#b-navbar { height:0px; visibility:hidden; display:none }

föstudagur, janúar 31, 2003

Veislan Hinum valinkunna andans manni hlotnaðist sá heiður að þiggja leikhúsferð að gjöf frá lafði Unu. Haldið var til smíðaverkstæðis Þjóðleikhússins til að sjá danska leikritið Veisluna, sem gert er eftir samnefndri dogmamynd. Ég sá myndina á sínum tíma og þótti hún stórgóð. Leikritið var auðvitað miklu sterkari upplifun, enda er smíðaverkstæðið svo skemmtilega skipulagt að áhorfendur eru mikið meira með í leikritinu. Einhverjir höfðu borgað aukalega og sátu því við veisluborðið sjálft. Hilmir Snær stóð fyrir sínu og rúmlega það, Arnar Jónsson klikkaði ekki frekar en venjulega og fleiri góðir voru á staðnum. Reyndar var álit mitt að Rúnar Freyr Gíslason hefði ekki verið sérlega sannfærandi í sínu geðshræringar-gráts-og-gnístran-tanna-atriði. Hann er meira svona söngleikjatýpan. En hann er ágætur, þó svo að pabbi hans hafi einu sinni brotið oddinn af uppáhaldshnífnum mínu helvítis, djöfulsin... Já. En það var skemmtilegt að fylgjast með fólkinu við borðið sem ekki var að leika. Sumir virtust ekki hafa vitað plottið fyrirfram og horfðu með viðbjóði á Arnar Jónsson þegar Hilmir hélt sínar ræður og sagði frá níðingsverkum föður síns. Aðrir glottu allan tímann, meira að segja á meðan Þórunn Lárusdóttir, sú indæla stúlka, var lamin í klessu fyrir framan matardiskinn þeirra. Svona er þetta nú. En það var gott múf í endann að láta Hilmi Snæ og Arnar Jónsson haldast í hendur þegar þeir voru að hneigja sig. Maður hafði bara gott af því að fá smá áminningu um að þetta var nú bara leikrit en ekki alvara. Arnar er eflaust ágætis karl!

Sund ...er góð hreyfing. Hreyfing er góð. Ég er farinn að finna fyrir líkama mínum aftur. Hélt að hann væri kannski bara blekking. En nei, fótatökin í bringusundinu hafa sýnt fram á að blóð rennur enn um æðar mér.

fimmtudagur, janúar 30, 2003

Tónleikarnir í gær... ...voru bara fjandi vel sóttir og var góð stemning jafnt hjá hljómsveit sem áhorfendum. Peningarnir streymdu inn og geisladiskarnir út. Ég vissi þetta, nú fer að styttast í að ég geti gefið út þessa bók og orðið ríkur. Upphitunaratriði það sem flutt var fyrir sjálfa framkomu Diktu þótti með eindæmum frumlegt. Tveir gítarleikarar léku listir sínar, eða einn spilaði og hinn lék listir sínar með ýmsum fídusum og fetishum sem hann festi á gítarinn. Mér fannst þetta persónulega bara ágætt en hefði mátt vera eins og 7 mínútum styttra. Ég er ekki nógu þróaður í listinni til að meðtaka alla snilldina. Þá steig Dikta fram. Drengirnir byrjuðu á laginu Taminóra, og má með sanni segja að þeir hafi farið á kostum við flutning þess. Haukur Heiðar riðlaðist af slíku offorsi á gítar sínum að hann reif ólina í sundur. Á fyrsta lagi! Ekki gat hann hætt að spila þar sem lagið var nokkurn veginn í klímaxi og því varð gítarinn að einhvers konar blöndu af kontrabassa og pendúl sem dinglaði fyrir framan söngvarann. Til að bæta úr þessu setti hann upp einhvern skemmtilegast svip aldarinnar. Svipurinn gaf til kynna að söngvarinn góði væri að reyna að hafa hægðir. Þetta gat ekki gengið til lengdar. Þá kom það besta. Haukur setti gítarinn í gömlu góðu Beach Boys stellinguna alveg upp í handarkrika og lék þannig eins og prúður Bítill á yngri árum. En lagið tók sinn enda og þótti sá allsvakalegur. Fagnaðarlætin ógurleg. Lögin rúlluðu svo í gegn eitt af öðru og Magnús Norðdahl færði fingurna æ nær eyrum sínum þar til eyru og fingur urðu að dásamlegri einingu. Þegar stutt var eftir tóku þeir að gera meiri kröfur til áhorfenda og fóru niður í kjallara hússins til að láta klappa sig upp. Það er eitt að láta klappa sig upp, en að láta klappa sig upp úr kjallara er ekki á færi hvaða hljómsveitar sem er. Áætlunin gekk upp hjá þeim og eftir þetta stutta en skemmtilega hlé fengum við að heyra lag eftir Eyvöru Pálsdóttur (Clickhaze?) og meira eftir þá sjálfa. Á staðnum var nokkuð af fólki sem ég þekki en meira af fólki sem ég þekki bara ekki neitt. Haukur hinn eldri var þarna í góðum fíling og dansaði hann fyrir framan sviðið allan tímann. Góðir tónleikar, sérstakur bónus fyrir að vera með nakinn trommuleikara, annars er ekkert rokk.

miðvikudagur, janúar 29, 2003

Dikta á tónleikum! Alla þá sem ekkert hafa að gera í kvöld, sem og þá sem hafa nóg að gera, hvet ég til að mæta á Gauk á Stöng klukkan níu og borga 500 kr. inn. Hin stórgóða rokksveit Dikta heldur þar útgáfutónleika sína til að fagna frumburðinum. Plata sú nefnist Andartak og er mjög góð. Sveitarmeðlimir eru engir vitleysingar heldur Haukur Heiðar Hauksson hinn vel ættaði, Skúli Gestsson hinn hrukkótti og fluggáfaði, Jón Bjarni Pétursson hinn fingralangi og Jón Sigurðsson, það þarf nú ekkert að kynna slíkan mann frekar. Semsagt: rokk, 21:00, 500 kr, mikil skemmtun! Handbolti Er ekki bara fyrir fávita eins og sumir vilja halda fram. Hann er fyrir fávita og aðra sem hafa áhuga á honum. Villan í skoðanakönnuninni hefur verið leiðrétt og ég er viss um að einhverjir sofa betur á nóttunni héðan í frá.

þriðjudagur, janúar 28, 2003

Veikindi ...eru þess eðlis að bæði aðgerðaleysi og aðgerðavilji fylgja þeim. Það er hvimleitt. Þegar ég ligg í rúminu slappur heilan dag langar mig alltaf til að fara í sund, út að hlaupa, að lyfta og að læra geðveikt mikið og fara svo á roknafyllerí um kvöldið. En ég ligg bara. Alþingi ...var í sjónvarpinu í dag eins og oft áður. Þar sem ég var veikur heima fylgdist ég með nokkru af fyrstu umræðu um Álversverksmiðju í Reyðarfirði og hluti tengda því máli öllu saman. Steini J. kom upp í pontu og flutti þar ræðu sína ágætlega. Ég er hins vegar ekki nógu vel að mér í þessum málum til að setja út á einstök efnisatriði í ræðunni. En hann fleygði þar fram gommu af tölulegum staðreyndum (?). Þingmaður sá (held það hafi verið Arnbjörg Sveinsdóttir, man það ekki alveg) er veitti andsvar byrjaði á því að segja að í ræðu Steingríms hefðu komið fram rangfærslur og hálfsannleikur af ýmsum toga. Ég veit minnst um það, en hann er oft með aðrar tölur en allir aðrir sem tala um sömu hluti og hann. Alltént sagðist þingmaðurinn ekki nenna að eltast við þessar rangfærslur Steingríms. Ég verð nú að segja að mér finnst fátt betra ræðuefni hjá andstæðingi Steingríms en einmitt að benda á þær villur sem hann fer með í máli sínu. Fyrst hún gat greint villurnar hjá honum jafnóðum eftir því sem hann talaði (sem var hratt) þá ætti hún að geta leiðrétt þær að einhverju leyti. Í stað þess að reyna það varpaði hún fram spurningu þess efnis hvort fólkið á Austfjörðum skipti Vinstri-græna engu máli. Steingrímur hafði einmitt talað þó nokkuð í ræðunni um það hvernig fólkið þar skipti hann jafnmiklu máli og fólk annars staðar á landinu. Það er pirrandi ef þingmaður getur gengið í pontu á Alþingi og farið með rugl og vitleysu án þess að nokkur kæri sig um að leiðrétta það. Var kannski bara allt satt og rétt sem hann sagði? Eða er fólk kannski orðið þreytt á að leiðrétta vitleysu í einstökum þingmönnum? Hver veit? Ég veit bara að það er sérlega pirrandi að hlusta á tvo pólitíkusa rífast um eitthvað atriði og það eina sem þeir þurfa að segja til að hrekja orð hvors annars er "nei". Hversu oft heyrir maður þetta ekki?

mánudagur, janúar 27, 2003

Ábending ...áhugamönnum um fólk til að varast bendi ég á síðu Stefáns Einars þar sem hann fjallar um ofbeldishneigðan skólabróður sinn úr Verzlunarskólanum. Gáfulegt að varast menn sem henda gangstéttarhellum!

Ný skoðanakönnun ...er komin upp hér niður til vinstri á síðunni. Athugið hana. Úrslit þeirrar síðustu urðu að almenningur telur Mikján Jálksson undarlegasta mann veraldar. Í öðru sæti varð Ástþór Magnússon hinn stórskemmtilegi friðarverndari og jólasveinn, en bronsið fékk engin önnur en Camilla Parker Bowles. Það þykir mér merkilegt, gæti verið að fólk sé ekki að kjósa eftir sannfæringu sinni í þessari háalvarlegu könnun?

Saurlífishelgi dauðans Sá maður sem ég hældi í síðustu færslu minni á þessari síðu er afvegaleiðir mikill og glapstigumaður. Hann varð þess valdandi að síðasta laugardag breyttust vel upp aldir og sæmilega greindir ungir menn í óaldarseggi og fábjána. Þannig var mál með vexti að Magnús hélt drengjakvöld. Það kvöld átti að iðka karlmannlegar athafnir svo sem teygun mjaðar, skák og ofát. Áður en nokkuð markvert gerðist héldu Garðar, Jens, Norðdahl og Önundur á American Style þar sem Magnús var lítillækkaður af starfsfólki staðarins en fékk í staðinn litla skál af frönskum kartöflum. Hann var sáttur. Fleira gerðist sem ekki var búist við eins og t.d. að vissir fyrrverandi forsetar ákveðinna félaga rifu sig úr skyrtum sínum, spenntu belti um brjóst sér og heimtuðu að menn tækjust á við sig líkamlega. Íþróttaiðkun þetta kvöldið einskorðaðist við sjómann og gamnislag. M.a. reyndu Arne Helgesen og Ari Bálstál að henda gestgjafanum út fyrir hússins dyr með tilheyrandi átökum. Hr. Norðdahl stóð af sér þá árás sem aðrar og hélt velli. Áður en lengra er haldið er rétt að óska Jens Þórðarsyni til hamingju með að hafa sigrað skákmótið. Vinningafjöldi hans var mikill enda ástand hans eftir því. Það var hálfur vinningur fyrir hvern bjór sem var drukkinn. Ætli Jens hafi ekki verið að fara með tvo vinninga að meðaltali frá hverri skák. Þetta gerði hann svo allt til þess að vinna rauðvínsflösku sem kostaði minna en það sem hann eyddi í að vinna sér fyrir henni. Auk þess sem flaskan nýttist sérlega illa og helltist að miklu hluta niður eða var hellt niður. Tónlistarsmekkur manna var mismunandi þetta kvöld. Einn vildi einungis hlusta á Frank Sinatra syngja lög eins og My way, einhverjir vildu hlusta á Snoop doggy dogg og enn aðrir á hljómsveitina Ég. Þarna voru því ólíkir menn á ferð, enda var rifist um ýmsa hluti. Við það urðu til fleygar setningar eins og: Það er eins og maðurinn hafi aldrei séð neina nekt! Farðu í skyrtuna! Nytjastefnan er bara fyrir homma! Ég tek þig og svo tek ég hann! Undirritaður svaf fyrir framan sjónvarpið heima hjá Norðdahl þessa nótt og vaknaði svo eldhress morguninn eftir. Þá var pöntuð pözza og horft á skoska sjómenn segja Íslendingum hvað er best fyrir þá í silfri Egils. Þá var farið í sund og svo borðaður þorramatur.

föstudagur, janúar 24, 2003

Magnús Davíð Norðdahl ...er sætur strákur.

fimmtudagur, janúar 23, 2003

P-mál eða Td-mál Í þættinum "Af fingrum fram" um daginn með Jóni Ólafssyni var hljómborðsleikari úr Mezzoforte. Hann var að segja frá P-málinu sem hann talar stundum. Það gerir hann þegar hann vill ekki að aðrir skilji sig en þeir sem kunna P-mál. Það gengur út á að á eftir hverjum sérhljóða er sami sérhljóði endurtekinn með p fyrir framan. Þannig myndi ég heita: Öpönupundupur Pápáll Rapagnaparssopon. Og á sama hátt myndi Björn Erlingur Flóki Björnsson heita: Bjöpörn Eperlipingupur Flópókipi Bjöpörnssopon. Þetta er ágætt. Sjálfur hef ég lengi talað mitt Td mál, en það gengur út á að skipta g út fyrir d(j) og k fyrir t(j) í byrjun orða. Auk þess sem g er fellt út ef það er á undan j í orði. Íslenska: Gunnar er að gægjast á kökuna hennar Klöru. Td-mál: Djunnar er að djæjast á tjökuna hennar Tlöru.

miðvikudagur, janúar 22, 2003

Í dag ...fer ég í segulómskoðun í læknastöðinni Álftamýri 5. Þetta er dýrðardagur. Ég vona að þeir taki fótinn af við hné og ég fái bara almennilegan gervilim. Gervilimir eru orðnir svo geysilega skemmtilegir nú til dags að það er varla að maður myndi sjá eftir löppinni ef hún færi. En auðvitað verður að hafa orðtækið í huga: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Maðurinn í næstu tölvu hér á þjóðarbókhlöðunni er mjög hress. Hann er með sítt hár og steinsefur með hökuna í bringunni og slefar á peysuna sína. Ég held að hann sé þreyttur. Hann var mættur hér um hálfníu og var þá að dotta fyrir framan tölvuna. Nú er hann búinn að sofa samfleytt í klukkutíma. Það má búast við því að hann verði slæmur í hálsinum þegar hann vaknar. Kannski dettur höfuðið af honum ef hann vaknar ekki bráðum. Slíkt hefur gerst. Einhver ætti að vekja hann. Einhver.

Hvernig hljóð... ...ætli söngvarinn í Sigur Rós gefi frá sér þegar hann mótmælir? Ætli það sé hægt að gera mjög agressívt "tjú". Einhvern veginn svona: ,,FOKKING TJÚÚÚÚÚÚHÚÚÚÚ!!!" Með djúpri röddu svo undir taki í sölum ráðhússins.

þriðjudagur, janúar 21, 2003

Haukur Heiðar Hauksson... ...er vinsamlegast beðinn um að hefja bloggun á nýjan leik. Eða með orðum Winstons Churchill: FARÐU AÐ BLOGGA MANNFJANDI. Takk fyrir.

Niðurstöður skoðanakönnunar og ný skoðanakönnun! Hér á síðunni var gerð yfirgripsmikil könnun á því hver æskileg líkamshæð kvenfólks er (burtséð frá heilsufarssjónarmiðum). Svo virðist vera sem fólk kjósi frekar gríðarvaxið kvenfólk en mjög smávaxið, þó svo að flokkurinn 70-90 cm hafi notið nokkurrra vinsælda. Undarlegt þótti enginn kaus flokkinn 90-120 cm og mjög fáir 120-140. Æskileg hæð kvenfólk er því 190 cm og upp úr. Nú er í gang komin ný könnun. Hún gengur út á að kjósa um furðulegasta einstakling í heimi. Síðan hefur tilnefnt nokkra aðilja. Sjá hér að neðan til vinstri.

sunnudagur, janúar 19, 2003

Una Una er fallegust í öllum heiminum. Ég veit þetta er væmið, en hey, hún sagðist mundu drepa mig ef ég skrifaði þetta ekki. Þannig að: Una, ég elska þig. Annars vorum við að ræða um hvern í heiminum við myndum helst vilja reka við framan í ef við yrðum. Ég var ekki alveg viss, kannski Saddam eða Jiang eða einhvern óskaplega leiðinlegan. Una sagði Freddie Prinze Jr. Ég er að átta mig á því að það er vel valið hjá henni. Hann er vondur maður. Meira af Unu U: Hvernig segir maður inniskór? Ö: Inniskór.

Forseti lýðveldisins ...djöfull væri gott ef hann væri bara mállaus. Þá kæmi aldrei upp álitamál um það hvort hann væri að fara of mikið inn á svið stjórnmálanna með ummælum sínum. Það væru engin ummæli. En hann yrði að geta brosað fallega.

Lítil börn Ég þrái að eignast barn. Ekkert þrái ég heitar en að eignast fimm lítil börn sem skríkja af gleði og kalla mig pabba. Lesendur eru beðnir um að segja kærustunni minni ekki frá þessu. Þarf að fara varlega í að biðja hana um þetta sko. Við fórum í Árbæjarlaugina í dag. Þar var allt morandi í krökkum. Þau syntu, hoppuðu, hlógu, brostu, og beittu hvort annað ofbeldi. Tveir litlir drengir stóðu á bakka innilaugarinnar og voru að fikta í vatnsbunu sem þar streymdi út úr stút. Annar þeirra brosti mikið og horfði á mömmu sína, svo reyndi hann allt í einu af veikum mætti (hann var mjög smár) að ýta hinum fram af bakkanum. Það gerði hann með einbeittum svip og hallaði sér fram til að ná betri spyrnu. Skemmtilegt hvað hann var vægðarlaus. Hinn var reyndar stærri og stóð af sér árásina. Svo var það í sturtuklefanum eftir sundið þegar ég kom inn að aðeins ein sturta var laus. Það var skrúfað frá henni svo ég spurði manninn sem var í þeirri við hliðina á hvort sturtan væri laus. Hann sagði nei. Svo ég beið eftir að sturta losnaði. Það tók ekki langan tíma, en enginn kom í sturtuna sem maðurinn taldi vera frátekna. Hann var ágætur. Svo gerist það þegar ég er að þvo mér að maður gengur inn í klefann og pínu(jafnvel ponsu)lítið stúlkubarn kemur á eftir honum. Barnið sá ekkert nema loðnar lappir út um allt og missti sjónar á föður sínum en hélt að mínar lappir tilheyrðu honum. Hún gekk því að mér og byrjaði að faðma á mér kálfann í örvæntingu. Mér þótti það bæði fyndið og vandræðalegt. Ég varð að gera eitthvað. Það var lítil vera búin að festa sig á löppina á mér eins og blóðsuga. Hún var að draga úr mér allan lífsþróttinn. Ég klappaði henni létt á höfuðið í þeirri von að hún liti upp og sæi að ég er ekki faðir hennar. Planið var þannig að við þetta átti hún að verða hrædd og hlaupa grátandi burt í leit að hinum eina sanna. Mér gafst þó ekki tími til að sjá afleiðingar aðgerðanna ná fyllilega fram að ganga. Faðirinn kom brosandi og við urðum ásáttir um að misskilningur hefði orðið um faðerni stúlkunnar í hennar eigin höfði. Þannig var nú það.

laugardagur, janúar 18, 2003

Draugar Afi minn sá einu sinni draug. Það var draugur í húsinu hennar Unu áðan. Þeir eru komnir til að taka yfir heiminn.

Fari það í hurðalaust Það er skemmtilegt orðalag til að lýsa yfir vonbrigðum eða undrun. Af máltækjum í svipuðum dúr má nefna: Hver rækallinn? Maður lifandi! Lúsugir landkrabbar! Hvígindis saltfiskur...og margt fleira. Vinir Þorgeirs bróður míns fara oft með gamanmál af þessum toga þegar þeir eru léttir í lund. Fari það í hurðalaust þótti mér alltaf fyndnast af þessu öllu og velti því fyrir mér hvort þetta væri í raun og veru notað sem upphrópun eða hvort þeir hefðu fundið upp á þessu sjálfir. Svo var það um daginn að ég var að lesa Laxness og þessi upphrópun kom fyrir. Samhengið í bókinni gaf til kynna að þetta væri upp úr Laxness sjálfum en ekki eitthvað orðtak. Bjartur í Sumarhúsum gat ekki sett hurðir í húsið sitt því þær voru ekki til og ekki var hægt að setja hvaða drasl sem var í dyrnar á þessu húsi. Hann fékk engar hurðir og sagði því: ,,Fari það þá í hurðalaust helvíti". Gaman væri að vita hvort þeir kumpánar Sjonni, Heiðar og fleiri fengu orðtækið úr bókinni eða annars staðar að...

Bók og ekki bók Bók, hvað er bók og hvað er ekki bók? Er eitthvað bók? Verður bókvitið í askana látið?

föstudagur, janúar 17, 2003

Nú jæja... Eftir að hafa fengið áfall, gengið í gegnum mörg stig mismunandi tilfinninga, komist í samband við áður ónotuð líffæri og skilningarvit og margt fleira hef ég ákveðið að óska þeim 28 manneskjum (snillingum) sem náðu prófinu til hamingju með það, og enn frekar þeim sem náðu öllum prófunum þremur. Sérstaklega Bjarna Aðalgeirssyni. Hann er snillingur. Ég hef ákveðið að vera þrátt fyrir allt í fýlu í kvöld og ætla að taka einhverja bók og lesa hana. Vonandi tæmir það hugann...spurning hvaða bók.

Stórgóðar fréttir Ég féll í almennri lögfræði. Mikið er það upplífgandi.

Æi bara eitthvað Í gærkveldi kláraði ég því miður bókina Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Vildi óska að hún væri tvisvar sinnum lengri. Ég er búinn að vera að smjatta á henni ansi lengi, hef lesið 2-3 kafla áður en ég fer að sofa. Ég hef aðeins þetta um gæði bókarinnar að segja: Þetta er besta bók sem ég hef lesið. Þvílíka samúð með persónum í sögu hef ég aldrei haft áður og við það að lesa síðustu blaðsíðuna snerist maginn í manni á hvolf og maður andaði þungt, dró svo djúpt andann, las síðustu línuna og andvarpaði...lá við að maður færi að grenja bara. Mögnuð bók. Þannig er með mig að ég er frekar fordómafullur og illur maður. Mig langar ekki til að lesa bækur eftir einhverja menn bara út af því hvernig þeir eru. Hvernig þeir líta á sjálfan sig. Ég tek illa ígrundaða afstöðu gegn þeim. Ég hef alltaf haft vissa vanþóknun á því þegar ung skáld (ath. ekki ungskáld, heldur ung skáld) eru lofuð í hástert vegna þess hvað þau séu kraftmikil, ögrandi eða tæpitungulaus. Svona ummæli má oft þýða yfir á mannamál sem: Höfundurinn er kjaftfor og dónalegur. Ú, geðveikt ögrandi, hann segir kúkur í bókinni. Þannig er með alla bókmenntagagnrýni þessa dagana að hver einasta skræða sem er gefin út er meistaraverk og ber vott um einstaka frásagnargleði. Það er eins og það eitt að leggja í það að skrifa 200 blaðsíðna bók sé svo hrikalegt eitt og sér að það bara hljóti að bera vott um gríðarlega frásagnargleði. Ég meina, annars myndi fólkið ekkert nenna að skrifa þetta allt! Í gær vatt ég mér inn í Eymundsson í Austurstræti á meðan ég beið eftir kvenmanninum og byrjaði að lesa Samúel eftir Mikael Torfason. Ég hef aldrei áður lesið neitt eftir hann, og hefur aldrei langað til þess. Ég sá hann einhvern tíma í Silfri Egils minnir mig þar sem öll hans svör voru á þá leið að: “...ég meina þetteru bara djös fasistar mar.” Svo stóð hann að gerð stórvirkisins Gemsar, sem varpaði auðvitað fullkomlega raunsæu ljósi á líf meðalunglingsins á Íslandi. Hver er kjörnari til að segja okkur hvernig kúl unglingar eru en einmitt Mikael Torfason sem er ekki unglingur en var það víst einu sinni. Myndina hef ég ekki séð og ætla ekki að sjá. Í fyrsta kafla bókarinnar Samúel, sem ég las inni í Eymundsson, komu fyrir eftirtalin orð: Píka, typpi, hommi, pissa, kúka, Kunta. Já Kunta með stóru kái vegna þess að söguhetjan vísar til konunnar sinnar sem Kuntunnar. Stuttur kafli, 5-7 blaðsíður. Ég held að það sé þetta sem er verið að tala um þegar honum er lýst sem kröftugum höfundi. Hann er alltaf með einhvern kjafthátt í gangi. Það er ofboðslega ögrandi og hneykslandi, að mati gagnrýnenda. Mikið verð ég feginn þegar sumir menn verða búnir að hneyksla á alla vegu sem þeir geta hugsað upp og neyðast til að fara að fá athygli út á eitthvað annað en dónalegu orðin í bókunum. Auðvitað má maðurinn skrifa hvað sem honum sýnist, og einhverjir lesendur virðast vera að fíla þetta með Kuntuna alveg í strimla. Haha, geðveikt, hann kallar konuna sína kuntu. Geðveikt. Það er hins vegar minn persónulegi gamaldags og afturhaldssami smekkur að það sé leiðinlegt að lesa svona lagað. Ekkert ógeðslegt eða óguðlegt eða slíkt. Bara hundleiðinlegt. Menn eru alltaf að skrifa um karaktera sem eru svo dónt-giva-fökk-legir að það er að drepa hvern mann í kringum þá úr leiðindum. En þeir blóta, svo þetta hlýtur að vera geðveik bók. Hneykslandi og svona.

miðvikudagur, janúar 15, 2003

Mismunun? Ónefndur og óprúttinn verkfræðinemi hefur gert athugasemd við uppröðun fólks á tenglalistanum hér til vinstri. Hann telur að um hafi verið að ræða óhæfilega mismunum sem bitnaði á minni heittelskuðu Unu Sighvatsdóttur. Athygli vekur að sami maður gerði aldrei athugasemd við að Sjonni og Haukur væru ofar á listanum en hún, en tekur sig til og gerist einhvers konar málsvari um leið og Magnúsi er bætt á listann. Þrátt fyrir undarlegheit öll við framsetningu og forsögu þessarar athugasemdar hef ég endurskoðað listann og sett Unu efsta. Þar að auki hef ég gefið henni nafnbót sem hún er vel að komin. Ég vona að öll kynjamismunun sé því úr sögunni á listanum og að hann gefi ekki til kynna ósæmilegt samband bloggara við fólkið á listanum. Verkfræðineminn hefur óskað þess að njóta nafnleyndar svo við getum þá bara sagt þetta: Hann heitir ekki Tumi.

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Nánari upplýsingar um prófið Þetta hafa verið eitthvað ónákvæmar upplýsingar sem ég fékk. Fyrir þá sem hafa einhvern áhuga þá var tölfræðin þessi: Upphaflega skráðu 297 manns sig í námskeiðið. 90 manns sögðu sig úr því. 175 manns tóku prófið en 32 af þeim sem ekki skráðu sig úr tóku prófið ekki. 54 náðu því eða ca. 31% 121 féll eða 69% Af þeim sem upphaflega skráðu sig kláruðu því 18% námskeiðið. Já, sagan er erfið. Greinilegt að fólk hefur verið að trassa þetta fag til að læra fyrir almennuna. Vona að þetta komi ekki hart niður á mér. Býst nú reyndar ekkert við að ná henni. Bölvað...hvort ætli sé betra að skrá sig úr sifj&erfð eða stjskpr. ef maður þarf að taka upp? P.s. nú væri fínt ef menn færu að koma með einkunnirnar upp á vegg.

mánudagur, janúar 13, 2003

Ferskir vindar leika... ...um bloggheima þessa dagana því í hópinn hefur bæst hinn ótrúlegi Loftur. Drengurinn er svo ótrúlegur að ég trúi því ekki. Hann virðist einbeita sér að hinum bitra veruleika sem íslenskir unglingar í úthverfum höfðuborgarinnar lifa við. Hann varpar ljósi á aðstöðuleysi unglinganna og aðgerðaleysi foreldranna. Loftur er einstaklega leikinn við að tjá tilfinningar heildarinnar sem verða að eins konar kollektífri vitund sem stjórnar hegðun fjöldans. Unglingarnir eru í óða önn við að þroskast og vaxa. En þeim er ekki öllum í lófa lagt að takast á við lífið eins og það er í þann mund sem helgisvipur æskunnar fýkur af því eins og skýjahnoðri af hæsta fjallatindi lífsskynjunarinnar. Sumir lenda í erfiðleikum, öðrum tekst að þrauka. Lesandinn fær að sjá hvernig þeir þroska hver annan auk þess sem bókmenntaarfurinn hefur djúpstæð áhrif á þá sem bera sig eftir þeirri björginni. Heildina persónugerir hann sem einn karakter sem sagt er frá í fyrstu persónu. Þessi vefsíða er sannarlega mögnuð á póstmódernískt- kúbismalegan hátt. Loftur, til hamingju með afrekið og velkominn í hóp fannálaritara! http://www.loftsky.blogspot.com lengi lifi. P.s. ég fór einu sinni í partý án Lofts. Það var ömurlegt. Gat ekki andað eða neitt. Partýið dó líka fljótlega.

Tilraunir Er að reyna að setja upp svona mini poll drasl. Ætti að vera að læra. Djöfull er ég kúl. Ég er svo kúl að ég ætti að heita...æ nei sleppum því. Þetta sá á síðu Viðars og þótti svo sniðugt að ég skammast mín ekkert fyrir að stela hugmyndinni og nota. Gott á þig Viðar! Ætli Viðar muni enn kunna íslensku þegar hann kemur frá Bandaríkjunum? Hi, Ernie. Manstu me? Yegh wahr winur broethur theens i gamli dagur. Nuna wait yegh alls about Kar-lungas and stuff. Yegh ewr doctor ee thwee!

Einkunnir úr réttarsögunni... ...hanga nú uppi á vegg í lögbergi. Mér gekk víst nógu lítið illa til að hafa ekki fallið. Ég verð nú að segja að 74% fall er furðulega mikið miðað við hvernig prófið var, svona þegar ég hugsa snöggt til baka. En ég er ekkert dómbær á það. Hvað er fram og hvað er til baka? Ég veit ekki einu sinni hvort ég er til né heldur hvort ég hef tilgang. Ég veit ekkert en er þó vitur. Þetta er allt spurning um túlkun og gildismat.

Laganemablogg Það er víst allt morandi í laganemabloggum á veraldarvefnum. Þeir eru svo allir með lista yfir aðra laganemabloggara og sumir eru búnir að setja mig á sína lista. Þetta er kannski viss viðurkenning og kannski ekki. En þetta hrekur mann eiginlega út í að útbúa svona lista. Verður maður ekki að vera í innkrádinu og fíla sig dálítið hipp og költ. Annars sat ég á aftasta bekk í dag með steindauða tölvu í 120 stiga hita á Farenhæd og penninn minn flaut frá mér í gegnum andrúmsloftið ef ég sleppti honum. Það er það sniðugasta í heimi að flytja okkur í minni sal um leið og þetta var orðið skikkanlegt uppi í háskólabíói. Og til andskotans með fíflið sem fann upp ljósaperuna, hann hefði átt að finna upp helvítis peru sem virkar í skjávarpanum í stofu 101.

Gleði! Ég uppgötvaði að á bóksölu Úlfljóts er verið að selja stjórnskipunarrétt eftir Gunna Skran á 1100 kr. minna en í bóksölu stúdenta þar sem ég keypti mína. Slíkt er óþolandi. Nú er ég óalandi og óferjandi vegna reiði minnar. Óferjandi er annars mjög skemmtilegt orð. Ferjan er að fara flýttu þér! - Neinei, þetta skiptir engu máli hvort eð er, ég er óferjandi. Er með vottorð.

sunnudagur, janúar 12, 2003

Um sjónvarpsþátt og heimsku Nú er reglulega verið að sýna þáttinn "Villtustu lögreglumyndbönd heimsins" á Skjá einum. Sá þáttur hefur háan sjokkstuðul og kemur með smá spennu inn í hversdagslegt líf smáborgaranna. Þarna er lögreglumaður að narrarera sjóvið (kynnirinn). Hann byrjar yfirleitt á því að segja eitthvað á þessa leið: "from 25 years of policework I know how dangerous little children can be..." og svo talar hann um hversu erfitt starf lögreglumannsins og hversu mikil hetja hann er. Svo eru sýnd myndbönd úr lögreglubílum þar sem verið er að eltast við byttur, dópsala og geðsjúklinga svo eitthvað sé nefnt. Ef áhorfendur þáttarins eru einhverju skyni gæddir ættu þeir að sjá annan boðskap í þáttunum en þann sem er verið að kynna. Þ.e. hversu miklir asnar sumir lögreglumenn eru greinilega. Undirrituðum finnst persónulega mjög umdeilanlegt hvort lögreglan eigi að elta sumt af þessu fólki. Eftirförin byrjar stundum vegna þess að bíll er keyrður undarlega og grunur leikur á því að ökumaður sé drukkinn. Þá setur löggan ljósin á og biður ökumanninn að stoppa. Sem er eðlilegt. Þá taka ökumenn á rás og keyra eins og geðsjúklingar til að reyna að sleppa, sumir fara yfir 200 km/klst í mikilli umferð, löggan gerir það líka. Flestir af þessum eltingaleikjum enda svo á hörðum árekstri við saklausa vegfarendur á gatnamótum. Menn reyna að bruna yfir á rauðu og vona það besta. Í þáttunum er aldrei sýnt dæmi þar sem einhver deyr. Þannig er gefið til kynna að mjög fáir deyji í þessum eltingarleikjum. Hins vegar var það í fréttunum um daginn, (ég man fréttina ekki nógu vel) að yfirvöld í einhverju fylki þar lýstu því yfir að þau væru hætt svona high-speed eltingarleikjum vegna þess að í meira en helmingi tilfella verður dauðsfall, annað hvort á lögreglumönnum, saklausu fólki eða þeim sem er verið að eltast við. Það kom mér ekkert á óvart miðað við það sem er sýnt í þessum þætti. Í einu atriði var löggan að elta byttu sem keyrði eins og brjálæðingur (nb. bara eftir að eltingarleikurinn byrjaði). Til þess að halda í við bófann þurfti riddari réttlætisins að keyra á 180 km hraða út á grasumferðareyju til að taka fram úr umferðinni sem var fyrir. Þetta var breið eyja en enginn fótboltavöllur. Það var ekkert grindverk á henni eða neitt slíkt og umferð í gagnstæða átt hinum megin. Þessi hetja hefði svo auðveldlega getað misst stjórn á bílnum, skotist út í gagnstæða umferðarátt og drepið fjölda manns. Það slapp þó. Eftir að handtakan hafði farið fram (eftir virkilega harðan árekstur á krossgötum við fólksbíl þar sem fólk slasaðist illa) kom kynnirinn aftur og lýsti því yfir að ef ekki væri fyrir hetjulega framgöngu lögreglumannanna væri þessi brjálæðingur enn laus á strætum borgarinnar. Auðvitað er það miklu skiljanlegra að menn séu eltir ef um er að ræða dópsala, nauðgara, morðingja etc. en þegar þetta er vegna undarlegs ökulags, brotins afturljóss eða einhvers annars sem ekki getur talist til þess allra versta, þá er þetta mjög asnalegt. Auðvitað er slæmt að fólk keyri drukkið, það getur gert mistök og orðið valdur að dauða fólks í umferðinni. Hins vegar aukast líkurnar á því margfalt ef þú setur fimm lögreglubíla með blikkandi ljós og þyrlu á hælana á því. Samfélagið þarna í Bandaríkjunum hefur bara svo margar absúrd hliðar á sér.

fimmtudagur, janúar 09, 2003

6 ára fangelsi Haukur Heiðar Hauksson var dæmdur í 6 ára fangelsi, þrælkunarvinnu og einangrun í gær. Málið er óvenjulegt að því leytinu til að það var hvorki héraðsdómstóll né Hæstiréttur sem dæmdi hann í þessa vist, heldur var það tölva sem fer yfir próf í læknadeild Háskóla Íslands. Þótt við fyrstu sýn megi virðast að dómurinn sé harður er hann algerlega eftir rótgróinni dómvenju innan læknadeildar. Það hafði Haukur unnið sér til sakar að ná vera einn af 48 efstu í klásus númerus í haust. Ég votta fjölskyldu Hauks mína dýpstu samúð og vona að mannlegur harmleikur sem þessi eigi sér aldrei stað aftur. Haukur var góður vinur og mér þótti gott að þekkja hann, en þegar hann snýr aftur verður hann eflaust breyttur maður, ég mun varla þekkja hann og vill varla kannast við mig.

þriðjudagur, janúar 07, 2003

Breytingum formlega lokið Nú hefur síðan tekið stakkaskiptum og heim til mín mætti Sturla Böðvarsson og opnaði síðuna formlega við hátíðlega athöfn inni á skrifstofunni hans pabba. Ég vil þakka Sturlu kærlega fyrir að hjálpa okkur í fjölskyldunni að gera þennan dag eftirminnilegan.

Tenglalistinn... ...verður nú uppfærður og lengdur verulega. Þannig vonast ég til að eignast aftur þá vini sem ég tapaði við styttingu hans. Djös vesen er að kóða þessa íslensku stafi inn í þetta drasl. Jæja já og jamm jamm. Kúl.

Lokahönd ...er að leggja hana á þetta. Djöfull er mér illt í hnénu.

Kommentin komin inn Já, nú hlýt ég að vera orðinn ráðandi aðilji á þessari bloggtöflu á síðunni hans Sjonna. Hvað ætli Sjonni sé að gera núna? Tala ensku...

Sér fyrir endann... ...nú sér fyrir endann á þessu. Ég vil þakka þeim sem fylgdust með á meðan á breytingum stóð.

Konráð ...það er Konráðsþefur af síðustu þremur færslum hér.

Maður ...ég sagði maður í lok síðustu tveggja færslna.

Þakið er að rifna af húsinu Þvílík stemning við þessar breytingar maður.

Breytingar á síðunni í gangi ...hér er allt að verða vitlaust maður.

fimmtudagur, janúar 02, 2003

Önundur hefur hægt um sig Jólafríið er alltaf mjög fljótt að líða. Það er svo kaflaskipt. Jólastressið kemur eftir prófin og helst fram að jólum. Jólin líða hjá í einhvers konar neysluæði, milli jóla og nýárs les maður dálítið, sefur frameftir og borðar afganga og eftir áramót er maður alltaf alveg að fara að byrja í skólanum. Þetta frí hefur reyndar verið einstaklega ánægjulegt. Ég rumpaði jólastressinu af á skömmum tíma. Ég slappaði af um jólin og borðaði ekki of mikið yfir mig. Jólaboðið árlega var líka betra. Ég gef því þrjár stjörnur, en venjulega hefur það varla fengið meira en tvær. Nú var bryddað upp á því að spela félagsvist eftir matinn. Sú hugmynd naut mikils fylgis og varð til mikils yndisauka. Það var mjög skemmtilegt þó svo mágkona pabba hafi kríað út sigurinn með vafasömum hætti en ávkeðin manneskja hafi verið skussi kvöldsins. Tölum ekki um það. Milli jóla og nýárs... ...þ.e. 29-31 des. fór ég svo í e-a ánægjulegustu sumarbústaðarferð lífs míns. Bústaðurinn var í eigu foreldra míns ágæta félaga Magnúsar Norðdahl. Glæsilegur bústaður. Þarna var á ferð matarboðshópurinn góði auk Hauks Heiðars Haukssonar og án Jens Þórðarsonar og Ernu Blöndal. Hvorki þau hjú né Birgir Pétur Þorsteinsson sáu sér fært að mæta og þó þau hafi verið meira en velkomin held ég að ansi þröngt hefði orðið á þingi ef fleiri hefðu verið með í för, en það hefði ekki orðið mikill vandi. Kannski þau komi næst. Hópurinn samanstóð því af: MDN, BK, GS, KMT, ÖPR, US, HHH, HF, ÞAÞ OG EBG. Hópur þessi þykir ágætlega samstilltur og hegðar sér í samræmi við almennar venjur þegar hann kemur saman. Drykkja var lítil en söngur þeim mun meiri og borðspilamennska. Þá var farið út í stjörnuskoðunargönguferð með kort HF, rölt upp í hlíðar Skarðsheiðar og að fallegum hyl í Álfsteinsá. MDN og ÖPR strengdu þar þess heit að stökkva sjálfum sér í þann hyl að sumarlagi dag einn. Það stendur...enn. Sundferð í laug Borgarness var seinna kveldið og þótti hún afar vel heppnuð. HF ók bifreið ÖPR í Borgarnes því eftir einn ei aki neinn. Þótti henni við hæfi að slökkva á ljósum reiðarinnar úti á aðalvegi um niðdimmt kvöld. Þá gerði hún einnig margt annað frumlegt við aksturinn. Nokkur bílavandi hrjáði bústaðarfara þar eð rafurmagn allt var horfið af bíl MDN þegar átti að gangsetja hann og ekki fór betur en svo að sjálfan hreppstjórann þurfti til að koma bílnum í gang. Þá vildi hinn þýzki eðalvagn ÖPR ekki í gang í frostinu fyrr en í 20. tilraun eða svo. Allir komust lífs af og voru hamingjusamari eftir ferðina en fyrir hana. ÖPR fór svo í fjós á Grund að morgni gamlársdags og líkaði vel. Flest voru handtökin enn í fersku minni og andrúmsloftið hjá Davíð og Jóhönnu rólegt. Kýrnar skemmtu sér svo auðvitað konunglega við allt þukl á þeirra júgrum. Ferð þessi fær 4 stjörnur af 4. Gamlárskvöld Ég reyndi ekki að fara að djamma. Það hefur verið reynt áður en ekki virkað. Niðurstaðan var sú að halda sig í heimahögum og láta borð- og kampavín nægja og sleppa öllum sprengiefnakaupum. Ég sá nóg af því út um gluggann. Í mat komu Þorgeir og Hrefna, Bjarni og Maddí, Jón, Unna og Una kom svo í eftirmatinn. Matur sá var allmerkilegur. Hann kallaðist ,,Himnesk súkkulaðibomba." Kaka gerð úr sykri, súkkulaði eggjum og smjöri. Ein sneið af slíkri köku ætti að geta bjargað mannslífum í öðrum heimsálfum. Mér leið eins og ég hefði syndgað þegar ég var búinn með sneiðina. Úff. Svakaleg kaka. Einkunnir ...eru væntanlegar á næstu dögum. Spennan magnast og örvæntingin með. Mikið óskaplega vona ég að ég hafi ekki fallið á neinu.