Mikil átök… …þurfti til að afreka það sem ég hefi nú afrekað. Einn míns liðs hefi ég flutt svefnsófa niður hinn ógurlega 17 tröppu stiga heimilis míns. Sófi þessi vegur á þriðja hundrað kílógramma. Honum þurfti ég að koma í gegnum tvennar dyr. Dyrnar voru 20 sentimetrum lægri en sófinn (reistur upp á rönd) og 15 sentimetrum mjórri. Þrátt fyrir þetta er sófinn nú kominn inn í nýtt og glæsilegt lesherbergi mitt. Ég er afarmenni. Sem fyrr… …er engin lognmolla á bókhlöðunni. Jú það er logn og grafarþögn, en allt er þó á fleygiferð. Í morgun var skemmtikraftur á fjórðu hæð. Hann var á fertugsaldri, feitur, rauður í framan, sveittur og viðurstyggilegur hvernig sem á það var litið. Þetta var dóni. Hreinræktaður dóni af þeirri gerð sem maður hefur séð á öldum ljósvakans, en hvergi annars staðar í sinni fullkomnustu mynd. Þetta mannræksni sat í tölvuverinu og var að skoða klámefni (pornografík). Við það æstist hann greinilega mjög og sökkti sér niður. Hann hafði margar síður opnar í einu og vafraði á milli þeirra eins og vindurinn. En hann hafði rekið varnagla. Strik.is. Hann hélt að enginn tæki eftir þessu ef hann skipti af og til yfir á þá síðu og þættist vera að lesa fréttir. Við hlið hans sat kona. Venjuleg á að líta og mjög hugguleg. Hún hafði greinilega tekið eftir þessu og var alltaf að gjóa augunum til hans. Maðurinn var ótrúlega snöggur að skipta. En ekki nógu snöggur. Hún vissi alveg hvað var að gerast. Enda var þetta mjög augljóst. Hann var að hlaða niður löngum grófum myndböndum. Hann hagræddi sér stöðugt í stólnum og andaði þungt. Ég prófaði að ganga framhjá honum og sjá hvort hann skipti. Það gerði hann. Eftir hálfa klukkustund af neyslu stóð hann upp og gekk burt. Skömmustulegri mann hef ég aldrei séð. Hann skaut augunum að mér, Martin Inga Sigurðssyni og Gunnari Páli Baldvinssyni. Hann vissi að við vissum. Grey kvölin, hví kaupir hann sér ekki aðgang að alnetinu heima hjá sér? Dagurinn… …var þá ágætur eftir allt saman. Á morgun verða afköstin gríðarleg.
.
mánudagur, september 30, 2002
Í gær... ...skrifaði ég ekkert hér. Það er í fyrsta skipti sem heill sólarhringur líður án þess að nokkuð nýtt komi inn. Ég mun forðast þetta. Í nótt... ...dreymdi mig margt. Fyrst dreymdi mig að Una, Óttar Völundarson, Þórunn Árnadóttir og ég sjálfur vorum öll nakin að renna okkur á snjóþotu upp í móti. Við vorum á leiðinni upp brekkuna heima, en þotan dreif ekki síðasta partinn svo við þurftum að hlaupa spölinn heim. Það var skafrenningur. Heldur neyðarlegur draumur. Svo dreymdi mig að ég væri í bíó með Ununni á hryllingsmynd. Hún var eitthvað að stríða mér í bíóinu með því að gera hljóð í myrkrinu og láta mig halda að hún væri geimvera. Áhugavert. Alltént vaknaði ég við þetta og hélt að hún hefði verið að þessu í alvörunni. Ég ákvað því að glefsa í andlitið á henni. Hún var hálfsofandi og hrökk við með andfælum. Ég fékk sektarkennd. Svo dreymdi mig að ég lenti í flugslysi. Heimskur flugmaður á fokker hjá Íslandsflugi keyrði á u.þ.b. 60 km hraða á klukkustund fram af kletti og beint ofan í sjóinn. Útskriftarárgangurinn minn var í flugvélinni, ég veit ekki hversu margir lifðu af. Í dag... ...hef ég hugsað mér að læra heima eftir skóla. Ég er að útbúa mér lærdómsherbergi á neðri hæðinni. Þetta verður góður dagur þrátt fyrir stormasama nótt.
laugardagur, september 28, 2002
Rétt áðan... ...gekk svarthærð kona framhjá mér. Hún var með risavaxin svört sólgleraugu. Innandyra. Af hverju? Í morgun... ...gerði ég aðra tilraun til að gleypa liðaktínpillu. Ég gerði þá tilraun inni í stofu. Niðurstaðan varð mjólk á gólfinu og í lófa mér. Pillan stóð svo föst í kokinu dálitla stund. Það var ánægjulegt. Ég... ...hef í fyrsta sinn á ævi minni ekkert stórmerkilegt að segja.
föstudagur, september 27, 2002
Hjá vissum hópi... ...fólks eru uppi miklar umræður um líffræði. Ekki alla líffræði, heldur aðeins einn afmarkaðan eiginleika einnar tiltekinnar dýrategundar. Hugarefni þetta er svo viðbjóðslegt og saurgandi að ég er vart tilbúinn til að tjá mig um það. En þetta er þörf umræða, þar eð hún getur á vissan hátt komið við hreinlæti. Deilan stendur um það, hvort karlkyns homo sapiens geti haft þvaglát, á sama tíma og hann er örvaður til stinningar. Atkvæði mitt rennur til þess flokks sem telur þetta mögulegt. Það er því full ástæða fyrir kvenpening landsins að vara sig á jólasveininum Sálnamígi og hans líkum. Ekki einungis í andlegum málefnum, heldur einnig í þeim kynferðislegu. Það að hafa þvaglát á sama tíma og vagína (kvenæxlunarfæri) er penetreruð (smeygð) er ekki til eftirbreytni.
Eftir að hafa... ...lent í eldheitum siðferðilegum, heimspekilegum og jafnframt samfélagslega rannsakandi umræðum við móður mína í gærkvöldi, sofnaði ég um klukkan eitt í nótt. Þessar umræður voru svo heitar að þær héldu jafnvel áfram á meðan burstun tanna fór fram, þó náði umræðan óumdeilanlega lágmarki sínu á þeim tímapunkti. Við morgunverðarborðið... ...átti ég svo magnaða innkomu í samtal foreldra minna. Það var eitthvað á þessa leið: "Öööööuuuuuúúúáacchgchgchgööhh". Á sama tíma tók ég yfirvegaða ákvörðun um að dýfa andlitinu ofan í diskinn minn, reisa mig lítið eitt við aftur, og hósta svo stórri liðaktín töflu í kjöltuna á mér. Þetta vakti mikla lukku. Faðir minn brosti stoltur til mín og móðir mín ljómaði öll. Hvílík hamingja. Svona á að byrja daginn.
fimmtudagur, september 26, 2002
Dagurinn í dag var merkilegur. Fyrst vil ég segja frá dulúðlegri reynslu. Um kvöldmatarleytið ráfaði barn inn á bókhlöðuna. Ekkert bara rétt inn fyrir dyrnar, heldur alla leið upp á fjórðu hæð og út í hinn endann á húsinu. Þessu barni var mikið niðri fyrir. Það veinaði. Það veinaði í örvæntingu um langa hríð. Og það var ekki vegna einhverra lítilverðra eiginhagsmuna. Heldur vegna heimshryggðarinnar. Barnið gekk um og ákallaði almættið. Ég lýg því ekki. 3 ára smábarn gekk um bókhlöðuna og æpti: “Allah! Allah!” Svo var þögn í smá stund. “Herra, herra! Herra! Allah! Herra!” Svona gekk þetta í 5 mínútur. Þá kom sköllóttur maður og leiddi barnið burt. Þetta er tvímælalaust fáránleikastefnukenndasta lífsreynsla mín í langan tíma. Sköllóttur maður...hverjar eru líkurnar? Svo hlaut... ...að koma að því. Funny gay man strikes again. Þið afsakið slettuna. Fyndni samkynhneigði maðurinn slær aftur (í gegn). Í tíma í dag skaut fyndni samkynhneigði maðurinn inn athugasemd. Hann sagði að hver sá sem hlustaði á rás eitt hlyti að vera ósakhæfur. Það þótti honum fyndið. Enda var það fyndið. En ég næ því bara ekki alveg hvers vegna þessi náungi, eins vinalegur og hann nú er, hefur skipað sjálfan sig sem einhvers konar skemmtikraft fyrsta árs nema í lögfræði. Hans hlutverk er greinilega að koma með “ógeðslega fyndnar” athugasemdir við það sem kemur fram í tímanum. Ekki reyna að skilja það sem sagt er eða hugsa um það. Bara finna eitthvað “geðveikt fyndið” við það og tísta svo að hlátri yfir því næstu klukkustundirnar. Þess má geta... ...að ég hef engar staðfestar heimildir fyrir því að þessi maður sé samkynhneigður. Ég hef ekkert á móti samkynhneigðum, allir vinir mínir eru samkynhneigðir. Ef einhver vill koma kvörtun á framfæri við mig er hægt að ná í mig í síma 581-2345.
Haust ...loftið var ferskt þegar ég steig út undir beran himin í morgun. Það er farið að létta til. Nú fer að kólna. Svo kólnar meira. Svo verður dimmt. Því næst kemur snjórinn. Ég velti því fyrir mér... ...hvers vegna fólk hefur þörf fyrir að ljúga tilefnislaust. Þessar lygar eru yfirleitt það ómerkilegar og lítilsverðar að þær geta ekki á nokkurn hátt haft áhrif á útkomu dagsins. Dæmigerð lygi af þessari tegund er lygin um að hafa vaknað á undan. "Það var sko ég sem vakti þig, ég var búin að vera vakandi í 4 klukkutíma þegar þú vaknaðir. Skilurðu ekki, ég lá þarna bara og var vakandi, en ég þóttist vera sofandi. Og svo hélst þú að þú værir að vekja mig. En þá var ég búin að vekja þig og þóttist svo vera sofandi. Ég var sko vakandi sjáðu til." Þetta er svo tilgangslaust. Lygi djöfulsins. Annars segi ég bara góðan dag.
miðvikudagur, september 25, 2002
Ég hef... ...lúmskan grun um að ekki sé langt að miklum tímamótum. Ég held að Una Sighvatsdóttir muni á næstunni byrja að blogga. Það verður mikil hamingja. Skrifræðið í sambandinu verður algert. Brátt munu öll samskipti okkar fara fram á alnetinu. Öll vandamál verða úr sögunni. Hreinskilni og heiðarleiki munu ráða ríkjum. Engu verður leynt. Um daginn... ...fékk ég mjög góð ummæli um þessa síðu. Þau komu frá frænku Tómasar Karls Aðalsteinssonar, Karitas Möller. Kann ég henni bestu þakkir fyrir og vil hér koma því á framfæri að undirrituðum hefur alltaf líkað vel við hana og talið hana gáfaða og fágaða manneskju. Hafið hugfast að bóndi er bústólpi en Karitas er landsstólpi. Ég var að frétta... ...að Sambandið er farið á hausinn.
Ég varð bara... ...að bæta hér aðeins við. Þannig er mál með vexti að ég þekki mann. Maður þessi heitir Haukur Heiðar Hauksson, og er sonur hins góðkunna píanóleikara Hauks Heiðars Ingólfssonar og þar með bróðir hins geðþekka útvarpsmanns Halldórs Haukssonar. Haukur Heiðar Hauksson er velviljaður maður en einfaldur. Hann situr við hlið mér hér á bóhlöðunni og reynir að læra. Nú rétt áðan hleypti hann skyndilega brúnum, hagræddi í sér ennisblaðinu og spurði svo: "Hvað er einn fermetri margir lítrar?" Svarið var "fáviti". Ég reikna því fastlega með því að Haukur skrifi á prófið sitt um jólin að einn fermetri sé fáviti lítrar. Af þessu öllu saman... ...mætti svo leiða heimspekilega spurningu. Ég á bara eftir að finna út úr því hver sú spurning er.
Nú hefur... ...bæst við nýr vefritill. Sigurður Arnet Jónsson. Honum óska ég til hamingju með hið glæsilega vefyfirráðasvæði sitt, sem er bæði frjósamt og ljóst yfirlitum. Einnig vil ég minna Sigurð á að í Casa Christi er engin tölvustofa, heldur eru þær staðsettar í Casa Nova og Casa Subculae. En það er auðvitað fjarlægur möguleiki að ný tölvustofa hafi litið dagsins ljós í sumar. Ef svo er má einhver hafa samband við mig í síma 581-2345. Sigurður... ...er drengur góður og er ég þess fullviss að limstærð hans endurspeglist í vefskrifum hans héðan í frá.
Konráð spyr... ...hví hann sjái mig ekki á MSN þegar ég er á framtíðarsíðunni. Það er vegna þess að oft er ég á bókhlöðunni þar sem ekkert MSN er að finna á tölvunum. Einnig getur verið að þar sem ég er kominn með adsl heima sé ég inni á síðunni þegar ég er að gera eitthvað allt annað. Vonandi svarar þetta spurningunni.
Ef... ...þú mættir velja um að fá annað hvort mótald eða folald að gjöf, hvort yrði þá fyrir valinu? Þessi spurning ásótti mig þegar ég opnaði augun í morgun. Ég veit ekki hvert svarið er. Kannski hvorugt. Ég er varla tilbúinn til að taka þátt í einhliða kröfuréttarsambandi svona snemma morguns.
þriðjudagur, september 24, 2002
Frá því að skeið mannkynsins sem drottnandi lífveru á þessari plánetu hófst hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það var ekki fleira.
Konráð hefur vikið sér undan. Í dag... ...er ég hvorki sofandi né vakandi. Ég er búinn að frumlesa 60 blaðsíður, en man ekki hvað stóð á þeim. Vonum að það hafi bara verið eitthvað ómerkilegt. Svo las ég örfáa dóma. Vonum að þeir hafi líka verið ómerkilegir. Það er nú þannig... ...að amma er alltaf að gefa mér bækur. Kann ég henni bestu þakkir fyrir það. Síðast gaf hún mér bókina Spegilmynd af nóbelskáldi...minnir mig. Það er eflaust áhugaverð bók, og mig langar til að lesa hana. En ég hef engan tíma. Svo um jólin fæ ég 10 bækur í viðbót, langar til að lesa þær allar, les kannski tvær, en kemst svo ekki í hinar fyrr en eftir nokkur ár. Þetta fer í taugarnar á mér. Já. Ég er semsagt á bókhlöðunni, það þarf vart að taka fram lengur. Ég fór enn einu sinni á klósettið áðan. Þegar ég sat þar heyrði ég að farið var inn á kvennaklósettið, svo var barið í vegginn. Stuttu seinna var bankað á hurðina hjá mér. Mín ágiskun er sú að þetta hafi verið hinn nýuppgötvaði jólasveinn sálnamígir, en ég hefi talað um hann áður á þessari síðu. Ef einhver… …veit gott íslenskt orð fyrir enska orðið “log”. Eins og í “weblog”, þá má viðkomandi hafa samband við mig í síma 5812345.
mánudagur, september 23, 2002
Svo væri... ...kannski rétt fyrir Konráð að hætta að lesa dagbækur annarra manna. Veit hann ekki að það er vanvirðing við mínar innstu tilfinningar? Er Konráð siðlaus?
Konráð heitir maður. Hann hefur nýlega vakið athygli á þessari dagbók minni. Það gerði hann á vefsíðu sinni www.konnijons.net Þar talar hann stuttlega um mig og persónuleika minn. Tilvitnun: “Útlitið hæfir ekki karakter hans, það er alltof artí. Önni er ekki artí.” Eftir að hafa lesið þetta brennur ákveðin spurning á vörum mér. Hvaða útlit er hann um að tala? Útlit mitt? Ja, ég hef aldrei orðið fyrir því áður að annar maður lýsi því yfir í heyranda hljóði, hvað þá á opinberum miðli, að útlit mitt hæfi ekki persónuleika mínum. Að ég sé ekki listhneigður í samræmi við líkamsburði mína? Eða er hann að tala um klæðaburð minn. Jú, víst get ég viðurkennt að þær grænbrúnu flauelsbuxur sem ég festi kaup á um daginn eru ekki í samræmi við klæðnað þann sem ég hefi notað undanfarna tvo áratugi. En þær hæfa persónuleika mínum ágætlega og auðga sálarlíf mitt ef eitthvað er. Flugmannsjakkinn sem ég gekk í síðasta vetur er heldur ekkert til að skammast sín fyrir, og þó jók hann allverulega á bóhemútlit mitt. Getur verið að Konráð vilji meina að ég sé nokkurs konar listgeldingur í líkama tjáningarinnar? Ég hvet heimspekinginn Konráð til þess að gera nánari grein fyrir máli sínu! En að öðru… …ég bý ennþá á bókhlöðunni og líkar mér vistin vel. Eitt er þó sem kalla mætti vandkvæði. Eitt er erfiðleikum bundið. Það er að öðlast skilning á því í fari mannfólksins sem gerir það ófært til að gera þarfir sínar á snyrtilegan hátt. Já, lesandi góður, ég er að tala um hinar viðbjóðslegustu og frumstæðustu þarfir mannsins sem ekkert hafa að gera með hugann eða listina. Ég er að tala um þvag og saur. Fyrr í kvöld þurfti ég á salernið. Ég rölti þangað inn, við mér blasti klósettið opið og fullt af þvagi. Ekki hafði verið sturtað niður. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér, af hverju ekki var sturtað niður. Gleymdist það? …það er fjarlægur möguleiki. Sjáið til, takkinn til að sturta er á veggnum fyrir framan þann sem notfærir sér klósettið. Hann er mjög stór. Þá er hinn möguleikinn: Illska. Undirritaður telur yfirgnæfandi líkur á því að sá sem þveitti í skálina á undan mér hafi haft sérstaka hvöt til að óhreinka náunga sinn. Hann er sjálfur óhreinn og vonar í örvæntingu að hann geti komið syndum sínum yfir á annað fólk. Heiðvirt fólk. Hann veit að ekki verður liðið að hann bókstaflega pissi á þá sem standa nálægt honum, svo að hann lætur sér nægja að míga á sál þeirra. Honum tókst það svo sannarlega. Eftir þetta hefur fátt annað komist að í huga mínum en hland þessa óþekkta manns. Hann hefur migið yfir sál mína. Því segi ég við þennan mann, til hamingju bölvað kvikindið þitt. Til hamingju. Það var… …þá ekki mikið fleira. Ég er byrjaður í almennri lögfræði og allt fer versnandi. Guði sé lof fyrir Unu Sighvatsdóttur. Hún mígur ekki á sálir.
sunnudagur, september 22, 2002
Í gær var matarboð. Það var huggulegt mjög. Sennilega huggulegustu aðstæður sem ég hef lent í mjög lengi. Þetta var heima hjá Garðari Snæbjörnssyni. Hann er heiðursmaður. Aðrir viðstaddir voru mín heitt elskaða Una Sighvatsdóttir, Kristín María Tómatsdóttir, Magnús Norðdahl og Bjarnheiður Kristinsdóttir, Þorvarður Atli Þórsson og Elín Birna Zoega, Jens Þórðarson og Erna Kristín Blöndal. Heiðursgesturinn og móðir alls lífs var svo Hlín Finnsdóttir. Hún fékk að sitja á endanum. Hún hafði vippað út lasagna fyrir fólkið og smakkaðist það sérlega vel. Þorvarður kom með mikið úrval og magn af kornmeti. Bæði hvítlauksbrauð og ostabrauð. Það fór vel í maga. Jens Þórðarson og Garðar útveguðu rauðvín, það var sérlega gott. Við Una komum með eftirréttinn, kaldur réttur með muldu hafrakexi í botninum og smjeri, eggjum og sykri hrærðum saman við rjóma og skyr og svo bláber út í. Mmmmmm. Magnús Norðdahl tók svo heiðurinn af þessu öllu saman. Reyndar... ...fengum við ekki að gera þennan eftirrétt í friði. Móðir mín hafði ætlað að gefa mér dálitlar leiðbeiningar. Það endaði auðvitað með algerri óvinveittri yfirtöku á eldhúsinu. Ég horfði þá á Sky News þangað til rétturinn var tilbúinn. Svona er þetta alltaf. Maður hefði nú haldið að sonur hússtjórnarkennara ætti að kunna eitthvað fyrir sér í eldhúsinu. Það er bara ekki þannig. Alveg eins og rakarar eru sköllóttir og málarar mála ekki húsin sín. Þá þolir móðir mín ekki viðvaningsleg vinnubrögð mín í eldhúsinu og tekur alltaf yfir. Ég er ósjálfbjarga. Þetta er kannski hennar leið til að halda mér háðum sér. Eða eins og þeir segja í Frakklandi: Les cordonniers sont toujours les plus mal chaussés! Ég vil semsagt þakka öllum sem þarna voru fyrir ánægjulega kvöldstund og góðan félagsskap. Vér lengi lifum… En að öðru. Ég þyngist og þyngist og ekkert fær það stöðvað. Móðir mín er að fita mig til jólanna. Held ég. Það kemur samt bara í ljós. Og eitt enn. Eftirfarandi er uppskrift að hinni svo kölluðu MEGASAMLOKU. Hún er góð: 2 brauðsneiðar 2 egg 2 skinkusneiðar 8 gúrkusneiðar 1 salatblað 3 sneiðar af beikoni (optional) Sinnep Tómatsósa Hitið pönnu og gerið göt í miðjurnar á brauðsneiðunum. Setjið þær á pönnuna og spælið svo eggin í holunum í brauðinu. Snúið brauðsneiðunum við um leið og egginn eru orðin stöðug. Setjið þá ostinn ofan á, örlitla tómatsósu og skinkuna svo. Þegar hin hliðin á egginu er orðin stöðug má snúa sneiðunum við og steikja þær á skinkunni. Gerið svo þar til osturinn er orðinn vel bráðinn. Snúið þá sneiðunum aftur við. Setjið gúrkusneiðarnar á skinkuna og dálítið sinnep. Setjið salatblaðið á aðra brauðsneiðina og beikonið ef það er haft með. Takið aðra brauðsneiðina og setjið á disk. Hvolfið hinni svo ofan á þá fyrri. Með þessu drekkist appelsínusafi eða mjólk. Verði ykkur að góðu!
fimmtudagur, september 19, 2002
...þess má og geta að fasteignasalinn fítónskröftugi var í dag klæddur sérlega smekklegum íþróttagalla. Ætli hann hafi ekki verið úti að hlaupa. Alltént var hárið á honum eins og hann hefði fengið 300m/sek vind í andlitið í viku. Það var stíft og myndaði ca. 35 gráðu horn við efra byrði höfuðsins, aftur á bak. Þetta er skemmtilegur maður.
Fyrirlesarinn í dag var mjög góður. Hann hafði ekki þetta asnalega glærufyrirkomulag þar sem menn lesa bara af glærunum og þær eru samhengislausir punktar. Hann talaði bara um það sem hann átti að tala um og lét okkur um að glósa. Þannig á það að vera. Mikið betra. Tíminn í dag virtist helmingi fljótari að líða en í gær, hann var skemmtilegur og hlustunin hjá manni varð miklu virkari því maður vildi ekki missa af neinu. Í hinu missti maður hvort eð er ekki af neinu. Lánstraust hf. er merkilegt fyrirtæki. Það rekur m.a. síðuna www.rettarrikid.is en þar má finna ýmsar upplýsingar, svo sem dómasafn hæstaréttar, lagasafnið, reglugerðasafn og margt fleira. Verðskráin þeirra var merkilegust af þessu öllu. Mánaðargjaldið fyrir aðgang að dómasafninu er rúmur fimmþúsund kall. Það myndi þá gera 20.000.- á önnina. En svo er auðvitað hægt að kaupa það bara, á 139.000 krónur! Úff. Svo voru þeir þarna með til sölu lagasafnið á geisladiski fyrir skitinn 12.000 kall. Það er nú ekki neitt…miðað við að safn núgildandi laga fæst ókeypis og rennt (1) á www.althingi.is/lagasafn/ Ég ekki skilja. Ég sendi þeim rafpóst og spurði þá hvort þeir byðu upp á sértilboð fyrir laganema. Er þetta kannski bara einhver fyrirtækjaþjónusta? (1) Rennt er þýðing á orðinu “zipped” en það er notað yfir tölvuskrár sem hafa fengið sérstaka þjöppunarmeðferð. Skráartegundin heitir þá .zip Guð blessi fólk og varðveiti sem ekki skilur sitt eigið móðurmál. Þegar sagt er að allt sé til prófs. Þá þýðir það að allt sé til prófs. Ef sagt er að kafli 8 sé til prófs þarf einfaldlega ekki að spyrja hvort ákveðinn dómur úr þeim kafla sé til prófs. Hann er í kaflanum ekki satt? Og kaflinn er til prófs, ekki satt? Þá er dómurinn til prófs líka! Spurningar eins og: “Kemur þetta eitthvað á prófi?” eru eitthvað það asnalegasta sem ég veit um. Fasteignasalinn fjörugi sýndi enn og aftur yfirburði sína í fyrirlestrinum í dag. Hann hafði lesið umræddan dóm betur en kennarinn sjálfur og talaði svo eitthvað aðeins um fasteignasölu, þinglýsingu á fasteign og sitthvað fleira. Arndís Þórarinsdóttir spurði svo, að eigin sögn, að heimskulegri spurningu. Ekkert heyrðist frá Páli Heimissyni. Hann er þá sennilega með barkabólgu. Við Skúli Gestsson fórum svo í Sunnusal Hótels Sögu til að reyna að skrá okkur í Orator, en okkur skildist að það yrði hægt þarna. Fólk var að mæta uppstrílað í öllum helstu múnderingum sem hefð er fyrir. Urðum við því, snjáðir og nályktandi, að hverfa frá hið snarasta. Tolleringin var í dag. Mig langaði þangað. En nei, ég var í ágætum fyrirlestri í staðinn.
þriðjudagur, september 17, 2002
Kæru lesendur, ykkur bið ég báða afsökunar á því að ég hef ekki ritað á vefinn svona lengi. Ég veit að þetta hlýtur að vera hræðilegt fyrir ykkur sem treystið á mig. Ég hef bara verið að lesa mikið undanfarið og nennti t.d. ekki að skrifa í gær. Allt líf mitt þar á undan er svo allt í móðu. Nú er... ...svo komið að heima hjá mér er þráðlaust adsl netkerfi. Ég get þá semsagt farið á netið inni í stofu. Ég veit ekki hvernig ég lifí af hingað til. Ég vona að þetta verði allt innbyggt í höfuðið á mér fyrir þrítugt. Nei, annars er þetta snilld, hlóð niður skrá á hraðanum 85 KB/sek. Það er þægilegt. Í tíma um daginn, ...hjá henni Guðbjörgu Bjarnadóttur í inngangi að lögfræði, kom nokkuð skemmtileg spurning. Hún var svona: “Hey, þú veist, ef maður kaupir hús handa kjellíngunni sinni, og kjellíngunni finnst það ljótt. Má hann þá bara skila því eða?” Kennarinn reyndi að leiðrétta hann með því að segja “konunni sinni”, en hann sagði bara “Ha?” Og endurtók svo orðið kjellíng í þessu samhengi. Þessi maður er með sítt að aftan. Hverjar voru líkurnar á því að þessi spurning kæmi einmitt frá þeim manni í salnum, sem er með sítt að aftan. Jú, yfirgnæfandi. Glott birtist á mörgum andlitum og sumir hlógu lágt. Hann leit þá aftur í salinn og skimaði yfir. Japlandi á tyggjóklessu. Hann tuggði tyggjóið meira að segja asnalega. En hvað er ég að setja út á spurningar annarra. Kannski kolfell ég og fer beint til helvítis... Svo var ég að lesa í bók. ...hún heitir skaðabótaréttur. Nokkuð góð sú. Þar var verið að segja frá hæstaréttardómi í máli þar sem sjómaður fór í mál við útgerðina sína til að fá af henni skaðabætur. Hann rann víst í slori á dekkinu, datt og meiddi sig. Þetta er hrein snilld. Sjómaðurinn gat auðvitað ekki séð það fyrir að á FISKISKIPI væri slor og slepja til að passa sig að renna ekki í. Merkilegt. Ég þarf... ...að brjóta símann hans Hauks. Hann er að taka allt of mikinn tíma frá stráknum. Annað hvort að brjóta símann eða brjóta allar manneskjur sem eru í símaskránni hans. Það er spurning hvort er betra. Ég lofa ykkur að skrifa ekki svona sjaldan...oft.
miðvikudagur, september 11, 2002
Nú er komið kvöld. Britta Magdalena situr hér við hliðina á mér í tölvuveri bókhlöðunnar. Hún er til mikils yndisauka sem fyrr. Blessuð stúlkan. Svo hýr á brá. Hér hef ég verið í allan dag. Það gerðist reyndar dálítið skemmtilegt. Ja, eða gerðist. Það svona, var viðverandi ástand í dágóða stund. Ég var í fyrirlestri í háskólabíói. Við hliðina á mér sat maður, sennilega um þrítugt. Hann var ekki með nein skriffæri, hvorki til að skrifa með né á. Hann sat í stólnum sínum og horfði hreyfingarlaus á tjaldið. Þess á milli andvarpaði hann og starði á tölvuskjáinn hjá mér. Hann var semsagt að lesa glósurnar mínar. Það var frekar óþægilegt. Ég færði bara alltaf textann upp fyrir og skrifaði efst á hið sjáanlega blað á skjánum. Þetta líkaði honum ekki, og stundi hann ámátlega þegar þetta gerðist. Annars var þetta fínn dagur. Nú er 11. september. Það er liðið ár frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. En það sem MEIRA er. Björn Svavar Erlingur Geirharður Blöndal Björnsson Hagalín Ra á afmæli í dag. Það er nú gott. Litli karlinn loksins orðinn tvítugur. Til hamingju Björn! Mig dreymdi ekkert skemmtilegt. Ekkert sem ég man alltént. Að lokum vil ég benda á mjög skemmtilegar myndir af Indversku prinsessunni á tilverunni.
þriðjudagur, september 10, 2002
Ég er mættur... ...á bókhlöðuna. Þessi morgunn var alveg svakalegur. Það er svo ótrúlegt, hvernig það gerist einu sinni eða tvisvar í mánuði, að allt er drasl. Í morgun var allt drasl. Brauðið rifnaði þegar ég var að smyrja það, peysan sem ég fór í var blaut í handarkrikunum, tannburstinn minn bara asnalegur og margt fleira. Ég lét svo... ...smyrja bílinn. Þá kom í ljós að það er smá leki af gírkassanum og það vantaði hálfan lítra af vökva á hann. Vona að það sé ekki stórvandamál. Í dag... ...hef ég hugsað mér að taka fyrir nokkur atriði í námsefninu og bera þau saman, t.d. hvað er líkt og ólíkt með mismunandi gerðum af nauðungarsölum, og hver er munurinn á meðferð opinberra mála og einkamála. Þetta held ég að geti hjálpað manni að muna... Það var annars bara ekki... ...fleira.
mánudagur, september 09, 2002
Það eru... ...ekki komnir fleiri fyrirlestrar á netið, allar rafpóstkörfurnar mínar eru fullar af drasli, einhver gaur var einni sekúndu á undan mér að ná síðasta stóra borðinu á fjórðu hæð og ég vaknaði við draumfarir mínar klukkan sex í morgun. Stefnir ekki í neinn yndislegan dag. Mig dreymdi... ...sem sagt að ég var á Grund í Skorradal. Þar var ræktunarstöð fyrir risaeðlur, þær sluppu auðvitað út og voru heldur ógnvekjandi þegar þær börðu fjárhúsin að utan og öskruðu í rigningunni á meðan ég faldi mig í jötunni hjá hrútastíunni. Ég var ansi hræddur, sérstaklega þegar ég hætti mér út um stóru hlöðudyrnar og risastórt kvikindi kom hlaupandi á eftir mér inn í hlöðuna svo ég rétt náði að stökkva inn í fjárhús og bjarga mér. Það var fullt af fólki í draumnum og á endanum var farið í svona stóra blysför með byssur og heygaffla til að hrekja skrímslin á brott. Kolbeinn Tumi skólabróðir minn úr MR var þar, dansandi og mjög kátur. Kannski átti bara að reka kvikindin út að Hálsum. Helgin var... ...fín. Ég hefði getað verið duglegri, en það skiptir ekki máli því ég er hvort eð er búinn að tvílesa allt og glósa fyrir næstu tvær vikur. Ekki svo að skilja að ég sé að fara að slappa af. Neinei, þetta var bara ansi góð helgi. Þær verða ekki margar svona. Kannski engin fyrr en í jólafríinu.
laugardagur, september 07, 2002
...það er gaman í leikhúsi. Ég og Una Sighvatsdóttir fórum í Loftkastalann áðan. Þar var sýndur farsi. Hann kallast "Fullkomið brúðkaup?" Mjög skemmtilegt leikrit verð ég að segja. Vel leikið og vel upp sett. Stórfenglegt, svo ekki verði meira sagt.
Skólinn er á fullu, fyrirlestrarnir eru fínir og ekkert að athuga við þá. Það mætti hins vegar benda á margt í fari nemenda... Páll Heimisson, sá heiðursmaður, var svo gott sem kominn í aðalhlutverk í fyrirlestrinum í gær. Hann spurði bæði margra spurninga og sagði svo dæmisögur af sjálfum sér. Það var svo sem allt í lagi því þetta voru nokkuð skemmtilegar sögur. En svo er þarna einhver miðaldra karlmaður sem varpar fram spurningum af og til. Hann setur þær fram mjög spekingslega og hljómar allur mjög fagmannlegur. En spurningarnar eru stundum dálítið skrýtnar. Já svo er hann líka alltaf í dúnvesti. Við vorum einmitt í sal 4 í háskólabíói núna síðast. Öll röðin fyrir framan mig var skipuð ljóshærðum stúlkum í þröngum fötum og með stórt hár. Þær voru næstum allar með fartölvur og slógu inn glósur stanslaust. Sú sem sat fyrir framan mig var alveg mögnuð. Hún sló meira að segja inn glósur þegar kennarinn var ekkert að tala. Hún skrifaði og skrifaði og skrifaði. Glósurnar eru örugglega lengri en allt sem var sagt í fyrirlestrinum. Það er gott mál, ef stúlkan kemst einhvern tíma yfir að læra þær allar.
fimmtudagur, september 05, 2002
Ég get... ...bara ómögulega lýst ánægju minni með að vera aftur orðinn samviskusamur og atorkumikill nemandi. Þetta lítur allt saman bara nokkuð vel út, fyrirlestrarnir eru skemmtilegir og fyrirlesararnir góðir. Það er alveg kjörið að reyna þá að standa sig. Skemmtilega fannst mér dæmisagan í dag um dómsmálið sem var vísað frá vegna þess að vafi lék á því hvort sá sem átti að stefna gæti almennt átt aðild að máli. Það var eitthvað áhugamannafélag um jólasveininn. Mikið væri ég til í að sjá tilkynnningu í lögbirtingablaðinu um eitthvað sem varðar jólasveininn. Skemmtilegt. En ég er þreyttur. Fer að fara heim bara. Góða nótt. Ég elska ykkur öll. Eða ykkur lesendur alla er kannski betra að segja. Ja, eða ykkur báða kannski. Þig bara...
þriðjudagur, september 03, 2002
Ég hef verið á bókhlöðunni í allan dag... ...og er þar enn. Ég er að taka mér hlé. Hér í morgun voru mættir nokkrir samnemendur mínir í almennri lögfræði. Ég hef nú séð þá hér oft áður og veit í hvaða skóla þeir voru. Einu sinni var ég meira að segja við það að ganga af göflunum vegna áralangrar vanrækslu foreldra þeirra við uppeldisstörfin. Þeir sátu á stóru borði út við glugga, hlógu, töluðu upphátt og köstuðu blautum klósettpappír hver í annan. Á þeim tíma virtust þeir ekki stíga mikið í vitið. En árla dags... ...sátu þeir í grafarþögn og slógu glósur af þvílíkum fítónskrafti inn á tölvurnar sínar að eldglæringarnar frá takkaborðunum lýstu upp morgunhimininn, svo að hann varð sjálfstæðisblár á litinn. Þeir stóðu ekki einu sinni upp. Ég held að þeir hafi ekki einu sinni leyft sér að anda. Þetta setti mig auðvitað alveg úr jafnvægi. Ekki ætla ég að lúta í lægra haldi fyrir þessum klósettpappírskastandi bjánum. Allt er gott... ...sem endar vel. Þeir hættu að læra klukkan 15:30, gengu þá út og hafa ekki sést síðan.
Mig dreymir undarlega um þessar mundir. Ég reikna fastlega með því að það tengist streitu, enda skólinn nýbyrjaður. Í svipinn man ég eftir tveimur draumum. Í þeim fyrri var ég staddur í WorldClass, sem var í rauninni bara eitthvað stórt íþróttahús og vörugeymsla, og það voru nokkrir menn að elta mig. Þeir voru um þrítugt allir en ég man ekki eftir andlitunum á þeim. Það fór þó ekkert á milli mála að þeir ætluðu að ganga í skrokk á mér. Ég byrjaði að flýja undan þeim inni í lyftingasalnum í WorldClass en hljóp svo inn á einhvern lager þar sem lyftarar keyrðu um og menn í bláum samfestingum voru við vinnu sína. Þá sá ég rifu undir einum veggnum. Hún var kannski hálfur metri á breidd. Ég hljóp að henni og renndi mér í gegn. Þá var ég kominn í stóra salinn í Ásgarði í Garðabæ. Þannig slapp ég frá þessum vondu mönnum, því í salnum var mikill fjöldi af miðaldra konum. Þær voru allar að sippa. Seinni draumurinn var þannig að fyrst man ég eftir mér standandi úti á einhverju nesi. Íslenskt landslag og veðurfar var allt í kring. Þ.e. fjöll með grasgrænu hálfa leið upp hlíðarnar, rok og rigning. Ég var minnislaus. Ég stóð bara og glápti út í loftið vissi hvorki hvert ég var að fara né hvar ég var. Þegar rigningin byrjaði sá ég að fartölvan mín stóð á þúfu þar rétt hjá, opin. Skólataskan var þarna líka og einhver föt af mér. Eftir stutta stund kom bíll keyrandi eftir pollóttum moldarvegi og út stigu tvær skólasystur mínar úr MR, þær heita Björg og Marta. Ekki veit ég af hverju þær, af öllu fólki. Þó dettur mér ekkert í hug einhver sem hefði sérstaklega átt að koma þarna keyrandi. Þær tóku saman dótið mitt og spurðu hvað væri að. Ég vissi það ekki. Þær buðu mér far og ég þáði. Svo man ég ekki meir. Það er dálítið pirrandi að vakna eftir svona drauma. En samt áhugavert. Mér finnst leiðinlegt þegar mig dreymir ekkert mánuðum saman. P.s. Ég veit. Mann dreymir alltaf eitthvað. Að meðaltali dreymir mann þrettán drauma á bleble...
mánudagur, september 02, 2002
Mér leið hálfundarlega þegar ég vaknaði í morgun. Hneykslanlegar draumfarir voru þess valdandi að ég gat varla litið framan í sjálfan mig í speglinum í morgun. Draumurinn var eitthvað á þá leið að það fyrsta sem ég man er að ég var staddur í teiti. Í teitinni voru með mér kærastan, nokkrir skólafélagar mínir sem flestir búa á Seltjarnarnesi og fleira fólk sem ég kem ekki fyrir mig. Í þessari teiti var mikið drukkið og dópað. Draumurinn tók svo þá óvæntu stefnu að ég fór sjálfur að nota eiturlyfin, það hefur mig aldrei dreymt áður svo ég muni eftir. Ég fékk mér semsagt kókaín í æð. Það gæti kannski virst frekar harkaleg byrjun á fíkniefnaneyslu. Kókaín í æð. Ekki einu sinni í vatnslausn. Neinei, bara hvíta duftið í leiðslu inn í handlegginn. Kærastan gerði þetta líka. Að þessu loknu fannst okkur greinilega tími til kominn að halda heim á leið og fara að sofa, en það er örugglega frekar erfitt að sofna í þessu ástandi. Næst man ég eftir því að við vorum að keyra í Ártúnsbrekkunni og hún sat við stýrið. Henni gekk frekar illa að stýra bílnum því hún var með sjónvarpsfjarstýringu í hendinni og glápti stöðugt á hana eins og í leiðslu. Bíllinn rásaði á milli akreina. Ég spurði hana þá hvort ekki væri betra að ég tæki við akstrinum. Hún samþykkti það og í sama mund færðist stýrishjólið eftir mælaborðinu yfir til mín og ég tók við. Hægra megin í bílnum. Allan drauminn var ég með sterka sektarkennd og sting í maganum yfir því sem ég var að gera. Mér leið líka eins og ég gæti ekki horft beint og mig svimaði mjög mikið. Næst man ég eftir mér þegar við komum keyrandi að hinum nýju mislægu gatnamótum Breiðholtsbrautar og Sæbrautar/Reykjanesbrautar. Þar blasti við frekar óþægileg sjón því u.þ.b. 100 lögreglumenn með blikkandi ljós á lögreglubílum voru allstaðar við gatnamótin og virtust vera að stöðva hvern einasta bíl og athuga ástand ökumanna. Enn eitt átakið. Þetta var ekki alveg nógu gott fyrir framtíð mína þar sem ég sá fram á að verða útmálaður ökuglæfra- og narkómaður. Þó varð það mér til happs að maðurinn í bílnum fyrir framan okkur var svo illa haldinn af drykkju að hann klessti á lögreglubíl þess betjents sem átti að tala við okkur. Sá vissi ekki sitt rjúkandi ráð og það skapaðist alger óreiða á staðnum. Hann sá sér því ekki annað fært en að hleypa okkur í gegn án skoðunar. Allt er gott sem endar vel. P.s. af hverju þarf Britney Spears að syngja eins og hún sé fimm ára gömul og um leið eins og hún sé að fá fullnægingu? Þetta er viðbjóðslegt.
sunnudagur, september 01, 2002
Því þarf einnig að koma á framfæri, áður en veruleg ritun hefst, að ég ætla að reyna að halda mig frá öðrum tungumálum en íslensku. Ég ætla ekkert að sletta. Ef ég kann ekki íslenskt orð yfir eitthvað eða gleymi því þá mun ég búa til slíkt orð. Einnig verður yrðing dagsins alltaf á sínum stað. Yrðing dagsins er merkilegt fyrirbæri. Hún verður til óviljandi í samtölum þeim sem maður á yfir daginn. Hún er fullyrðing sem hljómar undarlega eða heimskulega. Á eftir henni kemur iðulega stutt þögn og svo vanþóknunarsvipur. Skemmtilegt fyrirbæri. Yrðing dagsins í dag er: “Maður er svalur.”
Mikið er ég feginn. Ég komst að því að blogger.com er ekki drasl. Ég er drasl. Það er víst heppilegra að rita textann í Word og klippa hann svo yfir í blogger áður en maður birtir hann. Þá aftengist maður ekki á meðan maður skrifar. Mikið er ég klár. Hér má búast við að ég skrifi af og til smá texta. Það verður helst á milli klukkan tíu og ellefu á kvöldin. Óvíst er hversu mikilll tími gefst. Svo var því logið að mér að ég geti breytt öllu á síðunni og lagað allt án nokkurra vandræða. Ég þarf aðeins að stúdera þetta.