Íslendingurinn ...þetta er umræðuefni næstu MorfÍskeppni MR. FG-ingar ætla að reyna að svara fyrir heimskulegar skoðanir sínar á Íslendingnum næsta fimmtudag á heimavelli sínum. Við skulum vona að úrslit keppninnar verði rétt. Ég mætti á svokallað miðtaugakerfisfárviðri með ræðuliði MR í gærkveldi. Mér leist vel á drengina og held að á fundinum hafi komið fram byrjunin á heillavænlegri stefnu í málinu. Keppnin verður eflaust skemmtileg og aldrei að vita nema maður skelli sér að fylgjast með, enda lastabælið FG einungis í 3. mínútna ökufjarlægð frá heimili mínu. Ég er að hugsa... ...um að mála skrattann á vegginn á eftir.
.
föstudagur, febrúar 28, 2003
fimmtudagur, febrúar 27, 2003
Y Af hverju getur fólk ekki lært að nota þennan bókstaf? Hvað er svona erfitt við þetta allt saman? Þessi kann ekki að nota Ý og Y, andskotinn hafi það. Leiðinlegt fyrir mann sem tekur sig jafnalvarlega og hann að kunna ekki stafsetningu.
Skemmtilestur fyrir læknanema Ég var hjá lækni í morgun. Það var svaka stuð. Ég er nú á góðri leið með að fá úrlausn minna mála. Eins og dyggir lesendur vita er mér búið að vera illt í vinstri löppinni í eitt ár. Það er ekki svaka stuð. Nema hvað nú er búið að taka röntgenmyndir og segulómskoða mig, niðurstaðan er sú að það sé þykknun í beininu, sköflungnum. Góðkynja æxli. Nú, þetta þarf að fjarlægja með einhverju móti. Ekki man ég fræðiheitið yfir fyrirbærið en það lýsir sér í einhverri hnútamyndun í beininu sem veldur síðan bólgu í því. Ég fékk að sjá þetta áðan í svona sjónvarpsgegnumlýsingargræju. Húrra fyrir manninum sem fann hana upp. Þar sá ég að þetta er heljarinnar hóll á beininu. Læknirinn virtist finna fyrir honum með því að þreifa en ég get ekki fundið hann. Í miðjum hólnum er svo hola inn í beinið. Þessa holu þarf að bora út og svo brenna fyrir, var mér sagt, en þá á bólgan að ganga niður. Það er algengast að holan í miðjunni sé u.þ.b. 2-4 mm í þvermál en mín er víst eitthvað um 8 mm. Það er helvíti stór hola. Vegna stærðar holunnar góðu er ekki víst að þessi aðgerð virki alveg. Þannig getur verið að eftir þessa aðgerð þurfi að fara í aðra þar sem ég verð skorinn upp og allt draslið skrapað út og svona. Læknirinn sagði að ef til þess kæmi þyrfti ekkert meira að gera við beinið en að skrapa dótið af, þetta bætir sig víst upp sjálft. Jájá. Svona er þetta. Þetta er allavega í fyrsta sinn sem ég fer til læknis og hann segir: "Þetta er ekki beinkrabbi"
Já en sko... ...ekki svo að skilja að hann hafi sagt "Þetta er beinkrabbi" í öll hin skiptin...æ þið vitið hvað ég meina.
miðvikudagur, febrúar 26, 2003
Brýr Verkfræðin heillar mörg ungmenni nú í dag sem á síðustu öld allri. Brúarsmíði er mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsmanna og er ekki úr vegi að huga lítillega að þessum hluta íslensks hugvits. Við sjáum mynd. Brú þessi á Hítará á Mýrum er gott dæmi um það hvernig menn léttu sér ferðalögin á fyrstu árum 20.aldar. Einföld, tiltölulega efnislítil og hógvær. Tvær skástífur hvor sínum megin eru boltaðar í bergið til að fá meiri festu og minnka fjöðrun. Ekki ætluð fyrir mikinn þunga. Við sjáum aðra mynd. Þetta er hin nýlega Fnjóskárbrú. Hún skartar nýstárlegri hönnun með skemmtilegri vísun í árþúsunda gamla verkfræðikunnáttu mannkynsins, bogann. Bogann má einnig sjá í gömlum brúm á Íslandi svo sem t.d. Hvítárbrú á Hvítárvöllum í Borgarfirði, þar sem þjóðvegur eitt var áður en Borgarfjarðarbrú sjálf var tekin í gagnið. Lengsta brú landsins er Skeiðarárbrú sem er hvorki meira né minna en 880 metra löng, en þar næst á eftir kemur Borgarfjarðarbrú sem er þó ekki nema 520 metrar. Að lokum sjáum við svo mynd. Neðsta myndin á þessari síðu er af brú. Hún er mjög einföld að gerð og krefst ekki mikils hugvits af framkvæmdaraðiljum.
þriðjudagur, febrúar 25, 2003
Hringurinn Næsta sumar ætla ég að keyra hringinn í kringum landið. Ekki bara þjóðveg 1 heldurmun ég taka Snæfellsnesið, Vestfjarðakjálkann, Langanesið og allt heila klabbið. Hverjir eru með? ...og kannski maður fari líka á þessa helvítis bíómynd þó svo maður vilji það ekki.
Mótmæli gegn efnishyggju Sigurður Arnet Jónsson mótmælir materialisma á heimasíðu sinni. Þar hefur hann afnumið alla grafíska hönnun síðunnar og lætur þar einungis birtast svartan texta á hvítum bakgrunni. Svona gengur þetta, Herranótt heldur áfram að spilla æskunni. Hvenær á þetta að enda? Ungt fólk sem leggur fyrir sig leiklist spillist allt á tiltölulega stuttum tíma. Og það spillist á alla mögulega vegu, sumir verða bolsévískir í hugsun og aðgerðum, aðhyllast samyrkjubúskap og fimm ára áætlanir, aðrir láta sér nægja að glepjast af löngunum holdsins. Ungmennum er smalað í lestarvagna og þau ferjuð upp í Hvalfjörð þar sem þau eru látin dansa nakin fyrir framan hálfþrítuga leikstjóra og ljósamenn. Einnig er hellt í ungmennin áfengi sem gerir þau veruleikafirrt og lauslát þarna eru þau látin hamast hvert á öðru heilu helgarnar. Ef ekki nægir kommúnisminn og klámið til að glepja börnin sem eitt sinn voru góð, þá mun stórmennskubrjálæðið eflaust ná þeim sem eftir standa! Þau halda að tilveran sé eitt leiksvið þar sem þau sjálf eru í aðalhlutverkinu og geta leikið sér að lífi annarra. Hvernig eiga svo ómótaðar sálir að geta gert greinarmun á réttu og röngu, góðu og slæmu, raunveruleika og leik? Ekki veit ég hver viðurlögin við spillingu æskunnar eru nú til dags en mér verður hugsað til frægs manns sem dæmdur var til dauða fyrir slíkt!
mánudagur, febrúar 24, 2003
Nýir bloggarar - offjölgunarvandamál? Alexandra Kjeld(usvín ahahah) og Snæbjörn Guðmundsson eru bæði byrjuð að skrifa. Sumir segja að þau kunni einnig að lesa.
Niðurstöður skoðanakönnunar og ný könnun Í síðustu könnun voru lesendur spurðir að því hver útkoman yrði úr fyrirhuguðu stríði í Írak. 30% aðspurðra töldu þetta upphafið að þriðju heimsstyrjöldinni. 21% taldi þetta leiða til stækkunar á landhelgi Íslands 16% töldu útkomuna verða hækkun á gengi hlutabréfa í Decode Genetics. 4% var fokking skítsama maður. - afgangurinn var eitthvað bleble. Þetta eru auðvitað sláandi niðurstöður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Þá hefur verið sett upp ný könnun og hvet ég gesti til að kjósa í henni hér niðri til vinstri á síðunni.
sunnudagur, febrúar 23, 2003
Slöpp blogghelgi Ég hef lítið gert um helgina og hef því ekki margt að segja. Þó vil ég segja að Framsóknarmenn voru að gera góða hluti með því að leggja til að ráðherrar afsali sér þingmennsku. Ágætt væri að auka þrískiptingu ríkisvaldsins á þennan hátt og um leið, og augljóslega, gera ráðherra hæfari til að sinna sínum störfum sem slíkum. Það er væntanlega mikil vinna að sitja á þingi og að sama skapi að gegna ráðherraembætti. Ætli menn gætu ekki sinnt sínum störfum með skilvirkari hætti ef þetta væri skilið að. Við skulum vona að þetta verði gert svo dómsmálaráðherra hafi meiri tíma til að sitja á sérhönnuðu gullklósetti sínu á Arnarhváli. Einnig vildu framsóknarmenn fækka ráðuneytum. Ég veit minnst um ágæti þess en það má vel vera hið besta mál.
Bloggfaðirinn... ...Viðar Poulsen hefur skrifað grein um Íraksmálið og bendi ég fólki á hana. Hún er ágæt.
föstudagur, febrúar 21, 2003
Lofsöngur Our country's God! Our country's God! We worship Thy name in its wonder sublime. The suns of the heavens are set in Thy crown By Thy legions, the ages of time! With Thee is each day as a thousand years, Each thousand of years, but a day, Eternity's flow'r, with its homage of tears, That reverently passes away. :/: Iceland's thousand years! :/: Eternity's flow'r, with its homage of tears. That reverently passes away.
Hlutir sem hafa pirrað mig undanfarið: 1. Krakkar sem fá lélegt uppeldi og haga sér eins og fávitar, hrista allt, berja, eyðileggja og öskra. 2. Þeir bílar sem ég á sem vilja ekki fara í gang þegar ég vil að þeir fari í gang. 3. Gamalt fólk sem veit ekki neitt, ekki einu sinni það að hægri umferð er einnig í sundlaugum og það er synt hægra megin fram og hægra megin til baka (séð frá sundmanni), EKKI HÆGRA MEGIN FRAM OG VINSTRA MEGIN TIL BAKA! Kenning þessa fólks er sú að í venjulegri sundlaug sé aðeins pláss fyrir 8 manns af því að annars eru tveir á einhverri braut, sem gengur ekki upp. Það verður árekstur! Gamalt fólk... 4. Fólk sem blaðrar í símann sinn á bókasöfnum og veit ekki að það er gott að setja hann á SILENT til að það heyrist minna í honum, OG TIL AÐ HANN TRUFLI MIG EKKI SVONA ÓGEÐSLEGA MIKIÐ. 5. Rigningin og slabbið sem ríður nú rækjum alls staðar.
Gettu betur MH - vessló Það má segja að Menntaskólinn í Hamrahlíð hafi unnið verðskuldaðan sigur á værtzlóf í Smáralindinni í gær. MH-ingar voru mjög góðir, sérstaklega sá til vinstri séð frá sjónvarpsglápurum. Hann var klár. Verslingar gerðust svo sekir um kokhreysti sem ekki var innistæða fyrir í orðunum "þegar við verðum búnir að vinna". Eftir slík ummæli er alltaf skemmtilegra að sjá hitt liðið vinna. Ég held að MR-ingar megi alveg vara sig á MH. Reyndar væri gaman að sjá skemmtilega úrslitakeppni eins og þá í hitteðfyrra, þegar það var laglega hrist upp í þeirri MR hefð að vinna keppnina. Einhvern tímann hlýtur fólk að verða leitt á því að horfa á keppni sem sami aðiljinn vinnur í hvert einasta skipti.
miðvikudagur, febrúar 19, 2003
Eftirför og pungskellur Veitti Jens Þórðarsyni eftirför á bílastæðum háskólans í gær. Gekk svoleiðis allt frá bókhlöðu til VRII og til baka. Veit ekki hvort hann tók eftir mér. Fékk Eirík Jónsson til að skrifa þetta fyrir mig. Í sundlauginni í morgun var mjór sköllóttur karl sem talaði ekki um annað í heita pottinum en einhver karlmennskuleg störf sem hann hefur unnið við, í svo og svo mörgum vindstigum og eitthvað kjaftæði. Hann var mikill með sig. Svo gekk hann inn og upp á stökkpall. Hann bar hvolpana mjög þó engir væru þeir á staðnum. Hann stóð lengi á pallinum. Hann teygði sig til og horfði yfir allt og alla. Hann átti staðinn. Hann setti sig í flotta stellingu eins og alvöru sundmaður og þrusaði sér svo út í laugina. Hann lenti í einhverjum mest skell sem ég hef orðið vitni að. Öldurnar náðu til Snæfellsjökuls á 15 mínútum. Þetta var lélegasta stunga sem ég hef séð. Hann flaut upp á yfirborðið, þjáður. Hann synti rólega, mjög rólega að bakkanum og var þar í u.þ.b. 5 mínútur að anda og gretta sig og halda um nárann. Auminginn litli. Djöfull var þetta fyndið. Ég glotti. Hann sá það.
Súkkó Af hverju fær fólk lélegar hugmyndir? Af hverju áttar fólk sig ekki á því að þær lélegu hugmyndir sem það fær...eru lélegar? Af hverju segir fólk öðru fólki frá lélegu hugmyndunum sínum sem það fattar ekki að eru lélegar? Ég held að ég hafi áður bloggað um Súkkó. En ég verð að gera það aftur. Þegar ég var lítill hnokki í búðarferð með móður minni í Fjarðarkaupum í Hafnarfirði varð ég fyrst var við Súkkó. Fjölskyldan var á leið í veiðiferð upp í Borgarfjörð og kaupa þurfti gos fyrir ferðina. Í goshillunni var nýr valmöguleiki frá Sól hf. Súkkulaðigosið Súkkó. Við vorum eitthvað að skoða þetta og velta því fyrir okkur hvort við ættum að prófa. Ég var óviti og vissi ekki betur, taldi ég því Súkkóið fýsilegan kost. Í því vatt sér að okkur ungur drengur og sagði: "Ekki kaupa þetta, þetta er ógeðslegt!" Það var greinilegt að hann var að meina það sem hann sagði. Angistin sást í augum hans og hendurnar skulfu af örvæntingu. Hann var að reyna að bjarga okkur. Þetta var góður drengur, en fórnarlamb þess illa í heiminum, það er víst. Við vorum illa upplýst og hrokafull, við neituðum að taka við ráðum piltsins. Enginn skyldi segja okkur hvað við megum kaupa og hvað ekki. Súkkó var það. Það var svo ekki fyrr en í ferðinni sjálfri að við opnuðum fyrstu dósina og brögðuðum á. Gosið var ógeðslega vont, við helltum því öllu niður og hugsuðum til þjáninga drengsins í Fjarðarkaupum. Hans óhamingja var okkar óhamingja. En hvernig... ...getur það gerst á fundi í Sól hf. að einhver komi með hugmyndina að þessu og það fái góðan hljómgrunn? Einhver hefur kannski brætt suðusúkkulaði og skellt því í sodastreamtækið og líkað vel. Einhver undarlegur kannski. Svo er gerð prufa af gosinu og allir topparnir í kompaníinu smakka á. Þeir dæsa allir af vellíðan og telja sig hafa fundið ótæmandi tekjulind fyrirtækisins. Má það vera? Allavega fór Súkkó af markaðnum á ca. tveimur vikum. Við skulum vona að mannkynið læri af mistökum sínum.
þriðjudagur, febrúar 18, 2003
"Gott fyrir lýðræðið í landinu" Mikið fyrirlít ég þennan frasa. T.d. þegar Ingibjörg Sólrún sagði fyrir borgarstjórnarkosningarnar að það væri slæmt fyrir lýðræðið í landinu ef sjálfstæðisflokkurinn væri bæði með tögl og hagldir í landsstjórn og borgarstjórn. Svo notar fólk úr öllum flokkum þetta eftir hentugleika þegar það hefur ekkert að segja. Hvað er gott fyrir lýðræðið í landinu? Jú það er það að fólk fái að bjóða sig fram til að gegna þeim störfum sem kosið er í og að fólk fái að kjósa þá sem það vill kjósa af þeim sem bjóða sig fram, eða að fólk fái að sleppa því að kjósa ef það vill. Það að einn flokkur (eða ein tveggja flokka stjórn) sé með völd bæði í landinu og í borgarstjórn væri ekki vont fyrir lýðræðið, heldur væri það bara lýðræðið í praxís, ef kosningin var réttmæt. Síðan hvenær er það eitthvað skilyrði lýðræðis að fólk sé ekki sammála? Er ekkert lýðræði í landinu ef einn flokkur fengi 70% atkvæða, af því að allir eru svo sammála og hamingjusamir? Ef einhver einn flokkur nær völdum í landi og borg og stendur sig svo ömurlega og fokkar öllu upp er það eflaust afar slæmt fyrir efnahaginn, en ekkert sérstaklega vont fyrir lýðræðið. Lýðræðið heldur bara áfram og flokkurinn verður ekki kosinn næst. Auðvitað er hættan á því að of mikil völd fari í sömu hendur til staðar, en mér finnst frasinn vera leiðinlegur og ofnotaður og meira þurfi að koma til en að einhver flokkur sé áberandi stærri en aðrir. Þessi frasi er notaður of mikið. Stúdentapólitík ...er fyrirbæri sem ég er fáfróður um. Ég þekki fólk bæði í Vökuframboði og Röskvuframboði. Vaka hafði samband áðan og ræddi málin, sagði mér frá helstu stefnumálum sínum og vísaði mér á heimasíðu sína. Leist mér ágætlega á Vöku fyrir, þar sem hún titlar sig lýðræðissinnaða (haha) og skipar sér heldur lengra til hægri en Röskva. Röskvufólk er eflaust líka ágætisfólk, en það hefur ekki haft samband við mig. Hefur Röskva engan áhuga á mér? Hvers virði er einn maður í félagshyggjunni? Ekki ætla ég að kjósa hreyfingu sem sýnir miðpunkti alheimsins, mér, engan áhuga. Ég bíð þá bara eftir að síminn hringi Röskva mín.
Hann er byrjaður Bloggari er oss fæddur í borg Þórólfs. Hann er þó ekki sérlegur stuðningsmaður Þórólfs og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Geiradrottinn mun ríkja um alla eilífð og heyja sína orrahríð gegn herskörum Skattabjargar Skuldrúnar, til sigurs. Athugið síðu bróður míns. Ég hefi sett upp tengil á hana hér til hliðar næstefst á listanum, honum til dýrðar. Einnig... ...setti ég tengil á Ingu Huld sem er hvorki meira né minna en systir eins helsta kvenréttindabaráttumanns á Íslandi, Davíðs Þórs Tryggvasonar og eiginkona hinnar klassísku hornkerlingar. Inga skrifar skemmtilegt blogg sem hefur þann ótvíræða kost að spretta upp úr skynjun hennar á hataðasta og elskaðasta landi heimsins. Ekki veit ég hví ég gleymdi alltaf að setja tengil á hana. Þá hef ég sett tengil á síðuna Tár á kinnum Söru Lísu. Höfundur lýsir þessu sem Róman/erótískri skáldsögu með heimspekilegu ívafi og hittir hann þar naglann á höfuðið. Einnig hef ég fundið út að þetta er allegóría og hörð samfélagsgagnrýni. Sagan af Söru Lísu er bráðskemmtileg en grípur lesandann jafnframt heljartökum. Höfundur sögunnar er leikari.
Björt ljós á Bókhlöðu Hér áðan gekk framhjá mér kona með dökk sólgleraugu. Hún settist svo við tölvuna og skoðaði póstinn sinn. Hér er fín lýsing.
mánudagur, febrúar 17, 2003
Og já... ...nú eru Bandaríkjamenn farnir að verða virkilega pirrandi. Ummæli Bush, Rumsfeld og Powell undanfarið eru hrokafull og óþolandi. Frábært að vita til þess að þeir séu ekki á jafnréttisgrundvelli með öðrum þjóðum, gaman að sjá þá byrja að hóta þeim þjóðum efnahagsþvingunum sem eru ekki sammála þeim í einu og öllu. Þeir hafa ekki fært nógu mikil rök fyrir því að stríð skuli hefja í Írak en reka þess í stað þvílíkan reiði- og hræðsluáróður fyrir því. Powell, sem mér hefur fundist vera skástur af þessu annars stórfenglega þríeyki, sagði um daginn að þetta væri ekki tími fyrir deilur innan SÞ og ekki tími fyrir ágreining á vesturlöndum heldur væri þetta tími fyrir þjóðir SÞ að fylkja sér á bak við Bandaríkin. Ha? Jájá. Umræða og skoðanaskipti eru semsagt ekki málið, rökstuðningur fyrir stríði og mannúðarsjónarmið? Neibb, ekkert af þessu. Ég held að það sé mjög furðulegt að vera maður eins og Donald Rumsfeld. Ætli maður missi ekki alla raunsæismynd af heiminum þegar maður er búinn að vera í innsta hring í Hvíta húsinu síðan áður en Nixon varð crook. Tíu milljónir manna í Írak munu líða skort og þjáningar (þ.e. hafa þörf fyrir neyðaraðstoð SÞ) út af þessu stríði, sem er ekki búið að sanna að sé nauðsynlegt. Vinsældir Bandaríkjanna fara þverrandi um heiminn, en þeim er alveg saman, hóta bara efnahagsþvingunum á Evrópulönd. Disturbers of the peace. Ég held það ætti að gefa vopnaeftirlitinu meiri tíma.
Er Blair allur þar sem hann er séður? Ég held að Javier Solana sé Tony Blair með gerviskegg. Athugið fréttina á mbl.is í dag um ummæli Solana um stríð í Írak. Mér finnst þeir líkir.
Hundshjarta á Herranótt 2003 Já, ég skellti mér á frumsýningu Herranætur í gær. Það var ansi skemmtilegt og ég óska bara öllum sem að því stóðu til hamingju með þetta. Leikritið er gamanhrollvekja um vísindamann sem tekur flækingshund af götunni og græðir í hann hjarta úr nýlátnum manni. Vísindamaðurinn hefur einnig fundið upp nýja tækni, lífsgeislann, sem getur margfaldað lífskraft lífvera þúsundfalt. Nokkuð gott. Hundurinn breytist svo nokkurn veginn í mann. Hundurinn hafði verið góður fyrir aðgerðina, en lífið hafði greinilega farið illa með hann. Eftir aðgerðina er hann hins vegar dónalegur, siðlaus kommúnisti. Sigurður Arent Jónsson lék hundinn, Karl Ágúst Þorbergsson vísindamanninn, og Hilmir Jensson lék dr. Bordal, aðstoðarmann vísindamannsins. Þeir stóðu sig allir frábærlega vel. Mér fannst skemmtilegt hversu vel náðist að skapa stemningu eins og má sjá í gömlum hryllingsmyndum, mjög sniðugt að láta rafmagnið fara þegar aðgerðin á hundinum er í gangi´, tónlistin var mjög skemmtileg og það að varpa skuggum af fólki á leikmyndina virkaði mjög vel á mig. Ég sat reyndar mjög aftarlega, hefði viljað sitja nær. Mjög skemmtileg sýning.
sunnudagur, febrúar 16, 2003
Kvæði um val íslensku þjóðarinnar á framlagi til Evróvísjónkeppninnar 2003 Það er okkar þjóðarmein að þykja ljúfust söngva, helvísk djöfuls harmakvein sem hafa fegurð öngva.
Enn á ný hefur íslenska þjóðin smánað sjálfa sig Já þið vitið um hvað ég er að tala. Undankeppnin í Evróvísjón. Fyrst af öllu vil ég lýsa yfir viðbjóði mínum á því fólki sem sendi inn lög sem ekki komust í keppnina. Þau hljóta að hafa verið léleg. Það eitt að semja lag sem er lélegra en sigurlagið ,,Segðu mér allt" er nokkuð sem jafnvel ég gæti ekki afrekað. Ekki nóg með að lagið sé ömurlega lélegt, ófrumlegt og illa sungið, heldur verður greyið hún Birgitta sett í einhverja fáránlega múnderíngu og gerð eins og hálfviti þegar hún fer út. Ætli Svavar Örn tískufífl verði ekki fenginn í verkið til að Íslendingar verði ekki púkó fyrir framan allt fólkið úti í heimi, á svipaðan hátt og træbalbjáninn Einar Ágúst var settur í pils hér um árið. Mér er það minnisstætt þegar einhver öskrandi glimmerhommi kom í viðtal í sjónvarpinu og var spurður út í einmitt það pils. Hann fullyrti mjóróma að svona pils væru mjög mikið í tísku hjá strákum. Já, einmitt það. Aldrei áður og aldrei seinna sást nokkur maður í svona fábjánafötum enda engin ástæða til. Birgitta mun eflaust koma fram í einhverju ljótu, það má veðja á það. Grey stúlkan er nú svo indæl og góð virðist vera, en hefur gefið sig algerlega á vald markaðsfræðinganna. En eins og lesendur www.stuna.blogspot.com hafa lesið er höfundur lagsins sem Birgitta syngur markaðsfræðingur með doktorspróf frá Harvard. Það er því nokkuð víst hvers vegna hann valdi Birgittu sem söngkonu. Síðan hvenær semja doktorar í markaðsfræðum góða tónlist? Ha? Andskotans lúsablesar og ógeð. Hversu lengi á þetta að versna? Íslendingar hefðu getað lært af mistökum sínum í fyrsta skipti sem þeir kepptu í þessu, en þeir hafa gert það sama ár eftir ár með örfáum undantekninum. Komið er fram fyrir hönd Íslendinga af einhverju fábjánum sem telja sig vita hvernig sé nú best að líta út og vera til að falla í kramið hjá útlendingum, sem er snobbað grimmt fyrir. Ef Botnleðja hefði verið send út með lagið Eurovísu hefðu Íslendingar eflaust getað endurheimt eitthvað af því stolti sem þeir höfðu fram á níunda áratuginn. En nei, nú er þjóðin búin að sökkva sér niður í botnlausan mannskít með hor í nefinu og hland á heilanum. Ég neita að vera hluti af þessari þjóð, ég neita að vera kenndur við hóp sem lætur 20.000 emjandi smápíkur með bleika gsm síma taka ákvarðanir fyrir sig. Þarna sjáið þið, því fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur, því meira beint lýðræði, því meiri viðbjóður. Því segi ég: DIKTU Í EUROVISION AÐ ÁRI! DIKTU Í EUROVISION AÐ ÁRI! DIKTU Í EUROVISION AÐ ÁRI!
föstudagur, febrúar 14, 2003
Enn af Magnúsi! Hann hefur nú reynt að gera lítið úr mér með lygum og rógburði á síðu sinni. Þar segir hann mig hneigjast til vinstri í pólitík og talar svo um eigið óöryggi í þeim málum. Mér sýnist á öllu sem hann segir þar að hann sé ekkert annað en framsóknarlúsablesi. ,,Uuuu, er ég vinstri maður, er ég hægri maður? Mamma, hvað er ég?" - ,,Æ ég veit ekki Maggi minn, mér hefur aldrei fundist þú vera neitt sérstakt. Kannski ertu bara framsóknarmaður" ,,Uhuhu, mamma ég vil ekki vera framsóknarmaður!" Þetta leikrit var í boði Bónusfeðga.
Magnús Davíð Norðdahl stundar líkamsrækt þessa dagana. Því samdi ég í snatri stutta vísu ykkur til gamans á hans kostnað. Magnús lyftir þungum lóðum, lafmóður hann hamast þá hleypur hann og hlunkast óðum, hlaupabretti brotnu á. Skekur hann nú leggi og limi liðast um og skemmtir sér. æfir apakattafimi alveg þar til illa fer.
fimmtudagur, febrúar 13, 2003
Hvernig gastu gert þetta? Magnús Davíð Norðdahl hefur nú sett upp tenglasafn á spássíu vefsíðu sinnar, nema hvað þar er aðeins einn tengill. Hann er á síðu Unu Sighvatsdóttur. Þetta tel ég í meira lagi óviðeigandi og túlka ég þetta sem einhvers konar viðreynslu. Magnús hefur hér sýnt að hann er ekki allur þar sem hann er séður. Ósvífnari tenglanotkun hef ég ekki orðið vitni að í áraraðir. Hvað gerir Magnús næst? Setur hann pop-up glugga sem opnast í tugatali þegar maður fer inn á síðuna hans? Býr hann til vírus? Fylgist með ósvífnasta manni veraldar.
Danir ...eru merkilegt fólk. Það voru Danir í lauginni. Sennilega familía. Þau moruðu sig í pottunum og hlógu hátt og mikið. Ég veitti því eftirtekt, eins og alltaf þegar ég sé eða hitti Dani, að þeir eru eitthvað svo alþjóðlegir, maður getur ekkert áttað sig á því hvaðan þeir eru. Nú er ég ekki bara að tala um útlitið heldur klæðaburð og einhvern veginn...fas. Þessir voru alveg rosalega sólbrúnir og hressir, ekkert mjög Norðurlandalegir í útliti. ...mikið er þetta leiðinleg færsla. Í stað þess að tala um alþjóðlega Dani ætla ég að rifja upp atvik úr sumarbúðum þegar ég var lítill. Ég var á Ástjörn í Kelduhverfi fjögur sumur, fyrst þegar ég var sex ára og þá í mánuð, en hin skiptin í tvær vikur í senn. Í fyrsta skiptið var ég óskaplega lítill og viðkvæmur, það var mikil heppni að bróðir minn var þarna líka til að vernda mig. Við vorum fjórir sem fórum: Við bræðurnir, Héðinn Þórðarson vinur minn, og Heiðar Sigurfinnsson vinur bróður míns. En nóg um Heiðar. Þessi síða er um mig. MIG!. Jæja, á staðnum var strákur sem við skulum kalla Hafþór. Hann var stór, enda fékk hann undanþágu til að vera áfram þó svo hann væri orðinn of gamall. Hann var pínulítið kompleggsaður greyið og hagaði sér ekki alltaf eðlilega. Honum fannst Þorgeir bróðir minn skemmtilegur, og spjallaði stundum við hann. En nafnið vafðist fyrir honum. Þorgeir var því oft kallaður "hann". Það var svo eitt sinn að ég, Héðinn og Heiðar vorum inn í herberginu okkar í Maríubúð, en Þorgeir var fjarri góðu gamni, að Hafþór þessi kemur inn í herbergið og segir æstur: "Hvar er hann?" Heiðar spurði um hvern hann væri að tala, en þá brjálaðist drengurinn og byrjaði að æpa: "Hvar er hann, hvar er hann!? Ég þarf að tala við hann!" Skipti þá engum togum að hann þrusaði mér inn í kojuna og í vegginn en tók Heiðar föstum tökum og hrinti honum á vegginn svo höfuðið skall í. Svo hljóp hann út. Hann þurfti víst eitthvað að tala við Þorgeir, ekkert alvarlegt, bara að tala við hann held ég. Svona er þetta. Það var mikið af kynlegum kvistum þarna.
miðvikudagur, febrúar 12, 2003
Ég tók próf ...um það "hvernig gullfalleg kona" ég er. Niðurstaðan var þessi: You are a warrioress. Beautiful in your strenght, sad in the fact most men are intimidaded by you despite your stunning beauty. Já, þá veit maður það.
Davíð vill... ...nefnd um Evrópumálin. Hann hefur hingað til sagt nei í hvert skipti sem ESB hefur verið nefnt á nafn, sem er ágætt. Nú eru að koma kosningar og því hefur hann gert tillögu um að setja svona nefnd á laggirnar. Það er ágætt, þverpólitísk rannsökun á málinu er ágæt. En nú kemur voðalega pirrandi tími í fréttunum. Stjórnmálamenn mega ekki hreyfa sig án þess að maður úr öðrum flokki komi í viðtal og segi: "Ja, það eru nú líka að koma kosningar sko. Annars myndi hann aldrei gera þetta." Svo fer sá hinn sami og gerir eitthvað og segir eitthvað. Þá kemur sá fyrsti í viðtal og segir: "Já, vissulega eru að koma kosningar. En þetta er brýnt mál sem ég tel að þurfi að taka á. Svo má nú segja frá því að hann hinn þarna hefur aldrei viljað gera það sem hann gerði í dag, enda eru að koma kosningar sko."
Bjánar í sundi Sundhöllinn kl.900 í morgun, drengir í skólasundi fara í heita pottinn. Valinkunnur andans maður situr þar og morar sig. Drengirnir líta út fyrir að vera í 8.bekk. Sá valinkunni tekur strax eftir því að tveir þeirra hljóta að vera fífl. Búllís. Þeir líta einfaldlega þannig út. Þessir tveir standa fljótlega upp og fara í heitari pottinn. 42 gráður á Celsíus. Þar standa þeir hálfrembingslegir og brosa yfirlætislega, setjast niður í nokkrar sekúndur, standa svo aftur upp. Lítill drengur í svalari pottinum segir: ,,Haha, djöfull eruð þið að rembast við að vera í heitari pottinum. Töffarar maður. Það er svo ógeðslega óþægilegt að vera í þessum potti." Þá verða töffararnir reiðir og segja honum að halda kjafti. Svo koma þeir aftur yfir í hinn pottinn. Sá litli heldur áfram að kalla þá töffara og aðrir taka undir. Töffararnir standa í stiganum og halla sér upp að ísköldum steypuveggnum. Þeir eru reiðir. Annar þeirra segir: ,,Farð þú í pottinn, ég er viss um að þú getur það ekki." Þá svarar sá litli: ,,Auðvitað get ég það ekki, hann er allt of heitur, ég er ekki svona mikill töffari eins og þið, að rembast við að vera í honum." Þá segir töffarinn, enn reiðari: ,,Fokkaðu þér bara, kerling. Þú er helvítis aumingi." Nú er hann á svipinn eins og hann vilji berja þann litla. Svo segir sá litli: ,,Æ, ég er farinn upp úr, þessi pottur er of heitur líka." Svo fór hann og töffararnir stóðu eftir og skulfu upp við kaldan steypuvegg. Mín tilgáta er að töffararnir eigi eftir að verða afgreiðslumenn í matvöruverslun á Suðurnesjum, en sá litli verður forseti lýðveldisins.
þriðjudagur, febrúar 11, 2003
Draumur Í nótt dreymdi mig að móðurbróðir minn var forsætisráðherra og var með alveg eins hár og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Hann var á frumsýningu í þjóðleikhúsinu, en salurinn sem leikritið fór fram í var ekki á rökum reistur. Ég og fjölskylda mín vorum þarna líka, auk Ólafs Ragnars Grímssonar. Áður en leikritið byrjaði mætti Jóhannes Kristjánsson eftirherma til að hita upp. Hann var í gervi forsetans og fór með gamanmál. Ólafur Ragnar byrjaði að hlæja alveg ofboðslega mikið og hátt, en hann var sá eini sem hló. Móðurbróðir minn sagði fátt en var mjög stjórnmálamannslegur á svipinn. Ég man að í draumnum var ég óskaplega stoltur af því að hann væri frændi minn. Svo endaði draumurinn á því að ég og frænka mín stóðum frammi hléi og drukkum kók úr glerflöskum með rörum og töluðum um það hversu slöpp leiksýningin væri. Mér þætti gott ef fólk kæmi með haldgóða ráðningu á þessum draumi hér í kommentagluggann.
Um... ...jólin var ég 106 kg. Nú er ég 98 kg. Djöfull er það magnað. Það er annað í fréttum að seint í gærkvöldi kom yfir mig einhver viðbjóðslegur andi sem neyddi mig til að yrkja vísu. Hún reyndist mjög ljót, í fjórum erindum og hafði slæman boðskap. Þegar ég náði að hrista möruna af mér hafði hún náð að skrifa vísuna niður í word og vista hana. Það gæti farið svo að ég birti hana hér. Yfirnáttúrulegar verur eru til.
mánudagur, febrúar 10, 2003
STÓRFRÉTTIR! Frá afskaplega áreiðanlegri heimild hef ég þær upplýsingar að nýr bloggari bætist bráðlega í hópinn. Það er enginn annar en minn eigin einkabróðir. Þá verður formælingum og -dæmingum ausið yfir land og mið. Hann mun hella úr skálum reiði sinnar svo allir helstu reiðibloggarar munu blikna í samanburði. Ég hef trú á því að hans einkenni verði uppnefningar, hótanir, skammar-, fúk- og fúlyrði! Bjartari tímar renna nú upp! Fögnum öll sem eitt! Aumingjablogg dagsins er... ...www.gisli.blogspot.com. Maðurinn sem tók sér dómarasæti er fallinn í gryfju þess sem hann fyrirleit af svo mikilli heift. Tilvitnun dagsins er... ...í stórleikarann Arnold Schwarzenegger: "If you get behind, jonjóón."
HA? HAHA Spurning með innbyggðum kynþáttafordómum: Ef Sing Song fer til Hong Kong að spila ping pong við Ding Dong, og deyr þar, hvað er þá sett á líkkistuna hans? Svar við spurningu með innbyggðum kynþáttafordómum: Lok.
Þetta er alltaf spurning um hugarfar Ég veit ekki hvort þetta er þægilegasta tímabil lífs míns, eða það leiðinlegasta. Ég mæti sjaldan í skólann, ræð mér algerlega sjálfur, stunda heilbrigða hreyfingu, geri nokkurn veginn það sem ég vil samhliða því að reyna að vera samviskusamur nemandi. Hins vegar er mér allaf illt í löppinni, það er ógeðslega leiðinlegt að lesa upp námsefni aftur, ég hitti ekki þá sem skráðu sig úr eina faginu sem ég skráði mig ekki úr, ég er í skóla þar sem ég þekki næstum engan. ?
Íþróttatýpurnar ...eru ógeðslegar. Nú er ég ekki að tala gegn íþróttum eða iðkun á þeim, heldur því þegar þær yfirtaka allt hugarástand fólks og stjórnar aðgerðum þess niður í allra minnstu smáatriði. Klæðaburður, hreyfingar, umræðuefni o.s.frv. Áðan gengu tvær stúlkur á undan mér frá kaffistofunni upp á fjórðu hæð á Buchladen (The Bucklaid). Þær voru sportý, djöfull voru þær sportý. Ekkert er betra en íþróttagalli úr skrjáfefni á bóklöðunni, svitaband og kreistiflaska. Hún tekur helvíti mikið á eðlisfræðin. Þegar gengið er upp stiga er nauðsynlegt að taka alltaf tvær tröppur í einu. Þá fær maður dýpri hreyfingu í hnén og rassinn, það tekur ansi vel í framan á lærunum og gluteus maximus pumpast allur upp og verður stinnur. Við göngu þarf að sveifla höndunum vel fram og aftur til að ná meira svíng í ferðina, herðablöðin fá smá hreyfingu með og það er gott að liðka hálsinn af og til, yppa öxlum og spenna upphandleggsvöðvana. Maður hendist miklu hraðar áfram og er kominn að borðinu á mettíma til að byrja að læra. Buxurnar þurfa að vera þröngar og úr teygjanlegu efni. Annars væri þetta allt til einskis. Á leiðinni upp töluðu stúlkurnar svo um einhverja helvítis pallaleikfimi og hvað einhver gaur er massaður og flottur. Halda mætti að valinkunnir andans menn væru bara öfundsjúkir út í drullumassaða kúkaklepra með sigg á ólíklegustu stöðum. Svo er hins vegar ekki.
föstudagur, febrúar 07, 2003
Faðerni ...er fyrirbæri sem oft er erfitt að skilgreina. Helmingur fólks veit ekki undan hverjum það er. Svo virðist sem ég eigi síðhærðan, vinstrisinnaðan, fjölfróðan, hávaxinn, ljóshærðan og svipljótan son. Þetta vissi ég ekki fyrr en nú. Þá er bara spurning hver móðirin er. Þetta hlýtur að hafa gerst svefni eða meðvitundarleysi af einhverju tagi. Vinir í raun? Flestir menn vilja trúa því að vinir þeirra séu þeim tryggir og traustir. Þeir vilja eiga sér stoð í félögunum og geta reitt sig á þá. Í ljós hefur komið að ég er ekki í þeirri stöðu. Birgir Pétur Þorsteinsson, Jens Þórðarson og Magnús Davíð Norðdahl hafa allir gert fólskulega tilraun til að láta mig klæðast kvenmannsfötum er ég sæki gleðskap í kvöld. Þetta var auðvitað aldrei í sjónmáli hjá mér, því ég hef ekki ánægju af því að klæðast slíkum fatnaði, þó hann sé nokkuð góður til annars brúks, svo sem að þurrka af húsgögnum ryk. Birgir ætlar að fagna afmæli sínu lítillega í kvöld og laug því að mér að það væri þema, allir ætluðu að klæðast kvenmannsfötum. Magnús tók svo þátt í þessu hér áðan með því að segjast ekki vera viss í hvernig kjól hann ætlaði. Þó Magnús hafi leikið á Herranótt tvö ár í röð virðist hann ekki vera betri leikari en svo að hann glotti út í annað allan tímann sem hann talaði um málið. Hann horfði ekki í augun á mér og talaði undarlega. Magnúsi tókst ekki að sannfæra mig, og þó svo honum hefði tekist það hefði ég sjálfur aldrei mætt í kvenmannsfötum á staðinn. Ég vildi frekar vera sá eini sem mætti ekki í dragi en að vera sá eini sem mætti í dragi. Viðurstyggilegur kvenmaður ...vatt sér upp að mér í gær og spurði mig hvort tölvan við hliðina á mér væri laus. Ég kvaðst ekki vita það. Hún settist niður og vann sína vinnu, svo fór hún. Stuttu síðar kom hún aftur á mikilli ferð. Hún sagði mér (án þess að ég hefði sýnt nokkurn áhuga á því) að hún hafði gleymt að skrá sig út af heimasvæðinu sínu þegar hún fór. Svar mitt við því var: ,,Já". Því næst byrjaði hún að hlæja. Hún hló mikið og tók bakföll við það. Í þann mund sem fyrsta bakfallið hóf göngu sína rann tungan út úr henni og hálfa leið að vinstra eyra hennar. Þá varð veröld mín öll hæg og sljó, ég byrjaði að skynja hvert einasta smáatriði í nánasta umhverfi mínu. Tunga stúlkunnar sveiflaðist í átt til mín ofurhægt, en ég vék mér undan með því að taka hnébeygju. Slímugur vöðvinn lenti svo á hægri kinn og slettist þá vessinn af henni á skjá tölvunnar sem hún sat við. Eitthvað úðaðist í endurkasti af skjánum og sá ég hvar feitlaginn maður datt aftur fyrir sig vegna undrunar þegar gusan stefndi í átt til hans. Hann var með fangið fullt af blöðum, möppum og bókum sem hrundu á gólfið og dreifðust jafnt um það. Þegar hann lenti á jörðinni gekk vömb hans fram og aftur í löngum bylgjuhreyfingum sem ætluðu aldrei að hætta. Kvenmaðurinn hélt áfram að skekja sig og var nú kominn með dýrslegan glampa í augun. Ensímin láku niður höku hennar á prjónapeysuna og byrjuðu um leið að melta hana. Andardráttur skepnunnar var þungur og hægur, en samfara honum heyrðust hrygluhljóð og viðbjóðslegt bergmál af óhugsanlegum búkhljóðum. Ég fann skyndilega hvernig heimurinn fór aftur á venjulegan hraða, maðurinn týndi saman blöðin sín, kvenmaðurinn skráði sig út úr tölvunni, stóð upp og fór. Ég sat eftir, bergnuminn.
fimmtudagur, febrúar 06, 2003
Ég er eiginlega á því... ...að ég þurfi að skreppa austur á land og skoða svæðið sem Hálslón á að þekja. Það væri áhugavert. Náttúruverndarsinnar sýna alltaf sömu þrjár myndirnar aftur og aftur, þar af eina frá Eyjabökkum (je). Ég treysti sjálfum mér ágætlega til að skoða svæðið og úrskurða um hversu mikil perla mér finnst það vera. Einhverjir hafa þegar gert sér ferð og m.a. hef ég heyrt og lesið að þarna sé ekkert nema urð og grjót. Um það veit ég ekkert, enda hef ég aldrei komið þarna. Þeir sem vilja koma með geri svo vel og skrifi athugasemd við þessa færslu, nú er allavega búið að leggja almennilegan vegspotta þarna uppeftir svo þetta ætti ekki að vera of mikið mál. Bara spurning hvenær þetta væri hægt að gera, það eru jú alltaf allir á fullu, og svo kostar þetta pening og svona. Hm.
Plögg - "samböndun" að hætti SG Gunnar Páll Baldvinsson, sá óútreiknanlegi refur og ískaldhæðni tívolílurkur, hefur hafið bloggun. Síðan hans er forkunnarfögur og vel upp sett, og ber hún keim af síðu skólafélags MR. Hann skrifar um asnalega hluti og stjórnmál. Það er ágætt. Ég hef sett tengil á helvítið hérna til hliðar. Njótið. Annars er fullt af bloggurum sem maður vissi ekki af, kommadjöfullinn Albína er byrjuð á þessu og hefur verið að ég veit ekki hve lengi. Ég hef ekki farið inn á síðuna hennar þegar ég skrifa þetta, en það má búast við því að hún reyni af sjúga úr manni lífsþróttinn hvenær sem maður kemur nálægt henni. Farið inn á síðuna hennar á eigin ábyrgð.
þriðjudagur, febrúar 04, 2003
Gísli... ...hefur farið öfugu megin fram úr rúminu. Kannski er veggur þeim megin, það gæti útskýrt þá árás sem hann gerir á umheim sinn í nýjustu færslu sinni. Jú, víst er það að ég hef ekki staðið mig sem skyldi, en fyrir því er sú ástæða að tölvan mín crashaði feitt. Ég get ekkert bloggað heima. Auk þess hef ég skrifað ýmislegt sem ég hef ekki birt ennþá. T.d. grein þar sem ég svara þessum þremur spurningum með óhrekjandi hætti: Er Guð til? Er tilgangur með lífi okkar? ...og... Er líf eftir dauðann? Þá hef ég einnig hafið ritun smásagnar sem óvíst er um hvað fjallar. En jæja. Gísli er nú samt fínn náungi þrátt fyrir þetta. Ræðukeppni ...áðan var ég að dæma keppni Versló-FS í MorfÍs. Mér fannst það skemmtilegt og naut mín við það. Árni Helgason og Konráð Jónsson voru að dæma með mér, Árni oddadómari. Versló rústaði keppninni með égveitekkihvemörghundruð stigum. Breki Logason var ræðumaður kvöldsins, hann stóð sig vel. Ég dæmdi reyndar vin hans, frummælandann jafnháan Breka. En jæja, það bar helst til tíðinda á keppninni að stuðingsmaður FS féll í trans í seinni ræðu sinni og sagði ekkert af viti í 2,5 mínútur og svaraði svo næstum ekkert. Hann fékk 10 í geðþótta. Verslóliðið sýnist mér þrælsterkt og allir ræðumenn þar góðir. Þetta er eitthvað sem hann Jói minn þarf að kljást við. Aumingja drengurinn. Hann var þarna á staðnum og var yfirmátahress. Öllu tók hann með stakri ró. Enda yfirvegaður maður og í sátt við líkama sinn og sál. Versló er stórt hús. Ég held það hafi meira af göngum og stigum en kennslustofum. Og já, djöfull er hann forneskjulegur. Þeir voru með fekking krítartöflur í stofunum. Allt í tússi í MR sko. Nú geta vösslararnir heldur ekki montað sig af nettengdum tölvum í stofum og skjávörpum. Allt er þetta komið í MR, nema bara aðeins flottara. En hvað er ég að segja, ég er bara einskis verð kennitala í HÍ. Öllum er sama um mig.
Evróvísjón ...er furðuleg keppni. Íslendingar hafa lengi tekið þátt í henni. Fyrst um sinn fannst Íslendingum keppnin mjög merkileg, allir horfðu á og voru spenntir. Íslendingar voru líka vissir um að vinna. Íslendingar eru svo svalir. En Íslendingar unnu ekki, þeir hvern hallærishundinn á eftir öðrum en hvorki gekk né rak. Menn eins og Eyjólfur Kristjánsson og Eiríkur Hauksson dugðu ekki til, er til eitthvað betra? Svo kom að því að Íslendingar þreyttust á þessari keppni. Íslendingar eru of svalir fyrir þessa asnalegu Evróvísjón. En þeir héldu samt áfram að senda hallærishunda, og þeir héldu samt áfram að horfa. Íslendingar eru bara svalastir<>. En nú... ...er annað hljóð í strokknum. Enginn annar en föðurbróðir minn Páll Torfi Önundarson hefur samið lag og keppir það til úrslita í söngvakeppni sjónvarpsins. Það er því víst að valinkunnir andans menn fylgjast með þessu öllu saman. Fyrsta kynningarkvöldið var í gær, það lofaði góðu fyrir Pál Torfa því tvö af þeim lögum sem kynnt voru í gær voru hreint út sagt hræðileg. Friðrik Karlsson með sitt "world"-lag. Það er einmitt ávísun á hörmulega tónlist þegar það er world-keimur af því. Þá er það blanda af kenýskum bakröddum með raftrommum og Michael Jackson texta, Michael Bolton söngstíl og Kenny G saxófónsólói. Hitt ömurlega lagið hét allt. Nei, afsakið það hét Allt. Það lag var mjög merkilegt. Flytjandann hef ég ekki séð áður, og vil ekki sjá aftur. Mér þætti reyndar gaman að heyra lagið aftur því það vill svo til að ég hef samið þetta lag sjálfur, oft meira að segja. Ég sem það næstum því í hvert skipti sem ég raula. Algert ógeð. Heiða í Unun var svo þarna með lag sem var ágætt. Frændi rústar þessu.
mánudagur, febrúar 03, 2003
Spennandi líf Ekki nóg með að ég eigi að dæma MorfÍs keppnina Verzló-FS á morgun í Bláasal klukkan 20:00 heldur er ég stöðugt uppfærður í hinum síbreytilegu og mjögsvokynferðislegu ástamálum MR-inga. Svona er að vera í nánum tengslum við innanbúðarmann. Það virðist vera að nú ríði hver tuska á MR-ingum öllu í kringum sig. Hver var með hverjum? Hverjir voru með hverri? Hvað var með hverjum? Á hverjum degi fæ ég að vita hverjir voru góðir og hverjir voru óþekkir. Nú hefði ég getað bent á fyrri umfjöllun mína um lið FS í MorfÍs en þar sem allar færslur mínar frá liðnu ári voru hrifsaðar af mér get ég það ekki. Húrra fyrir blogger.com
Sjúkdómsgreining fengin! Sá afgamli læknanemi sem reyndi að veita mér netvædda sjúkdómsgreiningu á hnémeini mínu var á villigötum í sjúkdómsgreiningu sinni, enda ekki við öðru að búast þar sem hann hitti aldrei sjúklinginn og pældi kannski ekkert mikið í málinu. En sá ágæti læknir sem ég fór til, starfandi við læknastöðina í Álftamýri 5 í Reykjavík hefur komist að því hvað hefur valdið verkjum í vinstra hné mínu og sköflungi. Hann sendi mig í röntgenmyndatöku og segulómskoðun. Það var gaman, sæt hjúkrunarkona og svona. Svo hringdi maðurinn í mig um helgina og sagði mér allt af létta. Hann kom með langa latneska runu sem átti að segja mér eitthvað á þá leið að það væri góðkynja hnútur í sköflunginum á mér u.þ.b. 7 cm fyrir neðan hné. Ég skil orðið "hnútur" sem "æxli". Góðkynja æxli. Mikið er ég feginn að það er góðkynja. Þannig að beinið í mér er búið að vera að vaxa óeðlilega inní sjálfu sér í heilt ár og ég hef haft af því ánægju allan þann tíma. Þessi hnútur er að valda þrýstingi og spennu í beininu og það virðist hafa leitt svo upp í hnéð. Svo er það svo merkilegt að eftir að ég fékk þessa vitneskju hefur verkurinn haldið sig aðallega í sköflunginum, en látið hnéð vera. Mannshugurinn er alltaf tilbúinn að svíkja mann. Ég hélt að mér væri illt í hnénu en mér var illt í leggnum. Læknirinn minn var svo ekki bara hjálpsamur og góðviljaður heldur einnig hógvær, hann ætlar að senda mig til annars læknis sem hann segir að viti meira um málið og hafi fjarlægt svona lagað. Þar versnaði nú í því. Þeir ætla sennilega að saga af mér löppina (skera mig upp) til að ná þessum ófögnuði út úr beininu. Hinn læknirinn á að hafa gert það oft áður, þ.e.a.s. við annað fólk. Þá er það ákveðið, mikið gaman, mikið fjör. Vatnsflaska Mig vantar vatnsflösku. Ef einhver á slíka flösku má hann koma með hana á fjórðu hæð þjóðarbókhlöðunnar Gísli læknanemi Bergmann... ...var fótgangandi á ferðalagi um krossgöturnar Snorrabraut-Bústaðavegur-Miklabraut-Hringbraut áðan. Hann var í svartri úlpu og með svarta húfu. Sólin skein í andlitið á honum svo að hann stóð eins og versta greppitrýni og rýndi fram fyrir sig til að sjá hvort hann yrði fyrir bíl ef hann færi yfir götuna. Ég reyndi að heilsa með litlu veifi, hann sá ekkert. Eflaust að pæla í kynfræðslukaflanum í bókinni "læknisfræði".
Macbeth Hinn óperuóvani og valinkunni andans maður fór á frumsýningu Macbeths eftir Verdi á laugardaginn. Það kom honum á óvart hversu bráðskemmtilegt þetta var. Sýningin var öflug og hröð og lágmenningarsinnaðir menn gátu haft af mestu skemmtun þó svo enginn alkunnur óperuslagari hafi verið þar á ferð. Tónlistin rann í gegn jafnt og þétt og textaskjárinn fyrir ofan sviðið sá til þess að helstu menningarvitar Íslands væru ekki alveg úti á þekju í söguþræði og öðru mikilvægu. Óperan er auðvitað gerð eftir leikriti Shakespeares og það er skemmtilegt að sjá skosku nöfnin ítaliseruð: Duncan = Duncano, Macbeth = Macbeto. Jóhann Friðgeir Valdimarsson stóð sig asskoti vel sem Macduff. Þannig var nú það. Furðulegt að það verði bara 8 sýningar á þessu og það þurfi að borga milljónir með sýningunni, allavega svona miðað við það að sum leikrit ganga í meira en ár í Þjóðleikhúsinu án þess að stoppa. Já, furðulegt.