hann hvort mér væri semsagt bara skítsama um alla nema sjálfan mig. Já, það var rétt. Nákvæmlega rétt.

föstudagur, maí 09, 2003

Var að lesa... ...skemmtilega grein um fullkominn eignarrétt fyrirtækja og einstaklinga á aflaheimildum, og minnkun ríkisafskipta af sjávarútvegi til mikilla muna. Skammstöfunin hf. kom oft fyrir.

Bomban á lokasprettinum Þar sem kosningadagurinn er á morgun hafa frambjóðendur flokkanna ákveðið að koma með síðasta útspilið, trompið. Ef eitthvað virkar á kjósendur, þá er það þetta. Þetta er svo persónulegt og sýnir nálægð frambjóðandans við kjósandann. Þetta er eiginhandaráritunin. Nú er ég búinn að fá bréf frá Davíð Oddssyni, þar sem hann óskar mér til hamingju með alls konar hluti og segir mig vera sér kæran. Undir þetta er svo ritað Davíð Oddsson með bláu bleksprautuprentarableki. Ingibjörg Sólrún er svo með heilsíðuauglýsingar í blöðunum, þar sem hún skrifar undir. Halldór Ásgrímsson gerir það sama. Einnig hafði ég mikla ánægju af þessu laumulega glotti sem Halldór var með í samsvarandi sjónvarpsauglýsingu. Spurning hvort eiginhandaráritunin sé svona rosalega áhrifamikil? Af hverju eru allir að geyma þetta þangað til undir það síðasta? Mér finnst þetta sniðugt. Síðasta útspil Samfylkingarinnar er svo þessi allt of langa auglýsing með Vigdísi Finnbogadóttur. Nei, afsakið, þetta er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem er að flytja áramótaávarp forsætisráðherra, nei bíddu nú við. Hún er að tala um kosningarnar. Já. Þarna heldur hún áfram að tala um almennar leikreglur og lýðræðislega stjórnarhætti. Í samsvarandi heilsíðublaðaauglýsingu kemur fram að engan skuli undra að kosningabaráttan hafi snúist um málefni Samfylkingarinnar frekar en annað. Ég tók nú ekki eftir því. Frekar að Frjálslyndir hafi snúið umræðunni að sér, og Samfylkingin komið á eftir með sínar tillögur, rétt eins og í skattamálunum. En ég útnefni kosningabaráttu Samfylkingarinnar hvað varðar auglýsingar þá ómálefnalegustu. Lítið annað en myndir af Ingibjörgu og "aaaaahhhhhhh"-tónlist.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Eyjólfur Ármannsson... ...kom sérstaklega illa fyrir í Silfri Egils núna síðast. Hann er í öðru sæti fyrir F í Reykjavík norður. Hann var frekar í kappræðum en rökræðum og taldi að hann gæti "unnið" með því að tala hærra en allir hinir. Hann var pirraður við viðmælendur sína og bað þá stöðugt um að grípa ekki fram í fyrir sér, en gerði það svo sjálfur þegar aðrir voru að tala. Hann var nokkurn veginn skotinn í kaf með flestar athugasemdir sínar og var ekki sannfærandi. Einnig finnst mér nokkuð merkilegt að Frjálslyndir byrjuðu þessa kvótakerfisumræðu aðallega á brottkastinu. Það var útgangspunkturinn hjá þeim í vor og fyrir jól. Magnús Þór Hafsteinsson hefur náttúrulega staðið í málaferlum við sjávarútvegsráðherra út af þessu myndbandi sem hann sýndi, þar sem brottkast var sagt eiga sér stað. Framan af snerist umræðan aðallega um brottkastið, en hefur svo snúist aðallega yfir á atvinnufrelsislínuna. Frjálslyndir kenna kvótakerfinu alfarið um brottkastið. Brottkastið hefur ekkert verið rætt í samhengi við önnur skip en þau stærstu, togarana. Í því samhengi er nokkuð merkilegt að samkvæmt tillögum frjálslyndra á að halda stærstu skipunum í kvótastýringu. Furðulegt. Er brottkastið kannski ekkert vandamál lengur?

miðvikudagur, maí 07, 2003

Hvað í fjandanum? ...sem ég sat buxnalaus og horfði á sjónvarpið áðan varð mér litið á hægra lærið á mér. Það er búið að raka á mér hægra lærið! Aðgerðin var hins vegar framkvæmd á vinstra sköflungi. Af hverju var verið að raka á mér hægra lærið? Slapp ég frá læknamistökum? What the hell.

Frjáls Önundur Þá er aðgerðin um garð gengin. Hnúturinn sem var svo óskaplega góðkynja hefur verið tættur í sundur og sogaður út úr líkama mínum. Ég er hreinni en fyrr. Það er hið besta mál. Hins vegar er ég allur útklíndur í storknuðum sótthreinsivökva. Hann er þess valdandi að ef ég beygi fótinn strekkist á þeim líkamshárum sem eru föst í storkunni, og það er sárt. Kannski ég þrífi mig, hver veit? Ég má annars til með að segja ykkur þeirri óþægilegu stöðu sem ég er í (samt ekkert svo óþægileg). Á Læknastöðinni var tekið vel á móti mér og ég las Séð og heyrt uppi í rúmi þangað til kom að mér. Þá stóð ég upp úr rúminu og gekk inn á skurðstofuna. Allt í góðu með það, ég leggst á skurðborðið og svæfingarlæknirinn sprautar mig í höndina. Það slökknar á mér á nokkrum sekúndum. Ég man ekkert eftir mér fyrr en ég vakna aftur klukkutíma síðar. Þá var ég aftur kominn í rúmið fyrir utan. Spurning hvernig ég komst þangað? Þau héldu sennilega ekki á mér. Það var alls konar dót og drasl í kringum skurðborðið svo ég efast um að þau hafi lyft mér aftur yfir í rúmið og rúllað mér svo út. Mín kenning er sú að þau hafi hálfvakið mig og svo leitt mig aftur í rúmið. Ég segi þó ekki að ég muni eftir því, en mig rámar óljóst í að hjúkkan og svæfingarlæknirinn hafi verið að tala eitthvað við mig, og að ég hafi verið eitthvað að röfla. M.a. um að ég ætlaði sko ekki að kjósa Vinstri-græna á laugardaginn. Annað er svona frekar í móðu. Ég vona bara að ég hafi ekki sagt eitthvað of persónulegt. Hmm... Samt er gott að vita að maður missir ekki sjónar á skoðunum sínum sama hversu dópaður maður er. Ha, Doddi?

þriðjudagur, maí 06, 2003

Matur Þá er það spurningin, hvað á ég að éta í kvöld? Er það pizzan frá því í gær? Lasagnað frá því í fyrradag? Sá sem svarar fyrstur fær að ráða. Merkilegt eða ómerkilegt? Ég fór á einhverja bölvaða leikjasíðu á netinu. Þar tefldi ég við 19 ára gamlan dreng frá London. Hann var voðalega indæll og á honum kjaftaði hver tuska. Hann sagðist vera gothari, og spurði mig hvað mér fyndist nú um “the rock and roll lifestyle”. Ég sagði að ég hefði ekki mjög sterkar skoðanir á því málefni, en legði þó blessun mína yfir flest sem því kemur við. Svo lét ég hann ákveða hvað ég ætti að elda í kvöldmat. Hann stakk upp á lasagna, og lasagna var það. Þá er það spurningin: Er það á einhvern hátt merkilegt að hálfírskur, svarthærður, hvítfarðaður maður frá London með dökkan varalit, klæddur í leðurfrakka og með gaddabelti um hálsinn hafi ákveðið hvað ég borðaði í kvöldmat í fyrradag, eða bara alls ekki?

Á morgun, á morgun Já, á morgun fer ég í aðgerðina. Ó, þessi aðgerð er fegurð heimsins í sinni hreinustu birtingarmynd. Frelsari minn og velunnari er bæklunarlæknir. Guð er alls staðar, og þá sérstaklega í bæklunarlæknum. Hinn viðurstyggilegi vargur og útsendari kölska sem gert hefur sér bæli í beini mínu verður útrættur með hörku og staðfestu. Hann fær að sjá ljósið, hann fær að sjá ljósið.

mánudagur, maí 05, 2003

Hvað hefur komið fyrir... ...hana Unu mína. Blessuð stúlkan hefur breyst.

Afmæli Mamma er 50 ára í dag. Til hamingju með afmælið mamma! Must read Lesendur verða að fara á síðuna hans MDNs og lesa ummæli ömmu hans um Stalín. Snilldarsaga. Spilling á vestfjörðum ... á vesfirska fréttavefnum www.bb.is er liðurinn "Spurning dagsins" ekki upp á sitt besta. Þar stendur Spurning dagsins hefur verið lögð niður um óákveðinn tíma vegna misnotkunar. Viðbjóðslegt, segi ég. Maður snýst eiginlega í hringi... ...í þessari kvótakerfisumræðu. Til skiptis er manni bent á óréttlætið og hagkvæmnina. Jafnframt vísa þeir sem benda manni á óréttlætið hagkvæmninni á bug, og þeir sem vísa í hagkvæmnina hafna því að óréttlætið sé til staðar. Þorsteinn Már Samherjaforstjóri kom í Silfur Egils í gær. Hann brosti óskaplega mikið allan tímann. Hann brosir nú bara nokkuð fallega maðurinn. En hann vildi benda á að umræðan næði aldrei í land, þ.e. að það væri ekkert talað um vinnsluna í landi og þann hag sem byggðarlögin hefðu af stöðugleikanum á henni. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá honum. Það hefur ekkert verið talað um það, nema þá um að eigendur kvótans geti selt hann á aðra staði og farið svo til Barbados með péninginn. Þorsteinn á víst sjálfur að hafa fíflað Ísfirðinga dálítið með því að lofa því að ákveðin skip skyldu landa á Ísafirði, en svo látið þau landa á Akureyri. Spurning hvort það sé sá stöðugleiki sem hann er að tala um?

sunnudagur, maí 04, 2003

Skoðanirnar - ný skoðanakönnun Að vanda er allt að verða vitlaust hér. Fólk hefur hér gert grein fyrir því um hvað verður kosið þann 10. maí: Evrópumálin - 0 atkvæði - 0% skattamálin - 9 atkvæði - 18% leiðtoga flokkanna - 15 atkvæði - 29% kvótakerfi í sjávarútvegi - 10 atkvæði - 20% utanríkisstefnan - 1 atkvæði - 2% velferðarkerfið - 16 atkvæði - 31%

laugardagur, maí 03, 2003

Monní monní monní Ef maður fer inn á heimasíðuna www.baugur.is má sjá kort af heiminum, þar sem meginlöndin eru öll gullhúðuð. En bækistöðvar og útibú baugsveldisins eru gimsteinar á kortinu sem stirnir á af og til. Þetta er kannski lýsandi fyrir lífssýn þeirra baugsmanna og sjálfsálit.

föstudagur, maí 02, 2003

Kaupás er ekkert að gera sig... ...í grænmetisdeildinni. Í 11-11 eru allar paprikurnar hrukkóttar. Lengi lifi Fjarðarkaup* segi ég. *Rétt er að taka fram að hinn valinkunni andans maður tengist Fjarðarkaupum ekki á neinn hátt annan en að neyta vöru sem seld er þar.

fimmtudagur, maí 01, 2003

Vigtin lýgur ekki Ég er fimmtán kílóum léttari núna en ég var um jólin. Allt út af því að ég hætti að éta svona mikið brauð og pasta og drakk ekki gos. Mæli með þessu. Ég get ekki beðið eftir þessari aðgerð 7.maí. Ég horfi út um gluggann og iða í skinninu að fara út að hlaupa. Ég er kominn í hræðilegt form varðandi úthald.

Heimsljós Ég fór í afmæli til frænda míns í gær. Þar hitti ég annan frænda minn og talaði við hann um Halldór Laxness í smá stund. Þá hljóp hann allt í einu út, fór heim til sín og kom til baka með Heimsljós og gaf mér. Svona er að eiga góðan frænda sko...

Home alone Þá eru foreldrarnir farnir til Ítalíu og Mónakó og ég hef húsið fyrir mig þangað til 7.maí. Sumir myndu halda partý, en ekki ég.